Gerum okkar ýtrasta til að boða fagnaðarerindið
„Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 2:15.
1, 2. Hvaða fjölgun hefur þú séð meðal þjóna orðsins í fullu starfi? Hvað hefur stuðlað að henni?
„FYRIR fáeinum árum héldu mörg okkar að sérstakar aðstæður þyrfti til að geta verið brautryðjandi,“ skrifaði brautryðjandi (þjónn orðsins í fullu starfi) í Japan. „Við virðumst hafa haft rangt fyrir okkur. Okkur er að lærast að sérstakar aðstæður þarf til að geta ekki verið brautryðjandi.“
2 Þetta jákvæða viðhorf hefur leitt til stórkostlegustu fjölgunar þjóna orðsins í fullu starfi meðal votta Jehóva á síðustu árum. Í Japan eru nú tveir af hverjum fimm boðberum Guðsríkis í fullri þjónustu í einhverri starfsgrein. En þessi kostgæfnisandi takmarkast ekki við Japan. Á síðasta þjónustuári fjölgaði boðberum í öllum heiminum um fimm af hundraði en þjónum orðsins í fullu starfi um 22 af hundraði. Ljóst er að þjónar Jehóva hafa tekið til sín orð Páls postula: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín.“ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Er hægt að segja það um þig?
„Í þessu birtist elskan til Guðs“
3. Hvaða hvöt býr að baki þessum vexti?
3 Þegar brautryðjendur eru að því spurðir hvers vegna þeir hafi lagt út í þjónustu orðsins í fullu starfi svara þeir án undantekningar að það sé vegna kærleika síns til Jehóva Guðs. (Matteus 22:37, 38) Þannig ætti það að sjálfsögðu að vera því að sé tilefni okkar ekki kærleikur er erfiði okkar til ónýtis, hversu mikið sem það er. (1. Korintubréf 13:1-3) Það er hrósunarvert að svo margir trúbræðra okkar — að meðaltali rúmlega sjö boðberar í hverjum söfnuði í heiminum — skuli hafa getað hagrætt lífi sínu þannig að þeir geti sýnt Guði kærleika sinn með þessum hætti.
4. Hvernig höfum við lært að elska Guð? (Rómverjabréfið 5:8)
4 Að sjálfsögðu höfum við öll vígt Jehóva líf okkar vegna þess að við elskum hann. Þegar við lærðum um kærleikann, sem Jehóva og sonur hans, Jesús Kristur, bera til okkar, og um þá stórfenglegu blessun, sem ríki hans mun færa, kviknaði kærleikur til hans í hjörtum okkar sem knúði okkur til verka. Jóhannes postuli orðaði það þannig: „Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.“ (1. Jóhannesarbréf 4:19) Okkur er eðlilegt að bregðast þannig við því að við erum þannig úr garði gerð. En er þessi þægilega tilfinning í hjörtum okkar allt og sumt sem kærleikur til Guðs felur í sér?
5. Hvað felur kærleikur til Guðs í sér? (1. Jóhannesarbréf 2:5)
5 Nei, kærleikur til Guðs er meira en þetta. Jóhannes postuli segir okkur: „Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Já, sannur kærleikur birtist í verki alveg eins og sönn trú. (Samanber 2. Korintubréf 8:24.) Kærleikurinn vill þóknast og afla sér hylli þess sem hann beinist að. Þeir sem þjóna Guði í fullu starfi hafa valið sér afbragðsgóða leið til að sýna Jehóva og Jesú Kristi kærleika sinn!
6. (a) Hvers konar fólk hefur getað verið brautryðjendur? Hvað hefur gert þeim kleift að vera það? (b) Þekkir þú einhver slík dæmi?
6 Því má ekki gleyma að kringumstæður fólks eru breytilegar. Þegar við hins vegar lítum í kringum okkur og virðum fyrir okkur þá sem eru í fullri þjónustu uppgötvum við að þeir eru af alls konar tagi — ungir og aldnir, einhleypir og giftir, hraustir og heilsutæpir, með eða án fjölskylduábyrgðar og svo mætti lengi telja. Munurinn á þeim og öðrum er sá að þeir hafa ekki látið aðstæður sínar vera sér þránd í götu heldur lært, eins og Páll postuli, að búa og starfa við þær. (2. Korintubréf 11:29, 30; 12:7) Lítum á dæmigerða fjölskyldu:
Eiji er öldungur í söfnuði sínum. Hann og konan hans hafa verið brautryðjendur saman í tólf ár og samtímis alið upp þrjú börn. Hvernig fóru þau að því? „Við urðum að lifa einfaldara lífi,“ segir Eiji. Jafnvel börnin urðu að læra að sætta sig við að fá ekki margt af því sem þau vildu. „Þótt stundum hafi verið erfitt hjá okkur hefur Jehóva alltaf séð okkur fyrir því sem við höfum þurft.“
Hefur það verið þess virði að fórna svona miklu? „Á hverju kvöldi áður en við slökkvum ljósin horfi ég á konuna mína skrifa skýrsluna sína um starf dagsins,“ segir Eiji. „Þegar ég sé fjölskyldu mína setja andleg mál svona á oddinn finnst mér allt vera eins og það á að vera, og mér finnst ég hafa áorkað einhverju. Ég get ekki hugsað mér að við séum ekki brautryðjendur saman.“ Hvaða augum lítur konan hans málin? „Eiji hefur annast okkur mjög vel,“ segir hún. „Ég finn til djúprar hamingju hið innra með mér þegar ég sé hann önnum kafinn af andlegum málum. Ég vona að við getum haldið áfram.“
Hvaða áhrif hefur það haft á börnin að foreldrarnir skuli hafa notað svona mikinn tíma í prédikunarstarfinu dag hvern? Eldri sonurinn vinnur nú við fjögurra ára byggingarframkvæmd við útibú Varðturnsfélagsins. Dóttirin er reglulegur brautryðjandi og yngri sonurinn, sem enn er í skóla, stefnir að því að verða sérbrautryðjandi. Þau eru öll glöð yfir því að foreldrar þeirra skuli vera brautryðjendur.
7. (a) Nefndu dæmi um einstaklinga, sem þú þekkir, og yfirstigu hindranir til að verða brautryðjendur. (b) Hvaða ráð Biblíunnar hafa þeir tekið til sín?
7 Fjölskyldur eins og þessa er að finna meðal votta Jehóva í fjölmörgum löndum heims. Þær leggja mikið á sig til að nota aðstæður sínar sem best svo að þær geti hafið og haldið áfram þjónustu í fullu starfi. Í verki sýna þær hvað kærleikurinn til Guðs þýðir fyrir þær. Í einlægni fara þær eftir áminningu Páls: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:15.
„Verkamaður, er ekki þarf að skammast sín“
8. Hvers vegna hvatti Páll Tímóteus til að leggja sig kappsamlega fram og hvað merkir það?
8 Þegar Páll skrifaði Tímóteusi þessi orð um árið 65 gegndi Tímóteus ábyrgðarstöðu í kristna söfnuðinum. Páll kallaði hann ‚góðan hermann Krists Jesú‘ og minnti hann aftur og aftur á ábyrgð sína að kenna og fræða aðra. (2. Tímóteusarbréf 2:3, 14, 25; 4:2) Samt kvatti hann Tímóteus: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði.“ Orðin „legg kapp á“ eru þýðing á grísku orði sem merkir „flýttu þér.“ (Sjá Kingdom Interlinear Translation.) Með öðrum orðum var Páll að segja Tímóteusi að til að hafa velþóknun Guðs yrði hann að hraða þjónustu sinni, jafnvel þótt hann bæri mikla ábyrgð fyrir. Hvers vegna? Til að hann gæti verið „verkamaður, er ekki þarf að skammast sín.“
9. Hvaða dæmisaga Jesú getur hjálpað okkur að skilja orð Páls um ‚verkamann sem ekki þarf að skammast sín‘?
9 Þessi síðustu orð minna okkur á þjónana þrjá í dæmisögu Jesú um talenturnar sem er að finna í Matteusi 25:14-30. Við heimkomu húsbóndans áttu þeir að sýna honum hvaða afrakstri starf þeirra hefði skilað. Þjónarnir, sem fengið höfðu fimm talentur og tvær, hlutu hrós húsbóndans fyrir það sem þeir höfðu gert við það sem þeim var trúað fyrir. Þeim var boðið að ‚ganga inn til fagnaðar herra síns.‘ En þjónninn, sem falin var ein talenta, hafði ekki staðið sig. Það sem hann hafði var tekið frá honum og síðan var honum kastað með skömm „út í ystu myrkur.“
10. Hvers vegna var þjónninn, sem fékk einu talentuna, ávítaður og refsað?
10 Fyrstu tveir þjónarnir lögðu hart að sér og juku eigur húsbóndans. Þeir voru verkamenn ‚er ekki þurftu að skammast sín.‘ En hvers vegna var þriðja þjóninum gerð skömm til og refsað þótt hann hefði ekki glatað því sem honum var falið? Það var vegna þess að hann hafði ekki notað það á nokkurn uppbyggilegan hátt. Eins og húsbóndinn benti á hefði hann að minnsta kosti getað lagt féð í banka. Það sem fyrst og fremst var að var að þjónninn elskaði ekki húsbónda sinn. „Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð,“ játaði hann fyrir húsbónda sínum. (Matteus 25:25; samanber 1. Jóhannesarbréf 4:18.) Hann leit á húsbónda sinn sem ‚harðan,‘ kröfuharðan mann og verkefni sitt sem byrði. Hann reyndi að komast eins auðveldlega frá verki sínu og frekast var unnt í stað þess að ‚leggja kapp á‘ að ávinna sér hylli húsbóndans.
11. Hvers vegna hefur þessi dæmisaga þýðingu fyrir okkur núna?
11 Sú mynd, sem dæmisagan lýsir, er nú að uppfyllast. Húsbóndinn, Jesús Kristur, er kominn aftur og er að rannsaka það verk sem „þjónn“ hans, svo og félagar þess ‚þjóns,‘ „mikill múgur“ sauðumlíkra manna, hefur innt af hendi. (Matteus 24:45-47; Opinberunarbókin 7:9, 15) Hvað hefur húsbóndinn fundið? Ef við gerum okkur ánægð með augnþjónustu, til að komast af með að gera eins lítið og hugsast getur, þá getur verið að við verðum talin í hópi þeirra sem fá ávítur og er kastað „út í ystu myrkur.“ Ef við á hinn bóginn ‚leggjum kapp á‘ og flýtum starfi okkar, sökum þess hve tíminn er naumur, þá lítur hann til okkar með velþóknun ‚sem verkamanna er ekki þurfa að skammast sín‘ og við fáum hlutdeild í ‚fögnuði herra okkar.‘
Sjálfsagi og fórnfýsi
12. Hvað hefur gert háum hundraðshluta boðbera í Japan fært að þjóna Guði í fullu starfi?
12 Hinn stöðugi vöxtur brautryðjenda í nær öllum löndum heims er glöggt merki þess að þjónar Jehóva í heild ‚leggja kapp á‘ að sanna sig ‚verkamenn er ekki þurfa að skammast sín.‘ En hefur þú nokkurn tíma hugleitt hvers vegna svo stór hundraðshluti bræðra getur verið í fullri þjónustu í sumum löndum? Þetta er athyglisverð spurning sem lögð var fyrir nokkra brautryðjendur í Japan. Svörin voru á þessa leið:
„Ég held ekki að það þýði að trú eða kærleikur japanskra votta sé meiri en meðal bræðranna í öðrum löndum,“ sagði starfsmaður á Betel sem verið hefur í fullu starfi í um þrjá áratugi. „Ég held þó að það tengist að einhverju leyti eðli Japana. Almennt eru Japanir hlýðnir og taka fljótt og vel við hvatningu.“
„Þar eð brautryðjendur eru svo margir í nálega hverjum söfnuði,“ sagði öldungur, „eru bræður almennt þeirrar skoðunar að allir geti verið með.“ Japanir vilja gjarnan gera hlutina saman sem hópur. Þeir hafa mjög góðan samstarfsanda.
Þessar athugasemdir eru umhugsunarverðar og ef við viljum í fullri einlægni bæta þjónustu okkar við Jehóva er vert að gefa góðan gaum ýmsum atriðum sem þar koma fram.
13. Hvaða gagn getum við haft af því að vera hlýðin og taka hvatningu vel?
13 Hið fyrsta er að vera hlýðinn og bregðast fúslega við hvatningu. Þegar leiðbeiningar og hvatning koma úr réttri átt er bæði rétt og eðlilegt að bregðast fúslega og jákvætt við. Því ættum við, í stað þess að líta á þessa eiginleika sem þjóðareinkenni, að hafa í huga orð Jesú: „Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér.“ (Jóhannes 10:27) Við munum líka að „sú speki, sem að ofan er,“ er meðal annars „hlýðin.“ (Jakobsbréfið 3:17, NW) Þetta eru eiginleikar sem allir kristnir menn eru hvattir til að íklæðast. Sökum uppruna og uppeldis má vera að sumir séu eilítið þrárri og gefnari fyrir óháða hugsun en aðrir. Kannski þurfum við að aga okkur á því sviði og ‚endurnýja hugarfarið‘ svo við getum skilið betur hver sé „vilji Guðs.“ — Rómverjabréfið 12:2.
14. Hvaða boð hafa allir vígðir kristnir menn þegið og hvað felst í því?
14 Sem vígðir kristnir menn höfum við þegið boð Jesú: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Matteus 16:24) Að ‚afneita‘ sjálfum sér merkir bókstaflega að setja algerlega til hliðar eigin vilja og sætta sig fúslega við að vera eign Jehóva Guðs og Jesú Krists, að láta þá stjórna lífi okkar og segja okkur hvað við ættum að gera og hvað ekki. Hvaða betri leið er til að sýna að við höfum afneitað sjálfum okkur en sú að feta í fótspor Jesú í fullri þjónustu?
15. (a) Hver eru tengsl þess að gera sig ánægðan með færri efnisleg gæði og fylgja Jesú? (b) Hvernig brugðust fyrstu lærisveinar Jesú við boði hans um að fylgja honum?
15 Við þurfum líka að yfirvega hvort við getum komist af með minna efnislega. Það gengur þvert á almenna stefnu heimsins sem ýtir undir „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti.“ (1. Jóhannesarbréf 2:16) En Jesús sagði með áhersluþunga: „Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.“ (Lúkas 14:33) Hvernig stendur á því? Það stafar af því að það að vera lærisveinn Jesú er meira en aðeins að trúa. Þegar Jesús kallaði Andrés, Pétur, Jakob, Jóhannes og fleiri sem lærisveina sína á öðru þjónustuári sínu, lét hann ekki nægja að biðja þá að trúa á sig sem Messías. Hann bauð þeim síðar að fylgja sér og vinna það verk sem hann var að gera, það er að segja að prédika Guðsríki í fullu starfi. Hvernig brugðust þeir við? „Þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum.“ Jakob og Jóhannes jafnvel „yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum.“ (Markús 1:16-20) Þeir sögðu skilið við atvinnu sína og fyrri félaga og tóku að prédika í fullu starfi.
16. Hvernig ættum við, sem erum vígðir kristnir menn, að ávaxta tíma okkar og krafta? (Orðskviðirnir 3:9)
16 Það er því auðséð hvers vegna svona mikilvægt er að láta sér nægja minna af efnislegum gæðum til að gera sitt ýtrasta í þjónustu Jehóva. Ef okkur er íþyngt með margs konar efnislegum hlutum eða skyldum gætum við orðið eins og ríki, ungi höfðinginn sem afþakkaði boð Jesú um að verða fylgjandi hans, ekki af því að hann gæti það ekki, heldur af því að hann var ekki fús til að skilja eftir sínar ‚miklu eignir.‘ (Matteus 19:16-22; Lúkas 18:18-23) Í stað þess að sólunda tíma okkar og kröftum í að eltast við það sem bráðlega mun ‚fyrirfarast,‘ þá viljum við ávaxta þessi verðmæti okkur til eilífs velfarnaðar. — 1. Jóhannesarbréf 2:16, 17.
17. Hvernig getum við haft jákvæð áhrif á hvert annað?
17 Að síðustu skulum við íhuga viðhorf okkar til samstarfs. Andrés, Pétur, Jakob og Jóhannes höfðu vafalaust áhrif á ákvörðun hvers annars um að þiggja boð Jesú um að fylgja sér. (Jóhannes 1:40, 41) Sú staðreynd að margir bræðra okkar hafa rúm fyrir þjónustu í fullu starfi, þrátt fyrir annríki sitt, ætti að fá okkur til að líta af meiri alvöru í eigin barm. Þau okkar, sem nú þegar njóta þessara sérréttinda, geta veitt öðrum hlut í ánægjulegri lífsreynslu sinni og þar með hvatt þá til að slást í lið með sér. Þjónar orðsins í fullu starfi geta auðvitað líka hjálpað hver öðrum öllum til gagns. — Rómverjabréfið 1:12.
18. Hvernig getum við öll stuðlað að brautryðjandaanda?
18 Jafnvel þeir sem geta ekki aðstæðna vegna þjónað í fullu starfi geta margt gert til að efla brautryðjandaanda. Hvernig? Með því að styðja og hvetja þá sem eru brautryðjendur, með því að sýna ósvikinn áhuga þeim sem hafa færi á að vera brautryðjendur, með því að hjálpa einum eða fleiri úr fjölskyldu sinni að vera brautryðjendur, með því að vera aðstoðarbrautryðjendur hvenær sem þeir geta og með því að vinna að því að verða þjónar orðsins í fullu starfi eins fljótt og frekast er unnt. Þar með getum við öll sýnt að við gerum okkar ýtrasta til að þjóna Jehóva, óháð því hvort við erum þessa stundina í fullri þjónustu eða ekki.
Höldum áfram að gera okkar ýtrasta
19. Hvað ættum við að einsetja okkur að gera í ljósi þess hvað tímanum líður?
19 Jehóva er nú að hraða starfinu og því er rétti tíminn til að ‚leggja kapp á‘ að vera ‚verkamenn sem ekki þurfa að skammast sín.‘ Sem góðir hermenn Krists Jesú þurfum við líka að losa okkur við óþarfar byrðar til að við getum þjónað með sem bestum hætti og áunnið okkur hylli hans. (2. Tímóteusarbréf 2:3-5) Þegar við leggjum hart að okkur við að auka hlut okkar í þjónustu Guðsríkis megum við vera viss um að við fáum ríkulega umbun erfiðis okkar. (Hebreabréfið 6:10; 2. Korintubréf 9:6) Í stað þess að vera áhorfendur, ef svo má að orði komast, skulum við vera þolgóð í að gera okkar ýtrasta til að prédika fagnaðarerindið. Þá fylgjum við boði sálmaritarans: „Þjónið [Jehóva] með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!“ — Sálmur 100:2.
Upprifjun
◻ Hvað er fólgið í kærleika til Guðs?
◻ Hvað var að hjá þriðja þjóninum í dæmisögu Jesú um talenturnar?
◻ Hvað þýðir það að afneita sjálfum sér?
◻ Hvers vegna verða fylgjendur Jesú að ‚segja skilið við allt sem þeir eiga‘?
◻ Hvernig getum við öll stuðlað að brautryðjandaanda?
[Mynd á blaðsíðu 16]
„Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur.“