Hvað er maðurinn að gera jörðinni?
FYRIR 300 árum lifði maðurinn í miklu nánari tengslum við náttúruna en nú er. Honum stóð lítil ógn af breytingum á umhverfinu af mannavöldum, líkt og er núna. Iðnbyltingin var ekki byrjuð. Það voru engin orkuver, verksmiðjur, bifreiðar eða aðrir alvarlegir mengunarvaldar. Það hefði verið erfitt fyrir þálifandi mann að ímynda sér að maðurinn gæti eytt alla jörðina.
Eigi að síður var, jafnvel á þeim tíma, í umferð aðvörun gegn eyðingu jarðar í mjög útbreiddu riti. Þessa aðvörun var að finna í síðustu bók Biblíunnar og þar var sagt fyrir að sá tími myndi koma er Guð tæki fram fyrir hendurnar á mönnunum „til að eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Opinberunarbókin 11:17, 18.
Það er mjög hughreystandi fyrir alla, sem hafa áhyggjur af illri meðferð nútímamanna á jörðinni, að vita að skapari hinnar stórkostlegu reikistjörnu, sem við byggjum, mun koma í veg fyrir að henni verði eytt! En er ástandið í raun og veru orðið svo alvarlegt að Guð þurfi að skerast í leikinn? Líttu á nokkrar staðreyndir og dæmdu síðan um það sjálfur.
Skógarnir
Skógarnir fegra jörðina og eru nokkrum milljónum ólíkra lífverutegunda skjól og fæðugjafi. Er trén vaxa og framleiða næringarefni inna þau af hendi aðra mikilvæga þjónustu, svo sem þá að taka til sín koldíoxíð og gefa frá sér hið dýrmæta súrefni. „Með því bjóða þau fram eitt mótefni gegn upphitun jarðar sem ógnar lífinu á jörðinni eins og við þekkjum það,“ að sögn tímaritsins National Geographic.
En maðurinn er að eyða þeirri arfleifð sem skógarnir eru. Skógar Norður-Ameríku og Evrópu eru að deyja vegna mengunar. Og kröfur iðnríkja heims eru að eyða hitabeltisskógunum. Afrískt dagblað skýrði frá því að árið 1989 „væri reiknað með útflutningi 66 milljóna rúmmetra [af trjáviði úr hitabeltinu] — 48 af hundraði til Japans, 40 af hundraði til Evrópu.“
Í sumum löndum heims brjóta bændur nýtt land til ræktunar með því að brenna skóga. Áður en langt um líður er viðkvæmur jarðvegurinn þurrausinn og bændurnir verða að brenna meiri skóg. Talið er að nálega helmingur af skógum jarðar hafi horfið á þessari öld aðeins.
Höfin
Höfin gegna einnig þýðingarmiklu hlutverki í hreinsun andrúmsloftsins og maðurinn er líka að eyðileggja þau. Höfin drekka í sig gríðarlegt magn af koldíoxíði. Plöntusvif sjávarins tekur síðan til sín koldíoxíðið og gefur frá sér súrefni. Dr. George Small lýsir mikilvægi þessarar hringrásar þannig: „Sjötíu af hundraði þess súrefnis, sem bætist við andrúmsloftið ár hvert, kemur frá plöntusvifi í höfunum.“ Sumir vísindamenn vara hins vegar við að mjög geti gengið á plöntusvif sjávarins vegna eyðingar ósonlags andrúmsloftsins sem talin er vera af mannavöldum.
Auk þess losar maðurinn sorp, olíu og jafnvel eitruð úrgangsefni í höfin. Sum lönd hafa að vísu fallist á að takmarka þann úrgang sem þau leyfa að losaður sé í höfin en önnur neita slíkum samþykktum. Eitt Vesturlanda áskilur sér jafnvel rétt til losa kjarnorkuúrgang í sjóinn. Hinn kunni hafkönnuður Jacques Cousteau aðvarar: „Við verðum að bjarga höfunum ef við viljum bjarga mannkyninu.“
Drykkjarvatn
Maðurinn er jafnvel að eyðileggja drykkjarvatnið sitt! Í hinum fátæku löndum heims deyja milljónir manna ár hvert af völdum mengaðs drykkjarvatns. Meðal hinna auðugari ríkja er drykkjarvatn oft mengað meðal annars tilbúnum áburði, skordýraeitri og illgresiseitri sem skolast út í árnar og seytlar niður í grunnvatnið. Árið 1986 voru framleiddar 2,3 milljónir tonna af skordýraeitri, illgresiseitri og öðrum slíkum efnum og framleiðslan er sögð aukast um 12 af hundraði á ári.
Sorphaugar fyrir efnaúrgang eru annar mengunarvaldur. „Málmtunnur með efnaúrgangi eru ekkert annað en tímasprengjur sem springa þegar tunnurnar ryðga í gegn,“ segir tímaritið Scientific American. Tímaritið bætir við að mengun af þessu tagi eigi sér stað „um allan heim á þúsundum sorphauga fyrir efnaúrgang.“
Afleiðingin er sú að ár, sem einu sinni voru hreinar og tærar, eru nú alls staðar á jörðinni að breytast í skolpræsi fyrir iðnaðarúrgang. Áætlað er að 20 milljónir Evrópumanna drekki vatn úr Rín, en þó er áin svo menguð að botnleðja, sem skafin er upp úr árfarveginum, er of eitruð til að nota hana sem uppfyllingu á landi!
Landbúnaðaraðferðir
Maðurinn er jafnvel að eyða ræktarlandi sínu svo uggvænlegt sem það er. Aðeins í Bandaríkjunum hafa 20 af hundraði þess lands, sem notað er til áveitu, orðið fyrir tjóni að sögn tímaritsins Scientific American. Hvers vegna? Vegna þess að óhóflegri áveitu fylgir of mikið salt sem situr eftir í jarðveginum. Fjölmörg ríki hafa eyðilagt ógrynni af dýrmætu ræktarlandi með þessum hætti. „Nú sem stendur er jafnmikið land tekið úr ræktun vegna seltu og tekið er til ræktunar með nýrri áveitu,“ segir í ritinu The Earth Report. Af öðru útbreiddu vandamáli má nefna ofbeit sem kann að hafa stuðlað að útbreiðslu eyðimarka.
Of mörg vélknúin ökutæki
Nóg að sinni um láð og lög. En hvað um loftið? Það er líka verið að spilla því og sökudólgarnir eru margir. Bifreiðin er einn þeirra. Hér fara á eftir aðvaranir þriggja, áhrifamikilla vísindatímarita: „Vélknúin ökutæki valda meiri loftmengun en nokkuð annað sem menn hafast að.“ (New Scientist) „Sem stendur eru skráðar 500 milljónir bifreiða á jörðinni . . . Um þriðjungur af olíuframleiðslu jarðar fer í að fylla eldsneytistanka þeirra. . . . Bifreiðum fjölgar hraðar en jarðarbúum.“ (Scientific American) „Á öllum stigum framleiðslu, notkunar og losunar er bensín ein af helstu orsökum hrörnunar og sjúkleika umhverfisins.“ — The Ecologist.
Já, það er verið að misþyrma jörðinni og leggja hana í rúst. Höfin, drykkjarvatnið, ræktarlandið og jafnvel andrúmsloftið má þola hroðalega mengun. Þetta eitt ætti að vera nægileg rök fyrir því að sá tími sé nálægur er Guð mun „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) En það er líka verið að eyða jörðina á aðra vegu og enn verri. Við skulum skoða hvað um er að ræða.
[Innskot á blaðsíðu 4]
„Við verðum að bjarga höfunum ef við viljum bjarga mannkyninu.“ — Jacques Cousteau.