16. KAFLI
Gakktu með Guði og ‚gerðu það sem er rétt‘
1–3. (a) Af hverju stöndum við í þakkarskuld við Jehóva? (b) Til hvers ætlast hinn kærleiksríki „björgunarmaður“ af okkur?
ÍMYNDAÐU þér að þú lendir í sjávarháska. Þú ert búinn að gefa upp alla von en þá birtist björgunarmaður. Hvernig ætli þér væri innanbrjósts þegar hann væri búinn að bjarga þér úr háskanum og segði við þig: „Þú ert óhultur núna“? Ætli þér fyndist þú ekki standa í þakkarskuld við hann? Þú átt honum lífið að þakka.
2 Þetta dæmi lýsir að sumu leyti því sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. Við stöndum auðvitað í þakkarskuld við hann. Hann gaf lausnargjaldið svo að við gætum bjargast úr greipum syndar og dauða. Okkur finnst við vera óhult því að við vitum að meðan við iðkum trú á þessa dýrmætu fórn eru syndir okkar fyrirgefnar og eilíf framtíð okkar tryggð. (1. Jóhannesarbréf 1:7; 4:9) Eins og fram kom í 14. kafla er lausnargjaldið mesta kærleiks- og réttlætisverk Jehóva. Hver ættu viðbrögð okkar að vera?
3 Það er viðeigandi að hugleiða til hvers hinn kærleiksríki „björgunarmaður“ ætlast af okkur í staðinn. Hann segir fyrir munn spámannsins Míka: „Hann hefur sagt þér, maður, hvað er gott. Og til hvers ætlast Jehóva af þér? Þess eins að þú gerir það sem er rétt, sýnir tryggð og gangir hógvær með Guði þínum.“ (Míka 6:8) Þú tekur eftir að eitt af því sem Jehóva ætlast til af okkur er að ‚gera það sem er rétt‘. Hvernig gerum við það?
Að leggja rækt við réttlæti
4. Hvernig vitum við að Jehóva ætlast til þess að við lifum eftir réttlátum mælikvarða hans?
4 Jehóva ætlast til þess að við lifum eftir þeim mælikvarða sem hann setur um rétt og rangt. Mælikvarði hans er réttlátur og réttvís þannig að við leggjum rækt við réttlæti og réttvísi með því að fylgja honum. „Lærið að gera gott, leitist við að gera rétt,“ segir í Jesaja 1:17. Orð Guðs hvetur okkur eindregið til að ‚leitast við að gera rétt‘. (Sefanía 2:3) Það hvetur okkur jafnframt til þess að „íklæðast hinum nýja manni sem er skapaður samkvæmt vilja Guðs og byggist á sönnu réttlæti“. (Efesusbréfið 4:24) Réttlæti sannleikans útilokar ofbeldi, óhreinleika og siðleysi því að það stríðir gegn því sem heilagt er. – Sálmur 11:5; Efesusbréfið 5:3–5.
5, 6. (a) Af hverju er það ekki byrði að fylgja mælikvarða Jehóva? (b) Hvernig sýnir Biblían að það er áframhaldandi ferli að leggja rækt við réttlæti?
5 Er það íþyngjandi að lifa eftir réttlátum mælikvarða Jehóva? Nei, þeim sem laðast að Jehóva þykja kröfur hans ekki íþyngjandi. Við elskum Guð og allt sem honum er kært þannig að við viljum þóknast honum með líferni okkar. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Mundu að Jehóva „elskar réttlæti“. (Sálmur 11:7) Til að líkja eftir réttlæti hans verðum við að læra að elska það sem hann elskar og hata það sem hann hatar. – Sálmur 97:10.
6 Það er engan veginn auðvelt fyrir ófullkomna menn að leggja rækt við réttlæti. Við þurfum að afklæðast hinum gamla manni með syndugum verkum hans og íklæðast hinum nýja. Biblían segir að nýi persónuleikinn ‚endurnýist‘ með nákvæmri þekkingu. (Kólossubréfið 3:9, 10) Frummálsorðið, sem þýtt er „endurnýjast“, gefur til kynna að það sé áframhaldandi ferli að íklæðast hinum nýja manni, að það kosti dugnað og þrautseigju því að stundum verður okkur á í hugsun, orði eða verki, hversu hart sem við leggjum að okkur að gera rétt. – Rómverjabréfið 7:14–20; Jakobsbréfið 3:2.
7. Hvernig eigum við að líta á það ef okkur verður eitthvað á þótt við reynum að leggja rækt við réttlæti?
7 En hvað ef okkur verður eitthvað á þótt við reynum að leggja rækt við réttlæti? Það er alltaf alvörumál að syndga og við viljum auðvitað ekki gera lítið úr því. En við megum ekki heldur gefast upp og ímynda okkur að við séum svo gölluð að við séum óhæf til að þjóna Jehóva. Í miskunn sinni hefur hann gert ráðstafanir til þess að syndarar, sem iðrast í einlægni, endurheimti hylli hans. Orð Jóhannesar postula eru einkar hughreystandi: „Ég skrifa ykkur þetta til að þið syndgið ekki.“ En hann bætir svo við: „En ef einhver drýgir synd [vegna ófullkomleikans sem hann tók í arf] höfum við hjálpara hjá föðurnum, Jesú Krist.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1) Já, með lausnarfórn Jesú hefur Jehóva séð til þess að við getum þjónað sér velþóknanlega þó að okkur sé eðlislægt að syndga. Vekur það ekki löngun hjá okkur til að þóknast honum sem best við getum?
Réttlæti Guðs og fagnaðarboðskapurinn
8, 9. Hvernig vitnar boðun fagnaðarboðskaparins um réttlæti Jehóva?
8 Við getum iðkað réttlæti, já, meira að segja líkt eftir réttlæti Guðs, með því að leggja okkur í líma við að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið. Hvernig tengist fagnaðarboðskapurinn réttlæti Jehóva?
9 Jehóva bindur ekki enda á þennan illa heim án þess að vara við því fyrst. Það „þarf fyrst að boða öllum þjóðum fagnaðarboðskapinn,“ sagði Jesús í spádómi sínum um atburði endalokatímans. (Markús 13:10; Matteus 24:3) Orðið „fyrst“ gefur til kynna að eitthvað annað fylgi í kjölfar þess að fagnaðarboðskapurinn sé boðaður um allan heim. Þetta er meðal annars þrengingin mikla þar sem óguðlegir menn farast og gatan er greidd fyrir réttlátum nýjum heimi. (Matteus 24:14, 21, 22) Enginn getur réttilega sakað Jehóva um ranglæti gagnvart óguðlegum mönnum. Með því að vara þá við er hann að gefa þeim meira en nóg tækifæri til að bæta ráð sitt og umflýja tortíminguna. – Jónas 3:1–10.
10, 11. Hvernig endurspeglum við réttlæti Guðs með því að boða fagnaðarboðskapinn?
10 Hvernig endurspeglar boðun okkar réttlæti Guðs? Í fyrsta lagi er ekki nema rétt að við gerum það sem við getum til að hjálpa öðrum að bjargast. Lítum aftur á samlíkinguna við það að þér sé bjargað úr sjávarháska. Þegar þú ert kominn í björgunarbátinn reynirðu auðvitað að bjarga öðrum sem eru enn í sjónum. Okkur er sömuleiðis skylt að hjálpa þeim sem eru enn að svamla í „sjó“ þessa illa heims. Margir hafna vissulega því sem við boðum, en meðan þolinmæði Jehóva varir er okkur skylt að gefa þeim „tækifæri til að iðrast“ og eiga von um björgun. – 2. Pétursbréf 3:9.
11 Við sýnum réttlæti á annan mikilvægan hátt með því að boða öllum fagnaðarboðskapinn: Við erum óhlutdræg. Þú manst að „Guð mismunar ekki fólki heldur tekur hann á móti hverjum þeim sem óttast hann og gerir rétt, sama hverrar þjóðar hann er“. (Postulasagan 10:34, 35) Við megum ekki dæma fólk fyrir fram ef við viljum líkja eftir réttlæti hans, heldur þurfum við að segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum óháð litarhætti þeirra, fjárhag eða þjóðfélagsstöðu. Þá gefum við öllum sem vilja tækifæri til að hlusta og taka við fagnaðarboðskapnum. – Rómverjabréfið 10:11–13.
Framkoma okkar við aðra
12, 13. (a) Hvers vegna ættum við ekki að vera fljót til að dæma aðra? (b) Hvað merkja orð Jesú „hættið að dæma“ og „hættið að fordæma“? (Sjá einnig neðanmáls.)
12 Við getum líka gert það sem er rétt með því að koma fram við aðra á sama hátt og Jehóva kemur fram við okkur. Það er ósköp auðvelt að vera dómharður, gagnrýna aðra fyrir galla þeirra og tortryggja hvatir þeirra. En myndum við vilja að Jehóva grannskoðaði hvatir okkar og galla án nokkurrar miskunnar? Hann kemur ekki þannig fram við okkur. Sálmaritarinn segir: „Ef þú, Jah, gæfir gætur að syndum, Jehóva, hver gæti þá staðist?“ (Sálmur 130:3) Erum við ekki þakklát fyrir að eiga okkur réttlátan og miskunnsaman Guð sem kýs að einblína ekki á galla okkar? (Sálmur 103:8–10) Hvernig ættum við þá að koma fram við aðra?
13 Ef við skiljum miskunnina í réttlæti Guðs erum við ekki fljót til að dæma aðra í málum sem koma okkur ekki við eða skipta litlu máli. „Hættið að dæma svo að þið verðið ekki dæmd,“ sagði Jesús í fjallræðunni. (Matteus 7:1) Samkvæmt frásögn Lúkasar bætti hann við: „Hættið að fordæma og þið verðið alls ekki fordæmd.“a (Lúkas 6:37) Jesús vissi greinilega að ófullkomnum mönnum er gjarnt að vera dómharðir. Ef einhver meðal áheyrenda hans átti vanda til að dæma aðra harkalega átti hann að hætta því.
14. Hvers vegna verðum við að ‚hætta að dæma‘ aðra?
14 Af hverju verðum við að ‚hætta að dæma‘ aðra? Meðal annars vegna þess að vald okkar er takmarkað. Lærisveinninn Jakob minnir okkur á þetta: „Það er aðeins einn löggjafi og dómari“ – Jehóva. Hann spyr því hnitmiðað: „Hver ert þú sem dæmir náunga þinn?“ (Jakobsbréfið 4:12; Rómverjabréfið 14:1–4) Auk þess erum við syndug að eðlisfari og það getur hæglega valdið því að dómar okkar séu ósanngjarnir. Alls konar viðhorf og hvatir, til dæmis fordómar, sært stolt, öfund og sjálfumgleði, geta orðið þess valdandi að við sjáum ekki meðbræður okkar í réttu ljósi. Okkur eru ýmis önnur takmörk sett sem við ættum að hugleiða, og það ætti að virka sem hemill á að við séum aðfinnslusöm í garð annarra. Við sjáum ekki hvað býr í hjörtum annarra og þekkjum ekki aðstæður þeirra til hlítar. Við erum ekki þess umkomin að eigna trúsystkinum okkar rangar hvatir eða gagnrýna það sem þau gera í þjónustu Jehóva. Það er miklu betra að líkja eftir Jehóva með því að hafa augun opin fyrir hinu góða í fari trúsystkina okkar, heldur en að einblína á galla þeirra.
15. Hvers konar orð og meðferð eiga ekki að eiga sér stað meðal tilbiðjenda Guðs og hvers vegna?
15 Hvað um fjölskylduna? Því miður falla einhverjir hörðustu dómarnir á heimilinu, einmitt þar sem við ættum helst að njóta skjóls og friðar. Það er alls ekki óalgengt að eiginmenn, eiginkonur eða foreldrar „dæmi“ hina í fjölskyldunni til að sitja undir stöðugri skothríð meiðandi orða eða líkamlegu ofbeldi. En grimm orð, nöpur kaldhæðni og líkamlegt ofbeldi eiga auðvitað ekki heima meðal þeirra sem dýrka Guð. (Efesusbréfið 4:29, 31; 5:33; 6:4) Ráð Jesú um að ‚hætta að dæma‘ og ‚hætta að fordæma‘ falla ekki úr gildi þegar við göngum yfir þröskuldinn inn á heimili okkar. Eins og þú manst iðkum við réttlæti með því að koma fram við aðra eins og Jehóva kemur fram við okkur. Og Guð er aldrei hranalegur eða grimmur í samskiptum við okkur heldur er hann „mjög umhyggjusamur“ við þá sem elska hann. (Jakobsbréfið 5:11) Hann er fögur fyrirmynd til að líkja eftir!
Öldungar sem þjóna „með réttvísi“
16, 17. (a) Til hvers ætlast Jehóva af safnaðaröldungum? (b) Hvað þarf að gera og hvers vegna ef syndari sýnir ekki sanna iðrun?
16 Það er skylda okkar allra að leggja rækt við réttlæti en öldungar kristna safnaðarins þurfa að gæta þess öðrum fremur. Sjáðu hvernig Jesaja lýsir ‚höfðingjum‘, eða öldungum, í spádómi sínum: „Konungur mun ríkja með réttlæti og höfðingjar stjórna með réttvísi.“ (Jesaja 32:1) Já, Jehóva ætlast til þess að öldungarnir þjóni hagsmunum réttlætisins. Hvernig gera þeir það?
17 Þetta eru karlmenn sem uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar, og þeir gera sér ljóst að réttlætið útheimtir að söfnuðinum sé haldið hreinum. Stundum þurfa þeir að dæma í málum safnaðarmanna sem hafa syndgað alvarlega. Þeir eru minnugir þess að réttlæti Guðs leitast við að sýna miskunn ef mögulegt er og reyna því að vekja iðrun og eftirsjá hjá syndaranum. En hvað gerist ef syndarinn sýnir ekki sanna iðrun þó að þeir reyni að hjálpa honum til þess? Orð Jehóva gefur ákveðin en fullkomlega réttlát fyrirmæli um hvað þá skuli gera: „Vísið hinum vonda úr ykkar hópi.“ Þetta þýðir að honum skuli vikið úr söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:11–13; 2. Jóhannesarbréf 9–11) Öldungunum þykir sorglegt að þurfa að grípa til þessa úrræðis en þeir vita að það er nauðsynlegt til að varðveita söfnuðinn siðferðilega og andlega hreinan. Engu að síður vonast þeir til þess að syndarinn komi til sjálfs sín fyrr eða síðar og snúi aftur til safnaðarins. – Lúkas 15:17, 18.
18. Hvað hafa öldungarnir hugfast þegar þeir gefa biblíuleg ráð?
18 Öldungarnir þjóna einnig hagsmunum réttlætisins með því að gefa biblíuleg ráð þegar þörf krefur. Þeir eru auðvitað ekki að leita að göllum í fari annarra og þeir grípa alls ekki hvert tækifæri sem gefst til að leiðrétta fólk. En einhver í söfnuðinum gæti ‚farið út af sporinu án þess að átta sig á því‘ og þá reyna öldungarnir að „leiðrétta hann mildilega“, minnugir þess að réttlæti Guðs er hvorki miskunnarlaust né tilfinningalaust. (Galatabréfið 6:1) Þeir eru hvorki hörkulegir né skamma þann sem varð eitthvað á heldur eru þeir uppörvandi og leiðbeina honum hlýlega. Jafnvel ef þeir þurfa að áminna skýrt og ákveðið, til dæmis að útlista berum orðum hvaða afleiðingar það hafi að fylgja óviturlegri stefnu, hafa þeir hugfast að hinn villuráfandi er einn af sauðum Jehóva.b (Lúkas 15:7) Ef leiðbeiningar eða áminningar eru augljóslega sprottnar af kærleika og veittar í kærleika er mun líklegra en ella að hinn villuráfandi láti sér segjast.
19. Hvaða ákvarðanir þurfa öldungarnir að taka og á hverju verða þeir að byggja þær?
19 Öldungar þurfa oft að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á trúsystkini þeirra. Til dæmis funda þeir með vissu millibili til að kanna hvort þeir geti mælt með öðrum bræðrum í söfnuðinum til að starfa sem öldungar eða safnaðarþjónar. Öldungarnir vita hve mikilvægt það er að vera óhlutdrægir. Þeir treysta því ekki á tilfinninguna varðandi slík meðmæli heldur hafa kröfur Guðs að leiðarljósi. Þannig gæta þeir þess að gera þetta „án allra fordóma og hlutdrægni“. – 1. Tímóteusarbréf 5:21.
20, 21. (a) Hvað leggja öldungarnir sig fram við og hvers vegna? (b) Hvað geta öldungarnir gert til að „hughreysta niðurdregna“?
20 Öldungarnir leggja rækt við réttlæti Guðs á ýmsa aðra vegu. Eftir að Jesaja boðar að öldungarnir þjóni „með réttvísi“ segir hann: „Hver og einn verður eins og skjól fyrir vindi og skýli í slagviðri, eins og lækir í vatnslausu landi, eins og skuggi af stórum hamri í skrælnuðu landi.“ (Jesaja 32:1, 2) Öldungar kappkosta því að hughreysta trúsystkini sín og endurnæra þau.
21 Margt er fólki mótdrægt og íþyngjandi nú á dögum svo að margir eru uppörvunar þurfi. Hvað getið þið öldungar gert til að „hughreysta niðurdregna“? (1. Þessaloníkubréf 5:14) Hlustið á þá með samúð og skilningi. (Jakobsbréfið 1:19) Kannski þurfa þeir að létta á hjarta sínu og segja einhverjum sem þeir treysta frá áhyggjum sínum. (Orðskviðirnir 12:25) Fullvissið þá um að bæði Jehóva og trúsystkini þeirra meti þá mikils og elski þá. (1. Pétursbréf 1:22; 5:6, 7) Og þið getið beðið fyrir þeim og með þeim. Það getur verið einkar hughreystandi að heyra öldung biðja fyrir manni. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Guð réttlætisins tekur eftir því sem þið gerið í kærleika til að hjálpa niðurdregnum.
Öldungar endurspegla réttlæti Jehóva þegar þeir uppörva niðurdregna.
22. Hvernig getum við líkt eftir réttlæti Jehóva og með hvaða árangri?
22 Já, við nálgumst Jehóva æ meir með því að líkja eftir réttlæti hans. Við erum að sýna réttlæti Guði að skapi þegar við fylgjum réttlátum mælikvarða hans, segjum fólki frá fagnaðarboðskapnum sem getur bjargað því og horfum á kosti annarra en ekki galla. Þið öldungar endurspeglið réttlæti Guðs þegar þið standið vörð um hreinleika safnaðarins, gefið uppbyggjandi biblíuleg ráð, takið ákvarðanir án hlutdrægni og hughreystið niðurdregna. Það hlýtur að gleðja Jehóva ósegjanlega að horfa niður af himni og sjá þjóna sína gera sitt besta til að ganga með honum og ‚gera það sem er rétt‘.
a Samkvæmt frummálinu lýsa sagnirnar „dæma“ og „fordæma“ samfelldri, yfirstandandi athöfn. Menn voru að dæma og fordæma en áttu að hætta því.
b Biblían segir í 2. Tímóteusarbréfi 4:2 að öldungar þurfi stundum að ‚áminna, ávíta og hvetja‘. Gríska orðið parakaleʹo, sem þýtt er ‚hvetja‘, getur merkt ‚að uppörva‘. Skylt grískt orð, paraʹkletos, getur merkt ‚málafærslumaður‘. Öldungarnir eiga því að hjálpa þeim sem þarfnast hjálpar í trúnni, jafnvel þegar þeir áminna með festu.