Prófun og hreinsun nú á tímum
„Hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist?“ — MALAKÍ 3:2.
1. Hvað fann Jehóva þegar hann kom til síns andlega musteris í byrjun aldarinnar? Hvaða spurningu vekur það?
HVAÐ fann „hinn sanni Drottinn“ Jehóva þegar hann kom til síns andlega musteris í fylgd ‚sendiboða sáttmálans,‘ skömmu eftir að Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914? Hann komst að raun um að fólk hans þarfnaðist hreinsunar og fágunar. Myndi það gangast undir hana og þola hverja þá hreinsun skipulags, starfs, kenningar og breytni sem þörf var á? Eins og Malakí orðaði það: „Hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist?“ — Malakí 3:1, 2.
2. Hverjir eru ‚levítarnir‘ í Malakí 3:3 nú á tímum?
2 Jehóva tekur á sig þá ábyrgð að hreinsa og fága „levítana.“ (Malakí 3:3) Í Forn-Ísrael voru prestar og þjónar í musterinu af ættkvísl Leví. Þessir ‚levítar‘ svara til hinna smurðu í heild sem nú á dögum gegna prestsþjónustu undir umsjón Jesú Krists, æðsta prestins. (1. Pétursbréf 2:7-9; Hebreabréfið 3:1) Þeir voru fyrstir prófaðir þegar Jehóva kom til hins andlega musteris í fylgd ‚sendiboða sáttmálans.‘ En hvaða rök eru fyrir því að þessi hreinsun hafi átt sér stað frá og með lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar?
Tími prófunar í eldi
3. Hvernig voru vottar Guðs á sig komnir vorið 1918?
3 Þegar Jehóva kom til hins andlega musteris í fylgd ‚sendiboða sáttmálans‘ fann hann fyrir leifar sem þörfnuðust hreinsunar og fágunar. Til dæmis hafði Varðturninn hvatt lesendur sína til að helga þann 30. maí 1918 bænagerð um sigur lýðræðisaflanna, í samræmi við beiðni bandaríska þjóðþingsins og Wilsons forseta. En það var ekkert annað en brot á kristnu hlutleysi. — Jóhannes 17:14, 16.
4. Hvaða stefnu tóku ofsóknir á hendur þjónum Jehóva?
4 Klerkastéttin og stjórnvöld beittu smurða þjóna Jehóva miklum þrýstingi. Hinar smurðu leifar, ranglega ákærðar um undirróðursstarfsemi, freistuðu þess að gera heiminum ljóst sakleysi sitt. En þann 7. maí 1918 var gefin út handtökuskipun á hendur átta bræðrum í stjórn og ritstjórn Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, þeirra á meðal forsetanum, J. F. Rutherford. Réttarhöldin hófust mánudaginn 3. júní. Þann 20. júní fann kviðdómur þá seka um fjögur ákæruatriði. Síðan, þann 4. júlí 1918, voru þessir vígðu, kristnu menn fluttir með járnbrautarlest til fanglesis í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum.
5. Hvernig varð ljóst að sía þurfti suma úr meðal þeirra sem þjónuðu Guði, og hvað sýnir að það gerðist?
5 Þegar kom fram á sumar það ár, 1918, hafði stórlega dregið úr hinni sterku, samstilltu, opinberu prédikun um ríki Jehóva. Það var eins og þeir hefðu verið ‚deyddir‘ að því er opinbert starf sitt varðaði. (Opinberunarbókin 11:3, 7) Þegar mót Félagsins voru haldin það sumar gerðu sumir fráhvarf frá trúnni og mynduðu sína eigin trúarhópa. Þeir létu í ljós einkenni ‚ills þjóns‘ og voru hreinsaðir eins og ‚hismi‘ frá trúföstum leifum þjóna Jehóva. (Matteus 3:12; 24:48-51) Minningarhátíðin um dauða Krists var haldin sunnudaginn 13. apríl 1919 að viðstöddum 17.961 í ýmsum löndum. Aðsóknin að minningarhátíðinni hafði minnkað um liðlega 3000 í samanburði við ófullkomna skýrslu um árið 1917, sem lýsti vel áhrifum hreinsunarinnar.
6. Hvernig var það þjónum Jehóva til blessunar að hann skyldi leyfa slíkar þrengingar?
6 En Jehóva leyfði að slík eldhreinsun kæmi yfir þjóna sína þeim til blessunar. Hann sneri aldrei algerlega við þeim baki. Þriðjudaginn 25. maí 1919 var J. F. Rutherford og sjö félögum hans sleppt úr fangelsi gegn tryggingu og síðar fengu þeir algera uppreisn æru. Skyndilega voru þeir sem lifað höfðu þessa reynslutíma og hreinsast lausir úr fjötrum! Já, ‚lífsandi Jehóva fór í þá og þeir risu á fætur,‘ reiðubúnir til athafna. — Opinberunarbókin 11:11.
7. (a) Hvað gerðu þessir vottar eftir lausn sína? (b) Hvaða afleiðingar hafði þessi hreinsun?
7 Hvað myndu þeir nú gera? Sem endurreist kristið samfélag byrjuðu leifarnar á því að líta vandlega í eigin barm. Þær báðu Jehóva fyrirgefningar á syndum sínum og tilslökunum. (Samanber Sálm 106:6; Jesaja 42:24) Þær gengu fram sem hreinsað fólk. Sökum hreinsunar sinnar ‚hafði Jehóva nú aftur menn,‘ hinar drottinhollu leifar, ‚er báru fram fórnir á þann hátt sem rétt er.‘ (Malakí 3:3) Andlegar lofgjörðarfórnir þeirra, sem þær báru fram, urðu þóknanlegar Guði. (Hebreabréfið 13:15) Þær fögnuðu því að hin skammvinna vanþóknun Jehóva var hjá. Þær treystu því að þjónusta þeirra við hann yrði honum þóknanleg eftirleiðis. (Jesaja 12:1) Dagana 1. til 8. september árið 1919 var haldið ánægjulegt mót í Cedar Point í Ohio þar sem 7000 voru viðstaddir og 200 létu skírast. Allt bar þetta merki endurreisnar og vilja til að fullna prédikunarstarf Jehóva.
8. (a) Hvaða áhrif hefur hreinsunin á okkur núna? (b) Hverjir þurfa að ganga í gegnum prófun og hreinsun auk ‚levítanna‘?
8 En hvernig snertir allt þetta fólk Guðs nú á tímum? Samkvæmt spádóminum átti Jehóva, ásamt sendiboða sínum, að koma og „sitja og bræða og hreinsa.“ (Malakí 3:3) Hreinsunin átti að halda áfram og hann myndi „sitja“ og fylgjast gaumgæfilega með. Sú staðreynd að hinar drottinhollu leifar gengu í gegnum eldhreinsun snemma á þessari öld þýðir ekki að málmbræðslumaðurinn mikli hafi lokið hreinsun sinni þá. Hreinsunin og prófunin hefur haldið áfram til þessa dags. Jehóva er enn í musteri sínu sem dómari. Hann hefur ekki aðeins verið að hreinsa „levítana,“ hinar smurðu leifar. Spádómur Malakís gaf til kynna að honum væri annt um „útlendinga“ er svara til hins ‚mikla múgs‘ sem á í vændum eilíft líf á jörð. (Malakí 3:5; Opinberunarbókin 7:9, 10) Já, síðastliðin 69 ár hefur verið unnið að stöðugri hreinsun þjóna Jehóva einkum með fernum hætti.
Hreinsun skipulagsins
9. Nefndu nokkur dæmi um skipulagsbreytingar frá 1919.
9 Í fyrsta lagi átti sér stað hreinsun með þeim hætti að söfnuðurinn um allan heim var markvisst látinn aðlaga sig meginreglum úr Ritningunni sem fengist hafði gleggri skilningur á. Lýðræðisfyrirkomulag í stjórn safnaðanna hafði smám saman verið lagt af. Lítum á nokkur dæmi um markvissa framför á þessu sviði.
1919: Útnefningar af hálfu hins stjórnandi ráðs hófust þegar aðalstöðvar Varðturnsfélagsins tóku að skipa fastan þjónustustjóra í hverjum söfnuði til að hafa umsjón með starfi hans á akrinum.
1932: Árlegri kosningu öldunga og djákna var hætt; í staðinn var valin þjónustunefnd til aðstoðar þjónustustjóranum, sem skipaður var af Félaginu, og átti hann einnig sæti í henni.
1937: Viðurkennt var að „Jónadabar“ [menn með jarðneska von] mættu gegna ábyrgðarstöðum í söfnuðinum.
1938: Allir umsjónarmenn og aðstoðarmenn þeirra skyldu skipaðir beint af Félaginu á guðræðislegan hátt.
1972: Sýnt var fram á að samkvæmt Ritningunni skyldi öldungaráð, skipað af Félaginu, en ekki aðeins einn þroskaður kristinn maður, fara með stjórn hvers safnaðar.
1975: Hið stjórnandi ráð skipti sér niður í nefndir til ýmissa ábyrgðarstarfa; enginn einn maður skyldi fara með stjórn heldur allir í nefndinni hafa jafnmikil áhrif og sem einn maður skyldi hún virða Krist Jesú sem leiðtoga.
10. (a) Hvaða áhrif höfðu slíkar framfarir? (b) Hvað finnst þér um allar slíkar leiðréttingar?
10 Hvaða árangur hafa slíkar breytingar haft? Blessun Jehóva hefur verið auðsæ eins og sjá má af vexti dýrkenda hans, bæði andlegum og tölulegum. (Samanber Postulasöguna 6:7; 16:5.) Að vísu hafa einstaka umsjónarmaður og fleiri verið síaðir út vegna þess að þeir fylgdu ekki drottinhollir þeirri leið sem Guð gaf bendingu um. En yfirgnæfandi meirihluti þjóna Jehóva hefur sýnt sig hlýðinn og undirgefinn slíkum skipulagsbreytingum. (Hebreabréfið 13:17) Þeir gera sér ljóst að með slíkum breytingum hefur málmbræðslumaðurinn mikli fært þá til betra samræmis við hina biblíulegu stjórnaraðferð safnaðanna.
Þjónustan á akrinum
11. Hvaða framförum hefur prédikunarstarfið tekið á síðustu áratugum?
11 Í öðru lagi hefur átt sér stað hreinsun og prófun í sambandi við þátttöku í þjónustunni á akrinum.
1922: Allir sem tengdir voru söfnuðunum voru hvattir til að taka þátt í þjónustunni hús úr húsi. Hið mánaðarlega fréttablað „Bulletin“ (núna „Ríkisþjónusta okkar“), með fyrirmælum varðandi þjónustuna, hóf göngu sína.
1927: Regluleg prédikun hús úr húsi á sunnudögum hófst; bókum og bæklingum var dreift gegn framlagi.
1937: Fyrsti bæklingurinn, „Námsfyrirmynd“ fyrir heimabiblíunám var gefinn út.
1939: Fyrsta árlega áskriftarsöfnun að „Varðturninum“ átti sér stað; teknar voru yfir 93.000 nýjar áskriftir.
1940: Blaðastarf á götum úti hófst.
Þessi opinbera prédikun tók fleiri markvissum breytingum í framfaraátt, svo sem því að fara í endurheimsóknir og stjórna heimabiblíunámi.
12. (a) Hvaða áhrif hafa slíkar framfarir í þjónustunni á akrinum haft? (b) Hvernig getum við sýnt hollustu okkar við leið Jehóva til að hreinsa þjóna sína?
12 Hver hefur árangurinn orðið? Í gegnum árin hafa sumir verið síaðir frá vegna þess að þeir voru ekki fúsir til að bera ávöxt. (Jóhannes 15:5) Flestir þjónar Jehóva hafa þó svarað jákvætt kallinu um að prédika Guðsríki. Hinn smái hópur, sem taldi innan við 8000 manns árið 1919, hefur vaxið upp í 3.229.022 boðbera Guðsríkis sem var hámarkstala árið 1986! Og hvað um þjónustu í fullu starfi? Vorið 1919 voru starfandi 150 farandbóksalar (brautryðjendur), en árið 1986 voru að meðaltali 391.000 brautryðjendur starfandi í hverjum mánuði. Það er langhæsta tala í sögu nútímavotta Jehóva! Með virkri þátttöku í prédikun fagnaðarerindisins látum við í ljós að við styðjum dyggilega það hvernig Jehóva hefur haldið áfram að hreinsa þjóna sína. — 1. Korintubréf 9:16.
Vaxandi ljós
13. Nefndu dæmi um hvernig Jehóva hefur upplýst þjóna sína.
13 Í þriðja lagi átti sér stað hreinsun hjá fólki Guðs þegar prófað var hvort það tæki við stigvaxandi, andlegri upplýsingu frá Biblíunni. (Orðskviðirnir 4:18) Frá 1919 fram til okkar dags hefur streymt fram stöðugt flóð sanninda sem við höfum fengið aukinn skilning á.
1925: Þjónar Guðs gerðu sér ljóst að til væru tvö aðgreind og andstæð skipulög — skipulag Jehóva og skipulag Satans.
1931: Þjónar Guðs tóku sér nafnið vottar Jehóva.
1935: Vakin var athygli á að ‚múgurinn mikli‘ í Opinberunarbókinni 7:9-15 væri hópur sem ætti sér jarðneska framtíð.
1941: Sýnt var fram á að réttmæti alheimsdrottinvalds Jehóva væri þungamiðjan í áskorun Satans.
1962: Sýnt var fram á það að ‚yfirvöldin‘ í Rómverjabréfinu 13:1 væru veraldleg stjórnvöld sem kristnir menn ættu að sýna afstæða undirgefni.
1986: Þjónar Guðs skildu að bæði leifarnar og ‚múgurinn mikli‘ yrðu í táknrænni merkingu að neyta holds Jesú og blóðs, það er að segja að viðurkenna fórn hans, til að vera honum samstilltir. — Jóhannes 6:53-56.
Þegar Jehóva upplýsti fólk sitt skref fyrir skref varð því með tímanum ljóst að hver söfnuður þyrfti að gefa því gaum að varðveita hreint, hlutlaust skipulag sem virti heilagleika blóðsins. — 1. Korintubréf 5:11-13; Jóhannes 17:14, 16; Postulasagan 15:28, 29.
14. (a) Hvernig hafa þjónar Jehóva tekið slíkri markvissri upplýsingu? (b) Hver er ásetningur þinn í sambandi við miðlunarleið Jehóva?
14 Hvernig hafa þjónar Guðs tekið þessari vaxandi upplýsingu? Alltaf hafa verið til einhverjir sem ekki hafa getað sætt sig við ákveðnar leiðréttingar. Þeir hafa verið hreinsaðir frá eins og ‚hismi.‘ (Matteus 3:12) En trúfastir þjónar Jehóva eru innilega þakklátir fyrir slíka andlega upplýsingu! Meðan kristni heimurinn fálmar í kringum sig í andlegu myrkri verður sú gata, sem þjónar Jehóva ganga, sífellt bjartari. Ættum við ekki að vera staðráðin í að halda okkur fast við þá boðleið sem Jehóva notar, og taka við allri slíkri vaxandi upplýsingu sem „mat á réttum tíma“? — Matteus 24:45.
Óhreinir siðir lagðir af
15. Hvernig hefur Jehóva smám saman hreinsað þjóna sína af óhreinum eða babýlonskum iðkunum?
15 Í fjórða lagi átti sér stað hreinsun þegar gefin var tilskipun um að leggja af óhreina eða babýlonska siði. Á þriðja áratugnum hættu þjónar Guðs að halda jól og aðrar hátíðir sem sýnt var fram á að væru af heiðnum uppruna. Árið 1945 var skýrð afstaða kristinna manna til blóðgjafa. Á sjöunda og áttunda áratugnum, þegar siðferðilegt andrúmsloft heimsins var á hraðri niðurleið, hélt Varðturninn áfram að gefa þjónum Guðs hnitmiðuð heilræði varðandi rétta framkomu við hitt kynið og nauðsyn þess að hætta notkun tóbaks og annarra fíkniefna.
16. Hvernig ber að líta á slíkar leiðréttingar þar sem óhreinar iðkanir eiga í hlut?
16 Að sjálfsögðu hafa slíkar leiðréttingar, þar sem óhreinar athafnir hafa átt í hlut, oft verið prófraun á hollustu þjóna Guðs. En þeir sem hafa gert nauðsynlegar breytingar hafa litið á þær sem aðstoð við að afklæðast óhreinum flíkum. (Kólossubréfið 3:9, 10) Þeir gerðu sér ljóst að enda þótt ýmsir siðir tengdir sumum helgidögum kunni að virðast skaðlausir er það viðhorf Jehóva sem við ættum að láta okkur umhugað um; hann var sjálfur sjónarvottur að þeim heiðnu trúarathöfnum sem þeir eiga rætur sínar að rekja til. Þeir litu á siðferðiskröfur Guðs sem vernd frekar en hömlur og hlutu blessun Jehóva fyrir það að hreinsa sig. Ef þeim þótti erfitt að skilja breytinguna eða tilefni hennar treystu þeir að Jehóva væri að ‚kenna þeim það sem þeim væri gagnlegt.‘ — Jesaja 48:17.
17, 18. (a) Hvernig prófar málmbræðslumaðurinn mikli okkur sem einstaklinga? (b) Hver ætti að vera ásetningur okkar meðan við bíðum dags Jehóva?
17 Jehóva heldur áfram að hreinsa þjóna sína ár frá ári. Sem hópur hafa þeir tekið hreinsun, bæði sem skipulag, og einnig í starfi, kenningu og siðferði. En hvað um okkur einstaklingana? Í gegnum skipulag sitt heldur Jehóva áfram að miðla ‚fastri fæðu‘ sem leiðbeinir og hreinsar hjartað. Áhugahvatir okkar og tilefni eru prófuð og skoðuð. (Hebreabréfið 4:12; 5:14) Með því að gangast undir hreinsun málmbræðslumannsins mikla höldum við okkur hreinum á meðan við bíðum ‚hins mikla og ógurlega dags Jehóva.‘ — Malakí 4:5.
18 Jehóva, ‚hinum sanna Drottni,‘ og ‚sendiboða sáttmálans,‘ Jesú Kristi, séu þakkir fyrir að hreinsa okkur frá sérhverjum óhreinleika núna á tímum prófunar og hreinsunar. Megum við öll vera staðráðin í að halda áfram að ganga á hreinum og friðsælum stigum Jehóva undir stjórn ‚Friðarhöfðingjans,‘ Krists Jesú, og varðveita þannig okkar hamingjuríka samband við Jehóva. — Jesaja 9:6; Sálmur 72:7.
Hvernig hefur Jehóva hreinsað þjóna sína í sambandi við . . .
◻ Skipulagsbreytingar?
◻ Þátttöku í þjónustunni á akrinum?
◻ Að taka á móti stigvaxandi upplýsingu?
◻ Að leggja af óhreina siði?
[Rammi á blaðsíðu 14]
Vegna hreinsunar sinnar urðu drottinhollar leifar ‚menn er báru fram fórnir á þann hátt sem rétt er.‘
[Rammi á blaðsíðu 17]
Ár eftir ár heldur Jehóva áfram að fága og hreinsa þjóna sína.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Málmbræðslumenn fortíðar fleyttu soranum ofan af bráðnum málminum. Á líkan hátt leyfir Jehóva að þjónar hans séu prófaðir og hreinsaðir.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Fáeinir hafa verið ‚hreinaðir‘ úr eins og „hismi,“ en trúfastir þjónar Jehóva taka fagnandi hinni stigvaxandi, andlegu upplýsingu.
[Credit line]
Ljósmynd: Pictorial Archives, (Near Eastern History) Est.