Haltu áfram að vaxa í þekkingu
‚Auðsýnið í trú yðar . . . þekkingu.‘ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5.
1, 2. (a) Hvað má læra af því að skoða stjörnuhimininn? (Rómverjabréfið 1:20) (b) Hversu mikið hafa menn eiginlega aukið þekkingu sína?
HVAÐ gætir þú lært með því að fara út undir bert loft á heiðskírri, dimmri nóttu og horfa á bjartan mánann og óteljandi stjörnur? Þú gætir lært eitthvað um þann sem skapaði allt þetta. — Sálmur 19:2-7; 69:35.
2 Ef þig langaði til að bæta við þá þekkingu myndir þú þá fara upp á húsþak og horfa þaðan til himins? Líklega ekki. Albert Einstein notaði eitt sinn slíka líkingu til að leggja áherslu á að vísindamenn hafa í raun ekki bætt mjög miklu við þekkingu sína á alheiminum og sannarlega mjög litlu við þekkingu sína á þeim sem skapaði hann.a Læknirinn Lewis Thomas skrifaði: „Stærsta einstaka afrek vísindanna á þessari afkastamestu öld þeirra er sú uppgötvun að vanþekking okkar er hyldjúp; við vitum mjög lítið um náttúruna og skiljum enn minna.“
3. Í hvaða skilningi veldur aukin þekking aukinni kvöl?
3 Jafnvel þótt við notuðum öll árin, sem við ættum eftir ólifuð af eðlilegri ævi, til að leita slíkrar þekkingar rynni líklega einungis betur upp fyrir okkur hversu lífið er stutt. Við sæjum skýrar að ófullkomleikinn og óheiðarleiki heimsins takmarkar möguleika manna á að nota þekkingu sína. Salómon benti á það þegar hann skrifaði: „Því að mikilli speki er samfara mikil gremja, og sá sem eykur þekking sína, eykur kvöl sína.“ (Prédikarinn 1:15, 18) Já, að öðlast þekkingu og visku án nokkurra tengsla við tilgang Guðs færir mönnum yfirleitt kvöl og skapraun. — Prédikarinn 1:13, 14; 12:12; 1. Tímóteusarbréf 6:20.
4. Hvaða þekkingu ættum við að vilja öðlast?
4 Er Biblían að mæla með að við séum áhugalaus um að auka þekkingu okkar? Pétur postuli skrifaði: „Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists. Honum sé dýrðin nú og til eilífðardags.“ (2. Pétursbréf 3:18) Við getum og ættum að taka til okkar þessa hvatningu um að vaxa í þekkingu. En hvers konar þekkingu? Hvernig getum við vaxið í henni? Og erum við að því í raun og veru?
5, 6. Hvernig lagði Pétur áherslu á að við þurfum að öðlast þekkingu?
5 Sú hugmynd að vaxa í nákvæmri þekkingu á skapara alheimsins og á Jesú var eitt af aðalatriðunum í öðru bréfi Péturs. Í inngangi bréfsins skrifaði hann: „Náð og friður margfaldist yður til handa með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum. Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni með þekkingunni á honum, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og náð.“ (2. Pétursbréf 1:2, 3) Hann tengir þess vegna það að hafa náð og frið við það að öðlast þekkingu á Guði og syni hans. Það er skynsamlegt sökum þess að skaparinn, Jehóva, er miðpunktur sannrar þekkingar. Sá sem óttast Guð getur séð málin í réttu ljósi og dregið réttar ályktanir. — Orðskviðirnir 1:7.
6 Síðan hvetur Pétur: „Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika. Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.“ (2. Pétursbréf 1:5-8)b Í næsta kafla lesum við að þekkingaröflun hjálpar mönnum að sleppa frá saurgun heimsins. (2. Pétursbréf 2:20) Pétur gerði þannig ljóst að þeir sem eru að verða kristnir menn þarfnast þekkingar alveg eins og þeir sem þegar þjóna Jehóva þarfnast hennar. Tilheyrir þú öðrum hvorum þessara hópa?
Lærðu, endurtaktu, notaðu
7. Á hvaða hátt hafa margir öðlast nákvæma þekkingu á grundvallarsannindum Biblíunnar?
7 Þú hefur ef til vill biblíunám með vottum Jehóva af því að þú heyrir sannleikshljóminn í boðskap þeirra. Einu sinni í viku, í um það bil klukkustund, tekur þú til athugunar biblíuefni og notar til þess hjálpargagn eins og bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. Það er hrósunarvert. Margir sem hafa haft slíkt nám með vottum Jehóva hafa öðlast nákvæma þekkingu. Hvað getur þú samt gert til að læra persónulega enn þá meira? Hér eru nokkrar tillögur.c
8. Hvað getur nemandi gert til að læra meira þegar hann býr sig undir biblíunám?
8 Þegar þú býrð þig undir námið þitt skalt þú byrja á því að renna augunum yfir námsefnið sem fara á yfir. Það þýðir að skoða kaflatitilinn, millifyrirsagnir og myndir ef einhverjar eru til skýringar efninu. Síðan skaltu, er þú lest efnisgreinarnar eða bókarhluta, reyna að finna meginhugmyndirnar og ritningarstaðina sem styðja þær og strikaðu undir eða merktu við þær. Til að kanna hvort þú hafir gripið þau sannindi sem fjallað var um getur þú reynt að svara spurningunum við hinar mismunandi efnisgreinar. Reyndu að svara með eigin orðum. Að lokum skaltu rifja upp námsefnið og reyna að kalla fram í hugann aðalatriðin og rökin sem styðja þau.
9. Hvernig mun það að nota þessar tillögur þegar verið er að nema hjálpa manni að tileika sér þekkingu.
9 Þú getur vænst þess að vaxa í þekkingu ef þú ferð eftir þessum tillögum. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að þú munt þá nálgast efnið með ákafri lærdómsþrá og með því ert þú að undirbúa jarðveginn ef svo má segja. Með því að fá heildaryfirlit yfir efnið og síðan leita að aðalatriðunum og röksemdafærslunni munt þú koma auga á hvernig hin einstöku atriði tengjast stefinu eða niðurstöðunni. Lokaupprifjun mun hjálpa þér að muna það sem þú hefur numið. En hvað svo síðar þegar sjálft biblíunámið þitt fer fram?
10. (a) Hvers vegna hefur það takmarkað gildi að einungis endurtaka staðreyndir eða nýjar upplýsingar? (b) Hvað felst í „upprifjun með stigvaxandi millibili“? (c) Hvernig kunna ísraelskir drengir að hafa haft gagn af endurtekningu?
10 Sérfræðingum í fræðslumálum er kunnugt um gildi endurtekningar sem fram fer á hentugum tíma og hefur ákveðinn tilgang. Hún er ekki bara að romsa upp orðum eins og páfagaukur, nokkuð sem þú kannt að hafa reynt í skóla þegar þú varst að læra utanbókar einhver nöfn, staðreyndir eða hugmyndir. Varð reynslan sú að þú gleymdir fljótlega því sem þú hafðir þulið upp, að það hvarf skjótt úr minni þínu? Hvers vegna? Það getur verið leiðigjarnt að þylja aðeins upp orð eða staðreyndir og árangurinn er skammlífur. Hvernig er hægt að breyta því? Einlæg löngun til að læra mun hjálpa þér. Annar mikilvægur þáttur er tilgangsrík endurtekning. Nokkrum mínútum eftir að þú lærir eitthvert atriði skaltu reyna að draga það fram í huga þér, áður en það líður þér úr minni. Þetta hefur verið nefnt „upprifjun með stigvaxandi millibili.“ Ef þú hressir upp á minnið með því að rifja efnið upp áður en það gleymist manst þú lengur eftir því. Í Ísrael áttu feður að brýna fyrirmæli Guðs fyrir sonum sínum. (5. Mósebók 6:6, 7) „Brýna“ þýðir að kenna með endurtekningu. Líklega sögðu margir þessara feðra sonum sínum fyrst hvernig lögmálið hljóðaði; seinna létu þeir synina heyra það aftur og að endingu lögðu þeir fyrir þá spurningar um það sem þeir höfðu lært.
11. Hvað er hægt að gera meðan á biblíunámi stendur til að læra meira?
11 Ef einn af vottum Jehóva er að nema með þér Biblíuna kann hann að hjálpa þér að læra með því að draga saman það efni sem á undan er komið af og til meðan á náminu stendur. Þetta er ekki barnalegt. Þetta er tækni sem lætur menn læra betur og þú skalt þess vegna taka með ánægju þátt í þeirri reglubundnu upprifjun. Í lok námsins skaltu síðan taka þátt í lokaupprifjuninni og svara þá eftir minni. Reyndu að útskýra efnisatriðin með eigin orðum eins og þú myndir gera ef þú værir að kenna einhverjum öðrum. (1. Pétursbréf 3:15) Það mun stuðla að því að festa það sem þú hefur lært í langtímaminni þínu. — Samanber Sálm 119:1, 2, 125; 2. Pétursbréf 3:1.
12. Hvað getur nemandinn gert sjálfur til að skerpa minnið?
12 Annað, sem mun koma þér að gagni, er að segja einhverjum frá því sem þú lærðir, ef til vill skólafélaga, vinnufélaga eða nágranna, innan eins eða tveggja daga. Þú gætir nefnt efnið og síðan sagt að þú viljir aðeins sjá hvort þú getir munað eftir helstu röksemdum eða ritningarstöðum sem þær eru byggðar á. Það gæti ef til vill vakið áhuga hjá þeim sem þú talar við. Jafnvel þótt það gerist ekki mun sú aðferð ein að endurtaka hina nýju vitneskju eftir að liðnir eru einn eða tveir dagar láta hana festast þér í minni. Þá munt þú í raun og veru hafa lært efnið, gert það sem hvatt er til í 2. Pétursbréfi 3:18.
Lært á virkan hátt
13, 14. Hvers vegna ættum við að vilja ná lengra en aðeins muna eftir einhverjum upplýsingum?
13 Að læra er meira en að innbyrða staðreyndir eða geta munað eftir upplýsingum. Trúhneigðir menn á dögum Jesú gerðu það með síendurteknum bænum sínum. (Matteus 6:5-7) En hvaða áhrif höfðu upplýsingarnar á þá? Voru þeir að gefa af sér réttláta ávexti? Tæplega. (Matteus 7:15-17; Lúkas 3:7, 8) Hluti vandans var sá að þekkingin komst ekki inn í hjörtu þeirra til að hafa áhrif á þau til góðs.
14 Samkvæmt orðum Péturs ætti því að vera öðruvísi farið um kristna menn, þá og nú. Hann hvetur okkur til að auðsýna í trú okkar þekkingu sem hjálpar okkur að forðast að verða óvirk eða ávaxtalaus. (2. Pétursbréf 1:5, 8) Til þess að svo reynist hvað okkur varðar verðum við að vilja vaxa í þeirri þekkingu og óska þess að hún hafi djúpstæð áhrif okkur, snerti okkar innstu strengi. Það gerist ef til vill ekki alltaf.
15. Hvaða vandamál kom upp hjá sumum kristnum Hebreum?
15 Á dögum Páls áttu kristnir Hebrear við vandamál að stríða hvað þetta snertir. Sem Gyðingar höfðu þeir nokkra þekkingu á Ritningunni. Þeir vissu um Jehóva og sumar af kröfum hans. Seinna bættu þeir við þekkingu um Messías, iðkuðu trú og voru skírðir sem kristnir menn. (Postulasagan 2:22, 37-41; 8:26-36) Er mánuðirnir og árin liðu hljóta þeir að hafa sótt kristnar samkomur þar sem þeir gátu tekið þátt í að lesa ritningarstaði og gefa athugasemdir. Engu að síður uxu sumir ekki í þekkingu. Páll skrifaði: „Þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn á ný þörf, að einhver kenni yður undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki fastri fæðu.“ (Hebreabréfið 5:12) Hvernig gat það verið? Gæti það einnig hent okkur?
16. Hvað er sífreri og hvernig hefur hann áhrif á gróður?
16 Við skulum taka sífrera sem dæmi, hina sífrosnu jörð á heimskautasvæðunum og öðrum svæðum þar sem meðalhitinn er undir frostmarki. Jarðvegurinn, klettarnir og grunnvatnið frjósa saman í harðan massa sem stundum nær allt að 900 metra dýpi. Á sumrin kann yfirborðslagið (kallað virka lagið) að þiðna. Þetta þunna, þiðnaða jarðvegslag er hins vegar yfirleitt forugt vegna þess að rakinn seytlar ekki niður í sífrerann undir því. Gróður, sem vex í þunnu yfirborðslaginu, er oft lítill og kyrkingslegur; rætur hans komast ekki gegnum sífrerann. Þú spyrð kannski hvað sífreri hefur með það að gera hvort þú sért að vaxa í þekkingu á sannindum Biblíunnar eða ekki.
17, 18. Hvernig má nota sífrera og virkt lag hans til að lýsa því sem bjó um sig hjá sumum kristnum Hebreum?
17 Sífreri lýsir vel ástandi þess manns sem notar ekki hugarorku sína á virkan hátt til að taka við nákvæmri þekkingu, muna eftir henni og nota hana. (Samanber Matteus 13:5, 20, 21.) Hugur hans er líklega fær um að læra margs konar fög, þar með talin sannindi Biblíunnar. Hann hefur mumið „undirstöðuatriði Guðs orða“ og kann að hafa orðið hæfur til að láta skírast eins og þessir kristnu Hebrear gerðu. En hann hirti þó ef til vill ekki um að „sækja fram til fullkomleikans,“ til þess sem náði lengra en ‚byrjunar-kenningarnar um Krist.‘ — Hebreabréfið 5:12; 6:1.
18 Reyndu að sjá fyrir þér suma þessara kristnu manna á þeim tíma. Þeir voru viðstaddir og vakandi en var hugur þeirra upptekinn við að læra? Voru þeir á virkan og einbeittan hátt að vaxa í þekkingu? Kannski ekki. Ef þátttaka hinna óþroskuðu í samkomunum var einhver þá mætti segja að hún hafi farið fram í þunnu virku lagi á meðan frosið dýpi var þar fyrir neðan. Rætur kjarnmikilla eða flókinna sanninda gátu ekki komist niður í þetta sífrerasvæði hugans. — Samanber Jesaja 40:24.
19. Á hvaða hátt gæti reyndur kristinn maður nú á dögum orðið eins og kristnir Hebrear?
19 Kristinn maður nú á tímum gæti verið í svipuðu fari. Þó að hann sé viðstaddur samkomurnar notar hann ef til vill ekki það tækifæri til að vaxa í þekkingu. Hvað um virka þátttöku í þeim? Fyrir nýjan aðila eða ungan kann það að kosta umtalsverða áreynslu að bjóða sig fram til að lesa ritningarstað eða gefa athugasemd og endurspegla að hann noti getu sína á góðan og hrósunarverðan hátt. En Páll sýndi að þeir sem hafa verið kristnir menn lengi ættu að færast fram fyrir þetta byrjunarstig þátttökunnar ef þeir vildu halda áfram að vaxa í þekkingu. — Hebreabréfið 5:14.
20. Hvaða sjálfsrannsókn ætti hvert og eitt okkar að gera?
20 Ef reyndur kristinn maður næði aldrei lengra en að lesa einfaldlega biblíuvers eða koma með almenna athugasemd beint frá greininni er líklegt að þátttaka hans komi aðeins frá „virka laginu“ í huga hans. Hver samkoman af annarri gæti liðið en dýpri hugsunarhæfni hans haldið áfram að vera frosin, svo að við notum áfram samlíkingu okkar við sífrerann. Við ættum að spyrja okkur: ‚Er þetta svona hjá mér? Hef ég látið andlegan sífrera taka sér bólfestu í mér? Hversu andlega vakandi er ég og áhugasamur um að læra?‘ Jafnvel þó að heiðarleg svör okkar komi illa við okkur getum við núna hafist handa við að stíga þau skref sem láta okkur vaxa í þekkingu.
21. Hvaða tillögur, sem áður hafa verið nefndar, gætum við nýtt okkur þegar við búum okkur undir eða sækjum samkomur?
21 Sérhvert okkar getur fylgt tillögunum í tölugrein 8. Óháð því hversu lengi við höfum verið tengd söfnuðinum getum við einsett okkur að sækja fast fram til þroska og meiri þekkingar. Fyrir suma mun það þýða að þeir verði að vera duglegri að undirbúa sig undir samkomurnar, kannski endurlífga venjur sem þeir fylgdu fyrir mörgum árum en lögðust síðan hægt og sígandi af. Þegar þú undirbýrð þig skaltu reyna að finna út hver aðalatriðin séu og skilja ókunnuga ritningarstaði sem notaðir eru til stuðnings röksemdafærslunni. Hafðu augun opin fyrir sérhverju nýju sjónarhorni eða hverri nýrri hlið á námsefninu. Á svipaðan hátt skaltu, meðan á samkomunni stendur, reyna að nota tillögurnar í tölugrein 10 og 11 á sjálfan þig. Leggðu þig allan fram um að vera andlega vakandi, eins og þú værir að halda háu hitastigi á huga þínum. Það mun vinna gegn sérhverri tilhneigingu til „sífreramyndunar.“ Þessi meðvitaða viðleitni mun einnig bræða hvert það „frosna“ ástand sem kann að hafa byggst upp fram að því. — Orðskviðirnir 8:12, 32-34.
Þekking — hjálp til að bera ávöxt
22. Hvernig mun það gagnast okkur að vinna að því að auka þekkingu okkar?
22 Hvernig er gagnlegt fyrir hvert og eitt okkar að vinna að því að vaxa í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists? Ef við leggjum okkur samviskusamlega fram við að halda huganum vakandi og reiðubúnum til að meðtaka þekkingu munu sáðkorn nýrra og flóknari biblíusanninda skjóta djúpum rótum og skilningur okkar aukast og verða varanlegur. Það verður sambærilegt við það sem Jesús sagði í annarri dæmisögu um hjartað. (Lúkas 8:5-12) Sáðkornin, sem falla í góða jörð, geta skotið djúpum rótum er geta stutt plöntur sem bera ávexti. — Matteus 13:8, 23.
23. Hver getur árangurinn orðið þegar við tökum til okkar 2. Pétursbréf 3:18? (Kólossubréfið 1:9-12)
23 Dæmisaga Jesú var lítið eitt frábrugðin orðum Péturs en þegar sæðið féll í góða jörð var árangurinn svipaður og Pétur lofaði: „Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu . . . Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.“ (2. Pétursbréf 1:5-8) Já, ef við vöxum í þekkingu mun það hjálpa okkur að bera ávöxt. Við munum uppgötva að það verður sífellt ánægjulegara að meðtaka enn meiri þekkingu. (Orðskviðirnir 2:2-5) Það sem við lærum mun þá miklu frekar sitja eftir í okkur og koma að gagni er við kennum öðrum að verða lærisveinar. Við munum því einnig á þennan hátt bera meiri ávöxt og verða Guði og syni hans til dýrðar. Pétur lauk síðara bréfi sínu með þessum orðum: „Vaxið í náð og þekkingu Drottins vors og frelsara Jesú Krists. Honum sé dýrðin nú og til eilífðardags.“ — 2. Pétursbréf 3:18.
[Neðanmáls]
a „[Sú viðbót] er sambærileg við það sem maður, sem hefur áhuga á að fræðast meira um tunglið, fær þegar hann klifrar upp á húsþakið sitt að sjá það betur.“
b Trú og dyggð, fyrstu tveir eiginleikarnir sem nefndir eru í þessum ritningarstað, voru til umræðu í Varðturninum 1. janúar 1994.
c Þessar tillögur geta einnig hjálpað þeim sem hafa verið kristnir menn um árabil að hafa meira út úr einkanámi sínu og undirbúningi fyrir samkomur.
Manst þú?
◻ Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á að auka þekkingu okkar?
◻ Hvernig getur nýr biblíunemandi haft meira út úr námi sínu?
◻ Hvað hættu, sem lýst er með sífrera, viljum við forðast?
◻ Hvers vegna ættum við að einsetja okkur að verða færari í að bæta við þekkingu okkar?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Þjáist ég af andlegum sífrera?