Gættu þín á spotturum
Það úir og grúir af spádómum og svokölluð framtíðarfræði er blómleg atvinnugrein. „Nú er árið 2000 nálgast er óvenjulegur en ekki alls kostar óvæntur atburður að gerast,“ segir Lundúnablaðið The Daily Telegraph. „Þúsundir manna um heim allan eru farnar að sjá undarlegar og oft ógnvekjandi framtíðarsýnir.“ Margir telja að þessi gríðarlegi framtíðaráhugi sé aðeins endurtekning fyrri vona um betri tíma sem hafa brugðist.
ÞEGAR umferð hestvagna jókst á 19. öld spáði maður nokkur því að evrópskar borgir myndu smám saman kafna í skít. Spá hans rættist auðvitað ekki. Lundúnablaðið The Times vekur athygli á því hve oft spár manna bregðist og segir: „Framtíðin er ekkert nema hrossaskítur.“
Sumir gera gys að þeim sem sjá hættur framundan. Prófessor í viðskiptafræði við bandarískan háskóla skoraði til dæmis á þá sem vara við umhverfisspjöllum að veðja við sig um það hvort ástandið ætti eftir að versna. Tímaritið New Scientist hafði eftir honum að „lífsgæði okkar séu að aukast og eigi eftir að aukast endalaust.“
Og mitt á milli þessara andstæðu póla er að finna fólk sem álítur að allt verði að mestu leyti óbreytt. Það gerir gys að sérhverri hugmynd þess efnis að æðri máttarvöld skerist í leikinn og sýna mikið til sama hugarfar og spottarar fyrstu aldar.
Stendur allt við það sama?
Í síðara innblásnu bréfi Péturs postula, sem hann skrifaði um árið 64, varaði hann við þessu: „Á hinum síðustu dögum munu koma spottarar með spotti, er framganga eftir eigin girndum.“ — 2. Pétursbréf 3:3, Biblían 1912.
Spottarar reyna að láta það sem þeir gera gys að virðast fáránlegt. En sá sem lætur undan spottinu getur orðið eigingirni spottarans að bráð því að hann vill gjarnan snúa áheyrendum sínum á sveif með sér. Sumir spottarar, sem Pétur varaði við, voru kannski þannig, það er að segja ‚framgengu eftir eigin girndum.‘ Postulinn kvað fast að orði til að vekja lesendur sína til vitundar um þetta. Hann varaði við að það myndu koma „spottarar með spotti.“
Þessir spottarar fyrstu aldar véfengdu að ‚fyrirheitinu um komu‘ Krists væri treystandi og sögðu: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.“ (2. Pétursbréf 3:4) Þannig fannst þeim það vera. En árið 33 hafði Jesús spáð miklum hörmungum fyrir Jerúsalemborg. „Þeir dagar munu koma yfir þig,“ sagði hann, „að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér.“ Þeim sem spottuðu þessa viðvörun skjátlaðist illilega. Árið 70 settist rómverskur her um Jerúsalem og lagði borgina í rúst og borgarbúar féllu unnvörpum. Af hverju var þorri borgarbúa ekki undir þessar hörmungar búinn? Af því að þeir gerðu sér ekki grein fyrir að Guð hafði vitjað þeirra fyrir milligöngu sonar síns, Jesú. — Lúkas 19:43, 44.
Pétur postuli minnist á íhlutun Guðs hins alvalda í framtíðinni. „Dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur,“ segir Pétur. (2. Pétursbréf 3:10) Þá mun Guð afmá óguðlega menn af allri jörðinni en þyrma þeim sem dæmdir eru réttlátir. Eins og þetta tímarit hefur útskýrt margsinnis ‚kom‘ Kristur Jesús árið 1914 og þá hófst nærvera hans. En hann á enn eftir að láta til skarar skríða og fullnægja dómi Guðs með því að afmá illskuna. Þar af leiðandi á viðvörun postulans um spottara enn meira erindi til okkar nú en áður.
Kannski hefurðu beðið þess lengi að Guð grípi inn í gang mála. Hvað getur hjálpað þér að bíða þolinmóður enn um sinn án þess að verða spotturum að bráð? Lestu áfram.
[Innskot á blaðsíðu 4]
„Þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu . . . setjast um þig og þröngva þér á alla vegu . . . og ekki láta standa stein yfir steini í þér.“ Þetta var viðvörun sem ekki mátti skopast að. Rómverski herinn eyddi Jerúsalem og borgarbúar féllu unnvörpum.