Hve dýrmætur er sannleikurinn þér?
„[Þið] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — JÓHANNES 8:32.
1. Hvernig notuðu Pílatus og Jesús orðið „sannleikur“ ólíkt?
„HVAÐ er sannleikur?“ Þegar Pílatus varpaði fram þessari spurningu virðist hann hafa átt við sannleika almennt. Jesús sagði hins vegar rétt áður: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37, 38) Ólíkt Pílatusi notaði Jesús ákveðna greininn og talaði um ‚sannleikann.‘ Hér átti hann við sannleika Guðs.
Afstaða heimsins til sannleikans
2. Hvernig benti Jesús á gildi sannleikans?
2 „Ekki er trúin allra,“ sagði Páll. (2. Þessaloníkubréf 3:2) Hið sama er að segja um sannleikann. Margir hunsa sannleika Biblíunnar vísvitandi þegar þeim er bent á hann. En sannleikurinn er afar dýrmætur. Jesús sagði: „[Þið] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — Jóhannes 8:32.
3. Hvaða viðvörun fáum við um villukenningar?
3 Páll postuli sagði að sannleikann væri ekki að finna í heimspeki og erfikenningum manna. (Kólossubréfið 2:8) Slíkar kenningar eru villandi. Páll varaði kristna menn í Efesus við því að ef þeir tryðu þessum kenningum, yrðu þeir eins og andleg börn sem „hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.“ (Efesusbréfið 4:14) Þeir sem berjast gegn sannleika Guðs beita áróðri til að koma ‚slægð mannanna‘ á framfæri. Íslenska alfræðibókin skilgreinir „áróður“ þannig: „Viðleitni til að hafa áhrif á skoðanir, viðhorf eða hegðun fólks . . . einkennist af síendurteknum fullyrðingum, einhliða málflutningi og rangfærslum.“ Sannleika er kænlega snúið upp í lygi og lygi haldið fram sem sannleika. Til að finna sannleikann þrátt fyrir þennan lúmska þrýsting þurfum við að leita vel og dyggilega til Biblíunnar.
Kristnir menn og heimurinn
4. Hverjir eiga aðgang að sannleikanum og hvaða skylda hvílir á þeim sem taka við honum?
4 Jesús Kristur bað til Jehóva fyrir þeim sem voru orðnir lærisveinar hans: „Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) Þeir áttu að vera helgaðir eða fráteknir í þeim tilgangi að þjóna Jehóva og kunngera nafn hans og ríki. (Matteus 6:9, 10; 24:14) Þó að sannleikur Jehóva sé ekki allra stendur hann öllum til boða án endurgjalds, óháð þjóðerni þeirra, kynþætti og menningaruppruna. Pétur postuli sagði: „Sannlega skil ég . . . að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
5. Af hverju eru kristnir menn oft ofsóttir?
5 Kristnir menn segja öðrum frá sannleika Biblíunnar en er ekki alls staðar vel tekið. Jesús aðvaraði: „Menn [munu] framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matteus 24:9) Írski presturinn John R. Cotter skrifaði um þetta vers árið 1817: „Viðleitni þeirra [kristinna manna] til að bæta líf mannkyns með prédikun sinni vekur ekki þakklæti með fólki heldur hatar það og ofsækir lærisveinana fyrir að fletta ofan af ódyggðum þess.“ Slíkir ofsóknarar ‚elska ekki sannleikann svo að þeir mættu verða hólpnir.‘ Þess vegna „sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni. Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu.“ — 2. Þessaloníkubréf 2:10-12.
6. Í hvað ættu kristnir menn ekki að láta sig langa?
6 Kristnir menn búa í fjandsamlegum heimi og Jóhannes postuli varar þá við að ‚elska heiminn og þá hluti sem í heiminum eru.‘ Síðan segir hann: „Allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Jóhannes notar orðið „allt“ sem merkir að ekkert er undanskilið. Þess vegna megum við ekki láta okkur ‚fýsa‘ eða langa í neitt sem heimurinn býður upp á en gæti dregið okkur frá sannleikanum. Ráð Jóhannesar hafa sterk áhrif á líf okkar ef við förum eftir þeim. Hvernig?
7. Hvaða áhrif hefur þekking á sannleikanum á hjartahreina menn?
7 Á árinu 2001 héldu vottar Jehóva um heim allan tæplega fimm milljónir heimabiblíunámskeiða í mánuði þar sem þeir fræddu einstaklinga og hópa um kröfur Guðs, með þeim árangri að 263.431 lét skírast. Ljós sannleikans varð þessum nýju lærisveinum mjög dýrmætt og þeir höfnuðu hinum slæma félagsskap og hinni siðlausu og svívirðilegu hegðun sem heimurinn er fullur af. Síðan þeir létu skírast hafa þeir lifað samkvæmt þeim kröfum sem Jehóva gerir til allra kristinna manna. (Efesusbréfið 5:5) Er sannleikurinn svona dýrmætur í þínum augum?
Jehóva er annt um okkur
8. Hvernig bregst Jehóva við vígslu okkar og hvers vegna er viturlegt að ‚leita fyrst ríkis hans‘?
8 Þó að við séum ófullkomin sýnir Jehóva okkur þá miskunn að viðurkenna vígslu okkar. Hann lýtur svo lágt að sinna okkur og draga okkur til sín. Þannig kennir hann okkur að setja okkur háleit markmið og hafa göfugar langanir. (Sálmur 113:6-8) Jafnhliða því leyfir hann okkur að eiga einkasamband við sig og lofar að annast okkur ef við ‚leitum fyrst ríkis hans og réttlætis.‘ Ef við gerum það og varðveitum okkar andlega mann lofar hann að ‚allt annað veitist okkur að auki.‘ — Matteus 6:33.
9. Hver er hinn ‚trúi og hyggni þjónn‘ og hvernig notar Jehóva hann til að annast okkur?
9 Jesús Kristur valdi postulana 12 og lagði grunninn að söfnuði smurðra kristinna manna sem kallaðir voru „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 21:9, 14) Hann var síðar kallaður „söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.“ (1. Tímóteusarbréf 3:15) Jesús nefndi safnaðarmenn ‚trúan og hygginn þjón‘ og ‚trúan og hygginn ráðsmann.‘ Hann sagði að þessi trúi þjónn myndi hafa það verkefni að gefa kristnum mönnum „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:3, 45-47; Lúkas 12:42) Við sveltum í hel án matar. Á sama hátt veiklumst við og deyjum andlega ef við neytum ekki andlegrar fæðu. Tilvist hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ er því enn ein sönnun þess að Jehóva sé annt um okkur. Sýnum alltaf að við kunnum að meta þá dýrmætu andlegu fæðu sem ‚þjónninn‘ lætur okkur í té. — Matteus 5:3.
10. Af hverju er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að sækja samkomur reglulega?
10 Við neytum andlegrar fæðu með einkanámi, með samneyti við trúsystkini og með því að sækja safnaðarsamkomur. Manstu nákvæmlega hvað þú borðaðir fyrir sex mánuðum eða jafnvel sex vikum? Sennilega ekki. Það sem þú borðaðir var engu að síður nærandi og styrkjandi fyrir þig. Og sennilega hefurðu borðað svipaðan mat síðan. Hið sama er að segja um andlegu fæðuna sem okkur er gefin á safnaðarsamkomum. Við munum kannski ekki eftir öllu sem við höfum heyrt á samkomum. Og sennilega hefur svipað efni komið fram oftar en einu sinni. Það er engu að síður andleg fæða sem er okkur nauðsynleg til að líða vel. Samkomurnar veita alltaf staðgóða andlega fæðu á réttum tíma.
11. Hvaða skyldur fylgja því að sækja safnaðarsamkomur?
11 Það fylgir því líka viss ábyrgð að sækja safnaðarsamkomur. Kristnum mönnum er sagt að ‚uppörva hver annan‘ og hvetja aðra í söfnuðinum „til kærleika og góðra verka.“ Það er trústyrkjandi fyrir okkur sjálf og hvetjandi fyrir aðra ef við búum okkur undir allar safnaðarsamkomur, sækjum þær og tökum þátt í þeim. (Hebreabréfið 10:23-25) Einstaka maður er að sumu leyti eins og matvant barn — það þarf stöðugt að hvetja hann til að nærast andlega. (Efesusbréfið 4:13) Það er kærleiksríkt að hvetja þá sem þurfa á því að halda, svo að þeir geti náð kristnum þroska. Páll postuli skrifaði um þroskaða kristna menn: „Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ — Hebreabréfið 5:14.
Hugsum um andlega velferð okkar
12. Hver ber fyrst og fremst ábyrgð á því að við höldum okkur í sannleikanum? Skýrðu svarið.
12 Maki okkar eða foreldrar geta hvatt okkur til að ganga á vegi sannleikans. Sömuleiðis geta safnaðaröldungarnir gætt okkar ásamt hjörðinni sem þeim er falin umsjón með. (Postulasagan 20:28) En hver ber fyrst og fremst ábyrgð á því að við höldum ótrauð áfram að lifa í samræmi við sannleikann? Þessi ábyrgð hvílir fyrst og fremst á sjálfum okkur, hvort sem aðstæður eru eðlilegar eða erfiðar. Lítum á eftirfarandi dæmi.
13, 14. Hvernig getum við fengið nauðsynlega andlega hjálp, samanber söguna af lambinu?
13 Nokkur lítil lömb voru á beit í haga í Skotlandi þegar eitt þeirra flæktist frá og féll niður á syllu utan í hæð. Lambið var ómeitt en hrætt og þorði ekki að klifra til baka. Það tók að jarma hátt. Móðirin heyrði til lambsins og tók líka að jarma uns smalinn kom og bjargaði því.
14 Taktu eftir atburðarásinni. Lambið jarmaði á hjálp, ærin tók undir og vakti athygli smalans sem bjargaði lambinu snarlega. Fyrst lítið lamb og móðir þess bera skyn á hættur og kalla þegar í stað á hjálp, ættum við þá ekki að gera slíkt hið sama þegar okkur verður fótaskortur andlega eða heimur Satans setur okkur í óvænta hættu? (Jakobsbréfið 5:14, 15; 1. Pétursbréf 5:8) Það ættum við að gera, einkum ef við erum reynslulítil sökum ungs aldurs eða tiltölulega ný í sannleikanum.
Það er til farsældar að fylgja leiðsögn Guðs
15. Hvernig var konu nokkurri innanbrjósts þegar hún byrjaði að sækja safnaðarsamkomur?
15 Lítum á gildi þess að skilja Biblíuna og á þann hugarfrið sem fylgir því að þjóna Guði sannleikans. Sjötug kona hafði sótt ensku biskupakirkjuna alla ævi en þáði einkabiblíukennslu hjá einum votti Jehóva. Hún uppgötvaði fljótt að Guð heitir Jehóva og sagði „amen“ þegar farið var með bæn fyrir hönd safnaðarins á samkomu í ríkissalnum. Henni var mikið niðri fyrir er hún sagði: „Þið lýsið ekki Guði þannig að hann sé órafjarri dauðlegum mönnum heldur færið hann beint til okkar eins og ástkæran vin. Þessu hef ég aldrei kynnst áður.“ Sennilega gleymir þessi áhugasama kona aldrei fyrstu áhrifum sannleikans á sig. Við skulum ekki heldur gleyma hve dýrmætur okkur þótti sannleikurinn þegar við tókum við honum í upphafi.
16. (a) Hvað gæti gerst ef við gerðum peninga að aðalmarkmiði lífsins? (b) Hvernig getum við fundið sanna hamingju?
16 Margir ímynda sér að þeir yrðu hamingjusamari ef þeir ættu meiri peninga. En ef við gerðum peninga að helsta markmiði lífsins gætum við valdið sjálfum okkur „mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:10) Ótalmargir kaupa lottómiða, eyða peningum í spilavítum eða braska glæfralega á hlutabréfamörkuðum í von um stórgróða. En sárafáir sjá nokkurn tíma auðinn sem þeir vonast eftir. Og þeir fáu, sem sjá auðinn, uppgötva oft að hið skyndilega ríkidæmi veitir þeim ekki hamingju. Varanleg hamingja byggist hins vegar á því að gera vilja Jehóva og starfa með kristna söfnuðinum undir leiðsögn anda Jehóva og með hjálp englanna. (Sálmur 1:1-3; 84:5, 6; 89:16) Þegar við gerum þetta uppskerum við oft óvænta blessun. Er sannleikurinn nógu dýrmætur fyrir þig til að veita slíkri blessun inn í líf þitt?
17. Hvað má ráða um afstöðu Péturs postula af því að hann skyldi gista hjá Símoni sútara?
17 Tökum Pétur postula sem dæmi. Árið 36 fór hann til Saronsléttunnar í trúboðsferð. Hann kom við í Lýddu og læknaði Eneas sem var lamaður, og síðan hélt hann förinni áfram til hafnarborgarinnar Joppe. Þar reisti hann Dorkas upp frá dauðum. Postulasagan 9:43 segir: „Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.“ Þessi örstutta athugasemd segir mikið um fordómaleysi Péturs er hann þjónaði fólki þar í borg. Hvernig þá? Biblíufræðingurinn Frederic W. Farrar skrifar: „Enginn ósveigjanlegur fylgismaður hins munnlega lögmáls [Móse] hefði fengist til að gista í húsi sútara. Hin daglegu tengsl við húðir og hræ alls konar dýra, sem fylgdu starfinu, og efnin sem notuð voru við það gerðu húsið óhreint og viðbjóðslegt í augum allra strangra bókstafstrúarmanna.“ Jafnvel þótt hús Símonar „við sjóinn“ hafi ekki verið áfast sútunarstöðinni var ‚starfið fyrirlitið og það hefur eflaust dregið úr sjálfsvirðingu allra sem stunduðu það,“ að sögn Farrars. — Postulasagan 10:6.
18, 19. (a) Hvers vegna átti Pétur erfitt með að skilja sýnina sem hann sá? (b) Hvaða óvænta blessun hlaut Pétur?
18 Pétur þáði gestrisni Símonar fordómalaust og fékk óvænta bendingu frá Guði er hann dvaldist þar. Hann sá sýn þar sem honum var skipað að leggja sér til munns dýr sem voru óhrein samkvæmt lögum Gyðinga. Pétur andmælti og kvaðst aldrei hafa „etið neitt vanheilagt né óhreint.“ En þrívegis var honum sagt: „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!“ Pétur reyndi skiljanlega „að ráða í, hvað þessi sýn ætti að merkja.“ — Postulasagan 10:5-17; 11:7-10.
19 Án þess að Pétur vissi hafði heiðinn maður, sem Kornelíus hét, einnig séð sýn daginn áður. Hann bjó í Sesareu, um 50 kílómetra frá Joppe. Engill Jehóva hafði sagt Kornelíusi að senda þjóna til að leita Pétur uppi í húsi Símonar sútara. Kornelíus sendi þjóna sína í hús Símonar og Pétur fylgdi þeim til Sesareu. Þar prédikaði hann fyrir Kornelíusi, ættingjum hans og vinum með þeim árangri að þeir urðu fyrstu óumskornu heiðingjarnir sem hlutu heilagan anda og urðu erfingjar Guðsríkis. Karlmennirnir voru ekki umskornir en allir sem hlýddu á Pétur létu skírast. Þar með var leiðin opnuð fyrir fólk af öðrum þjóðum, sem var óhreint í augum Gyðinga, til að ganga í kristna söfnuðinn. (Postulasagan 10:1-48; 11:18) Það var mjög sérstakt fyrir Pétur að vera þátttakandi í þessari framvindu — og hann fékk það vegna þess að sannleikurinn var honum dýrmætur og kom honum til þess að fara eftir leiðbeiningum Jehóva í trú.
20. Hvernig styður Guð okkur þegar við látum sannleikann ganga fyrir í lífinu?
20 Páll hvetur okkur til að „ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, — Kristur.“ (Efesusbréfið 4:15) Sannleikurinn veitir okkur óviðjafnanlega hamingju ef við látum hann ganga fyrir í lífinu og leyfum Jehóva að stýra skrefum okkar fyrir tilstilli heilags anda. Og höfum einnig í huga stuðning hinna helgu engla við boðunarstarf okkar. (Opinberunarbókin 14:6, 7; 22:6) Það er mikill heiður að fá slíkan stuðning í því starfi sem Jehóva hefur falið okkur! Með því að vera ráðvönd lofum við Jehóva, Guð sannleikans, um alla eilífð. Getur nokkuð verið dýrmætara en það? — Jóhannes 17:3.
Hvað höfum við lært?
• Hvers vegna vilja margir ekki viðurkenna sannleikann?
• Hvernig ættu kristnir menn að líta á það sem er í heimi Satans?
• Hvernig eigum við að líta á samkomurnar og hvers vegna?
• Hvaða ábyrgð berum við sjálf á andlegri velferð okkar?
[Kort/mynd á blaðsíðu 18]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðið)
HAFIÐ MIKLA
Sesarea
SARONSLÉTTAN
Joppe
Lýdda
Jerúsalem
[Mynd]
Pétur fylgdi fyrirmælum Guðs og hlaut óvænta blessun fyrir vikið.
[Credit line]
Kort: Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Jesús bar sannleikanum vitni.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Andleg fæða er nauðsynleg vellíðan okkar líkt og bókstafleg fæða.