„Óttist Guð og gefið honum dýrð“
„Óttist Guð og gefið honum dýrð.“ — OPINBERUNARBÓKIN 14:7.
1. Hvern eigum við að óttast og hvað ekki?
HVERN ÆTTUM VIÐ AÐ ÓTTAST? Svo sannarlega ekki drekann rauða, Satan, og djöflasveitir hans! Kristur Jesús úthýsti þeim af himnum eftir fæðingu Guðsríkis árið 1914. En í opinberunarsýnunum sjáum við næst það skipulag sem Satan notar hér á jörð í örþrifum sínum til að kollvarpa tilgangi Guðs. Tvö grimm villidýr og drukkin skækja — Babýlon hin mikla — eru áberandi í þessari myndrænu sýn. Eigum við að óttast þau? Langt frá því! Þess í stað skulum við óttast Jehóva og Krist hans sem ráða ríkinu er hefur nú leitt spilltan heim Satans fyrir lokadóm. — Orðskviðirnir 1:7; Matteus 10:28; Opinberunarbókin 12:9-12.
Dýr sem lastmæla
2. Hvaða villidýr birtist í 8. sýninni og hvað táknar það?
2 Í áttundu sýn Opinberunarbókarinnar sjáum við villidýr stíga upp úr ólgandi mannhafinu. Það hefur sjö höfuð og tíu horn og tíu ennisdjásn er tákna það konungsvald sem Satan hefur gefið því. Það lastmælir Jehóva og misþyrmir þjónum hans eins og pardusdýr, bjarndýr og ljón myndu gera; en vald þess er stundlegt, komið frá drekanum Satan sem það líkist mjög. Spámaðurinn Daníel hafði fyrrum lýst pólitískum stjórnum jarðarinnar sem dýrum, og stjórnirnar hafa sjálfar oft valið sér villidýr fyrir þjóðartákn, samanber breska ljónið og ameríska örninn. (Daníel 8:5-8, 20-22) Núna sjáum við hins vegar samsett dýr sem í eru fólgin öll stjórnmálaöfl biblíusögunnar sem hafa svo oft kúgað sanna þjóna Guðs á jörðinni. Í hópi fremstu ‚höfðanna‘ hafa verið Egyptaland, Assýría, Babýlon, Medía-Persía, Grikkland, Róm og að síðustu ensk-ameríska tvíveldið. — Opinberunarbókin 13:1, 2; 12:3, 7-9.
3. (a) Hvernig fékk eitt af höfðum dýrsins ‚sár af sverði‘? (b) Hvernig tekur hið tvíhyrnda dýr forystuna í að gera líkneski af fyrra dýrinu? (c) Hvert er nafn fyrra dýrsins og hvað táknar það?
3 Í síðari heimsstyrjöldinni á árunum 1914-18 fékk Stóra-Bretland í hlutverki sjöunda heimsveldisins ‚sár undan sverði‘ sem hefði getað reynst banvænt. En Bandaríki Norður-Ameríku komu því til bjargar. Upp frá því hafa Bretland og Bandaríkin unnið saman sem tvíveldi, en Jóhannes lýsir því sem dýri með tvö horn er steig upp „af jörðinni,“ af rótgrónu mannfélagi. Þetta tvíhyrnda dýr tekur forystuna í því að gera líkneski af fyrra dýrinu og gefa því lífsanda, en það lýsir því hvernig ensk-ameríska heimsveldið varð helsti frumkvöðull að stofnun bæði Þjóðabandalagsins og arftaka þess, Sameinuðu þjóðanna. Það ber tölu sem er einnig nafn, 666. Talan sex er ófullkomin tala — nær ekki biblíulegum fullkomleika tölunnar sjö — þannig að þrítekin gefur hún til kynna hversu stórkostlega ófullkomnir mannlegir stjórnendur nútímans eru. Þótt vottar Jehóva virði yfirvöld og séu til fyrirmyndar í því að hlýða lögum þeirra landa, sem þeir búa í, neita þeir af miklu hugrekki að tilbiðja „dýrið“ eða líkneski þess. — Opinberunarbókin 13:3-18; Rómverjabréfið 13:1-7.
Óttastu Guð — hvers vegna?
4. (a) Hverjir sjást standa á himnesku Síonfjalli og hverja tákna öldungarnir 24 frammi fyrir hásæti Guðs? (b) Hver er munurinn á ‚nýja söngnum‘ sem hinir smurðu syngja, og ‚nýjum söng‘ múgsins mikla?
4 En nóg um dýrin að sinni. Það er hressandi andstæða að níunda sýnin skuli beina athyglinni að lambinu. Það stendur á Síonfjalli með þeim 144.000 er það kaupir sem frumgróða út úr mannkyninu. Þótt sumir þeirra þjóni enn á jörðinni eru allar hinar 144.000 í andlegum skilningi ‚komnar til Síonfjalls og . . . hinnar himnesku Jerúsalem.‘ (Hebreabréfið 12:22) Öldungarnir 24 standa einnig fyrir hásæti Guðs og það á vel við því að þeir tákna þennan sama, smurða hóp séðan frá öðrum sjónarhóli — meðlimi hans upprisna og setta í embætti sem konungar og prestar. Hinar 144.000 syngja „nýjan söng.“ Það má rekja til hinnar einstæðu lífsreynslu þeirra að vera keyptir frá jörðinni til að verða erfingjar Guðsríkis. Múgurinn mikli ‚syngur einnig Jehóva nýjan söng,‘ en hann er ólíkur hinum að því leyti að þeir syngja hann með þá framtíðarsýn að hljóta eilíft líf á jarðnesku yfirráðasvæði Guðsríkis. — Opinberunarbókin 7:9; 14:1-5; Sálmur 96:1-10; Matteus 25:31-34.
5. (a) Hvaða tíðindi flytur engill sem flýgur um miðhimin og hvers vegna eru þau eilíf? (b) Hvað fyrirskipar engillinn hárri röddu og hvers vegna er það viðeigandi?
5 Nú stækkar sjónarsviðið. Jóhannes sér annan engil fljúga um miðhimin. Hann hefur mikil gleðitíðindi að flytja. Þau eru eilífur fagnaðarboðskapur, því að þau hafa í för með sér eilíft líf fyrir þá menn af sérhverri þjóð og kynkvísl og lýð sem hlýða Guði núna á dómsstund hans. Ólíkt þeim ógnandi dýrum, sem Jóhannes er nýbúinn að lýsa, hví ættum við ekki að dýrka, já, dá þennan undursamlega Guð? Hann er sá sem skapaði himin og jörð. Hann er uppspretta alls sem til er, lifandi og lífvana. Það er því ærin ástæða fyrir engilinn að boða með þrumuraust: „ÓTTIST GUÐ OG GEFIÐ HONUM DÝRГ! Rödd engilsins heyrist um alla jörðina og vottar Jehóva enduróma vekjandi boð hans til alls mannkyns á um 200 tungumálum. — Opinberunarbókin 14:6, 7; Jesaja 45:11, 12, 18.
Fall Babýlonar hinnar miklu
6. Hvaða óvænt tíðindi boðar annar engill?
6 Annar engill birtist. Boðskapur hans gerir mönnum sannarlega bilt við: „Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns.“ (Opinberunarbókin 14:8) Hver er Babýlon hin mikla að hún skuli geta táldregið jafnvel þjóðir og gert þær drukknar?
7. Hvað er Babýlon hin mikla og hvernig varð hún til?
7 Forn-Babýlon var meginuppspretta falskra trúarbragða sem breiddust út um alla jörðina til að verða að heimsveldi undir stjórn illra anda, réttilega nefnt „Babýlon hin mikla.“ Þegar fram liðu stundir varð Róm fyrirferðarmikil innan þessa trúarlega heimsveldis, því að það var undir yfirráðum Rómar að fráhvarfskristnin þróaðist. Róm er enn þann dag í dag heimsmiðstöð babýlonskra trúarbragða. Það kom berlega í ljós árið 1986 þegar trúarleiðtogar heims svöruðu kalli páfans í Róm með því að koma saman ásamt honum í Assisi í grennd Rómar, í þeim tilgangi að biðja fyrir alþjóðlegu friðarári sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu lýst yfir.
8. (a) Hvernig féll Babýlon hin mikla og frá hvaða tíma hefur það verið augljóst? (b) Hvað sýnir að bænum trúarleiðtoga um frið er ósvarað?
8 En Babýlon hin mikla er fallin! Frá 1919 hefur það birst í dvínandi stuðningi við falstrúarbrögðin um víða veröld. Guðlaus kommúnismi ræður nú ríkjum í stórum hluta jarðarinnar. Ungmennum okkar tíma er kennd þróunarkenningin sem stangast á við orð Guðs. Í mótmælendaríkjum Evrópu sækja fáir kirkju nú orðið og páfinn í Róm er á sífelldum þönum til að reyna að halda kaþólsku heimsveldi sínu saman. Ljóst er að bænum trúarbragða heims til óteljandi guða er ósvarað. Ruth L. Sivard segir: „Tuttugu og tvær styrjaldir voru í gangi árið 1987, fleiri en á nokkru öðru ári skráðrar sögu. Heildartala fallinna í þessum styrjöldum fram til þessa er að minnsta kosti 2.200.000 — og hækkar ört.“a Bænafundurinn í Assisi kom ekki að miklu gagni! Og þó minntist páfi ársafmælis þessa fundar árið 1987 með því að slá pening með mynd af sér á annarri hlið og tákni friðarfundarins á hinni. Þeir halda áfram að segja: „‚Það er friður! Það er friður!‘ þar sem enginn friður er.“ — Jeremía 6:14, NW.
Skækjulifnaður Babýlonar afhjúpaður
9. Fyrir hvað eru klerkar Babýlonar hinnar miklu illræmdir?
9 Opinberunarbókin 14:8 sýnir okkur að Babýlon hin mikla er saurlífiskona. Klerkar hennar eru alræmdir fyrir siðlaust hátterni sitt. Sjónvarpsprédikarar hafa haft milljarða króna af hjörðum sínum en sjálfir verið sekir um óskammfeilið siðleysi. Kaþólska prestastéttin á einnig mjög í vök að verjast eins og ráða má af eftirfarandi fregn í ritinu The Beacon Journal í Fíladelfíu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum þann 3. janúar 1988: „Foreldrar, sálfræðingar, lögreglumenn og lögmenn segja að hundruð barna, sem kaþólskir prestar í Bandaríkjunum hafa misnotað kynferðislega síðastliðin fimm ár, hafi orðið fyrir alvarlegu og varanlegu tilfinningatjóni.“ Siðleysi hefur svert mjög mannorð margra af klerkum Babýlonar hinnar miklu.
10. (a) Hvað er táknað með ‚saurlifnaði‘ Babýlonar hinnar miklu í Opinberunarbókinni 18:3? (b) Hvers vegna hvílir þung blóðsök á herðum klerkastéttar Babýlonar hinnar miklu, eins og fram kemur í Opinberunarbókinni 18:24?
10 ‚Reiði-vín saurlifnaðar hennar‘ vísar þó sérstaklega til þess að fölsk trúarbrögð hafa biðlað til valdhafa, stutt stjórnmálabaráttu þeirra og styrjaldir og knúið fólk til að dýrka einhvern þjóðernislegan part dýrsins. Trúarbrögðin hafa oft reynst stjórnmálamönnum þarfur þjónn í því að ná markmiðum sínum, eins og sjá má af sáttmála Hitlers við Páfagarð árið 1933 og spænsku borgarastyrjöldina á árunum 1936-39. Í síðari heimsstyrjöldinni lét klerkastétt kaþólskra, mótmælenda, búddhatrúarmanna og annarra trúarbragða meðal beggja stríðsaðila eins og væri hún ölvuð af þjóðernislegum stríðshita. Klerkastéttin ber stóran hluta hinnar þungu blóðskuldar vegna þeirra tugmilljóna hermanna og óbreyttra borgara sem fallið hafa í styrjöldum frá 1914. Þeir klerkar, sem studdu fasista og nasista, eru líka blóðsekir vegna votta Jehóva og annarra sem teknir voru af lífi eða létust í fangabúðum. — Jeremía 2:34; Opinberunarbókin 18:3, 24.
11. (a) Hvað hafa smurðir kristnir menn og múgurinn mikli neitað að tilbiðja? (b) Hvaða dýrleg framtíðarvon gefur ærna ástæðu til að óttast Guð og gefa honum dýrð?
11 Síðastliðin 74 ár hafa drottinhollir, smurðir kristnir menn, í félagi við sívaxandi mikinn múg, haldið áfram að ÓTTAST GUÐ OG GEFA HONUM DÝRÐ. Við höfum staðfastlega hafnað því að dýrka nokkurn þjóðernislegan hluta dýrsins. Við höfum neitað að bera lof á líkneski dýrsins — Þjóðabandalagið og Sameinuðu þjóðirnar — því að við gerum okkur ljóst að einungis „ríki Drottins vors [Jehóva] og hans smurða“ getur komið á sönnum friði og öryggi. Við höfum verið staðráðnir í að „varðveita boð Guðs og trúna á Jesú.“ Slíkt þolgæði fær sína umbun! Smurðir kristnir menn, sem „í Drottni deyja,“ geta talist sælir því að „verk þeirra fylgja þeim.“ Hver sá af múginum mikla, sem kann að deyja vegna ofsókna, veikinda eða slysa, má treysta því að þau vináttubönd, sem hann hefur ræktað við Guð, tryggi honum upprisu snemma í þjóðfélagi ‚nýju jarðarinnar.‘ Þessar stórfenglegu framtíðarhorfur eru ærin ástæða til að ÓTTAST GUÐ OG GEFA HONUM DÝRÐ. — Opinberunarbókin 11:15, 17; 12:10; 14:9-13; 21:1.
12. Hvaða tvær uppskerur eiga sér stað og hvenær?
12 Þegar dóminum miðar fram kalla englar til tvennrar uppskeru. Fyrri uppskerumaðurinn er greinilega Jesús, krýndur sem dýrlegur konungur frá 1914, því að hann situr á hvítu skýi, ber kórónu og ‚líkist mannssyni.‘ Núna, á Drottins degi, sker hann upp á jörðinni fyrst þá sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum og síðan þær milljónir sem mynda múginn mikla. (Samanber Matteus 25:31-34; Jóhannes 15:1, 5, 16.) Í síðari uppskerunni er skorinn upp ‚vínviður jarðarinnar‘ sem kastað er í „reiði-vínþröng Guðs hina miklu.“ Þetta er dómurinn sem fullnægt er við Harmagedón þegar óguðlegt, margflækt samfélag manna er upprætt og eitraður ávöxtur þess kraminn í mauk. Jehóva sé lof fyrir að hreinsa jörðina af þessum eitraða vínviði! — Opinberunarbókin 14:14-20; 16:14, 16.
‚Jehóva . . . réttlátur og sannur‘
13. (a) Hvaða söng syngja hinir upprisnu smurðu í 10. sýninni og hvernig er hann orðaður? (b) Hvernig birtast réttlátir dómar Guðs greinilega í þessari sýn?
13 Í tíundu sýn Opinberunarbókarinnar sjáum við aftur gerast atburði á himnum frammi fyrir hásæti Guðs. Mikill fögnuður fylgir nærveru hans. Hinir upprisnu — sem gengu með sigur af hólmi vegna þess að þeir ÓTTUÐUST GUÐ OG GÁFU HONUM DÝRÐ — syngja ‚söng Móse og söng lambsins‘: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.“ Dómar Guðs eru sannarlega réttlátir og sannir eins og birtist svo greinilega í þessari sýn! Englarnir hella úr sjö skálum reiði Guðs sem leiðir til þess að öllum þjóðum er safnað til Harmagedón og minnt er á að „Guð gleymdi ekki hinni miklu Babýlon“! Sannarlega er tímabært að minna á að ÓTTAST GUÐ OG GEFA HONUM DÝRÐ. — Opinberunarbókin 15:1-16:21.
14. Hvaða áberandi hlutverki gegnir Babýlon hin mikla í 11. og 12. sýninni og hvers vegna er áríðandi að yfirgefa hana núna?
14 Babýlon hin mikla er nefnd aftur og aftur í Opinberunarbókinni. Við sjáum hana á ný sem aðalpersónu í 11. og 12. sýninni. Hún „er við vötnin mörgu“ og stjórnar þjóðum og gerir þær drukknar með sínum eitruðu lygakenningum. Sjálf er hún drukkin af „blóði hinna heilögu“ sem hún hefur drepið í ofsóknum og hún er sek um blóð „allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni“ vegna svika sinna og stríðsæsinga. Viðskiptamök hennar við stórveldi viðskiptalífsins og fjárkúgun á hendur almenningi hefur aflað henni mikils en illa fengins auðs. Ámælisverðust er hún fyrir pólitískt daður sitt sem hefur gengið svo langt að hún hefur búið í haginn fyrir sjálfa sig til að sitja hið pólitíska dýr friðar og öryggis, Sameinuðu þjóðirnar, svo á henni beri. En herbúin horn þessa sama dýrs eru í þann mund að rífa hana sundur og gereyða henni. Núna er rétti tíminn fyrir alla sem ÓTTAST GUÐ OG GEFA HONUM DÝRÐ til að yfirgefa hana, „því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.“ — Opinberunarbókin 17:1-18:24.
15. Hvaða lofsöngur er sunginn í tilefni af eyðingu skækjunnar miklu og hvaða annar gleðiviðburður fylgir í kjölfarið?
15 Aftaka Babýlonar hinnar miklu kemur því sem réttlátur dómur frá Jehóva. Til viðurkenningar á því ómar „Hallelúja!“ á himni og síðan á jörð og Jehóva er eignað hjálpræði, dýrð og máttur. Þessir kórar, sem syngja Jehóva lof, láta í ljós mikla gleði yfir eilífri tortímingu skækjunnar miklu. Gereyðing hennar stingur mjög í stúf við hamingjuríkan atburð á himnum — brúðkaup lambsins, Jesú, og brúðar hans, hinna 144.000 sem hafa sigrað og sýnt trúfesti! Með þrumugný er sunginn lofsöngur til ‚Jehóva Guðs vors hins alvalda,‘ já, „gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig“! — Opinberunarbókin 19:1-10.
16. Hvaða deila er nú að lokum útkljáð og hvernig, samkvæmt 13. sýninni?
16 En áður en þetta brúðkaup á himnum á sér stað sést í 13. sýninni hvernig deilan um drottinvald Jehóva er útkljáð. Konungur konunga og Drottinn drottna, Jesús, „dæmir og berst með réttvísi.“ Í för með honum eru miklar englasveitir og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda. Allt sem eftir er af jarðnesku kerfi Satans er kramið og malað mélinu smærra! (Opinberunarbókin 19:11-21) Þegar við horfum á þennan sigur, sem nú nálgast ört, með augum Opinberunarbókarinnar, höfum við svo sannarlega ástæðu til að ÓTTAST GUÐ OG GEFA HONUM DÝRÐ!
Guð vegsamaður um eilífð
17. Hvað kemur fram í 14. og 15. sýninni um málalokin fyrir alla þá sem óttast Guð og gefa honum dýrð?
17 Fjórtánda og fimmtánda sýn Opinberunarbókarinnar leiða í ljós hve hrífandi málalok allir sem ÓTTAST GUÐ OG GEFA HONUM DÝRÐ eiga í vændum. Þegar Satan og illir andar hans eru fjötraðir í undirdjúpi í þúsund ár fer fram hið himneska brúðkaup lambsins og brúðar hans, og konungarnir og prestarnir 144.001 ríkja um þúsund ár og lyfta mannkyninu upp til fullkomleika. Eftir lokaprófraun munu þeir sem ÓTTAST GUÐ OG GEFA HONUM DÝRÐ ganga með sigur af hólmi og hljóta viðurkenningu til eilífs lífs. Í þeirra hópi verða milljarðar manna sem hafa risið upp frá dauðum, ‚stórir og smáir,‘ sem reynast þess verðir að fá nöfn sín rituð í lífsins bók. ‚Nýr himinn og ný jörð‘ færa mannkyninu ólýsanlega blessun sem er tryggð, því að sá sem gerir „alla hluti nýja,“ Jehóva, lýsir yfir: „Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.“ — Opinberunarbókin 20:1-21:8.
18. Hvert er hámark Opinberunarbókarinnar samkvæmt 16. sýninni?
18 Í 16. sýninni sjáum við hámark opinberunarinnar. Hvernig er sú sýn? Í henni getur að líta borg. Þessi borg, hin nýja Jerúsalem, er gerólík nokkurri borg sem menn hafa nokkru sinni byggt hér á jörð — algerlega ólík Babýlon hinni miklu sem hefur með fráhvarfi sínu, saurugleik og pólitískum skækjulifnaði vanheiðrað Guð svo mjög. Þessi heilaga borg er hrein og dýrmæt. Hún er brúður lambsins, meðhjálp hans í að miðla mannheiminum eilífu lífi. (Jóhannes 3:16) Engin furða er að það kall skuli hljóma hátt og skýrt að menn skuli forða sér út úr svikaborginni Babýlon hinni miklu! — Opinberunarbókin 18:4; 21:9-22:5.
19. (a) Hvaða boð er látið út ganga fyrir milligöngu brúðarhópsins og hvernig bregðast auðmjúkir menn við? (b) Hvaða afleiðingar mun það hafa ef við hlýðum boðinu um að ‚óttast Guð og gefa honum dýrð‘?
19 Starfskraftur Jehóva beinir í gegnum brúðarhópinn þessu ákafa kalli: „Kom þú!“ Já, allir auðmjúkir menn, sem þrá eilíft líf á jörð sem verður paradís, komið til „móðu lífsvatnsins“ og takið við öllum ráðstöfunum Jehóva til eilífs lífs fyrir milligöngu Jesú Krists og brúðar hans! Framtíðarhorfurnar eru stórfenglegar — mannlegur fullkomleiki á jörð sem verður paradís! Sú verður umbun hinna mörgu sem bregðast rétt við boðinu um að ‚ÓTTAST GUÐ OG GEFA HONUM DÝRБ! — Opinberunarbókin 22:6-21.
[Neðanmáls
a World Military and Social Expenditures 1987-88.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða tímabær fræðsla er fyrir okkur í sýninni af dýrunum tveim?
◻ Hvernig ættum við að bregðast við yfirlýsingu engilsins sem flýgur um háhvolf himins?
◻ Hvernig er Babýlon hin mikla sek um saurlifnað og hvernig líta þeir sem óttast Guð á það?
◻ Hvernig er uppskorið á jörðinni á Drottins degi?
◻ Með hvaða gleðiríkum viðburðum lýkur Opinberunarbókinni og hve margir af þjónum Guðs eiga hlut í þeim?
[Mynd á blaðsíðu 27]
Þessi bronspeningur var sleginn í október 1987 á ársafmæli friðarbænarfundarins í Assisi. Á annarri hliðinni er mynd hins „heilaga föður“ og í kringum hana áletrunin: „Jóhannes Páll páfi II Pontifex Maximus“ ásamt dagsetningu. Á hinni hlið peningsins ákallar „heilagur Frans“ um „frið, Guðs gjöf,“ á friðarbænarfundinum í Assisi.