‚Verið flekklausir, lýtalausir og í friði‘
„Kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði.“ — 2. PÉTURSBRÉF 3:14.
1, 2. Hvað er heilagleiki?
JEHÓVA Guð er heilagur. Sonur hans, Jesús Kristur, ávarpaði hann í bæn „Heilagi faðir.“ (Jóhannes 17:1, 11) Og andaverum á himnum er svo lýst að þær segi: „Heilagur, heilagur, heilagur er [Jehóva] allsherjar.“ (Jesaja 6:3) En hvað er heilagleiki?
2 Orðin „heilagur“ og „heilagleiki“ eru þýðing á hebresku orði komið af rót sem getur merkt „að vera bjartur,“ „að vera nýr eða ferskur, flekklaus eða hreinn“ líkamlega. Í Ritningunni eru þessi orð hins vegar aðallega notuð í siðferðilegri eða andlegri merkingu. Frumhebreska orðið felur líka í sér þá hugmynd að vera aðgreindur, tekinn frá eða helgaður hinum heilaga Guði, Jehóva. Í kristnu Grísku ritningunum merkja orðin, sem þýdd eru „heilagur“ og „heilagleiki,“ einnig það að vera tekinn frá handa Guði. Þau eru líka notuð um heilagleika sem eiginleika Jehóva, svo og um hreinleika eða fullkomleika í hátterni einstaklings. Heilagleiki merkir því að vera hreinn, óspilltur og vígður Guði.
Heilagleika er krafist af fólki Jehóva
3. Hvers vegna verðskuldar Jehóva hreina tilbeiðslu?
3 Hvað er þá átt við með yfirlýsingunni á himnum: „Heilagur, heilagur, heilagur, [Jehóva] Guð, hinn alvaldi“? (Opinberunarbókin 4:8) Hér er Guði eignaður heilagleiki, hreinleiki í sinni æðstu mynd! Þess vegna verðskuldar Jehóva, ‚hinn allra heilagasti,‘ hreina guðsdýrkun. (Orðskviðirnir 9:10, NW) Samkvæmt því bauð Jehóva Guð spámanninum Móse að segja Ísraelsmönnum: „Þér skuluð vera heilagir, því að ég, [Jehóva], Guð yðar, er heilagur.“ — 3. Mósebók 19:1, 2.
4. Hver er eina leiðin til að tilbiðja Jehóva á velþóknanlegan hátt?
4 Hver sem fullyrðir að hann veiti Jehóva velþóknanlega þjónustu, en iðkar þó eitthvað sem er óhreint, er viðurstyggð í hans augum, því að einungis er hægt að þjóna Jehóva með velþóknanlegum hætti sé það gert í guðlegri visku og heilagleika. (Orðskviðirnir 20:25; 21:27) Þegar því Guð sagði fyrir að hann myndi opna útlægri þjóð sinni leið til að snúa heim til Jerúsalem frá Babýlon sagði hann: „Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga.“ (Jesaja 35:8) Leifarnar, sem sneru heim árið 537 f.o.t., gerðu það af heilögu tilefni, í því skyni að endurreisa sanna tilbeiðslu ‚hins allra heilagasta.‘ Og Ísraelsmenn hefðu getað reynst heilagir með því að hlýða Guði. Þeir héldu sér hins vegar ekki heilögum eða flekklausum í hans augum. — Samanber Jakobsbréfið 1:27.
5. Hvernig benti Páll á að andlegir Ísraelsmenn verða að tilbiðja Guð í heilagleika?
5 Andlegir Ísraelsmenn, smurðir kristnir menn, verða líka að tilbiðja Jehóva í heilagleika. (Galatabréfið 6:16) Í þessu sambandi hvatti Páll trúbræður sína til að ‚bjóða fram sjálfa sig að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn.‘ Til að gera það yrðu þeir að ganga úr skugga um að þeir væru að gera vilja Guðs, því að Páll bætti við: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ — Rómverjabréfið 12:1, 2.
6. Gegn hverju verða allir kristnir menn að vera á verði?
6 Á þessum aukningartímum streyma margir nýir inn í skipulag Jehóva. Þeir tilbiðja líka Jehóva í heilagleika og fagna þeirri framtíðarvon að lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og öðlast eilíft líf í réttlátri nýrri skipan Guðs, á jörð sem verður paradís! (Matteus 24:21; Lúkas 23:43) En bæði þeir sem hafa himneska von og ‚múgurinn mikli‘ með jarðneska von verða að varast saurgandi ávana og hvaðeina sem gengur í berhögg við siðferði og kenningu Ritningarinnar. — Opinberunarbókin 7:9, 14.
7. Hvað sagði Pétur sem undirstrikar nauðsyn þess að vera til fyrirmyndar „í heilagri breytni“?
7 Með okkar tíma í huga skrifaði Pétur postuli: „Dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir [veraldlegar stjórnir] með miklum gný líða undir lok, frumefnin [veraldleg viðhorf og vegir] sundurleysast í brennandi hita og jörðin [mannlegt samfélag fjarlægt Guði] og þau verk, sem á henni eru, upp brenna,“ jafneldfim og ‚himnarnir‘ og „frumefnin“ í eyðingareldi dags Jehóva. Pétur bætti því við: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.“ Já, allir vottar Jehóva ættu að vera til fyrirmyndar í „heilagri breytni.“ Og þeir sem varðveita heilagleika geta hlakkað til þess að fá að lifa á réttlátum ‚nýjum himni og nýrri jörð‘ Guðs. (2. Pétursbréf 3:7, 10-13) Þetta eru stórkostlegar framtíðarhorfur!
8. Hvað þarf kristinn maður að gera ef hann hefur vikið af vegi heilagleikans?
8 En hvað þá ef kristinn maður hefur gert vel í þjónustu Jehóva um skeið en óhreinkar sig svo á einhverjum spillandi ávana eða gengur þvert á kenningar Biblíunnar eða siðferðislög? Þá hefur hann vikið af braut heilagleikans og þarf að láta í ljós sanna iðrun og stíga nauðsynleg skref til að bæta sig. Eins og Páll sagði smurðum bræðrum sínum: „Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Hverjum þeim kristnum manni, sem þarf að leiðrétta ranga stefnu sína, munu reynast biblíuleg ráð kærleiksríkra umsjónarmanna mikil blessun. — Orðskviðirnir 28:13; Jakobsbréfið 5:13-20.
9. Hvaða spurningar vakna í ljósi 2. Pétursbréfs 3:14?
9 Eftir að hafa bent á hina réttlátu nýju skipan bætti Pétur við: „Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir [Jehóva Guði] í friði.“ (2. Pétursbréf 3:14) Þessum orðum var beint til smurðra kristinna manna en auðvitað verða allir vottar Jehóva að reynast ‚flekklausir, lýtalausir og í friði.‘ Hvers krefst það af okkur?
„Flekklausir og lýtalausir“
10. Hvernig hafa þeir sem mynda ‚múginn mikla‘ þvegið „skikkjur“ sínar í blóði Jesú?
10 Við verðum að gera okkar ýtrasta til að vera „flekklausir og lýtalausir.“ Þeir sem tilheyra ‚múginum mikla‘ hafa „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Einu sinni voru þeir hluti af þessum synduga heimi og skikkjurnar, sem einkenndu þá, voru flekkaðar af honum, óhreinar í augum Jehóva. Hvernig gerðu þeir skikkjur sínar flekklausar og skjannahvítar í „blóði lambsins“ Jesú Krists? Með því að láta í ljós þá trú sína að ‚engin fyrirgefning fáist án úthellingar blóðs,‘ og að Jesús sé „Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14; Hebreabréfið 9:22; Jóhannes 1:29, 36) Það gerðu þeir með því að vígja sig skilyrðislaust Guði og gefa tákn um það með því að skírast, láta kaffæra sig algerlega í vatni. Slíka vígslu urðu þeir að gera fyrir milligöngu Jesú Krists og í þeirri fullvissu að úthellt blóð hans geri Guði mögulegt að fyrirgefa syndir þeirra svo að þeir verði þóknanlegir fyrir augum hans.
11. Í hvaða ástandi þurfum við að halda okkur þar eð synd raskar friði okkar við Jehóva?
11 ‚Múgurinn mikli‘ þarf að halda ‚skikkjum‘ sínum hvítum með því að flekka sig ekki af þessum heimi og glata þar með kristnum persónuleika sínum og auðkenni sem viðurkenndir vottar Jehóva. Allir sannkristnir menn verða að gæta þess að láta ekki vegi heimsins, athafnir og viðhorf setja á sig blett. Þar eð synd raskar friði okkar við Jehóva getum við tryggt að við séum „í friði“ á hinum komandi mikla ‚degi Jehóva,‘ aðeins með því að halda okkur í því ástandi að hægt sé að friðþægja fyrir syndir okkar. Við megum ekki vera flekkuð af falstrúariðkunum eða siðleysi þessa heims.
12. Hvernig á 2. Pétursbréf 2:13 við jafnvel innan kristna safnaðarins?
12 Að varðveita sig flekklausan og lýtalausan kallar á breytni og viðhorf gerólíkt þeim ‚falsspámönnum‘ sem Pétur skrifaði um: „Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag. Þeir eru skömm og smán, þegar þeir neyta máltíða með yður og svalla.“ (2. Pétursbréf 2:1, 13) Já, jafnvel innan safnaðarins verðum við að gæta okkar á falskennurum sem „hafa yndi af að svalla um miðjan dag.“ Að deginum til, þegar gera mætti svo margt öðrum til andlegs gagns, geta óandlegir menn átt til að stunda rangsleitni, meðal annars svall og óhóf í mat og drykk. Þeir reyna kannski að nota brúðkaupsveislur og önnur samkvæmi sem tækifæri til að leika æsandi tónlist og dansa eggjandi dansa, til ofáts og óhóflegrar áfengisdrykkju. Ekkert slíkt ætti að fá að gerast meðal þjóna Jehóva. — Jesaja 5:11, 12; sjá Varðturninn 1. janúar 1985, bls. 24-29.
13. Hvað getur sá sem heldur samkvæmi gert til að það sé andlega uppbyggjandi?
13 Sá sem heldur samkvæmi ber ábyrgð á því sem fer þar fram. Til að það sé andlega uppbyggjandi er hyggilegt að hafa það ekki fjölmennara en svo að vel sé við allt ráðið, og að bjóða ekki þeim sem líklegt er að hafi óheilnæm áhrif. Eins og orð Páls í 2. Tímóteusarbréfi 2:20-22 gefa í skyn er ekki gefið mál að allir í söfnuðinum séu æskilegur félagsskapur. Kristnum mönnum er alls ekki skylt að bjóða til sín þeim sem þekktir eru fyrir að hafa lítið taumhald á tungu sinni eða kunna sér lítið hóf í mat eða drykk. Þeir vilja hafa í huga að ‚hvort sem við etum eða drekkum eða hvað sem við gerum, þá ættum við að gera það allt Guði til dýrðar.‘ — 1. Korintubréf 10:31.
14. Hvaða afstöðu ber að taka til falskennara?
14 Einungis fáeinir, sem hafa samfélag við okkur, eru ‚skömm og smán og hafa yndi af villukenningum.‘ En umsjónarmenn og aðrir í söfnuðinum verða að vera árvakrir og vísa afdráttarlaust á bug hverjum þeim falskennara sem reynir að læðast inn í söfnuðinn í því skyni að stuðla að siðleysi eða koma inn fölskum kenningum. (Júdasarbréfið 3, 4) Aðeins með fastheldni við réttláta staðla Guðs er hægt að halda söfnuðinum flekklausum og lýtalausum.
Hvað útheimtir það að vera „í friði“?
15. (a) Hvernig er hægt að eignast frið við Guð? (b) Hvað þurfum við að gera til að vera „í friði“ á hinum komandi mikla degi Jehóva?
15 Til að fólk Jehóva sé „í friði“ þarf það að varðveita frið við hann. (2. Pétursbréf 3:14) Við höfum eignast þetta samband við hann fyrir milligöngu Jesú Krists sem Páll skrifaði um: „Í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og á himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.“ (Kólossubréfið 1:19, 20) Alvarlegar syndir reyna mjög á samband einstaklingsins við Jehóva, þjaka samvisku hans og gera honum órótt í skapi. Þeir sem hlýða boðum Guðs njóta hins vegar friðar. (Sálmur 38:4; Jesaja 48:18) Til að vera „í friði“ á hinum komandi, mikla degi Jehóva, verðum við því að halda okkur í því ástandi að blóð Jesú, úthellt á kvalastaur, friðþægi fyrir syndir okkar.
16. Hvernig getum við keppt að friði við trúbræður okkar samkvæmt orðum Páls postula?
16 Við verðum líka að eiga frið við aðra dýrkendur Jehóva. Páll hvatti: „Keppum . . . eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.“ Samhengið sýnir að við eigum að gæta þess að hneyksla ekki trúbræður okkar vegna matar, drykkjar eða nokkurs annars. (Rómverjabréfið 14:13-23) En við þurfum að gera meira en það til að varðveita frið, því að Páll skrifaði kristnum mönnum í Efesus: „Ég . . . áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.“ (Efesusbréfið 4:1-3) Sannarlega viljum við sýna einingu okkar með því að forðast orð og verk, sem raskað gætu friði safnaðarins, og með því að vera staðfastir sem stuðningsmenn drottinvalds Jehóva.
17. Hvað er samkvæmt 1. Pétursbréfi 3:10-12 fólgið í því að ‚ástunda frið‘?
17 ‚Að ástunda frið‘ útheimtir að við gefum gætur bæði að verkum okkar og orðum, því að Pétur postuli skrifaði: „Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinni frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik. Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum. Því að augu [Jehóva] eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit [Jehóva] er gegn þeim, sem illt gjöra.“ (1. Pétursbréf 3:10-12; Sálmur 34:13-17) Drottinhollir þjónar Jehóva verða því með margvíslegum hætti að halda áfram að ‚ástunda frið‘ ef þeir vilja gæta þess að vera „í friði.“
Reiddu þig á hjálp Jehóva
18. Hvað getum við gert ef vegir, verk eða viðhorf heimsins höfða til okkar?
18 Pétur talaði um að „frumefnin,“ andi heimsins, viðhorf og vegir, myndu „sundurleysast“ eða tortímast á ‚degi Jehóva.‘ (2. Pétursbréf 3:7, 10) En hvað getum við gert ef vegir heimsins, athafnir eða viðhorf höfða til okkar? Við þurfum að notfæra okkur til fullnustu hinar andlegu ráðstafanir sem eru gerðar á vegum skipulags Jehóva. Meðal annars ættum við að nema reglulega orð Guðs og þau kristnu rit sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ sér fyrir. (Matteus 24:45-47) Við verðum líka að sýna stöðugt þakklæti fyrir lausnargjaldið, ‚blóð hins lýtalausa og óflekkaða lambs, hið dýrmæta blóð Krists.‘ — 1. Pétursbréf 1:18, 19.
19. Hvernig getur bænin hjálpað ef veraldleg viðhorf hafa áhrif á okkur?
19 Við ættum að biðja um hjálp Guðs til að „stunda réttlæti.“ (1. Tímóteusarbréf 6:11-14) Ef við gerum okkur ljóst að veraldleg viðhorf hafa áhrif á okkur, eða kærleiksríkur trúbróðir hefur vakið athygli okkar á því, væri hyggilegt að nefna þetta vandamál sérstaklega í bænum okkar og biðja Jehóva að hjálpa okkur að sigrast á þessum tilhneigingum. Vel væri við hæfi að biðja um anda Jehóva og hjálp til að rækta ávexti andans sem eru gerólíkir veraldlegum viðhorfum og vegum. (Galatabréfið 5:16-26; Sálmur 25:4, 5; 119:27, 35) Jehóva getur hjálpað okkur að einbeita okkur að því sem er rétt, hreint, göfugt og lofsvert. Og vel á við að ákalla hann í einlægni til að hinn óviðjafnanlegi „friður Guðs“ verndi hjörtu okkar og hugsanir! (Filippíbréfið 4:6, 7) Þá munu áhyggjur, freistingar og því um líkt ekki vaxa að því marki að við fáum ekki við neitt ráðið. Þess í stað mun líf okkar einkennast af friði frá Guði. Já, „gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál [Jehóva].“ — Sálmur 119:165.
Haltu þér ‚flekklausum, lýtalausum og í friði‘
20. Hvers vegna getum við sagt að hægt sé að vera andlega flekklaus?
20 Til allrar hamingju geta allir innan skipulags Jehóva, þeirra á meðal hinir nýju sem nú eru að koma inn í það, verið Guði þóknanlegir. (Postulasagan 10:34, 35) Með hjálp Jehóva er hægt að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum“ og lifa eins og sannkristnum manni ber. (Títusarbréfið 2:11-14) Þótt við höfum áður verið fjarlæg Jehóva og hugir okkar beinst að vondum verkum, höfum við nú sæst við Guð í gegnum dauða Krists. Þess vegna er okkur mögulegt að vera flekklaus, svo framarlega sem við höldum áfram í trúnni og látum ekki leiða okkur burt frá von fagnaðarerindisins. — Kólossubréfið 1:21-23.
21. Hvernig getum við reynst ‚flekklaus, lýtalaus og í friði‘?
21 Með hjálp Jehóva, orðs hans og skipulags getum við varðveitt okkur óflekkaða af heiminum, forðast að vegir hans, verk og viðhorf setji á okkur blett. Þannig getum við kynnst sönnum friði. Já, með því að halda áfram að tilbiðja Jehóva í heilagleika munum við að lokum verða ‚flekklausir, lýtalausir og í friði.‘
Hvað finnst þér?
◻ Hvers vegna er krafist heilagleika af þjónum Jehóva?
◻ Hvernig getum við varðveitt okkur flekklaus og lýtalaus?
◻ Hvers er krafist til að vera „í friði“?
◻ Hvernig getum við sýnt að við treystum á hjálp Guðs?
[Myndir á blaðsíðu 14, 15]
Leiðir til að halda sér ‚flekklausum, lýtalausum og í friði.‘
Þjónaðu Guði af heilu hjarta.
Ræktaðu hinn kristna persónuleika.
Hafðu andlega uppbyggjandi félagsskap.
Leitaðu friðar við Guð í bæn.