NÁMSGREIN 30
Höldum áfram að ganga á vegi sannleikans
„Ekkert gleður mig meira en að heyra að börnin mín gangi á vegi sannleikans.“ – 3. JÓH. 4.
SÖNGUR 54 „Þetta er vegurinn“
YFIRLITa
1. Hvað gleður okkur, samanber 3. Jóhannesarbréf 3, 4?
ÍMYNDAÐU þér gleðina sem Jóhannes postuli upplifði þegar hann frétti að þeir sem hann hafði hjálpað að kynnast sannleikanum þjónuðu Jehóva enn trúfastlega. Þeir þurftu að þola ýmsa erfiðleika og Jóhannes lagði sig allan fram við að styrkja trú þessara trúföstu kristnu manna sem hann áleit andleg börn sín. Á svipaðan hátt gleður það okkur þegar börnin okkar vígast Jehóva og halda áfram að þjóna honum, hvort sem þau eru okkar eigin eða andleg börn okkar. – Lestu 3. Jóhannesarbréf 3, 4.
2. Hvers vegna skrifaði Jóhannes bréfin sín þrjú?
2 Árið 98 bjó Jóhannes líklega í eða nálægt Efesus. Það má vera að hann hafi flust þangað eftir að hann losnaði úr útlegð á eyjunni Patmos. Um þetta leyti knúði heilagur andi Jehóva hann til að skrifa þrjú bréf. Tilefni bréfanna var að hvetja trúfasta kristna menn til að varðveita trú sína á Jesú og til að halda áfram að ganga á vegi sannleikans.
3. Við hvaða spurningum fáum við svör?
3 Jóhannes var síðasti postulinn á lífi og hann hafði áhyggjur af þeim áhrifum sem falskennarar höfðu á söfnuðina.b (1. Jóh. 2:18, 19, 26) Þessir fráhvarfsmenn sögðust þekkja Guð en hlýddu ekki lögum hans. Í þessari grein skoðum við hvaða innblásnu ráð Jóhannes gaf og við fáum svör við þrem spurningum: Hvað felur það í sér að ganga á vegi sannleikans? Hvaða hindrunum mætum við? Og hvernig getum við hjálpað hvert öðru að halda okkur við sannleikann?
HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR AÐ GANGA Á VEGI SANNLEIKANS?
4. Hvað felur það í sér að ganga á vegi sannleikans samkvæmt 1. Jóhannesarbréfi 2:3–6 og 2. Jóhannesarbréfi 4, 6?
4 Við verðum að þekkja sannleikann í orði Guðs, Biblíunni, til að geta gengið á vegi sannleikans. Auk þess þurfum við að halda boðorð Jehóva, það er að segja hlýða þeim. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:3–6; 2. Jóhannesarbréf 4, 6.) Jesús setti okkur fullkomið fordæmi í að hlýða Jehóva. Ein mikilvæg leið til að hlýða honum er því að fylgja eins náið í fótspor Jesú og við getum. – Jóh. 8:29; 1. Pét. 2:21.
5. Um hvað þurfum við að vera sannfærð?
5 Til að ganga á vegi sannleikans verðum við að vera sannfærð um að Jehóva sé Guð sannleikans og að allt sem hann segir okkur í orði sínu, Biblíunni, sé satt. Við verðum líka að vera sannfærð um að Jesús sé hinn fyrirheitni Messías. Margir nú til dags efast um að Jesús sé smurður konungur Guðsríkis. Jóhannes sagði að „margir svikarar“ myndu afvegaleiða þá sem væru ekki undir það búnir að verja sannleikann um Jehóva og Jesú. (2. Jóh. 7–11) Jóhannes skrifaði: „Hver er lygari ef ekki sá sem neitar að Jesús sé Kristur?“ (1. Jóh. 2:22) Eina leiðin til að láta ekki blekkjast er að lesa og hugleiða orð Guðs. Þannig kynnumst við Jehóva og Jesú. (Jóh. 17:3) Og aðeins þá verðum við sannfærð um að við höfum fundið sannleikann.
HVAÐA HINDRUNUM MÆTUM VIÐ?
6. Hvað getur reynt á unga votta?
6 Allir þjónar Guðs þurfa að vera á verði til að láta ekki blekkjast af heimspeki manna. (1. Jóh. 2:26) Ungir vottar verða sérstaklega að gæta sín á þessari gildru. Alexia,c 25 ára frönsk systir, segir: „Þegar ég var yngri höfðu hugmyndir heimsins áhrif á mig, eins og til dæmis þróunarkenningin og heimspeki manna. Það kom fyrir að þessar hugmyndir höfðuðu til mín. Samt fannst mér ég ekki bara geta hlustað á það sem var kennt í skólanum en gefa Jehóva ekki tækifæri.“ Alexia las bókina Lífið – varð það til við þróun eða sköpun? Efasemdir hennar urðu að engu á nokkrum vikum. Alexia segir: „Ég rannsakaði málið og komst að raun um að Biblían hafði að geyma sannleikann. Og mér varð ljóst að það veitir mér gleði og frið að lifa í samræmi við meginreglur hennar.“
7. Hvað megum við ekki freistast til að gera og hvers vegna?
7 Enginn kristinn maður má láta freistast til að lifa tvöföldu lífi, hvort sem hann er ungur eða gamall. Jóhannes benti á að við getum ekki gengið á vegi sannleikans og á sama tíma lifað siðlausu lífi. (1. Jóh. 1:6) Ef við viljum að Jehóva hafi velþóknun á okkur bæði núna og í framtíðinni verðum við að muna að hann sér allt. Það er því ekki hægt að syndga í leyni vegna þess að allt sem við gerum blasir við Jehóva. – Hebr. 4:13.
8. Hverju verðum við að hafna?
8 Við verðum að hafna viðhorfi heimsins til syndar. Jóhannes postuli skrifaði: „Ef við segjum: ,Við erum syndlaus,‘ blekkjum við sjálf okkur.“ (1. Jóh. 1:8) Á dögum Jóhannesar héldu fráhvarfsmenn því fram að fólk gæti átt vináttusamband við Guð þótt það lifði vísvitandi syndugu líferni. Við búum í heimi þar sem ríkir svipað viðhorf. Margir sem segjast trúa á Guð hafa ekki sama viðhorf og hann til syndar, sérstaklega þegar um kynlíf er að ræða. Í augum þeirra er það sem Jehóva álítur ranga kynhegðun einfaldlega persónulegt val.
9. Hvernig er það ungu fólki til góðs að halda sig við biblíulega sannfæringu sína?
9 Ungum vottum gæti sérstaklega fundist þrýst á sig til að hafa sama viðhorf til kynferðislegs siðleysis og skóla- eða vinnufélagar sínir. Það upplifði Aleksandar. Hann segir: „Sumar stelpur í skólanum reyndu að fá mig til að sofa hjá sér. Þær sögðu að ég hlyti að vera samkynhneigður fyrst ég ætti ekki kærustu.“ Ef þú verður fyrir svipaðri prófraun skaltu muna að þegar þú heldur þig við biblíulega sannfæringu þína varðveitirðu sjálfsvirðinguna, verndar heilsuna og tilfinningar þínar og samband þitt við Jehóva. Og í hvert sinn sem þú stenst freistingu verður auðveldara fyrir þig að gera það sem er rétt. Mundu líka að brenglað viðhorf heimsins til kynlífs á sér upptök hjá Satan. Þegar þú neitar að láta undan ertu því að ,sigra hinn vonda‘. – 1. Jóh. 2:14.
10. Hvað gerir okkur kleift að þjóna Jehóva með hreinni samvisku, samanber 1. Jóhannesarbréf 1:9?
10 Við viðurkennum rétt Jehóva til að ákveða hvað sé syndug hegðun. Og við gerum okkar ýtrasta til að syndga ekki. En þegar við syndgum játum við ranga hegðun okkar fyrir Jehóva í bæn. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 1:9.) Og ef við syndgum alvarlega leitum við hjálpar öldunganna, sem Jehóva hefur falið að annast okkur. (Jak. 5:14–16) En við ættum ekki stöðugt að finna til sektarkenndar vegna fyrri mistaka. Hvers vegna? Vegna þess að ástríkur faðir okkar færði son sinn að lausnarfórn svo að við gætum fengið syndir okkar fyrirgefnar. Jehóva meinar það sem hann segir þegar hann segist fyrirgefa iðrunarfullum syndurum. Við getum þess vegna þjónað honum með hreinni samvisku. – 1. Jóh. 2:1, 2, 12; 3:19, 20.
11. Hvernig getum við varið huga okkar gegn hugmyndum sem gætu skaðað trú okkar?
11 Við verðum að hafna hugmyndum fráhvarfsmanna. Allt frá upphafi kristna safnaðarins hefur Djöfullinn reynt að sá efasemdum í huga trúfastra þjóna Guðs. Við verðum þar af leiðandi að geta greint hvað séu staðreyndir og hvað séu lygar.d Þeir sem hata okkur gætu notað netið eða samfélagsmiðla til að reyna að grafa undan trausti okkar á Jehóva og kærleikanum til trúsystkina okkar. Munum hver stendur á bak við slíkan áróður og höfnum honum! – 1. Jóh. 4:1, 6; Opinb. 12:9.
12. Hvers vegna ættum við að styrkja trú okkar á þau sannindi sem við höfum lært?
12 Til að standast árásir Satans verðum við að styrkja traust okkar á Jesú og hlutverk hans í fyrirætlun Guðs. Við þurfum líka að treysta á einu boðleiðina sem Jehóva notar nú á dögum til að leiða söfnuð sinn. (Matt. 24:45–47) Við eflum traust okkar með því að rannsaka orð Guðs að staðaldri. Þá verður trú okkar eins og tré sem teygir rætur sínar djúpt í jörðina. Páll tók í svipaðan streng þegar hann skrifaði söfnuðinum í Kólossu. Hann sagði: „Þið hafið tekið á móti Kristi Jesú Drottni okkar og nú skuluð þið halda áfram að ganga í hlýðni við hann. Verið rótföst, byggð á honum og stöðug í trúnni.“ (Kól. 2:6, 7) Satan og þeir sem eru undir áhrifum hans geta ekkert gert til að gera okkur óstöðug í trúnni ef við höfum byggt hana upp og gert hana sterka. – 2. Jóh. 8, 9.
13. Hverju búumst við við og hvers vegna?
13 Við búumst við að heimurinn hati okkur. (1. Jóh. 3:13) Jóhannes minnir okkur á að ,allur heimurinn sé á valdi hins vonda‘. (1. Jóh. 5:19) Satan verður æ reiðari eftir því sem nær dregur endalokum þessa heims. (Opinb. 12:12) Hann beitir ekki bara lúmskum aðferðum, eins og lygum fráhvarfsmanna eða freistingu til að fremja siðleysi. Hann notar einnig beinar ofsóknir. Satan veit að hann hefur ekki mikinn tíma eftir til að reyna að stöðva boðunina eða brjóta niður trú okkar. Það kemur okkur því ekki á óvart að hömlur séu á starfi okkar eða það bannað í ýmsum löndum. En þrátt fyrir það gefast bræður okkar og systur í þessum löndum ekki upp. Þau sýna og sanna að sama hvað Satan gerir okkur getum við unnið sigur!
HJÁLPUM HVERT ÖÐRU AÐ HALDA OKKUR VIÐ SANNLEIKANN
14. Hvernig getum við hjálpað bræðrum okkar og systrum að halda sig við sannleikann?
14 Til að hjálpa bræðrum okkar og systrum að halda sig við sannleikann verðum við að sýna samkennd. (1. Jóh. 3:10, 11, 16–18) Við ættum ekki að elska hvert annað bara þegar vel gengur heldur líka þegar upp koma erfiðleikar. Veistu til dæmis um einhvern sem hefur misst ástvin í dauðann og þarf á huggun eða annarri hjálp að halda? Eða hefurðu heyrt af trúsystkinum sem hafa orðið illa úti vegna náttúruhamfara og þurfa aðstoð við að endurbyggja ríkissalinn sinn eða heimili? Það er ekki aðeins með því sem við segjum að við sýnum hversu djúpt kærleikur okkar og samkennd ristir heldur fyrst og fremst með því sem við gerum.
15. Hvað þurfum við að gera eins og fram kemur í 1. Jóhannesarbréfi 4:7, 8?
15 Við líkjum eftir ástríkum föður okkar á himni þegar við sýnum hvert öðru kærleika. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:7, 8.) Mikilvæg leið til að sýna kærleika er að fyrirgefa hvert öðru. Einhver gæti til dæmis sært okkur en beðist síðan afsökunar. Við sýnum kærleika með því að fyrirgefa og láta málið vera úr sögunni. (Kól. 3:13) Það særði bróður að nafni Aldo þegar bróðir sem hann bar mikla virðingu fyrir sagði eitthvað særandi um fólk af hans þjóðerni. Aldo segir: „Ég bað stöðugt til Jehóva um hjálp til að bera ekki kala til þessa bróður.“ En það var ekki það eina sem Aldo gerði. Hann ákvað að bjóða bróðurnum með sér í boðunina. Meðan þeir voru í boðuninni lét Aldo bróðurinn vita hvaða áhrif tal hans hefði haft á sig. „Þegar hann skildi að hann hafði sært mig baðst hann afsökunar,“ segir Aldo. „Ég heyrði á röddinni hans að hann sá mikið eftir því sem hann hafði sagt. Við létum málið vera úr sögunni og kvöddumst sem vinir.“
16, 17. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?
16 Jóhannes postuli lét sér innilega annt um andlega velferð trúsystkina sinna og þessi kærleikur kemur skýrt fram í leiðbeiningum hans í innblásnum bréfum hans þrem. Það er uppörvandi til þess að vita að menn og konur eins og hann eru smurð heilögum anda til að ríkja með Kristi. – 1. Jóh. 2:27.
17 Megum við taka til okkar þær leiðbeiningar sem við höfum rætt. Verum staðráðin í að ganga á vegi sannleikans og hlýða Jehóva á öllum sviðum lífsins. Lesum og hugleiðum orð hans og setjum traust okkar á það. Byggjum upp sterka trú á Jesú. Höfnum heimspeki manna og hugmyndum fráhvarfsmanna. Látum ekki freistast til að lifa tvöföldu lífi. Forðumst synd. Lifum eftir háleitum siðferðisreglum Jehóva. Og hjálpum trúsystkinum okkar að vera sterk með því að fyrirgefa þeim sem særa okkur og hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda. Þá munum við, þrátt fyrir erfiðleika okkar, geta haldið áfram að ganga á vegi sannleikans.
SÖNGUR 49 Gleðjum hjarta Jehóva
a Við búum í heimi þar sem faðir lyginnar, Satan, ræður ríkjum. Það getur þess vegna reynt verulega á að halda sig á vegi sannleikans. Kristnir menn sem voru uppi í lok fyrstu aldar áttu í sömu baráttu. Til að hjálpa bæði þeim og okkur innblés Jehóva Jóhannesi postula að skrifa þrjú bréf. Innihald þeirra varpar ljósi á þær hindranir sem við mætum og hvernig við getum sigrast á þeim.
b Sjá rammann „Tilefni bréfa Jóhannesar“.
c Sumum nöfnum er breytt.
d Sjá námsgreinina „Ertu með staðreyndirnar á hreinu?“ í Varðturninum ágúst 2018.
f MYND: Í skóla ungrar systur er rekinn áróður fyrir samkynhneigð. (Í sumum menningarsamfélögum eru regnbogalitirnir notaðir til stuðnings við samkynhneigða.) Síðan gefur hún sér tíma til að styrkja trú sína með biblíunámi. Það hjálpar henni að bregðast rétt við erfiðum aðstæðum.