Þegar kanarífuglarnir deyja
KANARÍFUGLAR eru næmari fyrir eitruðum lofttegundum en menn. Af þeirri ástæðu voru kolanámumenn vanir að hafa með sér kanarífugl í búri niður í námuna til að vara við hættulegum lofttegundum. Ef kanarífuglinn dó gátu námuverkamennirnir forðað sér af hættusvæði uns náman hafði verið loftræst. Með þessa vitneskju að bakhjarli skiljum við betur athugasemdir dr. David Suzuki sem er þekktur vísindamaður í Kanada.
Hann notaði eftirfarandi samlíkingu til að lýsa áhyggjum sínum af dauða reikisstjörnunnar jarðar sem virðist blasa við: „Þegar kolanámumaður tók með sér kanarífugl ofan í kolanámuna og kanarífuglinn dó, þá sagði kolanámumaðurinn ekki: ‚Ó, fuglinn bara dó, en ég er ekki fugl.‘ Kanarífuglinn dó vegna þess að hann andaði að sér sama loftinu og námuverkamaðurinn.“
Síðan bætti hann við: „Þegar 22 hvalir af tegundinni mjaldur deyja í St. Lawrenceflóa og það er svo mikið af eiturefnum í þeim að menn verða að klæða sig hönskum og grímum til að geta snert þá, þegar fólk segir okkur að sykurhlynarskógurinn í Quebec verði dauður eftir tíu ár, þegar fólk segir okkur að tvær tegundir verði aldauða á klukkustund og 10.000 selir hafi dáið í Norðursjó og það skilur ekki hvers vegna, . . . þetta eru auðvitað kanarífuglar og ef við höldum að við búum ekki í sama umhverfi og þessar lífverur, þá erum við klikkuð.“
Dr. Suzuki harmar það að stjórnmálamenn skuli lítinn eða engan gaum gefa þessum „kanarífuglum“ og munu ekki sjá alvöru málsins fyrr en börn fara að deyja í stórum stíl. Hann segir: „Ætlum við þá að nota börnin okkar fyrir kanarífugla?“
Þótt ástandið sé sannkristnum mönnum áhyggjuefni örvænta þeir ekki. Jehóva, skapari jarðar, sem „hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg,“ mun ekki leyfa skammsýnum, ágjörnum mönnum að spilla umhverfi okkar endalaust. Í orði sínu, Biblíunni, lofar hann að „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Jesaja 45:18; Opinberunarbókin 11:18.