Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Jóhannesarbréfanna og Júdasarbréfsins
JÓHANNESARBRÉFIN þrjú voru sennilega skrifuð árið 98 í Efesus og eru með síðustu bókum hinnar innblásnu Biblíu. Í fyrstu tveim bréfunum eru kristnir menn hvattir til að ganga í ljósinu og standa gegn fráhvarfi. Í þriðja bréfinu talar Jóhannes bæði um að lifa í sannleikanum og hvetur einnig kristna menn til að vinna vel saman.
Júdas, hálfbróðir Jesú, skrifar bréf sitt í Palestínu, líklega árið 65. Hann varar trúsystkini sín við óguðlegum mönnum sem hafa laumast inn í söfnuðinn og bendir á leiðir til að sporna gegn slæmum áhrifum. Bréf Jóhannesar og Júdasar geta hjálpað okkur að vera sterk í trúnni þótt ýmis ljón séu á veginum. — Hebr. 4:12.
GÖNGUM Í LJÓSINU OG LIFUM Í KÆRLEIKA OG TRÚ
Fyrsta bréf Jóhannesar er ætlað öllum sem eru í samfélagi við Krist. Þar er að finna holl ráð sem geta hjálpað kristnum mönnum að standa einarðir gegn fráhvarfi og vera staðfastir í sannleikanum og réttlætinu. Jóhannes leggur áherslu á að þeir þurfi að ganga í ljósinu og lifa í kærleika og trú.
„Ef við göngum í ljósinu, eins og [Guð] sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað,“ skrifar Jóhannes. Og þar sem Guð er uppspretta kærleikans hvetur postulinn: „Elskum hvert annað.“ Þar eð „elskan til Guðs“ sýnir sig í því að „við höldum boðorð hans“ sigrum við heiminn með „trú okkar“ á Jehóva Guð, orð hans og son. — 1. Jóh. 1:7; 4:7; 5:3, 4.
Biblíuspurningar og svör:
2:2; 4:10 — Í hvaða skilningi er Jesús „friðþæging“? Að friðþægja merkir að bæta fyrir eitthvað. Jesús friðþægði með því að fórna lífi sínu og uppfyllti þar með kröfur fullkominnar réttvísi. Vegna fórnar hans gat Guð sýnt miskunn og fyrirgefið syndir þeirra sem trúa á Jesú. — Jóh. 3:16; Rómv. 6:23.
2:7, 8 — Hvaða boðorð er í senn „gamalt“ og „nýtt“? Hér á Jóhannes við boðorðið um fórnfúsan bróðurkærleika. (Jóh. 13:34) Hann kallaði það „gamalt“ vegna þess að Jesús hafði gefið það meira en 60 árum áður en Jóhannes skrifaði fyrsta innblásna bréfið. Kristnir menn höfðu því haft það „frá upphafi“ þess að þeir tóku trú. En boðorðið er líka „nýtt“ í þeim skilningi að það kallar á fórnfúsan kærleika, ekki aðeins það að ‚elska náungann eins og sjálfan sig‘. — 3. Mós. 19:18; Jóh. 15:12, 13.
3:2 — Hvað er „enn þá ekki orðið bert“ hinum andasmurðu og hvern fá þeir að sjá „eins og hann er“? Þeim hefur ekki verið sýnt hvernig þeir verði þegar þeir verða reistir upp til himna í andlegum líkama. (Fil. 3:20, 21) Þeir vita hins vegar að Guð er „andinn“ og ‚þegar Guð birtist, þá verða þeir honum líkir því að þeir munu sjá hann eins og hann er‘. — 2. Kor. 3:17, 18.
5:5-8 — Hvernig vitnuðu vatnið, blóðið og andinn um að ‚ Jesús væri sonur Guðs‘? Vatnið vitnaði þegar Jesús skírðist og Jehóva lýsti yfir velþóknun sinni á syni sínum. (Matt. 3:17) Blóð Jesú, það er að segja lífið sem hann gaf „til lausnargjalds fyrir alla“, sýndi einnig að hann væri sonur Guðs. (1. Tím. 2:5, 6) Og heilagur andi vitnaði um að Jesús væri sonur Guðs þegar hann kom yfir hann við skírnina og gerði honum kleift að fara um landið, ‚gera gott og græða alla sem djöfullinn undirokaði‘. — Jóh. 1:29-34; Post. 10:38.
Lærdómur
2:9-11; 3:15. Ef kristinn maður lætur eitthvað eða einhvern spilla bróðurkærleika sínum gengur hann í andlegu myrkri og veit ekki hvert hann fer.
‚LIFUM Í SANNLEIKANUM‘
Annað bréf Jóhannesar hefst með orðunum: „Öldungurinn heilsar hinni útvöldu frú og börnum hennar.“ Hann gleðst yfir því að hafa fundið „nokkur barna [hennar] sem lifa í sannleikanum“. — 2. Jóh. 1, 4.
Eftir að hafa hvatt viðtakanda bréfsins til að stunda kærleika segir Jóhannes: „Kærleikurinn felst í að við lifum eftir boðorðum hans.“ Hann varar einnig við ‚afvegaleiðandanum og andkristinum‘. — 2. Jóh. 5-7.
Biblíuspurningar og svör:
1, 13 — Hver er ‚hin útvalda frú‘? Hugsanlegt er að Jóhannes eigi við konu sem hann ávarpar Kýríu en það er grískt orð sem merkir „frú“. Eins má vera að hann noti hér myndmál til að rugla ofsækjendur í ríminu en sé í rauninni að ávarpa ákveðinn söfnuð. Ef það er rétt eru börnin hennar þeir sem tilheyra söfnuðinum og ‚börn systur hennar‘ gætu þá verið annar söfnuður.
7 — Hvaða ‚komu‘ Jesú á Jóhannes við og í hvaða merkingu vilja afvegaleiðendur „ekki játa“ hana? Hér er ekki átt við ósýnilega ‚komu‘ Jesú í framtíðinni heldur það þegar hann kom í holdi og var andasmurður sem Kristur. (1. Jóh. 4:2) Afvegaleiðendur viðurkenna ekki að hann hafi komið í holdi. Kannski neita þeir að Jesús hafi nokkurn tíma verið til eða hafi verið smurður heilögum anda.
Lærdómur:
2, 4. Til að hljóta hjálpræði er nauðsynlegt fyrir okkur að kynnast „sannleikanum“ og lifa eftir honum en með „sannleikanum“ er átt við allar kenningar kristninnar sem er að finna í Biblíunni. — 3. Jóh. 3, 4.
8-11. Ef við viljum varðveita ‚náð, miskunn og frið frá Guði föður og frá Jesú Kristi‘ og eiga samfélag við trúsystkini okkar ættum við að ‚hafa gætur á sjálfum okkur‘ og hafna þeim sem eru ‚ekki staðfastir í kenningu Krists‘. — 2. Jóh. 3.
„SAMVERKAMENN . . . Í ÞÁGU SANNLEIKANS“
Þriðja bréf Jóhannesar er stílað á Gajus, vin hans. „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra að börnin mín hlýði sannleikanum,“ skrifar hann. — 3. Jóh. 4.
Jóhannes hrósar Gajusi fyrir að ‚vinna fyrir söfnuðinn‘ og aðstoða gestkomandi bræður. „Okkur [ber] að hjálpa þessum mönnum og verða þannig samverkamenn þeirra í þágu sannleikans,“ segir hann. — 3. Jóh. 5-8.
Biblíuspurningar og svör:
11 — Af hverju breyta sumir illa? Sumir eru ekki sterkir í sannleikanum og sjá ekki Guð með augum trúarinnar. Og þar sem þeir geta ekki séð hann með berum augum láta þeir eins og hann sjái ekki til þeirra. — Esek. 9:9.
14 — Hverjir eru „vinirnir“? Hér er ekki aðeins átt við nána kunningja eða félaga heldur notar Jóhannes orðið um trúsystkini almennt.
Lærdómur:
4. Það er mjög gleðilegt fyrir andlega þroskað fólk í söfnuðinum að sjá unga fólkið ‚hlýða sannleikanum‘. Og það veitir foreldrum ólýsanlega gleði að geta hjálpað börnum sínum að gerast þjónar Jehóva.
5-8. Margir sýna kærleika sinn til trúsystkina og til Jehóva með því að vinna dyggilega fyrir söfnuðinn. Þeirra á meðal eru farandumsjónarmenn, trúboðar, brautryðjendur og þeir sem starfa á Betelheimilum eða deildarskrifstofum. Trú þeirra er til fyrirmyndar og þeir eiga skilinn dyggan stuðning annarra.
9-12. Við ættum að taka okkur til fyrirmyndar hinn trúa Demetríus en ekki rógberann Díótrefes.
„LÁTIÐ KÆRLEIKA GUÐS VARÐVEITA YKKUR SJÁLF“
Júdas talar um menn sem hafa laumast inn í söfnuðinn en eru „síkvartandi og kenna öðrum um örlög sín og lifa eftir girndum sínum“. Þeir tala „ofstopaorð og þeir smjaðra fyrir öðrum“, segir hann. — Júd. 4, 16.
Hvernig geta kristnir menn staðið á móti slæmum áhrifum? „Þið elskuðu, minnist þeirra orða sem postular Drottins vors Jesú Krists hafa áður talað,“ skrifar Júdas og bætir við: „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur sjálf.“ — Júd. 17-21.
Biblíuspurningar og svör:
3, 4 — Af hverju hvatti Júdas kristna menn til að ‚berjast fyrir trúnni‘? Af því að „óguðlegir menn“ hafa „laumast inn í söfnuðinn“. Þeir „misnota náð Guðs okkar til taumleysis“.
20, 21 — Hvernig getum við „látið kærleika Guðs varðveita [okkur]“? Við getum gert það á þrjá vegu: (1) Við byggjum okkur upp í „helgustu trú“ með því að vera duglegir biblíunemendur og boðberar, (2) við biðjum „í heilögum anda“, það er að segja í samræmi við áhrif hans og (3) við trúum á lausnarfórn Jesú Krists en hún gerir okkur kleift að hljóta eilíft líf. — Jóh. 3:16, 36.
Lærdómur:
5-7. Geta hinir óguðlegu umflúið dóm Jehóva? Júdas bendir á þrjú dæmi til viðvörunar sem sýna fram á að það er ómögulegt.
8-10. Við ættum að líkja eftir Mikael höfuðengli og sýna þeim virðingu sem Jehóva hefur falið forráð.
12. Fráhvarfsmenn, sem gera sér upp kærleika, eru eins hættulegir trú okkar og blindsker skipum eða sundmönnum. (Biblían 1981) Falskennarar líta kannski út fyrir að vera örlátir en í raun eru þeir andlega innantómir eins og vatnslaus ský. Þeir eru eins og dauð tré sem bera ekki ávöxt að hausti. Þeir eiga tortímingu yfir höfði sér eins og tré sem rifin eru upp með rótum. Það er skynsamlegt að forðast fráhvarfsmenn.
22, 23. Sannkristnir menn hata hið illa. Þroskaðir safnaðarmenn, einkum útnefndir umsjónarmenn, geta hjálpað þeim sem eru „efablandnir“ að endurheimta trúna og forðað þeim frá eldinum en hann táknar endanlega tortímingu.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Vatnið, andinn og blóðið vitna um að „Jesús sé sonur Guðs“.