Lærðu kristið siðferði og kenndu öðrum
„Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig?“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 2:21.
1, 2. Af hvaða ástæðum ættir þú að vilja grannskoða Biblíuna?
ÞÚ HEFUR margar ástæður til að rannsaka orð Guðs. Trúlega langar þig til að kunna skil á staðreyndum í Biblíunni um fólk, atburði, staði og fleira. Þig langar til að þekkja kenningaleg sannindi sem afhjúpa villukenningar á borð við helvítis- og þrenningarkenninguna. (Jóhannes 8:32) Þig ætti líka að langa til að kynnast Jehóva betur til að líkjast honum sem best og ganga í ráðvendni frammi fyrir honum. — 1. Konungabók 15:4, 5.
2 Önnur skyld og mikilvæg ástæða til að grannskoða orð Guðs er sú að afla sér menntunar til að geta kennt öðrum — ástvinum, kunningjum og jafnvel ókunnugum. Þetta er ekki valfrjálst því að Jesús sagði lærisveinunum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matteus 28:19, 20.
3, 4. Hvers vegna er göfugt að kenna öðrum eins og Jesús fyrirskipaði?
3 Það er göfugt og gefandi að kynna sér Biblíuna í þeim tilgangi að kenna öðrum. Kennsla hefur löngum verið mjög virt starfsgrein. Alfræðibókin Encarta Encyclopedia segir: „Algengt var meðal Gyðinga að líta á kennara sem leiðbeinendur til hjálpræðis og fullorðnir hvöttu börnin gjarnan til að virða þá meira en foreldrana.“ Það er sérstaklega göfugt fyrir kristna menn að fræða sjálfa sig með biblíunámi og kenna síðan öðrum.
4 „Fleiri leggja stund á kennslu en nokkurt annað starf. Um 48 milljónir karla og kvenna um heim allan eru kennarar.“ (The World Book Encyclopedia) Skólakennara er treyst til að móta hugi barna og unglinga og hann getur haft áhrif á þau um ókomin ár. Þú hefur enn langvinnari áhrif með því að hlýða fyrirmælum Jesú um að kenna öðrum því að kennslan getur haft áhrif á þá til eilífðar. Páll postuli lagði áherslu á þetta er hann hvatti Tímóteus: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Kennslustarf þitt getur leitt til hjálpræðis.
5. Hvers vegna er kristin fræðsla sú göfugasta sem völ er á?
5 Það er æðsti alheimsdrottinn sem gefur þér fyrirmæli um og umboð til að fræða sjálfan þig og síðan aðra. Það eitt og sér gerir þennan fræðsluvettvang göfugri en nokkurt kennslustarf í heiminum, hvort sem það er grunnkennsla, fagkennsla eða jafnvel sérgreinakennsla í læknavísindum. Fræðsla kristins manns er fólgin í því að læra að líkja eftir syni Guðs, Kristi Jesú, og kenna síðan öðrum slíkt hið sama. — Jóhannes 15:10.
Hvers vegna að fræða sjálfan þig?
6, 7. (a) Hvers vegna verðum við að byrja á því að fræða sjálf okkur? (b) Í hvaða skilningi höfðu Gyðingar fyrstu aldar brugðist sem kennarar?
6 Hvers vegna þurfum við að byrja á því að fræða sjálf okkur? Vegna þess að við getum ekki kennt öðrum almennilega nema við höfum frætt sjálf okkur fyrst. Páll lagði áherslu á þetta í athyglisverðri ritningargrein sem hafði umtalsvert gildi fyrir Gyðinga á þeim tíma, ekki síður en fyrir kristna menn nú á dögum. Páll spurði: „Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó? Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma? Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið?“ — Rómverjabréfið 2:21-23.
7 Páll vakti athygli á tveim syndum sem teknar voru sérstaklega fyrir í boðorðunum tíu: Þú skalt ekki stela og þú skalt ekki drýgja hór. (2. Mósebók 20:14, 15) Gyðingar á dögum Páls voru gjarnan stoltir af því að hafa lögmál Guðs. Þeir ‚voru fræddir í lögmálinu og treystu sér til að vera leiðtogar blindra, ljós þeirra sem voru í myrkri og fræðarar óvita.‘ (Rómverjabréfið 2:17-20) En sumir voru hræsnarar vegna þess að þeir stálu og drýgðu hór í laumi. Þannig óvirtu þeir bæði lögmálið og himneskan höfund þess. Þeir voru allsendis óhæfir til að kenna öðrum því að þeir höfðu ekki einu sinni frætt sjálfa sig.
8. Hvernig kunna sumir Gyðingar á dögum Páls að hafa ‚rænt helgidóma‘?
8 Páll talaði um að ræna helgidóma. Gerðu sumir Gyðingar það bókstaflega? Hvað hafði Páll í huga? Í ljósi þess hve takmarkaðar upplýsingar eru gefnar í þessari ritningargrein getum við ekkert sagt um það með vissu hvernig sumir Gyðingar ‚rændu helgidóma.‘ Borgarritarinn í Efesus hafði einhvern tíma sagt að félagar Páls hefðu ekki „framið helgispjöll“ sem bendir til þess að sumir, í það minnsta, hafi talið mega ásaka Gyðinga um það. (Postulasagan 19:29-37) Seldu þeir eða notuðu sjálfir dýra muni sem sigurvegarar eða trúarofstækismenn höfðu rænt úr heiðnum helgidómum? Samkvæmt lögmáli Guðs átti að eyðileggja silfur og gull af skurðgoðum en ekki taka það sér til einkanota. (5. Mósebók 7:25)a Hugsanlegt er að Páll sé að vísa til Gyðinga sem hunsuðu boð Guðs og notuðu muni sem komnir voru úr heiðnum helgidómum eða högnuðust á þeim.
9. Hvað kann að hafa jafnast á við að ræna musterið í Jerúsalem?
9 Hins vegar greinir Jósefus frá hneyksli sem fjórir Gyðingar ollu í Róm. Forsprakkinn var lögmálskennari nokkur. Fjórmenningarnir töldu rómverska konu, sem tekið hafði gyðingatrú, á að afhenda sér gull og önnur verðmæti sem framlag til musterisins í Jerúsalem. Eftir að þeir höfðu komist yfir auðinn notuðu þeir hann sjálfir, sem kalla má að ræna honum frá musterinu.b Aðrir rændu musteri Guðs í vissum skilningi með því að færa fram gallaðar fórnir og standa fyrir ágjarnri kaupmennsku á musterissvæðinu. Þannig breyttu þeir musterinu í „ræningjabæli.“ — Matteus 21:12, 13; Malakí 1:12-14; 3:8, 9.
Fræddu þig og aðra um kristið siðferði
10. Hvert er inntakið í orðum Páls í Rómverjabréfinu 2:21-23?
10 Hverju sem Páll var að ýja að með því að minnast á þjófnað, hórdóm og helgidómarán skulum við ekki missa sjónar á inntakinu í orðum hans. Hann spurði: „Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig?“ Það er eftirtektarvert að dæmin, sem Páll nefnir, snúa að siðferði. Hann var ekki að benda á biblíukenningar eða sögu heldur leggja áherslu á kristið siðferði. Það var það sem hann átti við þegar hann talaði um að fræða sjálfan sig og aðra.
11. Hvers vegna ættirðu að gefa gaum að kristnu siðferði í biblíunámi þínu?
11 Til að fara eftir ábendingunni í Rómverjabréfinu 2:21-23 þurfum við að læra kristið siðferði af orði Guðs, fara eftir því sem við lærum og kenna síðan öðrum að gera það líka. Þegar þú rannsakar Biblíuna ættirðu því að vera vakandi fyrir vísbendingum um mælikvarða Jehóva sem hið sannkristna siðferði er byggt á. Hugleiddu þau ráð og þær áminningar sem þú finnur í Biblíunni og farðu síðan hugrakkur eftir því sem þú lærir. Það kostar bæði kjark og einbeitni. Það er auðvelt fyrir ófullkomna menn að búa sér til afsakanir eða ástæður fyrir því að það sé réttlætanlegt eða jafnvel nauðsynlegt að sniðganga kristið siðferði í vissum tilfellum. Kannski voru Gyðingarnir, sem Páll minntist á, þaulreyndir í lymskulegri rökfærslu af þessu tagi til að réttlæta sig eða blekkja aðra. En orð Páls sýna að það má ekki gera lítið úr kristnu siðferði eða hunsa það ef manni þykir það henta.
12. Hvernig vitnar góð eða röng hegðun um Jehóva Guð og af hverju er gott að hafa það í huga?
12 Postulinn bendir á meginástæðu fyrir því að læra siðferði Biblíunnar og fara eftir því. Ósæmileg hegðun Gyðinga kastaði rýrð á Jehóva: „Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið? Svo er sem ritað er: ‚Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna.‘“ (Rómverjabréfið 2:23, 24) Það er ekkert síður regla nú en þá að við óvirðum höfund hins kristna siðferðis ef við hunsum það. Ef við hins vegar höldum okkur fast við mælikvarða Guðs er það honum til vegsauka og heiðurs. (Jesaja 52:5; Esekíel 36:20) Með því að hafa þetta hugfast geturðu gert þig enn einbeittari ef þú verður fyrir freistingum eða lendir í aðstæðum þar sem það gæti virst þægilegast eða auðveldast að sniðganga kristið siðferði. Og við lærum annað af orðum Páls. Þú ert ekki aðeins meðvitaður um að þín eigin hegðun hefur áhrif á afstöðu annarra til Guðs. Þegar þú kennir öðrum skaltu sýna þeim fram á að þeir vitni líka um Jehóva með því hvernig þeir fara eftir siðferðisreglum kristninnar. Það er ekki aðeins að það sé heilsusamlegt og ánægjulegt að fylgja siðferði kristninnar heldur vitnar það einnig um Guð sem er höfundur þess og hvetur okkur til að fylgja því. — Sálmur 74:10; Jakobsbréfið 3:17.
13. (a) Hvernig hjálpar Biblían okkur að stunda gott siðferði? (b) Endursegðu í stuttu máli leiðbeiningarnar í 1. Þessaloníkubréfi 4:3-7.
13 Siðferði okkar hefur líka áhrif á aðra. Það má sjá af dæmum í orði Guðs sem sýna fram á gildi þess að fara eftir siðferðisreglum hans og afleiðingarnar af því að brjóta þær. (1. Mósebók 39:1-9, 21; Jósúabók 7:1-25) Þú getur líka fundið þar hnitmiðaðar leiðbeiningar um siðferðismál eins og til dæmis þessar: „Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi, að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri, en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð. Og enginn skyldi gjöra bróður sínum rangt til né blekkja hann í slíkum sökum. . . . Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:3-7.
14. Um hvað gætirðu spurt þig varðandi ráðin í 1. Þessaloníkubréfi 4:3-7?
14 Næstum allir ættu að sjá af þessum ritningarstað að kynferðislegt siðleysi er brot á siðferðisreglum kristninnar. En þú getur kafað dýpra ofan í þessi orð. Sumir ritningartextar bjóða upp á talsverðar rannsóknir og hugleiðingar sem skila sér í dýpri skilningi. Þú gætir til dæmis ígrundað hvað Páll hafi átt við þegar hann sagði að með frillulífi eða saurlifnaði ‚geri maður bróður sínum rangt til eða blekki hann í slíkum sökum‘ eða, eins og Nýheimsþýðingin orðar það, ‚skaði bróður sinn og gangi á rétt hans.‘ Hvaða rétt er átt við og hvernig gætirðu fundið enn sterkari hvöt hjá þér til að fylgja siðferði kristninnar ef þú glöggvar þig á því? Hvernig gæti nákvæm athugun á því gert þig enn færari um að kenna öðrum og hjálpa þeim að heiðra Guð?
Lærðu til að kenna
15. Hvaða hjálpargögn gætirðu notað til að fræða sjálfan þig?
15 Vottar Jehóva ráða yfir ýmsum hjálpargögnum til að leita svara við spurningum eða rannsaka mál sem upp koma þegar þeir fræða sjálfa sig og aðra. Eitt slíkt hjálpargagn er efnisskráin Watch Tower Publications Index sem er til á mörgum tungumálum. Ef þú hefur aðgang að henni gætirðu notað hana til að leita upplýsinga í biblíunámsritum Votta Jehóva. Þú getur leitað upplýsinga eftir efni eða biblíuversi. Annað hjálpargagn er geisladiskurinn Watchtower Library sem til er á mörgum helstu tungumálum heims. Á disknum er mikið safn rita í rafrænu formi. Með leitarforritinu er hægt að leita eftir efni og skýringum við ritningarstaði. Ef þú hefur aðgang að öðru hvoru eða hvoru tveggja skaltu nota það reglulega til að fræða sjálfan þig þannig að þú getir kennt öðrum.
16, 17. (a) Hvar geturðu fundið fróðlegar upplýsingar um réttinn sem nefndur er í 1. Þessaloníkubréfi 4:6? (b) Á hvaða hátt getur saurlífismaður gengið á rétt annarra?
16 Lítum nánar á dæmið hér á undan í 1. Þessaloníkubréfi 4:3-7. Varpað var fram spurningu varðandi rétt. Rétt hvers eða hverra er átt við og hvernig væri hægt að ganga á hann? Með hjálpartækjunum, sem minnst var á, geturðu sennilega fundið fjölda fræðandi skýringa við þessi vers og einnig réttinn sem Páll minnist á. Þú getur fundið skýringar í bókinni Insight on the Scriptures (Innsýnarbókinni), 1. bindi, bls. 863-4; bókinni Sannur friður og öryggi — hvernig?, bls. 148 og Varðturninum (enskri útgáfu), 15. nóvember 1989, bls. 31.
17 Þegar þú skoðar þessi rit kemstu að raun um hve satt og rétt það er sem Páll segir. Saurlífismaður syndgar gegn Guði og gerir sig berskjalda fyrir sjúkdómum. (1. Korintubréf 6:18, 19; Hebreabréfið 13:4) Maður sem fremur siðleysi gengur á ýmis réttindi konunnar sem hann syndgar með. Hann sviptir hana siðferðilegum hreinleika og góðri samvisku. Ef hún er einhleyp gengur hann á rétt hennar til að ganga í hjónaband sem hrein mey og á rétt væntanlegs eiginmanns hennar til að búast við að hún sé það. Hann særir foreldra konunnar, og jafnframt eiginmann hennar ef hún er gift. Hinn siðlausi spillir rétti fjölskyldu sinnar til að vera þekkt fyrir hreint siðferði. Ef hann tilheyrir kristna söfnuðinum kastar hann rýrð á hann og spillir mannorði hans. — 1. Korintubréf 5:1.
18. Hvaða gagn hefurðu af því að fræðast um kristið siðferði?
18 Dýpkar ekki skilningur þinn á versinu við þessar upplýsingar? Með verðmætu námi og rannsóknum af þessu tagi ertu að fræða sjálfan þig. Þú skilur betur sannleikann í boðskap Guðs og áhrif hans. Þú gerir þig einbeittari í því að halda siðferðisreglur kristninnar, hvernig sem þín kann að vera freistað. Og hugsaðu þér hve miklu betri kennari þú getur orðið! Þegar þú kennir öðrum sannleika Biblíunnar geturðu til dæmis varpað ljósi á 1. Þessaloníkubréf 4:3-7 þannig að þeir fái dýpri skilning og meiri mætur á siðferði kristninnar. Þannig geturðu með námi þínu hjálpað bæði sjálfum þér og mörgum fleiri til að heiðra Guð. Og við höfum aðeins minnst á eitt dæmi úr bréfi Páls til Þessaloníkumanna. Hið kristna siðferði á sér margar fleiri hliðar, og það eru mörg fleiri dæmi og ráðleggingar í Biblíunni sem þú getur kynnt þér, farið eftir og kennt öðrum.
19. Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir þig að ástunda kristið siðferði?
19 Það er engum vafa undirorpið að það er viturlegt að gera þetta. Jakobsbréfið 3:17 segir að spekin, „sem að ofan er,“ frá Jehóva Guði sjálfum, sé „í fyrsta lagi hrein.“ Það gefur greinilega í skyn að okkur beri að fylgja mælikvarða Guðs. Jehóva krefst þess reyndar að þeir sem kenni Biblíuna í umboði hans séu góð fyrirmynd „í hreinleika.“ (1. Tímóteusarbréf 4:12) Líferni lærisveina eins og Páls og Tímóteusar vitnar um að þeir forðuðust siðleysi og Páll skrifaði jafnvel: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé.“ — Efesusbréfið 5:3, 4.
20, 21. Hvers vegna tekurðu undir með Jóhannesi postula í 1. Jóhannesarbréfi 5:3?
20 Þó svo að siðferðismælikvarðinn í orði Guðs sé skýr og ákveðinn er hann ekki íþyngjandi. Jóhannesi var það ljóst en hann lifði lengst postulanna. Hann vissi af áratugalangri reynslu að hið kristna siðferði er ekki skaðlegt heldur gott, gagnlegt og gefandi. Hann lagði áherslu á þetta er hann skrifaði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
21 En taktu eftir að Jóhannes segir ekki að hlýðni við Guð og kristnar siðferðisreglur sé besta lífernið aðeins vegna þess að það hlífi okkur við slæmum afleiðingum annars konar lífernis. Hann setti hlutina í rétt samhengi með því að byrja á því að viðurkenna að hlýðnin sé merki um kærleika okkar til Jehóva Guðs og verðmætt tækifæri til að sýna að við elskum hann. Til að læra að elska Guð og kenna öðrum það þurfum við að viðurkenna háleita mælikvarða hans og fylgja þeim. Já, það merkir að fræða sjálf okkur og aðra um hið kristna siðferði.
[Neðanmáls]
a Jósefus lýsir Gyðingum þannig að þeir hafi ekki gert sig seka um helgispjöll en ítrekaði lög Guðs með þessum orðum: „Enginn lastmæli guðum sem aðrar borgir dýrka, né ræni erlenda helgidóma né taki fjársjóð sem helgaður hefur verið nafni nokkurs guðs.“ (Leturbreyting okkar.) — Jewish Antiquities, 4. bók, 8. kafli, 10. grein.
b Jewish Antiquities, 18. bók, 3. kafli, 5. grein.
Manstu?
• Hvers vegna verðum við að fræða sjálf okkur áður en við fræðum aðra?
• Hvernig getum við vitnað um Jehóva með hegðun okkar?
• Á rétt hverra gengur saurlífismaður?
• Hvað ert þú ákveðinn í að gera í sambandi við kristið siðferði?
[Mynd á blaðsíðu 29]
„Boðorð hans eru ekki þung.“