Kristnir vottar um drottinvald Guðs
„‚Þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:9.
1. Hvaða áhrifaríkt vitni var borið um Jehóva fyrir daga kristninnar?
FYRIR daga kristninnar bar mikill fjöldi votta djarflega vitni um að Jehóva væri hinn einni sanni Guð. (Hebreabréfið 11:4–12:1) Þeir voru sterkir í trúnni, hlýddu lögum hans óttalaust og neituðu að láta undan þegar tilbeiðslan átti í hlut. Þeir báru kröftuglega vitni um alheimsdrottinvald Jehóva. — Sálmur 18:22-24; 47:2, 3.
2. (a) Hver er mesti vottur Jehóva? (b) Hver kom í stað Ísraelsþjóðarinnar sem vottur Jehóva? Hvernig vitum við það?
2 Jóhannes skírari var síðasti og mesti votturinn fyrir daga kristninnar. (Matteus 11:11) Hann fékk þau sérréttindi að tilkynna komu hins útvalda og hann kynnti Jesú sem hinn fyrirheitna Messías. (Jóhannes 1:29-34) Jesús er mesti vottur Jehóva, „votturinn trúi og sanni.“ (Opinberunarbókin 3:14) Þar eð Ísraelsþjóðin að holdinu hafnaði Jesú hafnaði Jehóva henni og útvaldi nýja þjóð, hinn andlega Ísrael Guðs, sem vott sinn. (Jesaja 42:8-12; Jóhannes 1:11, 12; Galatabréfið 6:16) Pétur vitnaði í spádóm um Ísrael og benti á að hann ætti við „Ísrael Guðs,“ kristna söfnuðinn, er hann sagði: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ — 1. Pétursbréf 2:9; 2. Mósebók 19:5, 6; Jesaja 43:21; 60:2.
3. Hver er aðalábyrgð Ísraels Guðs og ‚múgsins mikla‘?
3 Orð Péturs sýna að Ísrael Guðs ber fyrst og fremst ábyrgð á því að vitna fyrir almenningi um dýrð Jehóva. Nú á dögum hefur þessi andlega þjóð fengið til liðs við sig ‚mikinn múg‘ votta sem einnig vegsamar Guð opinberlega. Þeir hrópa hárri röddu svo allir heyri: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10; Jesaja 60:8-10) Hvernig geta Ísrael Guðs og félagar hans borið vitni? Með trú sinni og hlýðni.
Falsvottar
4. Af hverju voru Gyðingarnir á dögum Jesú falsvottar?
4 Trú og hlýðni felur í sér að lifa eftir meginreglum Guðs. Mikilvægi þess sést af orðum Jesú um trúarleiðtoga Gyðinga samtíðarinnar. Þeir sátu „á stóli Móse“ sem lögmálskennarar. Þeir gerðu jafnvel út trúboða til að snúa mönnum. Samt sagði Jesús við þá: „Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.“ Þessir ofsatrúarmenn voru falsvottar — hrokafullir og kærleikslausir hræsnarar. (Matteus 23:1-12, 15) Einhverju sinni sagði Jesús við nokkra Gyðinga: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist.“ Hví skyldi hann hafa sagt þess háttar við menn sem tilheyrðu útvalinni þjóð Guðs? Vegna þess að þeir sinntu ekki orðum mesta votts Jehóva. — Jóhannes 8:41, 44, 47.
5. Hvernig vitum við að kristni heimurinn hefur borið falsvitni um Guð?
5 Á öldunum, sem liðnar eru frá dauða Jesú, hafa hundruð milljóna manna í kristna heiminum sagst vera lærisveinar hans. En þeir hafa ekki gert vilja Guðs og þar af leiðandi viðurkennir Jesús þá ekki. (Matteus 7:21-23; 1. Korintubréf 13:1-3) Kristni heimurinn hefur sent út trúboða sem hafa vafalaust verið einlægir margir hverjir. Samt hafa þeir kennt fólki að tilbiðja þrenningarguð sem brennir syndara í vítiseldi, og flestir sem þeir hafa snúið til trúar hafa sýnt þess lítil merki að þeir séu kristnir. Afríkulandið Rúanda hefur til dæmis verið frjósamur akur rómversk-kaþólskra trúboða. Samt tóku kaþólskir Rúandamenn af heilum hug þátt í kynþáttahernaðinum þar í landi nú fyrir skemmstu. Ávöxturinn, sem þessi trúboðsakur bar, sýnir að það var ekki sannkristinn vitnisburður sem hann fékk frá kristna heiminum. — Matteus 7:15-20.
Að lifa eftir meginreglum Guðs
6. Á hvaða hátt er rétt breytni mikilvægur þáttur vitnisburðar?
6 Röng breytni þeirra sem segjast vera kristnir er „vegi sannleikans“ til lasts. (2. Pétursbréf 2:2) Sannkristinn maður lifir eftir meginreglum Guðs. Hann hvorki stelur, lýgur, svíkur né fremur siðleysi. (Rómverjabréfið 2:22) Hann myrðir vissulega ekki náunga sinn. Kristnir eiginmenn hafa ástríka umsjón með fjölskyldum sínum. Eiginkonurnar virða þá og styðja í umsjónarhlutverkinu. Foreldrarnir fræða börnin sín og búa þau þannig undir ábyrgð fullorðinsáranna. (Efesusbréfið 5:21–6:4) Vissulega erum við öll ófullkomin og gerum mistök. En sannkristinn maður virðir staðla Biblíunnar og reynir virkilega að fara eftir þeim. Aðrir taka eftir því og góður vitnisburður hlýst af. Stundum hefur fólk, sem var andsnúið sannleikanum, veitt góðri breytni kristins manns athygli og unnist til trúar. — 1. Pétursbréf 2:12, 15; 3:1.
7. Hve þýðingarmikið er það að kristnir menn elski hver annan?
7 Jesús benti á mikilvægan þátt kristinnar breytni er hann sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Heimur Satans einkennist af ‚rangsleitni, vonsku, ágirnd, illsku, öfund, manndrápum, deilum, sviksemi, illmennsku. Menn eru rógberar, bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir og foreldrum óhlýðnir.‘ (Rómverjabréfið 1:29, 30) Í slíku umhverfi hljóta heimssamtök, sem einkennast af kærleika, að vera kröftugt vitni um anda Guðs að verki — áhrifaríkur vitnisburður. Vottar Jehóva eru slík samtök. — 1. Pétursbréf 2:17.
Vottar eru biblíunemendur
8, 9. (a) Hvernig styrktist sálmaritarinn af því að rannsaka lögmál Guðs og hugleiða? (b) Á hvaða vegu styrkir biblíunám og hugleiðing okkur til að bera áfram vitni?
8 Til að kristnum manni takist að gefa góðan vitnisburð þarf hann að þekkja og elska réttlátar meginreglur Jehóva og hata spillingu heimsins í alvöru. (Sálmur 97:10) Heimurinn kemur hugsunarhætti sínum á framfæri á sannfærandi hátt og það getur verið erfitt að standa gegn anda hans. (Efesusbréfið 2:1-3; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Hvað getur hjálpað okkur að varðveita rétt hugarfar? Reglulegt og innihaldsríkt biblíunám. Ritari 119. sálmsins endurtók margsinnis hve mjög hann elskaði lögmál Jehóva. Hann las það og hugleiddi stöðuglega, „allan liðlangan daginn.“ (Sálmur 119:92, 93, 97-105) Þar af leiðandi gat hann skrifað: „Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.“ Og djúpur kærleikur hans knúði hann til verka. Hann segir: „Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.“ — Sálmur 119:163, 164.
9 Að rannsaka orð Guðs reglulega og hugleiða það snertir hjörtu okkar á sama hátt og kemur okkur til að „lofa“ Jehóva eða bera vitni um hann oft, jafnvel „sjö sinnum á dag.“ (Rómverjabréfið 10:10) Ritari fyrsta sálmsins tekur í sama streng og segir að sá sem hugleiðir orð Jehóva að staðaldri sé „sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“ (Sálmur 1:3) Páll postuli benti líka á kraft orðs Guðs er hann skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
10. Hvað er ljóst í sambandi við fólk Jehóva núna á síðustu dögum?
10 Hin mikla fjölgun sannra guðsdýrkenda á 20. öldinni ber vott um blessun Jehóva. Enginn vafi leikur á að sem hópur hafa þessir nútímavottar um drottinvald Guðs ræktað einlæga ást á lögmáli hans í hjörtum sér. Líkt og sálmaritarinn finna þeir sig tilknúna að hlýða lögmáli Jehóva og bera trúfastlega vitni „dag og nótt“ um dýrð hans. — Opinberunarbókin 7:15.
Máttarverk Jehóva
11, 12. Hverju áorkuðu kraftaverkin sem Jesús og fylgjendur hans unnu?
11 Á fyrstu öldinni gerði heilagur andi trúföstum kristnum vottum kleift að vinna kraftaverk sem var eindregin sönnun þess að vitnisburður þeirra væri sannur. Er Jóhannes skírari sat í fangelsi sendi hann lærisveina til að spyrja Jesú: „Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?“ Jesús hvorki játaði né neitaði heldur sagði: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér.“ (Matteus 11:3-6) Þessi kraftaverk vitnuðu fyrir Jóhannesi að Jesús væri sannarlega ‚sá sem koma skyldi.‘ — Postulasagan 2:22.
12 Sumir af fylgjendum Jesú læknuðu líka sjúka og reistu jafnvel upp dána. (Postulasagan 5:15, 16; 20:9-12) Kraftaverkin voru eins og vitnisburður um þá frá Guði sjálfum. (Hebreabréfið 2:4) Og slík verk sýndu almætti Jehóva. Til dæmis hefur Satan, „höfðingi heimsins,“ mátt til að valda dauða eins og við vitum. (Jóhannes 14:30; Hebreabréfið 2:14) En þegar Pétur reisti hina trúföstu Dorkas upp frá dauðum gat hann aðeins gert það með krafti Jehóva því að hann einn getur veitt líf aftur. — Sálmur 16:10; 36:10; Postulasagan 2:25-27; 9:36-43.
13. (a) Á hvaða hátt bera kraftaverk Biblíunnar enn vitni um mátt Jehóva? (b) Hvernig gegnir uppfylling spádómanna lykilhlutverki í að sanna guðdóm Jehóva?
13 Slík kraftaverk eiga sér ekki stað núna. Þau hafa þjónað tilgangi sínum. (1. Korintubréf 13:8) Engu að síður er frá þeim greint í Biblíunni þar sem margir sjónarvottar staðfesta þau. Þegar kristnir nútímamenn vekja athygli á þessum frásögum eru kraftaverkin enn áhrifaríkur vitnisburður um mátt Jehóva. (1. Korintubréf 15:3-6) Á dögum Jesaja benti Jehóva auk þess á nákvæma uppfyllingu spádóma sem skýra sönnun fyrir því að hann væri hinn sanni Guð. (Jesaja 46:8-11) Fjölmargir guðinnblásnir biblíuspádómar eru að rætast núna — margir þeirra á kristna söfnuðinum. (Jesaja 60:8-10; Daníel 12:6-12; Malakí 3:17, 18; Matteus 24:9; Opinberunarbókin 11:1-13) Bæði ákvarðar uppfylling þessara spádóma nákvæmlega að við lifum á „síðustu dögum“ og réttlætir Jehóva sem hinn eina sanna Guð. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.
14. Á hvaða vegu er nútímasaga votta Jehóva kröftugur vitnisburður þess að Jehóva sé alvaldur Drottinn?
14 Og Jehóva gerir enn mikla hluti og furðuverk fyrir fólk sitt. Andi hans stýrir hinu vaxandi ljósi sem skín á sannleika Biblíunnar. (Sálmur 86:10; Opinberunarbókin 4:5, 6) Hinn einstaki vöxtur um heim allan er merki þess að Jehóva sé að „hraða“ verkinu. (Jesaja 60:22) Þegar hatrammar ofsóknir hafa dunið yfir í einu landi af öðru núna á síðustu dögum hafa þjónar Jehóva getað verið hugrakkir og þolgóðir vegna styrks og stuðnings heilags anda. (Sálmur 18:2, 3, 18, 19; 2. Korintubréf 1:8-10) Já, nútímasaga votta Jehóva er í sjálfu sér kröftugur vitnisburður um að Jehóva sé alvaldur Drottinn. — Sakaría 4:6.
Prédika á fagnaðarerindið
15. Hvernig átti kristni söfnuðurinn að bera vitni í auknum mæli?
15 Jehóva skipaði Ísrael vott sinn meðal þjóðanna. (Jesaja 43:10) En aðeins fáeinir Ísraelsmenn fengu boð frá Guði um að fara og prédika fyrir mönnum af öðrum þjóðum, og það var yfirleitt gert til að kunngera dóma hans. (Jeremía 1:5; Jónas 1:1, 2) Engu að síður gefa spádómarnir í Hebresku ritningunum til kynna að Jehóva myndi einn góðan veðurdag beina athygli sinni að þjóðunum í stórum stíl, og það hefur hann gert fyrir atbeina hins andlega Ísraels Guðs. (Jesaja 2:2-4; 62:2) Áður en Jesús steig upp til himna fyrirskipaði hann fylgjendum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matteus 28:19) Jesús hafði einbeitt sér að ‚týndum sauðum af Ísraelsætt‘ en fylgjendur hans voru sendir til ‚allra þjóða‘ allt „til endimarka jarðarinnar.“ (Matteus 15:24; Postulasagan 1:8) Allt mannkyn átti að heyra vitnisburð kristninnar.
16. Hvaða verkefni skilaði kristni söfnuðurinn á fyrstu öld og í hvaða mæli?
16 Páll sýndi að honum var þetta fullljóst. Árið 61 gat hann sagt að fagnaðarerindið ‚bæri ávöxt og yxi í öllum heiminum.‘ Prédikun fagnaðarerindisins takmarkaðist ekki við aðeins eina þjóð eða einn sértrúarsöfnuð, eins og þann sem stundað hafði „engladýrkun,“ heldur var prédikað opinberlega „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ (Kólossubréfið 1:6, 23; 2:13, 14, 16-18) Þannig uppfyllti Ísrael Guðs á fyrstu öld það starfsumboð sitt að „‚víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði [þá] frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“
17. Hvernig heldur Matteus 24:14 áfram að uppfyllast í stórum stíl?
17 En þetta prédikunarstarf fyrstu aldar var bara forsmekkurinn að því sem gera átti á síðustu dögum. Jesús horfði sérstaklega til okkar tíma er hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14; Markús 13:10) Hefur þessi spádómur ræst? Svo sannarlega. Prédikun fagnaðarerindisins hófst í smáum stíl árið 1919 en hefur nú teygt sig til meira en 230 landa. Vitnisburðurinn heyrist í frera norðursins og í svækju hitabeltisins. Borið er vitni á stórum meginlöndum og afskekktar eyjar eru leitaðar uppi þannig að vitna megi fyrir íbúum þeirra. Jafnvel í miklum umbrotum, svo sem stríðinu í Bosníu og Hersegóvínu, er haldið áfram að prédika fagnaðarerindið. Eins og á fyrstu öld ber vitnisburðurinn ávöxt „í öllum heiminum.“ Fagnaðarerindið er kunngert fyrir opnum tjöldum „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ Með hvaða árangri? Í fyrsta lagi hefur þeim sem eftir eru af Ísrael Guðs verið safnað saman „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.“ Í öðru lagi hefur verið safnað milljónum manna af ‚múginum mikla‘ af „alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 5:9; 7:9) Matteus 24:14 heldur áfram að uppfyllast í stórum stíl.
18. Nefndu sumt af því sem prédikun fagnaðarerindsins um heim allan áorkar.
18 Prédikun fagnaðarerindisins um heim allan er ein sönnun þess að konungleg nærvera Jesú sé hafin. (Matteus 24:3) Enn fremur er hún helsta leiðin til að uppskera „sáðland jarðarinnar“ því að hún bendir fólki á einu sönnu von mannkynsins, ríki Jehóva. (Opinberunarbókin 14:15, 16) Þar eð engir nema sannkristnir menn eiga þátt í prédikun fagnaðarerindisins á þetta þýðingarmikla starf þátt í að greina milli sannrar kristni og falskrar. (Malakí 3:18) Á þennan hátt stuðlar það að hjálpræði þeirra sem prédika og þeirra sem taka við því. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Mestu skiptir þó að prédikun fagnaðarerindisins er Jehóva Guði til lofs og heiðurs, honum sem fyrirskipaði að það skyldi gert, honum sem styður þá sem gera það og honum sem lætur það bera ávöxt. — 2. Korintubréf 4:7.
19. Hvað eru allir kristnir menn hvattir til að einsetja sér?
19 Það er engin furða að Páll postuli fann sig tilknúinn að segja: „Vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ (1. Korintubréf 9:16) Kristnum mönnum nú á tímum er eins innanbrjósts. Það eru stórkostleg sérréttindi og mikil ábyrgð að vera „samverkamenn Guðs“ og varpa ljósi sannleikans í þessum myrkvaða heimi. (1. Korintubréf 3:9; Jesaja 60:2, 3) Starfið, sem hófst í smáum stíl árið 1919, hefur vaxið gríðarlega. Yfir fimm milljónir kristinna manna bera vitni um drottinvald Guðs og nota yfir milljarð klukkustunda á ári til að flytja öðrum hjálpræðisboðskapinn. Hvílík gleði að eiga þátt í starfi sem helgar nafn Jehóva! Verum staðráðin í að slá ekki slöku við. Leggjum okkur betur fram en nokkru sinni fyrr við að fara eftir orðum Páls til Tímóteusar: „Prédika þú orðið, gef þig að því.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Er við gerum það biðjum við af öllu hjarta að Jehóva blessi viðleitni okkar áfram.
Manstu?
◻ Hver kom í stað Ísraels sem „vottur“ Jehóva fyrir þjóðunum?
◻ Hvernig stuðlar kristin hegðun að vitnisburði?
◻ Hvers vegna er biblíunám og hugleiðing nauðsynleg fyrir kristna votta?
◻ Á hvaða hátt þjónar nútímasaga votta Jehóva sem vitnisburður þess að Jehóva sé hinn sanni Guð?
◻ Hverju er áorkað með prédikun fagnaðarerindisins?
[Mynd á blaðsíðu 7]
Fagnaðarerindinu eru ekki takmörk sett heldur er það nú boðað „öllu, sem skapað er undir himninum.“