-
Spurningar frá lesendumVarðturninn – 1988 | 1. september
-
-
Einhver hnitmiðuðustu orðin er að finna í Júdasarbréfinu 7. Júdas var nýbúinn að tala um (1) Ísraelsmenn sem var tortímt vegna trúleysis síns og (2) englana sem syndguðu og eru ‚geymdir í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.‘ Síðan segir Júdas: „Eins og Sódóma og Gómorra . . . liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.“ Þessi ritningargrein hefur verið heimfærð á þann veg að borgunum hafi verið tortímt eilíflega en ekki borgarbúum. En í ljósi 5. og 6. versins hjá Júdasi myndu flestir trúlega skilja 7. versið sem svo að verið væri að tala um dóm yfir mönnum. (Á sama hátt ber að skilja Matteus 11:20-24 svo að verið sé að gagnrýna fólk, ekki steina eða byggingar.) Séð í þessu ljósi ber að skilja það svo að íbúar Sódómu og Gómorru hafi verið dæmdir og tortímt eilíflega.a
Þegar leitað er fanga annars staðar vekur eftirtekt að oftar en einu sinni nefnir Biblían flóðið og Sódómu og Gómorru í sömu andránni. Í hvaða samhengi?
Þegar Jesús var spurður um ‚endalok veraldar‘ sagði hann fyrir komandi ‚endi‘ og „mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims.“ (Matteus 24:3, 14, 21) Í framhaldinu talaði hann um ‚daga Nóa‘ og það sem gerðist „á dögum Lots“ sem dæmi um menn er gáfu engan gaum að aðvöruninni um yfirvofandi tortímingu. Jesús bætti við: „Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.“ (Lúkas 17:26-30; samanber Matteus 24:36-39.) Tók Jesús þessi dæmi aðeins til að lýsa viðhorfum manna eða gefur samhengið til kynna að þeir sem fórust á þessum tímum hafi hlotið eilífan dóm?
Síðar fjallaði Pétur um dóma Guðs og refsingu hans til handa þeim sem verðskulduðu hana. Hann tók síðan þrjú dæmi: Englana sem syndguðu, hinn forna heim á dögum Nóa og þá sem eytt var í Sódómu og Gómorru. Hið síðastnefnda segir Pétur vera „til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega.“ (2. Pétursbréf 2:4-9) Að því búnu líkti hann eyðingu þeirra, sem fórust í flóðinu, við hinn komandi ‚dag, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.‘ Þetta kemur á undan fyrirheitinu um nýjan himin og nýja jörð. — 2. Pétursbréf 3:5-13.
Munu þeir sem Guð tekur af lífi við endalok hinnar núverandi illu heimsskipanar hafa hlotið endanlegan dóm? Það er það sem gefið er til kynna í 2. Þessaloníkubréfi 1:6-9: „Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja. En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti.“
Það er athyglisverð samsvörun milli orðfærisins hér og í því sem Júdas sagði um Sódómu. Enn fremur gefa Matteus 25:31-46 og Opinberunarbókin 19:11-21 til kynna að „hafrarnir,“ sem teknir verða af lífi í hinu komandi stríði Guðs, hljóti ‚eilífa refsingu‘ eða afnám í ‚eldsdíkinu‘ sem táknar ævarandi útrýmingu.b — Opinberunarbókin 20:10, 14.
Auk þess sem Júdas 7 segir notar Biblían þannig Sódómu og Gómorru og flóðið sem fordæmi um eyðingu og endalok núverandi illrar heimsskipanar. Það er því nokkuð ljóst að þeir sem Guð tók af lífi, þegar hann fullnægði þessum dómum, létu lífið fyrir fullt og allt. Að sjálfsögðu getum við eitt og sérhvert staðfest það með því að reynast Jehóva trúföst núna. Með þeim hætti verðum við hæf til að fá að lifa í hinum nýja heimi og getum séð hverja hann reisir upp og hverja ekki. Við vitum að dómar hans eru fullkomnir. Elíhú fullvissaði okkur: „Vissulega fremur Guð ekki ranglæti, og hinn Almáttki hallar ekki réttinum.“ — Jobsbók 34:10, 12.
-
-
Spurningar frá lesendumVarðturninn – 1988 | 1. september
-
-
a Í Esekíel 16:53-55 er minnst á ‚Sódómu og dætur hennar,‘ það er að segja borgir undir hennar valdi, ekki í sambandi við upprisu heldur í táknrænni merkingu í sambandi við Jerúsalem og dætur hennar. (Samanber Opinberunarbókina 11:8.) Sjá einnig Varðturninn (enska útgáfu) þann 1. júlí 1952, bls. 337.
b Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) þann 1. ágúst 1979.
-