Mannkynið er hjálparþurfi
HANN viðurkenndi að hann hefði verið ‚ofsóknari og smánari.‘ Miskunnarlaust áreitti hann guðhrædda fylgjendur Jesú Krists. „En mér var miskunnað,“ sagði hann þakklátur. Þótt ótrúlegt sé breyttist þessi ofstækisfulli og stolti guðlastari, ofsóknarmaður og ofbeldismaður í kristna postulann Pál. — 1. Tímóteusarbréf 1:12-16; Postulasagan 9:1-19.
Það hafa ekki allir hegðað sér eins og Páll. En enginn maður stenst þó kröfur Guðs vegna þess að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23) Og það er mjög auðvelt að sökkva niður í örvæntingu, finnast maður vera of vondur til að geta notið miskunnar Guðs. Páll sagði um syndugar tilhneigingar sínar: „Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?“ Hann svarar spurningunni og ‚þakkar Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.‘ — Rómverjabréfið 7:24, 25.
Hvernig gat réttlátur skapari átt samskipti við syndara? (Sálmur 5:5) Taktu eftir orðum Páls: „Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.“ Annar maður, sem naut miskunnar Guðs, sagði: „Ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann [það er að segja hjálpara] hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.
Hvers vegna er Jesús Kristur kallaður hjálpari hjá föðurnum? Og hvernig er hann „friðþæging“ fyrir syndir?
Hvers vegna er mannkynið hjálparþurfi?
Jesús kom til jarðar til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Lausnargjald er greitt til að kaupa eitthvað eða einhvern lausan úr haldi. Samstofna sögn hebreska orðsins, sem þýtt er ‚lausnargjald,‘ felur í sér hugmyndina að þekja eða bæta fyrir syndir. (Sálmur 78:38) Gríska orðið, sem notað er í Matteusi 20:28, vísar sérstaklega til lausnargjalds sem greitt er til að kaupa lausa stríðsfanga eða þræla. Til að fullnægja kröfum réttvísinnar er eitt látið af hendi fyrir annað af samsvarandi verðmæti.
Mannkynið var hneppt í þrælkun þegar fyrsti maðurinn gerði uppreisn gegn Guði. Eins og fram kemur í 3. kafla 1. Mósebókar kaus þessi fullkomni maður, Adam, að óhlýðnast Jehóva Guði og þar með seldi hann sjálfan sig og ófædda afkomendur sína í þrælkun syndar og dauða. Hann fyrirgerði fullkomnu lífi sjálfs sín og allra afkomenda sinna. — Rómverjabréfið 5:12, 18, 19; 7:14.
Guð gerði þá ráðstöfun í Ísrael fortíðar að friðþægja fyrir syndir manna með dýrafórnum. (3. Mósebók 1:4; 4:20, 35) Það var eins og líf fórnardýrsins væri gefið í staðinn fyrir líf syndarans. (3. Mósebók 17:11) Þar af leiðandi gat „friðþægingardagurinn“ einnig kallast „lausnargjaldadagurinn.“ — 3. Mósebók 23:26-28.
En dýr eru óæðri mönnum svo að „blóð nauta og hafra“ gat ekki „numið burt syndir“ að fullu. (Hebreabréfið 10:1-4) Til að fórnin friðþægði endanlega fyrir syndir þurfti hún að jafngilda því sem Adam fyrirgerði. Vogarskálar réttvísinnar útheimtu fullkominn mann (Jesú Krist) til að vega upp á móti því sem annar fullkominn maður (Adam) fyrirgerði. Til að hægt væri að leysa afkomendur Adams úr þrælkuninni, sem hann hafði selt þá í, þurfti að greiða fullkomið mannslíf í lausnargjald. Það þurfti að láta „líf fyrir líf“ til að fullnægja kröfum réttvísinnar. — 2. Mósebók 21:23-25.
Þegar Adam syndgaði og var dæmdur til dauða tók hann ófædda afkomendur sína með sér. Jesús, sem er nefndur „hinn síðari Adam,“ var fullkominn en kaus að eignast ekki börn. (1. Korintubréf 15:45) Þegar hann fórnaði fullkomnu lífi sínu má segja að hann hafi tekið með sér fullkomið mannkyn sem hefði getað komið af honum. Jesús afsalaði sér réttinum til að eignast konu og börn og tók að sér synduga og deyjandi fjölskyldu Adams. Með því að fórna fullkomnu lífi sínu keypti hann alla menn lausa, sem komnir eru af Adam, svo að þeir gátu orðið fjölskylda hans og hann varð „Eilífðarfaðir“ þeirra. — Jesaja 9:6, 7.
Lausnarfórn Jesú opnaði leiðina til að hlýðnir menn gætu hlotið miskunn Guðs og eilíft líf. Páll postuli skrifaði þar af leiðandi: „Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 6:23) Hvernig getum við annað en lofað Jehóva fyrir kærleikann og umhyggjuna sem hann sýndi þegar hann og ástkær sonur hans greiddu lausnargjaldið háu verði? (Jóhannes 3:16) Og Jesús var vissulega hjálpari hjá föðurnum þegar hann var reistur upp og bar verðgildi lausnarfórnarinnar fram fyrir Guð á himnum.a (Hebreabréfið 9:11, 12, 24; 1. Pétursbréf 3:18) En hvernig er Jesús hjálpari okkar á himnum?
[Neðanmáls]
a Sjá 4. til 7. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Fullkomið mannslíf Jesú var lausnargjald fyrir afkomendur Adams.