Leyndardómur riddaranna ráðinn
HVER getur afhjúpað leyndardóm riddaranna í Opinberunarbókinni? Í Biblíunni, í Daníelsbók 2:47, er Jehóva Guð kallaður „opinberari leyndra hluta.“ Með því að hann innblés ritun Biblíunnar, þar á meðal sýnarinnar um riddarana, getur hann gefið þau svör sem við þörfnumst. Við getum því ráðið merkingu hinna mislitu hesta og knapanna á þeim með því að leita upplýsinga í orði hans. — Amos 3:7; 2. Tímóteusarbréf 3:16; 2. Pétursbréf 1:21.
Fyrstu þrjú versin í Opinberunarbókinni gefa okkur vísbendingu sem hjálpar okkur að ráða leyndardóminn. Þau benda okkur á að þessar sýnir eigi við ókomna atburði, það er að segja atburði eftir árið 96 að okkar tímatali þegar Jóhannes postuli sá allt þetta og færði í letur. Það kemur heim og saman við orð hans í Opinberunarbókinni 1:10 þess efnis að það sem hann sá í sýnunum ætti ekki að gerast fyrr en eftir að ‚Drottins dagur‘ væri hafinn. — Samanber 1. Korintubréf 1:8; 5:5.
Með þetta í huga skulum við skoða nánar hestana og riddarana. Strax í upphafi er nauðsynlegt að hafa réttan skilning á því hver sé hvíti hesturinn og riddarinn á honum. Þá er tiltölulega auðskilið hverjir hinir riddararnir eru.
Skýringarnar skoðaðar
Í greininni á undan kom fram að ein skýringin væri á þá lund að hvíti hesturinn og sá sem honum ríður táknuðu ‚annaðhvort sigur fagnaðarerindisins eða heimsvaldastefnunnar.‘ En heiminum hefur ekki verið snúið til trúar á fagnaðarerindið um Krist og tilgang Guðs sem honum tengist. Og víst er um það að heimsvaldastefnan hefur ekki riðið sigursælum fáki, heldur verið á undanhaldi nú á okkar öld.
Hvað um þá skýringu að hvíti hesturinn tákni sigur fagnaðarerindisins og hreinleika trúarinnar á fyrstu öld? Með þeirri skýringu er horft fram hjá því að sýnin á við það sem koma skyldi í framtíðinni. Þar eð Jóhannes færði sýnina í letur þegar hann var í útlegð á fangaeynni Patmos árið 96 eftir okkar tímatali, er óhugsandi að hún geti átt við nokkuð sem varðar fyrstu öldina.
Önnur skýring var á þá lund að hvíti hesturinn tákni málstað frekar en persónu Krists og að ríki hans sé ‚mitt á meðal‘ okkar, það er að segja í hjörtum okkar. En málstaður Jesú Krists og kristnin komu ekki til skjalanna einhvern tíma eftir að Opinberunarbókin var rituð, heldur var þessi málstaður þegar augljós og greinilegur meðal kristinna manna á fyrstu öld áður en Jóhannes færði bók sína í letur.
Þegar Jesús sagði: „Guðs ríki er meðal yðar,“ var hann að tala við hina trúhræsnu farísea og svara spurningu sem þeir höfðu spurt. Jesús var ekki að tala við trúfasta fylgjendur sína og segja þeim að Guðsríki væri eitthvað ‚innra með þeim‘ í þeim skilningi að það væri í hjörtum þeirra. Þess í stað var hann að segja hinum vantrúuðu faríseum að hann, Jesús, fulltrúi framtíðarríkis Guðs, væri meðal þeirra við það tækifæri. — Lúkas 17:21, neðanmáls; sjá einnig The Jerusalem Bible og The New English Bible.
Hvað um þá hugmynd að knapinn á hvíta hestinum sé andkristur. Hvergi gefur Biblían til kynna að andkristi verði svo vel ágengt að hægt verði að segja um hann að hann ‚fari út sigrandi og til þess að sigra‘ eins og sagt er um riddarann á hvíta hestinum. (Opinberunarbókin 6:2) Ljóst er að hver svo sem það er, sem situr hvíta hestinn, þá mun hann ríða fram til að vinna fullan sigur. Honum mun ekki mistakast sigurgangan heldur verður öllum óvinum hans tortímt.
Vísbendingar í Bibli̇́unni
Síðar í þessari sömu sýnaröð gefur „opinberari leyndra hluta“ óyggjandi vísbendingu um hver sé riddarinn á hvíta hestinum. Í Opinberunarbókinni 19:11-16 segir aftur frá hvítum hesti, og þar kemur greinilega fram hver situr hann.
Sú staðreynd að hvítur hestur sést tvisvar í sömu sýnaröð gefur til kynna að um sé að ræða sama hestinn, og verið sé að lýsa ýmsum skyldum eða athöfnum riddarans sem situr hann. Í síðari sýninni er riddarinn nafngreindur; hann er kallaður „Trúr og Sannur,“ „Orðið Guðs“ og „Konungur konunga og Drottinn drottna.“
Þessar nafngiftir taka af öll tvímæli um hver það sé sem situr hvíta hestinn. Það er enginn annar en Drottinn Jesús Kristur sjálfur! (Samanber Opinberunarbókina 17:14.) En á hvaða tímabili í ævi hans? Það hlýtur að vera einhvern tíma eftir lok fyrstu aldar þegar opinberunarsýnin var gefin. Við skulum líka taka eftir því að þarna er honum fengin konungskóróna. Einhvern tíma í framtíðinni átti því Jesús Kristur að taka við sérstöku hlutverki sem konungur eða valdhafi, og í því hlutverki er honum einnig lýst sem hermanni vopnuðum boga sem ríður fram „sigrandi og til þess að sigra.“
Einnig má ráða af öðru að hér sé verið að tala um framtíðina: Þegar opinberunarsýnin var gefin voru liðnir meira en sex áratugir frá því að Jesús lauk jarðvist sinni, var reistur upp frá dauðum og steig upp til himna. Þegar Jesús var aftur kominn til himna var honum sagt að bíða við hægri hönd Guðs þar til sá tími kæmi, í framtíðinni, að óvinir hans yrðu gerðir að „fótskör hans.“ — Hebreabréfið 10:12, 13.
Reiðin hefst
Reiðin á hvíta hestinum átti því að hefjast einhvern tíma í framtíðinni þegar Jesús Kristur settist í hásæti sem himneskur konungur Guðsríkis. Þá myndi Guð senda hann fram með þessari skipun: „Drottna þú mitt á meðal óvina þinna!“ (Sálmur 110:2) En hvenær gerist það?
Krýningu Jesú Krists sem himneskur konungur er lýst í Sálmi 45:4-8. Í Hebreabréfinu 1:8, 9 vitnar Páll í þennan sálm og heimfærir 7. og 8. vers á son Guðs, Jesú Krist. Greinagóðar upplýsingar og biblíulegar sannanir, sem vottar Jehóva hafa birt á prenti, sýna að krýning Jesú Krists á himnum átti sér stað við lok heiðingjatímanna, ‚hinna tilteknu tíma þjóðanna,‘ árið 1914 e.o.t. — Lúkas 21:24.a
Þess vegna hlýtur hver sú túlkun, sem gerir ráð fyrir reið riddaranna fyrir árið 1914, að vera röng. Þar eð riddarinn á hvíta hestinum fer fyrir hinum hljóta hinir hestarnir og riddararnir að tákna atburði sem eiga sér stað jafnhliða eða skömmu eftir að reið hans hefst. Reið þessara fjögurra knapa hlýtur því að eiga sér stað frá því að ‚tími endalokanna‘ hófst árið 1914 og eftir það. Allt upp frá því hafa ‚hinir síðustu dagar‘ verið auðsæir. — Daníel 12:4; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13.
Hinir hestarnir og knaparnir
Annar hesturinn er „rauður.“ (Opinberunarbókin 6:3, 4) Þeim sem á honum sat var leyft að „taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður.“ Honum var fengið „sverð mikið.“ Þessi innblásni spádómur rættist þegar út braust árið 1914 hrikalegasta styrjöld mannkynssögunnar, fyrsta heimsstyrjöldin. Á þeim árum var hún kölluð „stríðið mikla.“ Aðeins 21 ári síðar hófst síðari heimsstyrjöldin og hún olli enn meira tjóni en sú fyrri. Allar götur síðan hafa verið linnulausar styrjaldir. Styrjaldir hafa, frá 1914, alls kostað um hundrað milljónir manna lífið.
Þriðji hesturinn er svartur og sá sem á honum situr hefur vog í hendi sér. (Opinberunarbókin 6:5, 6) Rödd heyrist kalla að þurfa muni heil daglaun til að kaupa aðeins 1,1 lítra hveitis eða 3,4 lítra byggs sem er ódýrara. Hér er vel lýst matvælaskorti í stórkostlegri mæli en nokkru sinni fyrr. Þessi spá hefur einnig ræst frá og með 1914. Um leið og fyrri heimsstyrjöldin braust út rauk matvælaverð upp úr öllu valdi. Milljónir manna dóu úr hungri. Linnulaus matvælaskortur hefur verið eftir það. Ætlað er að núna svelti um 450 milljónir manna og allt að einn milljarður hafi ekki nóg að eta. Af og til er þessi ömurlega staðreynd undirstrikuð með slíkri hungursneyð og gífurlegum mannfelli sem fjölmiðlar hafa skýrt okkur frá í Eþíópíu nú nýverið.
Fjórða hestinn, sem er „bleikur,“ sjúklegur í útliti, situr knapi sem nefnist „Dauði.‘ (Opinberunarbókin 6:7, 8) Hann er viðeigandi tákn um þann mikla manndauða sem orðið hefur frá og með 1914 af óeðlilegum orsökum, svo sem af völdum matvælaskorts og hungursneyðar, styrjalda og ofbeldis, farsótta og sjúkdóma. Spánska veikin, sem gaus upp um allan hnöttinn við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, leiddi yfir 20 milljónir manna í gröfina. Núna falla milljónir manna í valinn fyrir tímann af völdum hjartasjúkdóma, krabbameins og margra annarra sjúkdóma.
Þeir atburðir, sem þessir hestar og knapar tákna, eru einnig nefndir í hliðstæðum spádómi sem Jesús bar fram um okkar tíma. Hann sagði að við ‚endalok veraldar,‘ sem við lifum núna, yrði heimsstyrjöld þegar ‚þjóð risi gegn þjóð og ríki gegn ríki.‘ Hann boðaði að ‚lögleysi myndi vaxa‘ og verða myndu „landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum.“ — Matteus 24:3-12; Lúkas 21:10, 11.
Voru hestarnir fimm?
Opinberunarbókin 6:8 hljóðar svo: „Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum.“ Sumir hafa túlkað þessi orð svo að fimmta persónan hljóti einnig að ríða hesti úr því að hinar fyrstu fjórar geri það.
Biblían segir ekki að svo sé. Orðið, sem þýtt er „hestur,“ stendur ekki í grískum texta Opinberunarbókarinnar 6:8 í tengslum við ‚Helju.‘ Fæstir biblíuþýðendur láta því orðið „hestur“ standa með þessari fimmtu persónu. Okkur nægir að veita því athygli að Helja (á grísku hades), hin sameiginlega gröf mannkynsins, fylgdi næstu þrem hestum og knöpum á undan og tíndi upp öll fórnarlömb þeirra.
Hvaða áhrif hefur sýnin á þig?
Það er hrífandi reynsla að vera uppi á þeim tíma þegar þessi sýn um reið hinna fjögurra riddara Opinberunarbókarinnar er að uppfyllast. Þetta eru eigi að síður miklir alvörutímar sem kalla á sjálfsrannsókn af okkar hálfu. Hvers vegna? Vegna þess að sérhver jarðarbúi verður fyrir áhrifum af þessari táknrænu reið. Já, hún snertir þig og ástvini þína alla. Hvernig?
Hér er um alvarlega hlið málsins að ræða sem fjallað verður um í næsta tölublaði Varðturnsins. Misstu ekki af þeirri athyglisverðu umræðu.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, bls. 134-141, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 5]
1914 — „Konungur konunga“ ríður fram á hvítum hesti.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Frá 1914 hefur Helja hlotið hrikalega uppskeru á slóð riddaranna sem tákna styrjaldir, hungur og drepsóttir.