„Þetta er dagur daganna“
„Ég var hrifinn í anda á Drottins degi.“ — OPINBERUNARBÓKIN 1:10.
1. Hvaða ‚degi‘ lifum við á og hvers vegna er það hrífandi?
„ÞETTA er dagur daganna. Sjá, konungurinn ríkir!“ Enn þann dag í dag eru þessi áhrifamiklu orð annars forseta Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, sem hann mælti árið 1922, hrífandi fyrir okkur. Þau minna okkur á að við lifum stórkostlegustu tíma allrar mannkynssögunnar, þá tíma sem Biblían kallar ‚Drottins dag.‘ (Opinberunarbókin 1:10) Við lifum svo sannarlega á ‚degi daganna,‘ þýðingarmestu tímum mannkynssögunnar, því að það eru þeir tímar er Jehóva mun nota ríki Krists til að uppfylla sinn stórkostlega tilgang og helga sitt heilaga nafn frammi fyrir allri sköpuninni.
2, 3. (a) Hve lengi stendur dagur Drottins? (b) Hvar getum við lesið um þennan dag?
2 Þessi dagur hófst árið 1914 þegar Jesús var settur í hásæti sem konungur Guðsríkis. Hann varir allt til enda þúsundáraríkisins þegar Kristur „selur ríkið Guði föður í hendur.“ (1. Korintubréf 15:24) Trúfastir kristnir menn hafa um aldaraðir hlakkað til dags Drottins. Núna er hann runninn upp! Hvað hefur þessi „dagur daganna“ þýtt fyrir þjóna Guðs og heiminn í heild?
3 Opinberunarbókin er sú biblíubók sem segir okkur mest um Drottins dag. Nánast allir spádómar þeirrar bókar rætast á Drottins degi. En Opinberunarbókin er aðeins hámark langrar spádómsbókaraðar sem segja okkur frá þeim degi. Honum er einnig lýst í bókum spámannanna Jesaja, Jeremía, Esekíels og Daníels. Þær bækur veita okkur í mörgum tilvikum betri skilning á spádómum Opinberunarbókarinnar. Við skulum skoða hvernig sérstaklega Esekíelsbók varpar ljósi á uppfyllingu Opinberunarbókarinnar á Drottins degi.
Riddararnir fjórir
4. Hvað gerðist í byrjun Drottins dags samkvæmt Opinberunarbókinni 6. kafla?
4 Til dæmis lýsir Jóhannes postuli áhrifamikilli sýn í sjötta kafla Opinberunarbókarinnar: „Ég sá og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ (Opinberunarbókin 6:2) Hver er þessi sigursæli riddari? Enginn annar en Jesús Kristur, krýndur sem konungur Guðsríkis er hann ríður fram til að sigra óvini sína. (Sálmur 45:4-7; 110:2) Sigurreið Jesú hófst árið 1914 um leið og Drottins dagur rann upp. (Sálmur 2:6) Fyrsti sigur hans fólst í því að varpa Satan og illum öndum hans niður til jarðar. Afleiðingarnar fyrir mannkynið urðu þessar: „Vei sé jörðunni og hafinu.“ — Opinberunarbókin 12:7-12.
5. Hvaða óhugnanlegar verur fylgja riddaranum á hvíta hestinum og hvaða vald hefur hver um sig?
5 Í sýninni birtast þessu næst þrjár óhugnanlegar verur: Rauður hestur sem tákn stríðs, svartur hestur sem tákn hungursneyðar og bleikur hestur sem „Dauði“ situr. Um þennan fjórða hest lesum við: „Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ — Opinberunarbókin 6:3-8; Matteus 24:3, 7, 8; Lúkas 21:10, 11.
6. Hvaða áhrif hafa þessir þrír ógnvekjandi hestar og riddarar haft á jörðina?
6 Eins og þessi spádómur boðaði hefur mannkynið þolað hræðilegustu þjáningar af völdum styrjaldar, hungurs og sjúkdóma frá 1914. En fjórði hesturinn lætur menn líka „farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ Hefur borið á því frá 1914? Athugun á hliðstæðum spádómi hjá Esekíel hjálpar okkur að skilja þetta atriði spádómsins.
7. (a) Hvaða spádóm bar Esekíel fram um Jerúsalem? (b) Hvernig rættist þessi spádómur?
7 Esekíel skrifar bók sína ef til vill um fimm árum fyrir eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. Þar færði hann í letur spádóm um þá hræðilegu refsingu sem Gyðingar myndu hljóta fyrir ótrúfesti sína. Hann skrifaði undir innblæstri: „Ég sendi fjóra mína vondu refsidóma, sverð, hungur, óargadýr og drepsótt, yfir Jerúsalem til þess að eyða í henni mönnum og skepnum.“ (Esekíel 14:21; 5:17) Rættust þessi orð bókstaflega á þeim tíma? Vafalaust leið Jerúsalem mikið vegna hungurs og hernaðar þegar dró nær endalokum hennar. Og hungur hefur venjulega sjúkdóma í för með sér. (2. Kroníkubók 36:1-3, 6, 13, 17-21; Jeremía 52:4-7; Harmljóðin 4:9, 10) En urðu Jerúsalembúar líka fyrir árásum villidýra á þeim tíma? Trúlega voru þess dæmi að dýr drægu menn burt eða dræpu því að Jeremía sagði það einnig fyrir. — 3. Mósebók 26:22-33; Jeremía 15:2, 3.
8. Hvaða hlutverki hafa villidýr gegnt á Drottins degi fram til þessa?
8 Hvað um okkar daga? Í iðnríkjum heims stafar mönnum ekki lengur sú hætta af villidýrum sem áður var. Sum staðar í heiminum halda menn þó áfram að verða fórnarlömb villidýra, einkum ef við teljum snáka og krókódíla með „villidýrum jarðarinnar.“ Alþjóðafjölmiðlar segja sjaldan frá slíkum dauðsföllum, en þau eru þess verð að eftir þeim sé tekið. Bókin Planet Earth — Flood nefnir að í Indlandi og Pakistan hafi fjöldamargir „dáið kvalafullum dauðdaga af biti eitursnáka“ er þeir voru að reyna að forða sér undan flóðum. Blaðið India Today segir frá einu þorpi í Vestur-Bengal þar sem talið er að 60 konur hafi misst menn sína í gin tígrisdýra. Harmleikir af þessu tagi kunna að verða enn algengari er upplausn mannlegs samfélags og hungursneyð magnast.
9. Hvaða annars konar „dýr“ hafa á okkar öld valdið miklu tjóni og þjáningum meðal mannkynsins?
9 En Esekíel hafði í huga annars konar ‚dýr‘ er hann sagði: „Þjóðhöfðingjar [spámenn, NW] þess voru í því sem öskrandi ljón, er rífur sundur bráð sína. Mannslífum hafa þeir eytt . . . Yfirmenn hennar voru í henni eins og sundurrífandi vargar.“ (Esekíel 22:25, 27) Menn geta hegðað sér eins og dýr og mannkynið hefur á okkar öld þolað mikið harðræði af völdum slíkra rándýra. Dýrslegir glæpamenn og hryðjuverkamenn hafa svipt marga lífi. Menn hafa farist á fleiri en einn veg „fyrir villidýrum jarðarinnar.“
10. Hvað hjálpar upptalning Jóhannesar á styrjöld, hungursneyð, sjúkdómum og villidýrum okkur að skilja?
10 Upptalningin á styrjöldum, hungursneyð, sjúkdómum og villidýrum í sýn Jóhannesar vekur athygli okkar á því að sú kvöl, sem Jerúsalem varð fyrir árið 607 f.o.t., átti að eiga sér margar hliðstæður á okkar dögum. Drottins dagur hefur þegar haft í för með sér þjáningar fyrir heiminn, aðallega vegna drottnara mannkynsins sem hafa neitað að beygja sig undir vald fyrsta riddarans, hins krýnda konungs Jesú Krists. (Sálmur 2:1-3) En hvað hefur dagur Drottins haft í för með sér fyrir þjóna Guðs?
Musterið mælt
11. Hvað var Jóhannesi boðið í Opinberunarbókinni 11:1 og hvaða musteri var þar um að ræða?
11 Í Opinberunarbókinni 11:1 segir Jóhannes postuli: „Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: ‚Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja.‘“ Þessi mæling musterisins, sem Jóhannes sá í sýninni, var mjög merkingarþrungin fyrir þjóna Guðs. Hver var sá helgidómur sem Jóhannes mældi? Ekki hið bókstaflega musteri Gyðinga þar sem Jóhannes hafði tilbeðið áður en hann varð kristinn maður. Jehóva hafði hafnað því musteri og það var eyðilagt árið 70. (Matteus 23:37-24:2) Hér var um að ræða hið mikla, andlega musterisfyrirkomulag Jehóva. Í þessu táknræna musteri þjóna smurðir kristnir menn sem undirprestar í jarðneskum forgarði. — Hebreabréfið 9:11, 12, 24; 10:19-22; Opinberunarbókin 5:10.
12. Hvenær varð þetta musteri til og hvað átti sér stað í sambandi við það á fyrstu öldinni?
12 Það musteri varð til árið 29 þegar Jesús var smurður sem æðsti prestur. (Hebreabréfið 3:1; 10:5) Það átti að eiga sér 144.000 undirpresta og á fyrstu öldinni voru margir þeirra útvaldir, innsiglaðir og trúfastir allt til dauða. (Opinberunarbókin 7:4; 14:1) Þegar þessir kristnu menn á fyrstu öld dóu sváfu þeir í gröfinni og voru ekki reistir upp til himna samstundis. (1. Þessaloníkubréf 4:15) Auk þess átti sér stað hið mikla fráhvarf eftir fyrstu öldina og kristnir menn, smurðir sem prestar, voru umkringdir fráhvarfsmönnum sem spruttu upp eins og „illgresi.“ (Matteus 13:24-30) Í aldanna rás þaðan í frá var ekki óeðlilegt að menn hugsuðu með sér: ‚Ætli hinir 144.000 undirprestar verði nokkurn tíma innsiglaðir? Ætli þeir sem dáið hafa trúfastir hljóti einhvern tíma upprisu til að þjóna í helgidóminum á himnum?‘ Mæling musterisins í sýninni sýndi að svarið við báðum spurningunum var jákvætt. Hvernig?
13. Hvaða trygging fólst í því að Jóhannes skyldi mæla musterið og hvað gerðist snemma á Drottins degi?
13 Þegar talað er um það í spádómum Biblíunnar að eitthvað sé mælt merkir það yfirleitt að tilgangur Jehóva þar að lútandi mundi ná fullkomlega fram að ganga. (2. Konungabók 21:13; Jeremía 31:39; Harmljóðin 2:8) Að Jóhannes skyldi mæla helgidóminn í sýn sinni var því trygging fyrir því að á Drottins degi myndi allur tilgangur Jehóva varðandi musterið rætast. Í samræmi við það byrjuðu hinir smurðu, sem dáið höfðu trúfastir, að hljóta upprisu árið 1918 til þess staðar í helgidóminum á himnum sem þeim hafði verið heitið. (1. Þessaloníkubréf 4:16; Opinberunarbókin 6:9-11) En hvað um þá sem eftir voru af hinum 144.000?
14. Hvað gerist hjá smurðum kristnum mönnum fyrir fyrri heimsstyrjöldina og meðan hún stóð?
14 Áður en dagur Drottins hófst voru smurðir kristnir menn sem höfðu gengið út úr hinum trúvillta kristna heimi, byrjaðir að safnast inn í aðgreint skipulag. Trúfastir höfðu þeir boðað að árið 1914 yrði mikið tímamótaár, en þegar fyrri heimsstyrjöldin hafði verið háð um tíma var byrjað að kúga þá eða „fótum troða.“ Það náði hámarki árið 1918 þegar forystumenn Varðturnsfélagsins voru fangelsaðir og skipulögð prédikun lagðist nánast niður. Á þeim tíma voru þeir svo gott sem ‚deyddir.‘ (Opinberunarbókin 11:2-7) Hvað þýddi það þá fyrir þessa kristnu menn að helgidómurinn var mældur?
15. Hvað þýddi það fyrir þjóna Guðs á dögum Esekíels að musterið í sýninni skyldi vera mælt?
15 Árið 593 f.o.t., 14 árum eftir eyðingu musteris Jehóva í Jerúsalem, sá Esekíel hús Jehóva í sýn. Farið var með hann í rækilega skoðunarferð um þetta musteri og hann horfði á þegar hver hluti þess var nákvæmlega mældur. (Esekíel 40.-42. kafli) Hvað merkti það? Jehóva skýrir það sjálfur. Mæling musterisins fól í sér prófun fyrir þjóð Esekíels. Ef þjóðin myndi auðmýkja sig, iðrast synda sinna og samstilla sig lögum Jehóva yrðu henni sögð mál musterisins. Það átti að styrkja von þeirra um að þjónar Jehóva myndu dag einn verða frelsaðir úr Babýlon og fá að tilbiðja Jehóva á ný í bókstaflegu musteri hans. — Esekíel 43:10, 11.
16. (a) Hvað tryggði það þjónum Guðs árið 1918 að Jóhannes skyldi mæla helgidóminn? (b) Hvernig rættist það?
16 Ef þessir kjarklitlu kristnu menn árið 1918 myndu auðmýkja sig og iðrast þeirra synda, sem þeim höfðu orðið á, yrðu þeir frelsaðir og myndu hljóta blessun Jehóva og fá fulla hlutdeild í musterisráðstöfun hans. Og það var það sem gerðist. Samkvæmt Opinberunarbókinni 11:11 ‚risu þeir á fætur‘ eða voru táknrænt reistir upp. Hliðstæð upprisusýn í Esekíelsbók var fyrirmynd þess að Gyðingar myndu fá að snúa heim í land sitt á ný. (Esekíel 37:1-14) Þessi ‚nútímaupprisa‘ átti sér stað á þann hátt að Guð reisti þjóna sína upp úr kjarkleysi og nánast athafnaleysi, til lifandi starfs og kappsfullrar þátttöku í þjónustu Jehóva. Slík ‚upprisa‘ átti sér stað árið 1919.
Litla bókrollan
17. (a) Lýstu sýn Jóhannesar í Opinberunarbókinni 10:1. (b) Hver var engillinn sem Jóhannes sá og á hvaða degi átti sýnin að rætast?
17 Í Opinberunarbókinni 10:1 sá Jóhannes „sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur sem eldstólpar.“ Þessi sýn líktist nokkuð sýnum sem Jehóva hafði áður gefið Esekíel og Jóhannesi. (Esekíel 8:2; Opinberunarbókin 4:3) En Jóhannes sá hér engil, ekki Jehóva. Það hlýtur því að hafa verið hinn mikli englasonur Guðs, Jesús Kristur, sem er „ímynd hins ósýnilega Guðs.“ (Kólossubréfið 1:15) Opinberunarbókin 10:2 lýsir Jesú enn fremur í mikilli valdastöðu. „Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðunni.“ Engillinn táknar því Jesú á Drottins degi. — Sjá Sálm 8:5-9; Hebreabréfið 2:5-9.
18. (a) Hvað var Jóhannesi boðið að eta? (b) Hvað var Esekíel boðið að eta í áþekkri sýn og með hvaða afleiðingum?
18 Í þessari mikilfenglegu sýn heldur Jesús á lítilli bókrollu í hendi sér og skipar Jóhannesi að taka hana og eta. (Opinberunarbókin 10:8, 9) Jóhannes verður þannig fyrir mjög svipaðri reyslu og Esekíel sem einnig fékk boð um það í sýn að eta bókróllu. Þegar Esekíel átti í hlut var það Jehóva sjálfur sem afhenti spámanninum bókrolluna og Esekíel sá að á hana voru rituð „harmljóð, andvörp og kveinstafir.“ (Esekíel 2:8-10) Esekíel segir: „Ég át hana og var hún í munni mér sæt sem hunang.“ (Esekíel 3:3) Hvað þýddi það fyrir Esekíel að eta bókrolluna?
19. (a) Hvað táknaði það að Esekíel skyldi eta bókrolluna? (b) Hverjum var sá beiski boðskapur ætlaður sem Esekíel átti að prédika?
19 Ljóst er að bókrollan innihélt innblásin spádómsboðskap. Með því að eta bókrolluna var Esekíel að lýsa sig fúsan til að boða þennan boðskap í slíkum mæli að hann yrði hluti af honum sjálfum. (Samanber Jeremía 15:16.) En ekki var innihald bókrollunnar sætt fyrir aðra. Bókrollan var full af ‚harmljóðum, andvörpum og kveinstöfum.‘ Hverjum var þessi beiski boðskapur ætlaður? Í fyrsta lagi var Esekíel sagt: „Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra.“ (Esekíel 3:4) Síðar átti boðskapur Esekíels að ná einnig til heiðnu þjóðanna er bjuggu umhverfis. — Esekíel 25.-32. kafli.
20. Hvað gerðist þegar Jóhannes át litlu bókrolluna og hvaða afleiðingar hafði það?
20 Jóhannes varð fyrir mjög svipuðum áhrifum er hann át bókrolluna. Hann segir: „Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum.“ (Opinberunarbókin 10:10) Bókrollan var einnig sæt í munni Jóhannesar. Það var hrífandi fyrir hann að orð Jehóva skyldu verða hluti af honum. En boðskapurinn var líka beiskur. Fyrir hverja? Jóhannesi var sagt: „Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga.“ — Opinberunarbókin 10:11.
21. (a) Hvað gerðu smurðir kristnir menn árið 1919 sem samsvaraði því er Jóhannes át litlu bókrolluna, og með hvaða árangri? (b) Hvaða afleiðingar hafði það fyrir kristna heiminn og heiminn í heild?
21 Hvernig hefur allt þetta uppfyllst á degi Drottins? Sagan sýnir að árið 1919 tóku trúfastir kristnir menn svo fúslega við þeim sérréttindum að þjóna Jehóva að þau urðu hluti af þeim, og það var sæt reynsla. En það sem var blessun og sérréttindi fyrir hina smurðu reyndist vera beiskt fyrir aðra — einkanlega klerka kristna heimsins. Hvers vegna? Vegna þess að trúfastir smurðir kristnir menn boðuðu hugrakkir allan boðskap Jehóva til mannkynsins. Bæði prédikuðu þeir „fagnaðarerindið um ríkið“ og afhjúpuðu að kristni heimurinn og heimurinn í heild væri andlega dauður. — Matteus 24:14; Opinberunarbókin 8:1-9:21; 16:1-21.
22. (a) Með hvaða stórkostlegum hætti hefur Jehóva notað hina smurðu á Drottins degi fram til þessa? (b) Hvað hefur Drottins dagur þýtt fyrir heim Satans og þjóna Guðs?
22 Jehóva notaði þennan hóp trúfastra kristinna manna til að safna þeim sem eftir var að innsigla af hinum 144.000, og þeir gengu á undan í samansöfnun hins mikla múgs sem hefur jarðneska von. (Opinberunarbókin 7:1-4, 9, 10) Þessi mikli múgur gegnir mikilvægu hlutverki í tilgangi Jehóva gagnvart jörðinni, og samansöfnun hans hefur valdið mikilli gleði bæði á himni og jörð. (Opinberunarbókin 7:11-17; Esekíel 9:1-7) Þannig hefur þessi „dagur daganna“ þegar haft í för með sér þjáningar fyrir heim Satans en ríkulega blessun fyrir þjóna Jehóva. Við skulum nú skoða hvernig svo reynist vera eftir því sem degi Drottins vindur fram.
Getur þú svarað?
◻ Hvað er Drottins dagur?
◻ Hvaða hlutverki gegna „villidýr jarðarinnar“ á Drottins degi?
◻ Hvaða trygging fólst í því að Jóhannes skyldi mæla helgidóminn?
◻ Hvað þýddi það fyrir hina smurðu leifar árið 1919 að Jóhannes skyldi eta litlu bókrolluna?
◻ Hvað hefur Drottins dagur fram til þessa þýtt fyrir þjóna Guðs og heiminn í heild?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Það að Jóhannes skyldi mæla musterið í sýninni var trygging fyrir hina smurðu á Drottins degi.