Skækjan illræmda — fall hennar
„Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns.“ — OPINBERUNARBÓKIN 14:8.
Efni þessarar greinar og þeirrar næstu var flutt sem síðasta ræðan í syrpunni „Tíminn er í nánd“ á landsmóti votta Jehóva 1988, „Réttlæti Guðs.“
1. Hver er „skækjan“ illræmda og hvers vegna þurfum við að vita deili á henni?
„SKÆKJAN“ illræmda — hver er hún? Hvers vegna þurfum við að tala um hana? Fáum við ekki meira en nægan skammt af ógeðslegu siðleysi í gegnum reyfara, kvikmyndir, sjónvarp og myndbönd? Jú, satt er það! En þetta er engin venjuleg gleðikona. Hún er í reynd áhrifamesta, illræmdasta og blóðsekasta vændiskona allrar mannkynssögunnar. Og hún hefur selt blíðu sína í meira en 4000 ár! Við þurfum að vita sitthvað um hana okkur til verndar. Í Opinberunarbókinni 14:8 kallar engill á himnum þessa illræmdu konu ‚Babýlon hina miklu‘ og lýsir henni svo að hún táldragi þjóðirnar. Úr því að hún er svona hættuleg ættum við að fagna því að hinn tiltekni tími Jehóva til að fullnægja dómi á henni skuli vera í nánd. — Opinberunarbókin 1:3.
2. Hvaðan hefur skækjan fengið nafn sitt og hvernig varð heimsveldi falskra trúarbragða til?
2 Þessi skækja dregur nafn sitt af Forn-Babýlon, borginni rembilátu sem Nimrod, hinn ‚voldugi veiðimaður í andstöðu við Jehóva,‘ reisti í Mesópótamíu fyrir meira en 4000 árum. Þegar Babýloníumenn byrjuðu að reisa turn til heiðinna trúariðkana ruglaði Jehóva tungumál þeirra og tvístraði þeim til endimarka jarðar. Þeir tóku trú sína með sér og þannig átti heimsveldi babýlonskra trúarbragða upptök sín. Sannarlega er hér um að ræða Babýlon HINA MIKLU. (1. Mósebók 10:8-10; 11:1-9) Allt til okkar daga hafa leyndardómar Forn-Babýlonar endurspeglast í trúarskoðunum og athöfnum trúarbragða heims. (Opinberunarbókin 17:7) Hið hebreska nafn borgarinnar, Babel, merkir „ringulreið“ og er viðeigandi nafngift á þeim hrærigraut falskra trúarbragða sem nú er til!
3. (a) Hve lengi hélt Babýlon þjónum Guðs föngnum og í návist hvers voru þeir á meðan? (b) Hvenær féll Babýlon og hvers vegna leið hún ekki undir lok á þeim tíma?
3 Forn-Babýlon náði sér eftir þetta fyrsta áfall og þegar Assýríu var kollvarpað árið 632 f.o.t. varð hún þriðja heimsveldi biblíusögunnar. Dýrð hennar sem heimsveldis var þó skammlíf — innan við hundrað ár — en í næstum 70 ár þar af hélt hún þjónum Guðs, Ísraelsmönnum, föngnum. Þar voru þeir í návígi við hin mörg þúsund musteri og kapellur Babýlonar, guðaþrenningar og djöflaþrenningar hennar, dýrkun á móður og syni og stjörnuspeki er tengdist dýrkun guða sem áttu að vera ódauðlegir. Hinir herteknu Ísraelsmenn voru því viðstaddir þegar heimsmiðstöð falskra trúarbragða, borgin Babýlon, féll árið 539 f.o.t. En endalok borgarinnar voru enn ekki komin. Sigurvegarar hennar héldu áfram að nota hana sem virta trúarmiðstöð.
Trúarlegt heimsveldi
4. (a) Hvað boðuðu spámenn Jehóva um Babýlon og hvað varð um hana? (b) Hvaða önnur Babýlon stendur enn til tjóns fyrir jarðarbúa?
4 Spámenn Jehóva höfðu lýst yfir þeim dómi hans að Babýlon yrði ‚sópað burt með sópi eyðingarinnar,‘ „eins og Guð umturnaði Sódómu og Gómorru.“ Rættust þessir spádómar síðar? Já, í smæstu smáatriðum! Að því kom að ekkert varð eftir af Babýlon annað en rústahaugur — hún varð óbyggð að frátöldum skriðdýrum og villidýrum — nákvæmlega eins og sagt hafði verið fyrir! (Jesaja 13:9, 19-22; 14:23; Jeremía 50:35, 38-40) En önnur Babýlon, Babýlon hin mikla nútímans, lifir enn. Sem heimsveldi falskra trúarbragða heldur hún lífinu í hinum fornu kenningum Babýlonar og rembilátum anda. Hún er helsta verkfæri Satans til að blinda þjóðir jarðar gagnvart tilgangi Jehóva með Guðsríki. — 2. Korintubréf 4:3, 4.
5. (a) Hvaða trúarbrögð þróuðust meðan veldi Babýlonar stóð sem hæst, en hvers vegna tókst Satan ekki að kaffæra allan heiminn í falstrúarbrögðum? (b) Hvernig notaði Satan fölsk trúarbrögð eftir tilkomu kristninnar?
5 Það var í kringum sjöttu öld fyrir daga Krists, þegar heimsveldið Babýlon var á hátindi dýrðar sinnar, að hindúatrú, búddhatrú, konfúsíusartrú og sjintótrú komu einnig fram á sjónarsviðið. En tókst Satan að kaffæra allan heiminn í falstrúarbrögðum? Nei, því að leifar hinna fornu votta Jehóva sneru heim til Jerúsalem frá Babýlon til að endurvekja tilbeiðsluna á Jehóva. Þar voru trúfastir Gyðingar sex öldum síðar til að taka fagnandi á móti Messíasi og verða fyrstu meðlimir kristna safnaðarins. Falstrúarbrögðin sáu til þess að Guðs eigin sonur dó píslarvættisdauða og þau urðu helsta verkfæri Satans til að berjast gegn sannri kristni, alveg eins og Jesús og postular hans höfðu varað við. — Matteus 7:15; Postulasagan 20:29, 30; 2. Pétursbréf 2:1.
6. (a) Hvernig spillti Satan kristnum kenningum og hvaða svívirðilegar kenningar urðu til? (b) Hvert var hlutskipti þúsunda manna sem tóku sannindi Biblíunnar fram yfir kreddur Babýlonar?
6 Einkum eftir síðari eyðingu Jerúsalem árið 70 notaði Satan falspostula til að spilla kristnum kenningum og hræra saman við þær babýlonskri dulúð og veraldlegri grískri heimspeki. Þannig varð hinn ‚eini Jehóva‘ Biblíunnar að víkja fyrir ‚heilagri þrenningu.‘ (5. Mósebók 6:4; Markús 12:29; 1. Korintubréf 8:5, 6) Og kenningin um ódauðleika mannssálarinnar, eins og heiðni heimspekingurinn Platon kenndi, var tekin með til að afneita hinni dýrmætu kenningu Biblíunnar um lausnargjald og upprisu Krists. Þar með var brautin rudd fyrir trú á logandi helvíti og öllu mildari hreinsunareld. (Sálmur 89:49; Esekíel 18:4, 20) Slíkar kenningar, sem svívirða Guð og spila á ótta fólks, hafa átt sinn þátt í að fylla peningaskrín kirknanna. Á dögum rannsóknarréttarins og siðbótarinnar gátu klerkar ekki unað því að bíða eftir að logar vítis sæju um kvölina. Þúsundir manna, sem tóku sannindi Biblíunnar fram yfir babýlonskar kreddur, voru brenndar lifandi á báli fyrir höndum bæði kaþólskra og mótmælenda. En eins og við munum sjá gengur skækjulífi Babýlonar hinnar miklu margfalt lengra en einungis að koma á framfæri lygum og falskenningum.
Dómsdagur Jehóva
7. (a) Hvenær og hvernig byrjaði Jehóva að endurvekja frumsannindi Biblíunnar og afhjúpa falskar, babýlonskar kenningar? (b) Hvaða frumsannindi Biblíunnar endurvöktu biblíunemendurnir?
7 Dómsdagur Jehóva yfir þessari skækju hlaut að koma! (Hebreabréfið 10:30) Fyrst kom undirbúningstímabil, sem hófst á áttunda áratug síðustu aldar, þegar Jehóva sendi „sendiboða“ sinn — einlægan hóp biblíunemenda — til að endurvekja frumsannindi Biblíunnar og afhjúpa falskar babýlonskar kenningar. (Malakí 3:1a) Þessi ‚sendiboði‘ tók undir spádómsorðin í Opinberunarbókinni 4:11: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ ‚Sendiboðinn‘ gerðist líka opinskár málsvari lausnarfórnar Jesú, ráðstafanar Guðs til endurlausnar mannkyninu. Endurleyst mannkyn átti að vera í fyrsta lagi ‚lítil hjörð‘ er skyldi ríkja með Jesú á himnum, og síðar þær hundruð milljónir sem munu lifa að eilífu í paradís á jörð — flestir vegna upprisu frá dauðum. (Lúkas 12:32; 1. Jóhannesarbréf 2:2; Postulasagan 24:15) Já, biblíunemendurnir endurvöktu þessi grundvallarsannindi og í táknrænum skilningi ‚beindu þeir jafnvel brunaslöngunni á helvíti og slökktu eldinn,‘ eld hinnar babýlonsku kreddu um eilífar kvalir.a
8. (a) Hvernig notfærðu klerkar kristna heimsins sér fyrri heimsstyrjöldina til að reyna að gera út af við biblíunemendurna? (b) Hvernig fór fyrir dómaranum sem hélt átta forvígismönnum Varðturnsfélagsins í fangelsi með því að neita að láta þá lausa gegn tryggingu?
8 Í um það bil 40 ár boðuðu biblíunemendurnir djarflega að árið 1914 myndu heiðingjatímarnir enda. Eins og búist var við urðu þá atburðir sem skóku heiminn, ekki síst fyrri heimsstyrjöldin. Klerkar kristna heimsins — fyrirferðamesta hluta Babýlonar hinnar miklu — reyndu svo sannarlega að notfæra sér þessa heimskreppu til að tortíma hinum berorðu biblíunemendum! Loks tókst þeim, árið 1918, að fá átta af forystumönnum Varðturnsfélagsins dæmda til fangelsisvistar fyrir upplognar sakir um undirróðursstarfsemi. En þeir voru leystir úr haldi níu mánuðum síðar og fengu síðan algera uppreisn æru. Bandaríski alríkisdómarinn Martin T. Manton, sem hafði haldið þessum biblíunemendum í fangelsi með því að synja þeim um lausn úr haldi gegn tryggingu, var síðar sæmdur tignarheiti af Píusi páfa XI og gerður að „riddara af reglu heilags Gregoríusar mikla.“ En upphefð hans var skammær því að árið 1939 var hann dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar og þungra fjársekta. Hvers vegna? Vegna þess að hann var fundinn sekur um að hafa selt sex dóma gegn mútum er námu alls 186.000 bandaríkjadölum!
9. Hvernig skýrir spádómur Malakís það sem var að gerast hjá þjónum Jehóva og hvar hófst því dómurinn?
9 Eins og við höfum nefnt urðu þjónar Jehóva að þola erfiðar prófraunir árið 1918. Orð spámannsins í Malakí 3:1-3 skýra fyrir okkur hvað var að gerast: „Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn [Jehóva] er þér leitið, og engill [Abrahams-] sáttmálans“ — Jesús. Já, Jehóva var kominn ásamt Kristi sínum til að halda dóm. Síðan spyr Jehóva: „En hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna.“ Samkvæmt 1. Pétursbréfi 4:17 átti dómurinn að hefjast á þeim sem játuðu sig tilheyra húsi Guðs. Sannkristnir menn voru þannig hreinsaðir og fágaðir fyrir þjónustu Jehóva.
„FAR ÚT ÚR HENNI, LÝÐUR MINN“!
10. Hvaða dómur frá Guði kom yfir kristna heiminn og öll fölsk trúarbrögð árið 1919 og hvað hafði það í för með sér fyrir Babýlon hina miklu?
10 Sem iðrunarlaus hluti Babýlonar hinnar miklu var óhugsandi að klerkar kristna heimsins gætu staðist dóm Jehóva. Þeir höfðu útatað klæði sín með þátttöku sinni í blóðbaði heimsstyrjaldarinnar og ofsóknum á hendur sannkristnum mönnum. (Jeremía 2:34) Í stað þess að taka hinu komandi himneska ríki Krists fagnandi voru þeir talsmenn Þjóðabandalagsins, ráðagerðar mannanna, sem þeir leyfðu sér að kalla „pólitíska ímynd Guðsríkis á jörð.“ Árið 1919 var ljóst orðið að Jehóva hefði fellt dóm yfir kristna heiminum — og raunar öllum falstrúarbrögðum. Babýlon hin mikla var fallin og dauðadæmd! Nú var tímabært að allir unnendur sannleikans og réttlætisins færu eftir hinu spádómlega boði í Jeremía 51:45: „Far út úr henni, lýður minn, og hver og einn forði lífi sínu undan hinni brennandi reiði [Jehóva].“
11, 12. (a) Hvað segir engill í Opinberunarbókinni 17:1, 2 um dóminn yfir Babýlon hinni miklu? (b) Hver eru „vötnin mörgu“ sem skækjan situr yfir og hvernig hefur hún gert jarðarbúa ‚drukkna af saurlifnaðarvíni sínu‘?
11 Babýlon hin mikla er fallin! Henni hefur þó enn ekki verið tortímt. Þetta heimsveldi falskra trúarbragða verður til enn um stutta stund sem meistaraverk blekkingar Satans. Hver er lokadómur Guðs yfir því? Við þurfum ekki að vera í vafa um það. Við skulum fletta upp í Biblíunni í Opinberunarbókinni 17:1, 2. Þar ávarpar engill Jóhannes postula og, fyrir hans milligöngu, þá sem kynna sér spádóminn nú á dögum, og segir: „Kom hingað, og ég mun sýna þér dóminn yfir skækjunni miklu, sem er við vötnin mörgu. Konungar jarðarinnar hafa drýgt saurlifnað með henni, og þeir, sem á jörðinni búa, hafa orðið drukknir af saurlifnaðar víni hennar.“ „Vötnin mörgu“ eiga við hinn ólgusama mannheim sem skækjan mikla hefur svo lengi undirokað. Og spádómurinn segir að „þeir, sem á jörðinni búa,“ séu drukknir af víni hennar. Þeir svolgra í sig falskar kenningar og veraldlega, siðlausa vegi Babýlonar hinnar miklu og eru sendir burt reikulir í spori eins og þeir séu ölvaðir af ódýru, ólöglegu víni.
12 Í Jakobsbréfinu 4:4 lesum við: „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði?“ Trúarbrögð tuttugustu aldarinnar eru fúsari en frá verði sagt að vinna sér með fagurgala hylli heimsins, og það á ekki síst við um kristna heiminn. Bæði hafa klerkar hans brugðist þeirri skyldu sinni að boða fagnaðarerindið um hið komandi ríki Jehóva og eins útvatna þeir siðferðiskenningar Biblíunnar og leggja blessun sína yfir veraldlega undanlátsemi meðal sóknarbarna sinna. Meira að segja eru klerkarnir sjálfir ekki beinlínis saklausir af holdlegum saurlifnaði sem Páll postuli fordæmdi hlífðarlaust er hann sagði: „Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar . . . Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.
‚Velta sér í saur‘
13, 14. (a) Hvaða dæmi sýna að klerkar nútímans hafa ekki ‚látið þvost‘? (b) Hvaða afstöðu tók kirkjuþing Englandskirkju til kynvillumaka og hvaða nafnbreytingu stakk fréttaritari upp á? (c) Hvaða orð Péturs hæfa vel hinum fráhverfu klerkum?
13 Hafa klerkar nútímans ‚látið laugast‘? Nú, lítum á sem dæmi það ástand sem ríkir á Bretlandseyjum er einu sinni voru eitt helsta vígi mótmælendatrúarinnar. Í nóvember 1987, þegar forsætisráðherra Breta hvatti klerkastéttina til að veita siðferðilega forystu, sagði sóknarprestur við ensku þjóðkirkjuna: „Kynhverfir hafa jafnmikinn rétt og allir aðrir til kynlífs; við ættum að sjá hið góða í því og hvetja til tryggðar [meðal kynvilltra].“ Dagblað í Lundúnum sagði: „Svo rammt kvað að kynvillu í einum guðfræðiskóla ensku þjóðkirkjunnar að starfslið annars skóla þurfti að banna nemendunum að heimsækja hann.“ Samkvæmt könnun var áætlað að „í einu umdæmi Lundúna mætti búast við að meira en helmingur allra presta hneigðist til kynvillu.“ Á kirkjuþingi studdu 95 af hundraði klerka Englandskirkju tillögu þess efnis að saurlífi og hjúskaparbrot skyldu teljast syndir en kynvillumök ekki; kynvillumök voru einungis sögð vanta nokkuð á að vera ímynd hins fullkomna. Fréttaritari dagblaðs sló fram þeirri hugmynd, í ljósi alls þessa, að gefa Englandskirkju nýtt nafn — Sódóma og Gómorra. Í öðru Lundúnablaði sagði: „Breska þjóðin er steini lostin þegar hún hugleiðir hvaða afleiðingar einnar kynslóðar undanlátsemi hefur haft.“
14 Orð Péturs postula eiga vel við þessa fráhverfu klerka: „Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: ‚Hundur snýr aftur til spýju sinnar,‘ og: ‚Þvegið svín veltir sér í sama saur‘“! — 2. Pétursbréf 2:22.
15. (a) Hvaða siðferðishrun hefur átt sér stað út um gjörvallan kristna heiminn? (b) Hverjir eru meðsekir um þessa skelfilegu uppskeru?
15 Út um allan kristna heiminn, og raunar heiminn í heild, eru siðferðisverðmæti á svo hröðu undanhaldi að ógn vekur. Í sumum þjóðfélögum er hjónaband nú álitið óþarft og þeim sem eru giftir þykir tryggð í hjónabandi komin úr tísku. Sífellt færri löggilda sambúð sína og hjónaskilnaðir meðal þeirra sem gera það fara upp úr öllu valdi. Í Bandaríkjunum hafa hjónaskilnaðir meira en þrefaldast síðastliðinn aldarfjórðung og nema töluvert yfir eina milljón á ári. Á 20 ára tímabili frá 1965 fjórfölduðust hjónaskilnaðir á Bretlandseyjum úr 41.000 í 175.000. Einhleypingar hafa margir mök við aðra slíka af öðru hvoru kyni og margir hlaupa á milli rekkjunauta. Þeir hafa uppi harmagrát yfir hinum skelfilegu samræðissjúkdómum, ekki síst eyðni, sem magnast sökum siðlausra lífshátta þeirra, en láta sér ekki til hugar koma að hætta siðspilltum athöfnum sínum. Klerkar kristna heimsins hafa látið vera að aga villuráfandi sóknarbörn. Þeir hljóta að vera samsekir um þessa ófögru uppskeru í sama mæli og þeir hafa lokað augunum fyrir siðleysi. — Jeremía 5:29-31.
16. (a) Hvað undirstrikar þá staðreynd að Babýlon hin mikla er fallin og hvaða yfirlýsing engils í Opinberunarbókinni 18:2 á vel við? (b) Hvað verða allir þeir að gera sem vilja lifa af endalok heimsins?
16 Hið sorglega ástand í siðferðismálum innan heimsveldis falstrúarbragðanna undirstrikar einnig þá staðreynd að Babýlon hin mikla sé fallin. Guð hefur dæmt hana og merkt til tortímingar. Því er vel við hæfi að engillinn skuli hrópa sterkri röddu í Opinberunarbókinni 18:2: „Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að döfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.“ Og sannarlega er þýðingarmikið að allir sem vilja lifa af endalok þessa heims hlýði nú því kalli sem ómar í versi 4: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar“! Það að ganga út úr falstrúarbrögðunum er lífsnauðsynlegt skref í þá átt að lifa af ‚þrenginguna miklu‘ sem er rétt framundan. (Opinberunarbókin 7:14) En meira er krafist eins og við munum sjá!
[Neðanmáls]
a Þann 1. nóvember 1903, að lokinni síðustu kappræðunni af mörgum milli Charles T. Russell og dr. E. L. Eaton, sem fram fóru í Carnegie Hall í Pittsburgh í Pennsylvania í Bandaríkjunum, viðurkenndi einn viðstaddra presta sigur bróður Russells og sagði: „Það gleður mig að sjá yður beina brunaslöngunni á helvíti og slökkva eldinn.“
[Rammi á blaðsíðu 8]
SIÐFERÐI KLERKA
„Foreldrar, sálfræðingar, lögreglumenn og lögmenn segja að hundruð barna, sem kaþólskir prestar í Bandaríkjunum hafa misnotað kynferðislega síðastliðin fimm ár, hafa beðið alvarlegt tilfinningatjón af.“ — Akron Beacon Journal þann 3. janúar 1988.
„Rómversk-kaþólska kirkjan í Bandaríkjunum hefur þurft að greiða milljónir dollara í skaðabætur til fjölskyldna sem halda því fram að prestar hafi misnotað börn þeirra kynferðislega. Þrátt fyrir það er vandamálið nú orðið svo alvarlegt að fjöldi lögmanna og fórnarlamba segja að kirkjan loki augunum fyrir og breiði yfir slík atvik.“ — The Miami Herald þann 3. janúar 1988.
[Myndir á blaðsíðu 6]
Myndir af guðaþrenningum — frá Forn-Egyptalandi og frá kristna heiminum.
[Rétthafi]
Saint-Remisafnið í Rheims. Ljósmynd: J. Terrisse.
Louvresafnið í París.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Biblían líkir siðlausum trúarleiðtogum við þvegið svín sem veltir sér aftur í saurnum.