Heiðraðu soninn, höfuðmiðlara Jehóva
„Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.“ — JÓHANNES 5:23.
1. Hvernig vanheiðrar trú kristna heimsins á þrenningu Jesú?
MARGT manna í kristna heiminum segist heiðra Jesú Krist en gerir þó hið gagnstæða. Hvernig? Nú, margir fullyrða að Jesús sé alvaldur Guð og að Guð, skapari allra hluta, hafi komið til jarðar og lifað og dáið sem maður. Þessi staðhæfing birtist í þrenningarkenningunni sem er undirstöðukenning kristna heimsins. En ef þrenningarkenningin er röng, ef Jesús er í raun óæðri Guði og undir hann settur, ætli það hryggi þá ekki Jesú að sjá þessa rangfærslu á sambandi sínu við Guð? Honum hlýtur að finnast slík rangfærsla vanheiðra sjálfan sig og allt sem hann kenndi.
2. Hvernig sýnir Ritningin greinilega að Jesús er óæðri Guði og undir hann settur?
2 Sannleikurinn er sá að Jesús sagðist aldrei vera Guð heldur talaði þráfaldlega um sjálfan sig sem ‚son Guðs.‘ Jafnvel óvinir hans viðurkenndu það. (Jóhannes 10:36; 19:7) Jesús var sífellt að upphefja föður sinn og gera lítið úr sjálfum sér eins og hann viðurkenndi: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig. Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér . . . því að ég leita ekki míns vilja heldur þess, sem sendi mig.“ Og enn sagði hann: „Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig.“ Hann sagði einnig: „Frá Guði er ég út genginn og kominn.“ (Jóhannes 5:19, 30; 7:28, 29; 8:42) Jesús gaf aldrei í skyn að hann væri Guð eða jafn honum. Að kenna slíkt vanheiðrar Jesú.
Jesús vanheiðraður á aðra vegu
3. (a) Hverju afneita sumir í kristna heiminum og vanheiðra Jesú þar með? (b) Hvernig bar Jesús vitni um að hann hefði verið til áður en hann varð maður?
3 Þótt undarlegt sé vanheiðra sumir í kristna heiminum Jesú með því að afneita því að hann hafi verið til áður en hann varð maður. Við getum þó ekki heiðrað Jesú réttilega nema við gerum okkur ljóst að hann hafi bókstaflega komið niður frá himnum til jarðar. Jesús endurtók margsinnis sjálfur að hann hafi verið til áður en hann varð maður. „Enginn hefur stigið upp til himins,“ sagði hann, „nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.“ Síðar sagði hann: „Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. . . . En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var?“ Og enn fremur: „Þér eruð neðan að, ég ofan að. . . . Sannlega, sannlega segi ég yður: áður en Abraham fæddist, er ég.“ (Jóhannes 3:13; 6:51, 62; 8:23, 58) Jesús talaði einnig um fortilveru sína í bæn til föður síns á himnum nóttina sem hann var svikinn. — Jóhannes 17:5.
4. (a) Á hvaða aðra vegu vanheiðra margir Jesú? (b) Hvað ætti að nægja til að sanna að Jesús var til og hvers vegna?
4 Sumir í kristna heiminum fara jafnvel út í þær öfgar að afneita því að Jesús hafi verið sannsöguleg persóna, að hann hafi nokkurn tíma verið til sem maður. Ef hann var ekki til, þá er auðvitað út í hött að ræða um hvers vegna við ættum að heiðra hann. Hinar fjölmörgu frásögur sjónarvotta, sem varðveittar eru í Biblíunni, ættu þó að nægja til að sanna umfram allan vafa að Jesús hafi í raun og veru lifað hér á jörð. (Jóhannes 21:25) Það má sjá ekki síst af því að frumkristnir menn hættu oft lífi sínu og frelsi til að segja frá Jesú. (Postulasagan 12:1-4; Opinberunarbókin 1:9) En er hægt að sýna fram á að Jesús hafi verið til án þess að taka mið af því sem fylgjendur hans skrifuðu um hann?
5, 6. Hvaða sögulegan vitnisburð höfum við, utan Biblíunnar, fyrir tilvist Jesú Krists?
5 The New Encyclopedia Britannica (1987) segir: „Óháðar frásagnir sanna að til forna véfengdu ekki einu sinni andstæðingar kristninnar að Jesús væri sannsöguleg persóna.“ Og hvaða óháðar frásagnir er hér um að ræða? Að sögn Gyðingsins og fræðimannsins Josephs Klausners má nefna meðal annars fyrstu Talmúdaritin. (Jesus of Nazareth, bls. 20) Þá má einnig nefna vitnisburð sagnfræðingsins Jósefusar á fyrstu öld, en hann var Gyðingur. Til dæmis lýsir hann því er Jakob var grýttur og sagði hann hafa verið „bróður Jesú sem kallaður var Kristur.“ — Jewish Antiquities XX, [ix, 1].
6 Auk þess er að nefna vitnisburð rómverskra sagnaritara, einkum hins mikilsvirta Tacítusar. Hann sagði snemma á annarri öld frá „hópi hataðra manna sem almenningur kallaði kristna. Kristus [Kristur], sem nafnið [kristinn maður] er komið af, var líflátinn í stjónartíð Tíberíusar fyrir hendi eins af landstjórum okkar.“ (The Annals, XV, XLIV) Franski heimspekingurinn og sagnfræðingurinn Jean-Jacques Rousseau, sem uppi var á 18. öld, áleit sönnunargögnin fyrir tilvist Jesú svo yfirþyrmandi að hann sagði: „Saga Sókratesar, sem enginn vogar sér að véfengja, er ekki jafnvel vottfest og saga Jesú Krists.“
Ástæður til að heiðra soninn
7. (a) Hvaða vitnisburður Biblíunnar skyldar okkur til að heiðra Jesú Krist? (b) Hvernig hefur Jehóva heiðrað son sinn?
7 Við snúum okkur nú að því hvernig beri að heiðra Jesú Krist. Að fylgjendum hans sé skylt að heiðra hann má sjá í orðum hans í Jóhannesi 5:22, 23: „Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm, svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.“ Frá upprisu Krists hefur Jehóva heiðrað son sinn enn meira og ‚krýnt hann vegsemd og heiðri vegna dauðans sem hann þoldi.‘ (Hebreabréfið 2:9; 1. Pétursbréf 3:22) Við höfum með öðrum orðum ástæðu til að heiðra Jesú bæði vegna þess hver hann er og vegna þess sem hann hefur gert.
8. Vegna hvaða sérstöðu Jesú Krists verðskuldar hann heiður?
8 Jesús Kristur verðskuldar heiður vegna þess að hann, Logos eða Orðið, er talsmaður Jehóva sem á sér engan jafningja. Af Ritningunum er ljóst að nafngiftin „Orðið“ á við Jesú áður en hann kom til jarðar og eins eftir að hann steig upp til himna. (Jóhannes 1:1; Opinberunarbókin 19:13) Í Opinberunarbókinnni 3:14 talar hann um sig sem „upphaf sköpunar Guðs.“ Bæði er hann „frumburður allrar sköpunar“ og eins ‚eingetinn sonur,‘ sá eini sem Jehóva Guð skapaði beint. (Kólossubréfið 1:15; Jóhannes 3:16) Auk þess urðu „allir hlutir . . . fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.“ (Jóhannes 1:3) Þegar við því lesum í 1. Mósebók 1:26 að Guð hafi sagt: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss,“ þá vísar „vér“ til Logos eða Orðsins. Sú staðreynd að Jesús naut þeirra miklu sérréttinda að eiga hlut með Jehóva Guði í sköpunarstarfinu áður en hann var maður gerir hann verðan mikils heiðurs.
9. Hvers vegna ályktum við að Jesús sé erkiengillinn Míkael og hvernig heiðraði Míkael Jehóva í sambandi við líkama Móse?
9 Jesús Kristur er enn fremur heiðurs verður vegna þess að hann er höfuðengill Jehóva eða erkiengill. Á hvaða grundvelli komumst við að þeirri niðurstöðu? Nú, forskeytið „erki-“ merkir „aðal-“ eða „höfuð-“ og gefur til kynna að einungis sé einn erkiengill. Orð Guðs talar um hann í tengslum við hinn upprisna Drottin Jesú Krist. Við lesum: „Sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.“ (1. Þessaloníkubréf 4:16) Þessi erkiengill hefur nafn eins og við lesum í Júdasarbréfinu 9: „Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að leggja lastmælisdóm á djöfulinn, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: ‚[Jehóva] refsi þér!‘“ Með því að hlaupa ekki á undan Jehóva og fella dóm yfir djöflinum heiðraði Jesús föður sinn á himnum.
10. (a) Hvernig tekur Míkael forystu í baráttunni í þágu Guðsríkis? (b) Hvaða hlutverki gegndi Míkael í sambandi við Ísraelsþjóðina?
10 Erkiengillinn Míkael berst í þágu Guðsríkis og tekur forystuna í að úthýsa Satan og djöflasveitum hans af himnum. (Opinberunarbókin 12:7-10) Og spámaðurinn Daníel segir að hann ‚gangi fram í þágu þjóðar Guðs.‘ (Daníel 12:1) Það virðist því vera að Míkael sé sá „engill Guðs, sem gekk á undan liði Ísraels,“ og að hann sé sá sem Guð notaði til að leiða þjóð sína inn í fyrirheitna landið. „Haf gát á þér fyrir honum og hlýð hans röddu,“ bauð Guð. „Móðga þú hann ekki . . . því að mitt nafn er í honum.“ (2. Mósebók 14:19; 23:20, 21) Vafalaust hefur erkiengill Jehóva haft mikinn áhuga á þeirri þjóð sem bar nafn Guðs. Það var því vel við hæfi að hann skyldi koma til hjálpar öðrum engli sem sendur var til að hughreysta spámanninn Daníel, er voldugur, illur andi hefti för engilsins. (Daníel 10:13) Í ljósi þessa kann að vera rökrétt að engillinn, sem tortímdi 185.000 hermönnum Sanheríbs, hafi verið enginn annar en Míkael erkiengill. — Jesaja 37:36.
11. Vegna hvaða lífsstefnu á jörðinni verðskuldar Jesús að við heiðrum hann?
11 Jesús Kristur er heiðurs verður ekki aðeins vegna þess hver hann er heldur líka þess sem hann hefur gert. Hann er til dæmis eini maðurinn sem lifað hefur fullkomnu lífi. Adam og Eva voru sköpuð fullkomin en fullkomleiki þeirra var skammlífur. Jesús Kristur reyndist hins vegar „heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum,“ þrátt fyrir allar þær freistingar og ofsóknir sem djöfullinn leiddi yfir hann. Í gegnum allt þetta ‚drýgði hann ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.‘ Hann gat því réttilega skorað á trúarlega andstæðinga sína: „Hver yðar getur sannað á mig synd?“ Enginn gat það! (Hebreabréfið 7:26; 1. Pétursbréf 2:22; Jóhannes 8:46) Og vegna þess að Jesús syndgaði ekki heldur varðveitti ráðvendni upphóf Jesús himneskan föður sinn sem réttmætan drottinvald alheimsins og sannaði djöfulinn fyrirlitlegan og grófan lygara. — Orðskviðirnir 27:11.
12. (a) Hvers konar maður var Jesús, hvað gerði hann fyrir aðra og hvernig þurfti hann að þjást fyrir þá? (b) Hvers vegna verðskuldar Jesús að við heiðrum hann vegna þess sem hann gerði og leið?
12 Jesús Kristur verðskuldar að við heiðrum hann, ekki aðeins af því að hann lifði fullkomnu, syndlausu lífi, heldur líka vegna þess að hann var góður maður, óeigingjarn og fórnfús. (Samanber Rómverjabréfið 5:7.) Hann var óþreytandi við að þjóna andlegum og efnislegum þörfum annarra. Hann sýndi mikla kostgæfni gagnvart húsi föður síns og þolinmæði í samskiptum við lærisveina sína! Hann var fús til að þola miklar þjáningar til að gera vilja föður síns! Biblían segir um eldraun hans í Getsemanegarðinum: „Hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.“ Já, hann bar fram „með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp.“ (Lúkas 22:44; Hebreabréfið 5:7) Spámaðurinn Jesaja lýsti eldraun hans nákvæmlega í Jesaja 53:3-7.
13. Hvaða gott fordæmi gaf Jesús okkur með því að heiðra föður sinn á himnum?
13 Jesús verðskuldar líka heiður vegna hins góða fordæmis sem hann gaf okkur í því að heiðra föður sinn á himnum. Hann gat vel sagt: „Ég heiðra föður minn.“ (Jóhannes 8:49) Öllum stundum heiðraði hann Jehóva Guð með orðum sínum og verkum. Biblían segir frá því að þegar hann læknaði mann hafi fólk ekki lofað Jesú heldur ‚lofað Guð.‘ (Markús 2:12) Jesús gat því réttilega sagt í bæn til föður síns undir lok jarðneskrar þjónustu sinnar: „Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.“ — Jóhannes 17:4.
Það sem hann hefur gert fyrir okkur
14. Hverju áorkaði dauði Jesú fyrir okkur sem veldur því að okkur ber að heiðra hann?
14 Jesús Kristur verðskuldar mjög að við heiðrum hann vegna alls sem hann hefur gert fyrir okkur. Hann dó fyrir syndir okkar þannig að við gætum sæst við Jehóva Guð. Jesús sagði um sjálfan sig: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Dauði hans gerði því mögulegt allt sem Guðsríki mun áorka fyrir okkur mennina: ódauðlegt líf á himnum fyrir þær 144.000 sem mynda brúði hans, og eilíft líf á jörð sem verður paradís fyrir milljónir annarra manna sem sanna trú sína og hlýðni gegnum prófraun. — Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 14:1-3; 21:3, 4.
15. Nefndu dæmi um hvernig Jesús opinberaði okkur persónuleika föður síns.
15 Jesús Kristur verðskuldar líka heiður vegna þess að sem kennarinn mikli hefur hann opinberað okkur fullkomlega vilja föður síns og persónuleika. Til dæmis benti hann í fjallræðu sinni á örlæti föður síns með því að senda jafnt góðum sem vondum sól og regn og sagði svo: „Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ — Matteus 5:44-48.
16. Hvernig lýsti Páll postuli æviferli Jesú?
16 Páll postuli dró vel saman hinn heiðursverða æviferil Jesú er hann skrifaði: „Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ — Filippíbréfið 2:2-8.
Hvernig við getum heiðrað soninn
17, 18. Á hvaða ýmsa vegu getum við heiðrað Jesú Krist?
17 Þar eð Jesús Kristur verðskuldar tvímælalaust að við heiðrum hann er eðlilegt að spyrja: Hvernig getum við heiðrað soninn? Við gerum það með því að iðka trú á lausnarfórn hans, og við sönnum þá trú með því að stíga nauðsynleg skref sem eru iðrun, afturhvarf, vígsla og skírn. Við heiðrum Jesú með því að snúa okkur til Jehóva í Jesú nafni. Við heiðrum hann líka með því að taka til okkar orð hans: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Matteus 16:24) Við heiðrum Jesú Krist þegar við förum eftir fyrirmælum hans og leitum fyrst ríkis Guðs og réttlætis hans, og við heiðrum hann þegar við hlýðum boði hans um að taka þátt í að gera menn að lærisveinum. Við heiðrum Jesú líka þegar við látum í ljós þann bróðurkærleika sem hann sagði myndu einkenna alla sanna fylgjendur hans. — Matteus 6:33; 28:19, 20; Jóhannes 13:34, 35.
18 Við heiðrum enn fremur soninn með því að bera nafn hans og kalla okkur kristna, og síðan með því að lifa í samræmi við þetta nafn með því að breyta vel. (Postulasagan 11:26; 1. Pétursbréf 2:11, 12) Pétur postuli sagði að við ættum að feta gaumgæfilega í fótspor Jesú. (1. Pétursbréf 2:21) Við heiðrum hann einnig með því að líkja þannig eftir honum í allri okkar breytni. Og að sjálfsögðu heiðrum við hann sérstaklega þegar við höldum ár hvert minningarhátíðina um dauða Krists. — 1. Korintubréf 11:23-26.
19, 20. (a) Hvaða umbun hefur Jesús heitið lærisveinum sínum sem heiðra hann, nú og í framtíðinni? (b) Hvaða trúartraust getum við borið til sonarins?
19 Hvaða umbun hefur Jesús heitið lærisveinum sínum fyrir að ganga þá götu sem heiðrar hann? Hann sagði: „Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ — Markús 10:29, 30.
20 Það leiðir af þessu að Jesús mun sjá til þess að okkur verði umbunað ef við færum fórnir fyrir hann. Jesús fullvissar okkur: „Hvern þann, sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum.“ (Matteus 10:32) Á sama hátt og faðirinn á himnum heiðrar þann sem heiðrar hann, eins megum við treysta að eingetinn sonur Guðs muni líkja eftir föður sínum í þessu efni, alveg eins og hann gerir á öðrum sviðum.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig vanheiðra margir í kristna heiminum soninn?
◻ Hvernig bar Jesús vitni um tilveru sína áður en hann varð maður?
◻ Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að heiðra Jesú.
◻ Nefndu nokkrar leiðir til að heiðra Jesú.
◻ Hvaða blessun hefur það í för með sér fyrir okkur að heiðra Jesú Krist?