Haldið áfram að lifa sem börn Guðs
„Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 3:10.
1, 2. Hvaða heilræði postulans athugum við nú í yfirferð okkar yfir 1. Jóhannesarbréf?
JEHÓVA á alheimsfjölskyldu og sumir menn tilheyra henni. Þeir eru börn Guðs. En í hverju eru þeir ólíkir öðrum?
2 Í sínu fyrsta innblásna bréfi sýnir Jóhannes postuli fram á hvaða menn það eru sem njóta slíkrar blessunar. Hann gefur þar líka ráð til að hjálpa þeim að halda áfram að lifa sem börn Guðs. Leiðbeiningar hans eru öllum vígðum vottum Jehóva til gagns.
Hinn mikli kærleikur Guðs
3. Hvernig hafa sumir orðið „börn Guðs“ og hvernig lítur heimurinn á þá?
3 Jóhannes nefnir þá miklu von sem smurðir kristnir menn hafa. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:1-3.) Hvílíkan kærleika hefur Jehóva sýnt þeim með því að taka sér þá fyrir andlega syni til að þeir geti kallast „Guðs börn“! (Rómverjabréfið 5:8-10) „Heimurinn“ — hið rangláta mannfélag — hefur ekki til að bera sama guðsótta, markmið og vonir sem þeir. Þetta veraldlega þjóðfélag hatar Krist og fylgjendur hans og þar með einnig föðurinn. (Jóhannes 15:17-25) Því getur verið að heimurinn þekki hina smurðu sem einstaklinga en ekki sem börn Guðs ‚vegna þess að hann þekkir ekki‘ Jehóva. — 1. Korintubréf 2:14.
4. Hvað ættu allir sem hafa von um himneskt líf að gera?
4 Hinir smurðu eru nú börn Guðs. Jóhannes segir þó að það sé „enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða“ eftir að hafa dáið trúfastir og fengið upprisu til lífs á himnum í andlegum líkama. (Filippíbréfið 3:20, 21) Þegar Guð „birtist“ verða þeir hins vegar „honum líkir“ og munu „sjá hann eins og hann er,“ sem ‚Jehóva, andann.‘ (2. Korintubréf 3:17, 18, NW) Allir sem hafa „þessa von“ um himneskt líf ættu að finna sig knúna til að hreinsa sig „eins og Jehóva er hreinn.“ (NW) Þótt hinir smurðu séu enn ófullkomnir ættu þeir að lifa hreinu lífi sem samræmist von þeirra um að sjá hinn hreina, heilaga Guð á himnesku tilverusviði. — Sálmur 99:5, 9; 2. Korintubréf 7:1.
Iðkum réttlæti
5, 6. (a) Hvað gera þeir í augum Guðs sem iðka synd? (b) Hvernig er ástatt með þá sem ‚eru stöðugir í‘ Jesú Kristi?
5 Að lifa sem börn Guðs felur líka í sér að gera það sem er réttlátt. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:4, 5.) „Hver sem synd drýgir fremur og lögmálsbrot“ frá sjónarhóli Jehóva, því að hann brýtur lög Guðs. (Jesaja 33:22; Jakobsbréfið 4:12) Öll ‚synd er lögmálsbrot,‘ brot á lögum Guðs. Að iðka synd stríðir gegn anda kristninnar og við erum þakklát fyrir að Jesús Kristur skyldi ‚birtast‘ sem maður til að ‚taka burt syndir vorar.‘ Þar eð „í honum er engin synd“ var hann fær um að bera fram fyrir Guð einu friðþægingarfórnina sem var fyllilega fullnægjandi. — Jesaja 53:11, 12; Hebreabréfið 7:26-28; 1. Pétursbréf 2:22-25.
6 „Hver sem er sameinaður honum [syninum] iðkar ekki synd.“ (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:6, sjá NW.) Þar sem við erum ófullkomnir getum við syndgað af og til, en synd er ekki venja þeirra sem eru sameinaðir syninum og þar með einnig föðurnum. Þeir sem iðka synd hafa ekki „séð“ Jesú með augum trúarinnar, og þeir sem temja sé synd eins og fráhvarfsmennirnir ‚þekkja‘ eða viðurkenna Krist ekki sem „Guðs lamb“ er friðþægir fyrir syndir. — Jóhannes 1:36.
7, 8. Hverjum tilheyrir samkvæmt 1. Jóhannesarbréfi 3:7, 8 sá sem iðkar synd að yfirlögðu ráði, en til hvers „birtist“ sonur Guðs?
7 Jehóva varar lesendur bréfsins við því að láta leiðast afvega. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:7, 8.) „Látið engan villa yður,“ segir postulinn og bætir við: „Sá sem iðkar réttlætið [með því að halda lög Guðs] er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur.“ Syndugt eðli okkar kemur í veg fyrir að við séum réttlát í sama mæli og okkar mikla fyrirmynd. Vegna óverðskuldaðrar náðar Jehóva geta smurðir fylgjendur Jesú samt sem áður lifað sem börn Guðs.
8 Sá sem iðkar synd að yfirlögðu ráði „heyrir djöflinum til“ sem hefur syndgað „frá upphafi“ uppreisnar sinnar gegn Jehóva. En sonur Guðs „birtist“ til að „brjóta niður verk“ Satans sem miða að því að auka á synd og illsku. Í því felst að gera að engu áhrif Adamsdauðans með friðþægingarfórn Krists og með því að reisa upp þá sem hvíla í Helju, svo og að merja höfuð Satans. (1. Mósebók 3:15; 1. Korintubréf 15:26) Þar til það gerist skulum við, hinar smurðu leifar og ‚múgurinn mikli,‘ vera á varðbergi gegn synd og óréttlæti.
Við verðum að halda lög Guðs
9. Í hvaða skilningi getur andagetinn kristinn maður ekki iðkað synd og hvers vegna?
9 Jóhannes gerir þessu næst greinarmun á börnum Guðs og djöfulsins. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:9-12.) „Hver sem af Guði er fæddur drýgir ekki synd,“ gerir sér ekki að venju að syndga. Það sem „Guð hefur í hann sáð,“ heilagur andi Jehóva, veitir honum ‚endurfæðingu‘ til himneskrar vonar og býr í honum nema því aðeins að einstaklingurinn snúist á móti honum og ‚hryggi‘ þar með andann með þeim afleiðingum að Guð taki hann burt. (1. Pétursbréf 1:3, 4, 18, 19, 23; Efesusbréfið 4:30) Vilji andasmurður kristinn maður halda áfram að vera barn Guðs má hann ekki iðka synd. Sem ‚skapaður á ný‘ íklæddur ‚nýjum manni‘ berst hann á móti syndinni. Hann hefur „komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur,“ og er ekki í hjarta sér ávanasyndari. — 2. Korintubréf 5:16, 17; Kólossubréfið 3:5-11; 2. Pétursbréf 1:4.
10. Nefnið eina leið til að greina á milli barna Guðs og barna djöfulsins.
10 Eitt af því sem greinir á milli barna Guðs og djöfulsins er þetta: „Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.“ Ranglæti er svo einkennandi fyrir börn djöfulsins að þau ‚geta ekki sofið nema þau hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þau hafi fellt einhvern,‘ en það er einmitt það sem fráhvarfsmenn vilja gera drottinhollum kristnum mönnum. — Orðskviðirnir 4:14-16.
11. (a) Nefnið aðra leið til að þekkja þá sem ekki eru börn Guðs. (b) Hvað ætti tilhugsunin um atferli Kains að hjálpa okkur til að gera?
11 ‚Sá sem elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.‘ Það er sá „boðskapur,“ sem við höfum heyrt „frá upphafi“ þjónustu okkar sem vottar Jehóva, að við „eigum að elska hver annan.“ (Jóhannes 13:34) Við erum því ‚ekki eins og Kain,‘ sem sýndi að hann „heyrði hinum vonda til“ með því að ‚myrða bróður sinn‘ með ofbeldisverki sem er einkennandi fyrir manndráparann Satan. (1. Mósebók 4:2-10; Jóhannes 8:44) Kain drap Abel vegna þess að „verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.“ Það að íhuga lífsstefnu Kains ætti sannarlega að koma okkur til að varast viðlíka hatur í garð andlegra bræðra okkar.
Að elska „í verki og sannleika“
12. Hvernig vitum við „að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins“ og hvað merkir það?
12 Ef við líktum eftir Kain værum við andlega dauðir. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:13-15.) Hann hataði bróður sinn svo ákaft að hann drap hann, og okkur undrar ekki að heimurinn skuli hata okkur á svipaðan hátt því að Jesús sagði það fyrir. (Markús 13:13) En „vér vitum [treystum], að vér erum komnir yfir frá dauðanum [hinum andlega] til lífsins [hins eilífa], af því að vér elskum bræður vora,“ samvotta okkar. Sökum þessa bróðurkærleika og trúar á Krist erum við ekki lengur ‚dauðir‘ í afbrotum og syndum heldur hefur Guð létt af okkur fordæmingu sinni og vakið okkur upp af andlegum dauða okkar og gefið von um eilíft líf. (Jóhannes 5:24; Efesusbréfið 2:1-7) Kærleikslausir fráhvarfsmenn hafa enga slíka von því að „sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum [hinum andlega].“
13. Hvers vegna ættum við að biðja um hjálp Guðs ef við hötum bróður okkar?
13 Í raun er „hver sem hatar bróður sinn . . . manndrápari.“ Þótt ekki sé framið bókstaflegt morð (eins og þegar Kain myrti Abel sökum öfundar og haturs) vill sá sem hatar andlegan bróður sinn hann feigan. Þar eð Jehóva les hjörtun er sá dæmdur sem ber hatur í brjósti. (Orðskviðirnir 21:2; samanber Matteus 5:21, 22.) Enginn slíkur iðrunarlaus „manndrápari,“ enginn sem hatar trúbróður sinn, „hefur eilíft líf í sér.“ Ef við hötum einhvern samvott okkar í fylgsnum hjartans, ættum við þá ekki að biðja Jehóva um hjálp til að breyta viðhorfum okkar í bróðurkærleika?
14. Hversu langt á bróðurkærleikur okkar að ná?
14 Ef við eigum að halda áfram að lifa sem börn Guðs verðum við að sýna bróðurkærleika í orði og verki. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:16-18.) Það ættum við að geta því að ‚við þekkjum kærleikann af því að Jesús lét lífið fyrir okkur.‘ Þar eð Jesús sýndi svo mikinn kærleika ættum við að sýna trúbræðrum okkar sams konar kærleika byggðan á meginreglum (á grísku agape). Á ofsóknartímum er okkur til dæmis skylt „að láta lífið fyrir bræðurna“ eins og Priskilla og Akvílas sem ‚stofnuðu lífi sínu í hættu fyrir Pál postula.‘ — Rómverjabréfið 16:3, 4; Jóhannes 15:12, 13.
15. Ef bróðir er þurfandi og við höfum „heimsins gæði,“ hvað útheimtir kærleikurinn þá af okkur?
15 Ef við erum reiðubúin að gefa líf okkar fyrir bræðurna ættum við að vera fús til að gera fyrir þá hluti sem krefjast minna af okkur. Setjum sem svo að við höfum „heimsins gæði“ — fé, fæði, föt og því um líkt sem heimurinn gefur okkur möguleika á. Við kannski ‚horfum á‘ þurfandi bróður okkar, ekki aðeins sjáum honum bregða fyrir heldur virðum hann vandlega fyrir okkur. Neyð hans getur ‚lokið upp hjarta okkar‘ eða innstu tilfinningum. En hvað ef við harðlokum þessum ‚dyrum‘ með því að leyfa eigingirni að bera hærri hlut af löngun okkar til að hjálpa honum? Hvernig er „kærleikur til Guðs“ þá stöðugur í okkur? Það er ekki nóg bara að tala um bróðurkærleika. Sem börn Guðs verðum við að sýna hann „í verki og sannleika.“ Ef bróðir okkar er til dæmis hungraður þarfnast hann matar, ekki bara vingjarnlegra orða. — Jakobsbréfið 2:14-17.
Hjarta sem dæmir okkur ekki
16. (a) Í hvaða skilningi er Guð „meiri en hjarta vort“? (b) Hvers vegna svarar Jehóva bænum okkar, að sögn Jóhannesar?
16 Jóhannes bendir þessu næst á það sem getur fullvissað okkur um að við séum börn Jehóva. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:19-24.) „Af þessu“ — því að við sýnum bróðurkærleika — „munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin.“ Þannig getum við „friðað [eða fullvissað] hjörtu vor“ frammi fyrir Guði. (Sálmur 119:11) Ef hjartað dæmir okkur, kannski vegna þess að okkur finnst við ekki hafa sýnt bræðrum okkar og systrum nægan kærleika, skulum við muna að „Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“ Hann er miskunnsamur því að hann sér „hræsnislausa bróðurelsku“ okkar, baráttu gegn syndinni og viðleitni til að þóknast honum. (1. Pétursbréf 1:22; Sálmur 103:10-14) „Ef hjartað dæmir oss ekki“ vegna þess að bróðurkærleikur okkar sannast í verki, og við erum ekki sek um synd sem leynt fer, „þá höfum vér djörfung til Guðs“ í bæn. (Sálmur 19:13) Og hann svarar bænum okkar „af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt.“
17. Hvaða tvær kröfur felast í ‚boðorði‘ Guðs?
17 Ef við viljum fá bænum okkar svarað verðum við að halda „boðorð“ Guðs. Það felur í sér þessar tvær kröfur: (1) við verðum að trúa á „nafn“ Jesú, taka við lausnargjaldinu og viðurkenna það yfirvald sem Guð hefur gefið honum. (Filippíbréfið 2:9-11) (2) Við verðum líka að „elska hver annan“ alveg eins og Jesús bauð. (Jóhannes 15:12, 17) Vissulega ætti sérhver sem trúir á nafn Guðs að elska alla aðra sem iðka slíka trú.
18. Hvernig vitum við að Jehóva ‚er í okkur‘?
18 Sá sem heldur boð Guðs „er stöðugur í Guði.“ (Samanber Jóhannes 17:20, 21.) En hvernig getum við ‚þekkt að hann er stöðugur í okkur‘? Það getum við „af andanum,“ hinum heilaga anda „sem hann hefur gefið oss.“ Ef við höfum heilagan anda Guðs og getum borið ávexti hans, þeirra á meðal bróðurkærleika, sannar það að við séum sameinaðir Jehóva. — Galatabréfið 5:22, 23.
Verum á varðbergi!
19, 20. Hvers vegna eigum við að ‚reyna andana‘ og hvernig hjálpar Jóhannes okkur til þess?
19 Jóhannes sýnir þessu næst fram á að við verðum að vera á varðbergi. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:1.) Við megum ekki trúa sérhverjum anda eða innblásnum ummælum, heldur ‚reyna andana, hvort þeir séu frá Guði.‘ Af hverju? „Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.“ Að minnsta kosti sumir þessara villukennara voru á sveimi meðal safnaðanna í von um „að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Postulasagan 20:29, 30; 2. Jóhannesarbréf 7) Hinir trúföstu þurfa því að vera á varðbergi.
20 Sumir kristnir menn fyrstu aldar höfðu „hæfileika að greina anda,“ en það var náðargjöf anda Guðs sem gerði þeim kleift að úrskurða hvort einhver andi eða innblásin ummæli væru frá Jehóva komin. (1. Korintubréf 12:4, 10) En aðvörun Jóhannesar virðist eiga við kristna menn í heild og er hjálpleg nú á tímum þegar fráhvarfsmenn reyna að umhverfa trú votta Jehóva. Þótt sú gjöf andans að „greina anda“ sé liðin undir lok hjálpa orð Jóhannesar okkur að ganga úr skugga um hvort kennarar láti anda Guðs eða illa anda leiða sig.
21. Nefnið eina leið til að ‚reyna andana.‘
21 Veittu athygli einni prófunaraðferð. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:2, 3.) „Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur kominn í holdi, er frá Guði.“ Við játum að Jesús hafi einu sinni verið maður og sé sonur Guðs, og trú okkar kemur okkur til að kenna öðrum slík sannindi. (Matteus 3:16, 17; 17:5; 20:28; 28:19, 20) „En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi,“ á móti Kristi og kenningu Biblíunnar um hann. Bersýnilega höfðu Jóhannes og aðrir postular varað við því að „andkristsins andi“ væri að koma. (2. Korintubréf 11:3, 4; 2. Pétursbréf 2:1) Þar eð falskennarar ógnuðu sannri kristni á þeim tíma gat Jóhannes sagt að ‚hann væri nú þegar í heiminum.‘
22. Nefnið aðra leið til að ‚reyna andana.‘
22 Önnur leið til að ‚reyna andana‘ er að veita því athygli hver hlustar á þá. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:4-6.) Sem þjónar Jehóva höfum við „sigrað“ falskennara því að við höfum ónýtt fyrirætlanir þeirra að draga okkur burt frá sannleika Guðs. Þennan andlega sigur höfum við getað unnið vegna þess að Guð, sem er með drottinhollum kristnum mönnum, „er meiri . . . en sá [djöfullinn] sem er í heiminum,“ hinu rangláta mannfélagi. (2. Korintubréf 4:4) Með því að fráhvarfsmennirnir „heyra heiminum til“ og láta illan anda hans stjórna sér „tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá.“ Úr því að við höfum anda Jehóva getum við komið auga á að það sem þeir segja er óandlegt og þar með hafnað því.
23. Hverjir hlýða á okkur og gera sér ljóst að við látum anda Guðs leiða okkur?
23 Við vitum að við „heyrum Guði til“ vegna þess að „hver sem þekkir Guð hlýðir á oss.“ Sauðumlíkir menn gera sér ljóst að við kennum sannleikann byggðan á orði Guðs. (Samanber Jóhannes 10:4, 5, 16, 26, 27.) „Sá sem ekki heyrir Guði til“ hlýðir að sjálfsögðu ekki á okkur. Falsspámennirnir eða kennararnir hlýddu ekki á Jóhannes eða aðra sem ‚heyrðu Guði til‘ og miðluðu andlega heilnæmri fræðslu. „Af þessu þekkjum vér sundur anda sannleikans og anda villunnar.“ Við sem myndum fjölskyldu dýrkenda Jehóva tölum hið ‚hreina tungumál‘ biblíulegs sannleika sem við fáum í gegnum skipulag Guðs. (Sefanía 3:9, NW) Og af því sem við segjum greina sauðumlíkir menn að við látum heilagan anda Guðs leiða okkur.
24. Hvað útskýrir Jóhannes þessu næst?
24 Fram til þessa hefur Jóhannes nefnt ýmis frumskilyrði sem við verðum að uppfylla ef við eigum að halda áfram að lifa sem börn Guðs. Hann sýnir okkur nú hvers vegna við verðum alltaf að láta í ljós kærleika og trú.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig verða sumir „börn Guðs“?
◻ Hvernig getum við greint á milli barna Guðs og barna djöfulsins?
◻ Hvað ætti tilhugsunin um atferli Kains að fá okkur til að gera?
◻ Að hvaða marki ættum við að sýna bróðurkærleika?
◻ Hvernig er hægt að ‚reyna andana‘?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Tilhugsunin um atferli Kains ætti að fá okkur til að varast það að hata nokkurn af bræðrum okkar.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Dýrkendur Jehóva tala hið ‚hreina tungumál‘ biblíulegs sannleika sem miðlað er í gegnum skipulag Guðs.