13. kafli
Friðarhöfðinginn snýr sér að þeim sem standa utan nýja sáttmálans
1. Hvers vegna geta Gyðingar ekki neitað því að lagasáttmáli Móse átti að taka enda?
GYÐINGAR, þeir sem eru afkomendur ættföðurins Abrahams að holdinu, geta ekki neitað því að gamli lagasáttmálinn átti að víkja fyrir nýjum og betri sáttmála. Þeir geta ekki afmáð úr handritum sínum af Hebresku ritningunum orð Guðs í Jeremía 31:31: „Sjá, þeir dagar munu koma — segir [Jehóva] — að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús.“
2. Hvernig kom í ljós hver skyldi vera meðalgangari nýja sáttmálans?
2 Jeremía gat þess ekki hver ætti að vera meðalgangari nýja sáttmálans. En kvöldið 14. nísan árið 33, þegar Jesús Kristur rétti lærisveinum sínum bikar með páskavíninu, kom í ljós að hann var sá meðalgangari. (Lúkas 22:20) Í Hebreabréfinu 7:22 er okkur sagt að hann sé „ábyrgðarmaður“ slíks nýs og „betri sáttmála.“
3. Hvaða annað embætti fer Jesús Kristur með og er það vegna holdlegs ætternis?
3 Með fórn sinni fyrir nýja sáttmálann varð Jesús æðsti prestur Jehóva. Hann fékk ekki það embætti sem afkomandi Arons, fyrsta æðsta prests í Ísrael. Honum var veittur æðstaprestdómur með eiði hins hæsta Guðs, Jehóva. Orðin í Sálmi 110:4 eiga við Jesú: „[Jehóva] hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: ‚Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks.‘“ — Hebreabréfið 7:20, 21.
4. (a) Við hvers konar „Ísrael“ gerði Jehóva nýja sáttmálann og hvers vegna? (b) Hvaða foreldra eignast þeir sem fá aðild að nýja sáttmálanum?
4 Að litlum leifum undanskildum hafnaði Ísraelsþjóðin Jesú Kristi sem meðalgangara nýja sáttmálans. Því reyndist „Ísraels hús,“ sem Guð gerði nýja sáttmálann við, vera andleg Ísraelsþjóð, „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16) Þessi andlega Ísraelsþjóð fæddist á hvítasunnunni árið 33. Þar eð hún var andleg þjóð gátu trúaðir menn af öðrum þjóðum, heiðingjar, fengið þegnrétt í henni. (Postulasagan 15:14) Pétur ávarpaði hana sem ‚útvalda kynslóð, konunglegt prestafélag, heilaga þjóð, eignarlýð.‘ (1. Pétursbréf 2:9) Þessi ‚heilaga þjóð‘ er mynduð af andlegum sonum hins meiri Abrahams, Jehóva, honum sem gerði og uppfyllir Abrahamssáttmálann. Þess vegna eru þeir um leið ‚synir‘ skipulags Jehóva á himnum, en því er líkt við eiginkonu og á sér Söru, konu Abrahams, að fyrirmynd. Nýr sáttmáli hins meiri Abrahams tekur óumflýjanlega tillit til þess skipulags á himnum sem móður hins fyrirheitna ‚sæðis‘ sem Ísak er fyrirmynd að.
‚Aðrir sauðir‘ hluti af einni hjörð
5. Hvað þurfti nýi sáttmálinn að hafa hér á jörðinni?
5 Þessi nýi sáttmáli þarfnaðist starfsamra þjóna hér á jörðinni, og hinar smurðu leifar hafa reynst fullhæfir ‚þjónar nýs sáttmála‘ sem kom í stað gamla lagasáttmálans. (2. Korintubréf 3:6) Þeir eru ekki klerklegir þjónar í hundruðum sértrúarsafnaða kristna heimsins sem er veigamestur hluti Babýlonar hinnar miklu. Þeir hafa hlýtt kalli Opinberunarbókarinnar 18:4 og gengið út úr heimskerfi falskra trúarbragða.
6. (a) Hve margir skyldu þjónar nýja sáttmálans vera? (b) Hvernig vitum við að góði hirðirinn átti að beina athygli sinni að þeim sem stæðu utan nýja sáttmálans?
6 Þjónar þessa nýja sáttmála skyldu ekki vera fleiri en 144.000. (Opinberunarbókin 7:1-8; 14:1-5) Því hlaut sá tími að koma að góði hirðirinn beindi athygli sinni að öðrum en þjónum nýja sáttmálans. Fremsti þjónn Jehóva sá það fyrir og lét þess getið þegar hann sagði í Jóhannesi 10:16 að hann ætti „aðra sauði“ sem ekki væru af ‚lítilli hjörð‘ hinna 144.000. — Lúkas 12:32.
7. (a) Hvers vegna eru hinir ‚aðrir sauðir‘ ekki þjónar nýja sáttmálans? (b) Hvernig hafa leifar aðilanna að nýja sáttmálanum þegar orðið öllum þjóðum jarðar til blessunar?
7 Þótt hinir ‚aðrir sauðir‘ væru ekki af ‚litlu hjörðinni‘ yrðu þeir líka þjónar Guðs, þó ekki þjónar nýja sáttmálans. Og sú staðreynd að þessir ‚aðrir sauðir‘ áttu að verða „ein hjörð“ ásamt leifum ‚þjóna nýja sáttmálans‘ gaf til kynna að leifarnar myndu, áður en þær yrðu dýrlegar í ríkinu á himnum, eiga persónulegt samfélag við hina ‚aðra sauði‘ á jörðinni. Með þeim hætti myndu leifar hins andlega sæðis Abrahams byrja að vera blessun öllum þjóðum jarðar áður en ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón hæfist, áður en þúsundáraríkið rynni upp. — Galatabréfið 3:29; Opinberunarbókin 16:14, 16.
8. Hvenær beindi góði hirðirinn athygli sinni að þeim sem stóðu utan nýja sáttmálans, og hvaða skref hafa þessir ‚aðrir sauðir‘ stigið?
8 Raunin hefur líka orðið þessi, einkum frá 1935. Frá því ári hafa milljónir hinna ‚annarra sauða‘ gengið til liðs við tugþúsundir safnaða votta Jehóva um allan hnöttinn og vígt sig hirðinum æðsta, Jehóva Guði. Þar með hefur þeim verið veitt innganga í ‚eina hjörð‘ góða hirðisins, Jesú Krists.
9. Þýddi þetta að þjónusta nýja sáttmálans á jörðinni væri á enda?
9 Sú staðreynd að meðalgangari nýja sáttmálans beindi þaðan í frá athygli sinni einnig að hinum ‚öðrum sauðum‘ þýddi þó ekki að þjónusta við nýja sáttmálann tæki enda árið 1935. Enn eru á jörðinni leifar þjóna nýja sáttmálans og þeirra þjónustu er ekki lokið.
10. Hverjir njóta góðs af þjónustu nýja sáttmálans sem hinir átta ritarar kristnu Grísku ritninganna veittu?
10 Bæði leifar ‚litlu hjarðarinnar‘ og hinn vaxandi ‚mikli múgur‘ ‚góða hirðisins‘ njóta góðs af þjónustu þeirra sem á undan þeim voru, svo sem Páls postula. Í trúfastri þjónustu við nýja sáttmálann allt til dauða í Róm, einhvern tíma fyrir eyðingu Jerúsalem árið 70, var Páli innblásið að skrifa 14 af 27 bókum kristnu Grísku ritninganna. Hinar smurðu leifar og ‚mikill múgur‘ ‚annarra sauða‘ mega vera þakklátir fyrir að trúfastir menn á fyrstu öld, svo sem Páll postuli og hinir sjö ritarar kristnu Grísku ritninganna, þjónuðu nýja sáttmálanum allt þar til jarðlífi þeirra lauk! Á okkar dögum njóta nú þegar milljónir ‚annarra sauða‘ góðs af þjónustu hinna smurðu leifa við nýja sáttmálann. Meðalgangari hans, Jesús Kristur, Friðarhöfðinginn, hefur nú beint athygli sinni að þessum ástkæru ‚öðrum sauðum‘ sem fer ört fjölgandi.
11. (a) Hve lengi hefur nýi sáttmálinn verið í gildi og hvaða vísbendingu gefur það? (b) Hvaða hlutverki gegna leifar þjóna nýja sáttmálans núna?
11 En nú hlýtur tíminn að vera að renna út! Nýi sáttmálinn hefur verið í gildi í 1955 ár, 409 árum lengur en lagasáttmáli Móse, sem hann kom í staðinn fyrir, og þjónum nýja sáttmálans fer fækkandi eftir því sem þeir hverfa af jarðnesku sjónarsviði við dauðann. En leifar þessara þjóna halda áfram að gegna hlutverki ‚trús og hyggins þjóns‘ sem húsbóndinn, Jesús Kristur, hefur sett „yfir allar eigur sínar.“ — Matteus 24:45-47.
Boð látið út ganga: „Kom þú!“
12. Hvaða boð lætur „brúðurin“ út ganga, samkvæmt Opinberunarbókinni 22:17 og til hverra?
12 Þjónar nýja sáttmálans sýna mikinn kærleika. Til dæmis lesum við í Opinberunarbókinni 22:17: „Andinn og brúðurin segja: ‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ „Brúðurin“ ásamt starfskrafti Jehóva eða anda láta þetta boð út ganga til þeirra sem standa utan nýja sáttmálans. Boðið nær ekki til þeirra sem liggja dánir í minningargröfunum og eiga í vændum upprisu frá dauðum, heldur til núlifandi manna, sem eiga á hættu að farast í Harmagedón, en hafa heyrandi eyru.
13. (a) Hefur boð ‚brúðarinnar‘ verið til einskis? Gefðu skýringu. (b) Hvað gera þeir sem hafa þegar þegið boðið, hlýðnir Opinberunarbókinni 22:17? (c) Er enn nægur tími til að láta þetta boð út ganga?
13 Þetta kærleiksríka boð hefur ekki til einskis hljómað um heim allan, einkum frá 1935. Yfir þrjár milljónir manna hafa þegar þegið hið örláta boð um að koma og drekka. Sjálfir hafa þeir þegið boðið með þökkum, og hlýðnir láta þeir það ganga til margra annarra milljóna manna sem þyrstir eftir endalausu lífi í paradís á jörð: „Kom þú!“ En tíminn til að þiggja þetta góða boð er af skornum skammti. Eftir að hafa hljómað í meira en hálfa öld hlýtur tíminn nú að vera naumur, því að stríð Guðs við Harmagedón vofir yfir ‚þessari kynslóð‘ mannkyns. — Matteus 24:34.
14. Fyrir hvað ættum við að færa Jehóva þakkir og lof?
14 Jehóva séu þakkir fyrir hinn hæfa meðalgangara sem er að fullna þann tilgang nýja sáttmálans að leiða fram 144.000 einstaklinga sem bera nafn hans! Jehóva sé lof fyrir að meðalgangarinn og góði hirðirinn skuli nú vera að leiða vaxandi milljónir ‚annarra sauða‘ inn í ‚eina hjörð‘ til að byrja að hljóta þá blessun sem nýi sáttmálinn veitir mannkyni!
[Mynd á blaðsíðu 111]
Milljónir ‚annarra sauða‘ hafa streymt inn í sýnilegt skipulag Jehóva á síðustu dögunum.