Englaboðskapur handa okkar tímum
„Guð . . . sendi engil sinn og lét hann kynna það.“ — OPINBERUNARBÓKIN 1:1.
1. Hvaða misskilningur er algengur í sambandi við Opinberunarbókina og hvað sýnir hún um framtíðina?
OPINBERUNARBÓKIN er oft sett í samband við stórkostlegt veraldarumrót eða hamfarir — heimsendi. En gríska orðið apokalypsis, sem menn tengja oft gereyðingu mannkyns í kjarnorkustyrjöld, merkir bókstaflega afhjúpun, birting eða opinberun. Í spádómlegum táknmyndum birtir Opinberunarbókin þá atburðarás sem nær hámarki í dögun eilífra hamingjutíma mannkyns. Jóhannes, postuli Jesú, hefur því þessi inngangsorð að opinberuninni sem við hann er kennd: „Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.“ — Opinberunarbókin 1:3.
2, 3. Hvers vegna er heimurinn svona hamingjusnauður og hvað áformar Jehóva að gera?
2 Heimur nútímans er hvergi nærri sæll eða hamingjusamur. Ástæðan fyrir hamingjuleysi hans kemur fram í ljóði sem Móse samdi fyrir um það bil 3460 árum: „Þeirra eigin svívirðíng spillti þeim fyrir honum; þeir eru ekki [Guðs] börn, sú umhverfa og öfuga þjóð.“ (5. Mósebók 32:5; Ísl. bi. 1859) Þessi orð lýsa vel kynslóð nútímamanna sem hefur mjög rangsnúið og brenglað verðmætamat! Til dæmis segir berum orðum í formála ritsins World Military and Social Expenditures 1987-88: „Lífshættir allra þjóða eru brenglaðir af vígbúnaðarkapphlaupinu. Samanlagt eyða Bandaríkin og Sovétríkin um 1,5 milljarði dollara [yfir 70 milljörðum íslenskra króna] á dag til hervarna. Þó er ungbarnadauði það algengur í Bandaríkjunum að þau koma þar í átjánda sæti af öllum þjóðum og Sovétríkin í fertugasta og sjötta. Þróunarlöndin eyða næstum fjórfalt meiru til vopnakaupa en heilsugæslu. Þó skortir hundruð milljóna manna í þessum löndum mat; 20 af hundraði barnanna þar deyja undir 5 ára aldri.“
3 Margt annað eykur á þessa spillingu: hrakandi siðferði og upplausn fjölskyldunnar, glæpir og ógn sem breiðist út um jörðina, kærleiksleysi og lögleysi núverandi kynslóðar. Sannarlega getum við fagnað því að Jehóva skuli ætla að „eyða þeim, sem jörðina eyða“! (Opinberunarbókin 11:18) Sextán sýnir, sem lýst er í Opinberunarbók Biblíunnar, segja frá því í smáatriðum hvernig hann mun gera það.
„Englar“ og ‚tákn‘
4. Hvaða hlutverki gegna englar í opinberuninni og hvernig er fremsta englinum lýst í sýnum hennar?
4 Opinberunarbókin varpar ljósi á fyrsta spádóm Biblíunnar, í 1. Mósebók 3:15, og lýsir því hvernig fjandskapurinn milli Satans og hins himneska skipulags Guðs, og milli ‚sæðis‘ beggja er til lykta leiddur. Hann sviptir hulunni af dómum Guðs yfir óvinum sínum og þeim sem elska hann og styðja drottinvald hans. Engill flutti Jóhannesi opinberunina ‚í táknum.‘ Aðrir englar eða sendiboðar taka þátt í að kunngera og leika þessi tákn. Fremsti engillinn er kynntur í Opinberunarbókinni 1:5 sem ‚Jesús Kristur, sem er votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar.‘ ‚Táknin‘ eða sýnirnar lýsa honum einnig sem ‚ljóni,‘ sem ‚lambi,‘ sem „Míkael“ og nokkrum sinnum sem máttugum engli. — Opinberunarbókin 5:5, 13; 9:1, 11; 10:1; 12:7; 18:1.
5. Hvað birtist í fyrstu sýn Opinberunarbókarinnar og hvernig nær hún til okkar?
5 Fyrsta sýnin, í Opinberunarbókinni 1:10-3:22, inniheldur örvandi boðskap sem hinn dýrlega gerði Jesús flytur ‚englum‘ eða umsjónarmönnum sjö safnaða í Asíu. Þeir tákna allan heimssöfnuð votta Jehóva núna „á Drottins degi.“ Boðskapurinn er því ætlaður okkur nútímamönnum! Við ættum að hlusta vel á „hvað andinn segir söfnuðunum,“ því að þessar aðvaranir og áminningar eru okkur til hvatningar til að við getum verið trúföst — notið velþóknunar vegna verka okkar og ‚kærleika, trúar, þjónustu og þolgæðis.‘ — Opinberunarbókin 1:10; 2:7, 10, 19.
6. Hvernig getum við notið góðs af boðskapnum til hvers af söfnuðunum sjö í Asíu?
6 Líkt og söfnuðurinn í Efesus kunnum við að hafa stritað trúfastlega og hatað verk sundrungar- og fráhvarfsmanna, en ef okkar eigin kærleikur hefur dvínað á einhvern hátt skulum við hverfa aftur iðrunarfull til okkar fyrri kærleika með öllum hans brennandi eldmóði! Líkt og hinir andlega auðugu kristnu menn í Smýrnu skulum við óttalaust keppa eftir laununum og sanna okkur ‚trú allt til dauða‘ ef þörf krefur. Við ættum, líkt og þeir sem Satan prófreyndi í Pergamos, að iðrast fyrri skurðgoðadýrkunar, siðleysis eða sértrúarstefnu. Þýatírumenn voru hvattir til að standa vörð gegn áþekkum freistingum, einkanlega Jessabelaráhrifum. Við þurfum líka að vera á varðbergi! Hver sá sem orðinn er andlega dauður, líkt og kristnir menn í Sardes, verður að vakna áður en það er um seinan. Okkur standa opnar dyr til þjónustu eins og var hjá Fíladelfíumönnum. Megum við hafa kraft til að sigra á reynslustundinni eins og þeir! Ef einhver okkar er orðinn hálfvolgur líkt og Laódíkeumenn verðum við að vakna til vitundar um andlega nekt okkar og iðrast. Jesús stendur við dyrnar og knýr á. Megum við öll taka honum tveim höndum og neyta með honum óslitinnar andlegrar máltíðar í hinum 55.000 söfnuðum okkar um heim allan! — Opinberunarbókin 1:11; 2:7, 10, 11, 17, 29; 3:6, 13, 22.
Hásæti Guðs, bókrolla og spurning
7. Hvaða lofgjörð er sungin í annarri sýninni og hvernig bregst þú við henni?
7 Í annarri sýninni sér Jóhannes hið dýrlega, himneska hásæti Jehóva. Okkar mikilfenglegi Guð birtist í stórfenglegri dýrð og honum þjóna fjórir kerúbar, hersveitir engla og hinir upprisnu, kristnu sigurvegarar. Lofsöngur þeirra er örvandi: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Jehóva afhendir bókrollu þeim hinum eina sem er þess verður að opna hana — ljóninu af Júdaættkvísl, lambinu slátraða sem verður lausnari okkar. Öll sköpunin lofar Jehóva og lambið. — Opinberunarbókin 4:11; 5:2-5, 11-14.
8. Hvað sjáum við í þriðju sýn Opinberunarbókarinnar og hvernig tengist hún okkar tímum?
8 Þá er komið að þriðju sýninni. Lambið byrjar nú að opna hin sjö innsigli bókrollunnar. Hvað sjáum við? Fyrst sjáum við hinn nýkrýnda Jesú ríða fram á himnum á hvítum hesti sem tákn um réttlátt stríð. Því næst steypir riddari á rauðum hesti jörðinni út í allsherjarstríð. Þá skeiðar fram svartur hestur hungursneyðar og á eftir honum bleikur hestur drepsóttarinnar, en sá sem situr hann nefnist Dauði! Helja er í för með honum til að gleypa fórnarlömbin áfergjulega í milljónatali. Allt þetta hefst með ‚fæðingarhríðunum‘ sem gengu yfir mannkynið á árunum 1914-18 og þeir sem enn eru eftir af þeirri kynslóð muna vel. (Matteus 24:3-8) Þessir riddarar halda áfram þeysireið sinni! Þegar fimmta og sjötta innsiglinu er lokið upp nálgast ‚hinn mikli reiðidagur Jehóva og lambsins.‘ Spurt er: „Hver mun geta staðist?“ — Opinberunarbókin 6:1-17.
Þeir sem „geta staðist“
9. Hvaða hrífandi opinberun er gefin í fjórðu sýninni?
9 Fjórða sýnin birtist og í henni þeir sem lifa af reiðidag Guðs. Þar kemur einnig fram ástæðan fyrir því. Englar halda aftur að fjórum tortímingarvindum þannig að þeir vinni ekki jörðinni tjón fyrr en lokið er innsiglun hinna andlegu Ísraelsmanna — 144.000 talsins. „Eftir þetta“ opnast ægifögur víðmynd: „Sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu [Guðs] og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum. Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:1-10) Sérð þú sjálfan þig sem hluta þessarar myndar?
10. (a) Hvað má ráða um uppfyllingu fjórðu sýnarinnar af samanburði á skýrslum um minningarhátíðina frá 1935 og 1987? (b) Hvaða spurning varðar eitt og sérhvert okkar og hvers vegna?
10 Árið 1935 voru alls 32.795 viðstaddir kvöldmáltíð Drottins um allan heim. Þar af tóku 27.006 af brauðinu og víninu til merkis um að þeir væru sá hluti hinna 144.000 með himneska köllun, sem eftir væru á jörðinni. Síðar sama ár fékkst skýr mynd af því hver væri hinn mikli múgur. Þessir auðmjúku menn, sem eiga í vændum eilíft líf á jörð sem verður paradís, iðka líka trúa á úthellt blóð Jesú. Þeir koma til Jehóva með því að vígjast honum, láta skírast og þjóna Guði kostgæfilega með það í vændum að lifa af ‚þrenginguna miklu.‘ Við minningarhátíðina árið 1987 voru 8.965.221 viðstaddir en aðeins 8.808 neyttu af brauðinu og víninu. Það gefur til kynna að milljónir nútímamanna séu annaðhvort hluti múgsins mikla eða hafi áhuga á að verða það. Munt þú „geta staðist“ sem slíkur á ‚hinum mikla reiðidegi Jehóva og lambsins‘? Það mun hafa í för með sér björgun fyrir þig ef þú stígur nauðsynleg skref í þá átt. — Opinberunarbókin 6:15-17; 7:14-17.
Blásið í básúnur og boðaðir dómar Guðs
11. Hvaða dómar eru básúnaðir í fimmtu sýninni og hvernig tengjast þeir okkar tímum?
11 Sjöunda innsiglinu er lokið upp! Hin fimmta sýn Opinberunarbókarinnar birtist. Sjö englar standa frammi fyrir Guði. Þeim eru fengnar sjö básúnur og með þeim básúna þeir yfirlýsingar sem þjónar Jehóva hafa látið óma um jörðina frá 1922. Þeir fjórir fyrstu boða ‚þriðjungi‘ mannkynsins, bersýnilega þeim sem byggja kristna heiminn, dóma. ‚Básúnurnar‘ gefa til kynna að sá hluti „jarðarinnar“ (heimskerfi Satans sem virðist varanlegt), sem kristni heimurinn ræður yfir, og „hafið“ (hinn eirðarlausi manngrúi), ‚fljótin og lindir vatnanna‘ (kenningar og heimspekihugmyndir kristna heimsins) og myrkvuð himintungl hennar (klerkarnir sem hafa ekkert andlegt ljós) sé allt skotspónn reiði Guðs. Fljúgandi „örn,“ sem táknar engil, birtist því næst á háhvolfi himins og boðar að sá þríþætti básúnublástur, sem eftir er, sé „vei, vei, vei þeim, sem á jörðu búa.“ — Opinberunarbókin 8:1-13.
12. Hver opnar brunn undirdjúpsins og hvernig hefur sægur ‚engisprettna‘ stungið klerkastéttina?
12 Fimmti engillinn blæs nú í básúnu sína. Sjá! ‚Stjarna‘ — Drottinn Jesús — opnar brunn undirdjúpsins, sem reyk leggur upp af, og engisprettusægur svífur fram. Þetta táknar Jesú er hann leysir smurða votta Guðs úr fjötrum athafnaleysis árið 1919. Í umboði Guðs eyða þær haglendi klerkanna og afhjúpa falskenningar þeirra og hræsni „í fimm mánuði“ sem er venjulegt æviskeið engisprettna. Þetta staðfestir að kynslóð nútímaengisprettna „mun ekki líða undir lok“ fyrr en Jehóva og Kristur hafa lokið því að dæma þjóðirnar. Nú þegar hefur engisprettusveitin skilið eftir hjá fólki biblíurit í þúsund milljónatali er geyma brennandi dómsboðskap sem stingur eins og sporðdrekar. Jóhannes segir: „Veiið hið fyrsta er liðið hjá. Sjá, enn koma tvö vei eftir þetta.“ — Opinberunarbókin 9:1-12; Matteus 24:34; 25:31-33.
13. (a) Hverja tákna englarnir fjórir sem sleppt var úr fjötrum við Efratfljótið og hvaða starf hafa þeir með höndum? (b) Hverjir mynda hið mikla riddaralið og í hvaða skilningi er vald þeirra „í munni þeirra og í töglum þeirra“?
13 Blásið er í sjöttu básúnuna og boðað annað „veiið.“ Fjórir englar eru leystir sem bundnir voru við fljótið Efrat. Það er viðeigandi lýsing á lausn hinna smurðu votta Guðs úr fjötrum Babýlonar árið 1919. Þeir hafa verið undir það búnir „að deyða þriðjung mannanna,“ að kunngera að klerkar kristna heimsins séu dauðir frá sjónarhóli Jehóva. En hjálpar er þörf til að auka og efla þetta vitnisburðarstarf og Jehóva veitir hana með því að kalla til mikinn múg samverkamanna. Hinir smurðu vottar og þessir hjálparmenn geysast fram í sameiningu sem hið óteljandi riddaralið er telur „tveim sinnum tíu þúsundir tíu þúsunda.“ Vald þeirra er „í munni þeirra“ á þann hátt að þeir mæla fram dóma Jehóva við dyrnar hjá fólki, og hann er „í töglum þeirra“ í þeirri merkingu að þeir skilja eftir hjá því biblíurit sem boða hefndardaginn er óðum nálgast. — Opinberunarbókin 9:13-21; Postulasagan 20:20, 21.
14. (a) Hver er ‚sterki engillinn‘ í sjöttu sýninni og hvað gerir hann og segir? (b) Hvað táknar það að litla bókrollan skuli vera „sæt sem hunang“ en um leið „beisk í kviði“?
14 Nú birtist sjötta sýnin. Við sjáum „sterkan engil,“ bersýnilega Drottin Jesú í sérstöku hlutverki. Hann heldur á lítilli bókrollu í hendi sér. Raddir og þrumur heyrast og síðan sver engillinn við hinn mikla skapara okkar: „Enginn frestur skal lengur gefinn verða, en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs.“ Jóhannesi er sagt að taka bókrolluna litlu og eta hana. Í munni hans er hún „sæt sem hunang,“ alveg eins og boðskapurinn um Guðsríki ásamt fyrirheitinni blessun sinni um ‚nýjan himin og nýja jörð‘ er svo unaðslegur fyrir hinn smurða Jóhannesarhóp og félaga hans núna. En sumir eiga þó erfitt með að melta þá fyrirskipun Guðs að boða hefndardag hans ‚mörgum lýðum og þjóðum og tungum og konungum.‘ En verið hughraust! Verið sterk í þeirri trú að Jehóva muni veita ykkur þann styrk sem þarf til að boða hefndardag hans. — Opinberunarbókin 10:1-11; 21:1, 4; 1. Jóhannesarbréf 5:4; Jesaja 40:29-31; 61:1, 2.
Sjöunda básúnan og þriðja veiið
15. (a) Hvað gerist þegar þriðja veiið er boðað og sjöundi engillinn blæs í básúnu sína? (b) Á hvaða veg er boðun Guðsríkis vei?
15 Eftir að hafa sagt fyrir tilraun óvinarins árið 1918 til að „deyða“ votta Guðs, og eftir að hafa lýst því með hve undraverðum hætti „lífsandi frá Guði“ lífgaði þá árið 1919 til vitnisburðar um víða veröld, skrifar Jóhannes: „Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.“ Á hvaða hátt? Frásagan heldur áfram: „Og sjöundi engillinn básúnaði.“ Þriðja veiið er því tengt því að blásið er í síðustu básúnuna. Og hlýðið á! „Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: ‚Drottin [Jehóva] og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.‘“ Þetta er ríki Guðs í höndum Krists Jesú sem ásamt 144.000 samerfingjum sínum leiðir heilagan leyndardóm Guðs til enda og upphefur alheimsdrottinvald Jehóva Guðs hins alvalda. Er þessi yfirlýsing um Guðsríki vei? Já, hún er það fyrir hina óguðlegu því að hún bendir á hvernig Guð mun „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Opinberunarbókin 11:1-19.
16. Hvaða stórbrotin opinberun birtist í sjöundu sýninni?
16 Nú er brugðið upp sjöundu sýninni. Sjáið, þarna er skyldurækið, himneskt skipulag Guðs, „kona“ hans. Hún er þunguð og er að fæða langþráð barn með hörðum hríðum. Í fyrsta sinn í Opinberunarbókinni — en ekki síðasta — birtist eldrauður dreki, ‚hinn gamli höggormur sem heitir djöfull og Satan, hann sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina,‘ reiðubúinn að gleypa barnið við fæðingu. Sá ‚fjandskapur miklli höggormsins og konunnar,‘ sem sagður var fyrir, er að komast á lokastig! En konan fæðir „son, sveinbarn,“ sem þegar í stað er hrifið til hásætis Guðs. — Opinberunarbókin 12:1-6, 9; 1. Mósebók 3:15; Daníel 2:44; 7:13, 14.
17. (a) Hver er Míkael og hvernig hefur hann staðið undir því nafni frá 1914? (b) Lýstu muninum á ‚veiunum þrem‘ og ‚veii jarðarinnar‘ í Opinberunarbókinni 12:12.
17 Þetta sveinbarn er Guðsríki sem stofnsett var á himnum hið sögufræga ár 1914. Konungur þess, Kristur Jesús, er einnig nefndur Míkael, sem merkir „hver er líkur Guði?“ Hann svarar þeirri spurningu án tafar með því að heyja stríð við Satan og varpa þessum gamla dreka og djöflum hans niður til jarðar. Frá 1914 hefur það haft í för með sér ‚vei fyrir jörðina og hafið, því að djöfullinn er stiginn niður í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.‘ Ekki má rugla þessu veii, sem endurspeglast í ömurlegu ástandi mannkynsins núna, saman við ‚veiin þrjú‘ sem Jehóva leiðir yfir hina óguðlegu er hann dæmir þá. — Opinberunarbókin 12:7-12.
18. (a) Hvaða veii reyndi Satan djöfullinn að valda dyggum þjónum Jehóva fyrir síðari heimsstyrjöldina og á meðan hún stóð? (b) Hvað er djöfullinn enn ráðinn í að gera og hvað leiða þær sýnir, sem á eftir koma, í ljós?
18 Djöfullinn hefur líka reynt að leiða vei yfir drottinholla þjóna Jehóva á jörðinni. Fyrir síðari heimsstyrjöldina og meðan hún stóð spjó hann yfir þá miklu ofsóknarflóði í von um að drekkja starfi ‚annarra afkomenda‘ eða þeirra sem eftir eru af afkomendum skipulags Guðs — þeirra sem eftir eru af hinum 144.000 meðal mannkynsins. Jehóva sá til þess að jörðin, heimskerfi Satans sjálfs, svalg þetta flóð. Hinn reiði Satan er þó enn staðráðinn í að heyja stríð gegn vottum Jehóva. (Opinberunarbókin 12:13-17) Hvernig mun því lykta? Enn eru níu sýnir eftir og þær svara því! — Habakkuk 2:3.
Upprifjun
□ Hvernig notaði Jehóva engla í sambandi við Opinberunarbókina?
□ Hvaða áhrif ætti boðskapur Jesú til safnaðanna sjö að hafa á okkur?
□ Hvaða afleiðingu hafði það er blásið var í básúnurnar sjö?
□ Hvað táknar engisprettusægurinn og riddaraliðið óteljandi?
□ Hvers vegna er fæðing Guðsríkis tengd ‚veiinu hinu þriðja‘?
[Rammi á blaðsíðu 18]
KAFLAR OG VERS HVERRAR SÝNAR:
□ 1. SÝN 1:10-3:22
□ 2. SÝN 4:1-5:14
□ 3. SÝN 6:1-17
□ 4. SÝN 7:1-17
□ 5. SÝN 8:1-9:21
□ 6. SÝN 10:1-11:19
□ 7. SÝN 12:1-17
□ 8. SÝN 13:1-18
□ 9. SÝN 14:1-20
□ 10. SÝN 15:1-16:21
□ 11. SÝN 17:1-18
□ 12. SÝN 18:1-19:10
□ 13. SÝN 19:11-21
□ 14. SÝN 20:1-10
□ 15. SÝN 20:11-21:8
□ 16. SÝN 21:9-22:5
[Rammi/Myndir á blaðsíðu 19]
HINAR 16 SÝNIR OPINBERUNARBÓKARINNAR — NOKKUR HÖFUÐATRIÐI
1 Jesús stendur mitt á meðal ljósastika hinna sjö safnaða og sendir kærleiksríkan boðskap gegnum sjö stjörnur, hina smurðu umsjónarmenn
2 Frammi fyrir himnesku hásæti Jehóva tekur hið sigursæla lamb við bókrollu með dómsboðskap
3 Kristur Jesús ríður fram til að sigra um leið og hinir riddararnir þjá mannkynið og reiðidagur Guðs nálgast
4 Meðan englar halda aftur af þrengingunni miklu er lokið við að safna hinum 144.000 og múginum mikla
5 Englar básúna dómsboðskap og vottar Jehóva streyma fram, líkt og engisprettur, til að afhjúpa fölsk trúarbrögð
6 Eftir að blásið er í sjöundu básúnuna eru „vottar“ Guðs lífgaðir til að boða hið komandi ríki Jehóva og Krists hans
7 Eftir fæðingu Guðsríkis árið 1914 varpar Kristur Satan og illum öndum hans niður til jarðar
8 Tvö villidýr birtast og hið síðara blæs lífi í líkneski hins fyrra, Sameinuðu þjóðirnar
9 Þeir menn sem ‚óttast Guð og gefa honum dýrð‘ eru uppskornir til eilífs lífs, aðrir til tortímingar
10 Hellt er úr sjö skálum reiði Guðs sem nær hámarki í því er allir þeir sem láta leiðast af menguðu ‚lofti‘ Satans eru teknir af lífi
11 Skækjunni miklu, falstrúarbrögðunum, er kastað af baki hins pólitíska ‚dýrs‘ sem eyðir henni síðan
12 Eftir eyðingu Babýlonar hinnar miklu er lögð síðasta hönd á undirbúning að brúðkaupi lambsins og brúðar hans, hinna 144.000
13 Eftir dauða skækjunnar miklu leiðir Jesús fram himneskan her til að tortíma því sem eftir er af jarðnesku skipulagi Satans
14 Satan er kastað í undirdjúpið og með því rudd brautin fyrir þúsundáraríki Krists og brúðar hans, hinar 144.000
15 Undir ‚nýjum himni‘ Krists Jesú og brúðar hans mun ‚ný jörð‘ mannlegs samfélags njóta ólýsanlegrar blessunar frá Jehóva
16 Ráðstöfun Guðs til lækningar mannkyns og lífs streymir fram frá hinni dýrlegu nýju Jerúsalem