Kristur talar til safnaðanna
„Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér.“ — OPINBERUNARBÓKIN 2:1.
1, 2. Hvers vegna ættum við að hafa áhuga á orðsendingum Krists til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu?
JESÚS KRISTUR, eingetinn sonur Jehóva, er höfuð kristna safnaðarins. Hann heldur söfnuði smurðra fylgjenda sinna hreinum og óflekkuðum með því að hrósa safnaðarmönnum og leiðrétta þá. (Efesusbréfið 5:21-27) Um þetta eru dæmi í 2. og 3. kafla Opinberunarbókarinnar þar sem er að finna kröftugar en þó hlýlegar orðsendingar Jesú til sjö safnaða í Litlu-Asíu.
2 Áður en Jóhannes heyrði orðsendingar Jesú til safnaðanna sjö var honum veitt að sjá ‚Drottins dag‘ í sýn. (Opinberunarbókin 1:10) Þessi ‚dagur‘ hófst árið 1914 þegar messíasarríkið var stofnsett. Skilaboð Krists til safnaðanna eiga því mikið erindi til okkar sem erum uppi núna á síðustu dögum. Hvatning hans og leiðbeiningar geta hjálpað okkur að mæta því sem að höndum ber á þeim erfiðu tímum sem við lifum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
3. Hvað tákna „stjörnurnar“, ‚englarnir‘ og ‚gullstikurnar‘ sem Jóhannes sá?
3 Jóhannes sá hinn dýrlega Jesú Krist sem „heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér“ og „gengur á milli gullstikanna sjö“, það er að segja safnaðanna. „Stjörnurnar“ eru „englar þeirra sjö safnaða“. (Opinberunarbókin 1:20; 2:1) Stjörnur tákna stundum engla á himnum en hér hljóta þær að tákna andasmurða umsjónarmenn eða öldungaráð þeirra, því að Kristur myndi ekki nota mann til að skrá niður orðsendingar ætlaðar andaverum. Orðið „engill“ vísar til þess að þeir eru í hlutverki sendiboða. Skipulag Guðs hefur vaxið svo að ‚hinn trúi ráðsmaður‘ hefur einnig skipað hæfa menn af ‚öðrum sauðum‘ Jesú til að starfa sem umsjónarmenn. — Lúkas 12:42-44; Jóhannes 10:16.
4. Hvaða gagn hafa öldungar af því að gefa gaum að því sem Kristur segir söfnuðunum?
4 „Stjörnurnar“ eru í hægri hendi Jesú — hann ræður yfir þeim og stjórnar þeim, og þær njóta hylli hans og verndar. Þær þurfa því að standa honum reikningsskap. Með því að gefa gaum að orðsendingum hans til safnaðanna sjö geta öldungar nú á dögum glöggvað sig á því hvernig þeir geti tekið á málum af svipuðu tagi. En allir kristnir menn þurfa auðvitað að hlýða á son Guðs. (Markús 9:7) Hvað lærum við þá af því sem Kristur segir söfnuðunum?
Til engilsins í Efesus
5. Hvers konar borg var Efesus?
5 Jesús bæði hrósaði söfnuðinum í Efesus og áminnti hann. (Lestu Opinberunarbókina 2:1-7.) Efesus var auðug verslunar- og trúarmiðstöð á vesturströnd Litlu-Asíu, og þar stóð hið mikla musteri Artemisar. Þótt siðleysi, falstrú og galdrakukl væri mjög útbreitt í borginni blessaði Guð þjónustu Páls postula og annarra þar. — Postulasagan 19. kafli.
6. Hvað er líkt með dyggum kristnum mönnum núna og í Efesus forðum daga?
6 Kristur hrósaði söfnuðinum í Efesus og sagði: „Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar.“ Söfnuðir sannra fylgjenda Jesú hafa sömuleiðis getið sér orð fyrir góð verk, eljusemi og þolgæði nú á tímum. Þeir umbera ekki falsbræður sem vilja láta líta á sig sem postula. (2. Korintubréf 11:13, 26) Dyggir þjónar Guðs nú á tímum ‚geta ekki sætt sig við vonda menn‘, frekar en kristnir menn í Efesus gerðu. Þeir umgangast ekki iðrunarlausa fráhvarfsmenn því að þeir vilja halda tilbeiðslunni á Jehóva hreinni og vernda söfnuðinn. — Galatabréfið 2:4, 5; 2. Jóhannesarbréf 8-11.
7, 8. Hvaða alvarlegt vandamál hrjáði söfnuðinn í Efesus og hvernig gætum við brugðist við svipaðri stöðu?
7 En kristnir menn í Efesus áttu við alvarlegan vanda að stríða. „Það hef ég á móti þér,“ sagði Jesús, „að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.“ Safnaðarmenn þurftu að glæða kærleikann til Jehóva að nýju. (Markús 12:28-30; Efesusbréfið 2:4; 5:1, 2) Við þurfum öll að gæta þess að glata ekki kærleikanum sem við bárum til Guðs í byrjun. (3. Jóhannesarbréf 3) En hvað er til ráða ef okkur er farið að langa ákaflega í efnislegan auð, eða skemmtanafíkn er farin að segja til sín? (1. Tímóteusarbréf 4:8; 6:9, 10) Þá ættum við að biðja Jehóva innilega um hjálp til að útrýma slíkum tilhneigingum og til að glæða sterka ást á honum og þakklæti fyrir allt sem hann og sonur hans hafa gert fyrir okkur. — 1. Jóhannesarbréf 4:10, 16.
8 Kristur hvatti Efesusmenn til að ‚minnast þess úr hvaða hæð þeir hefðu hrapað, og gera iðrun og breyta eins og fyrrum‘. „Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað,“ sagði Jesús. Ef allir sauðirnir glötuðu sínum fyrri kærleika myndi ‚ljósastikan‘, það er að segja söfnuðurinn, hætta að vera til. Verum heldur kostgæfin og leggjum hart að okkur til að láta söfnuðinn skína andlega. — Matteus 5:14-16.
9. Hvernig eigum við að líta á sértrúarstefnu?
9 Það er Efesusmönnum til hróss að þeir hötuðu „verk Nikólaítanna“. Ekkert er vitað um uppruna, kenningar og siði þessa sértrúarhóps, utan þess sem sagt er um hann í Opinberunarbókinni. En við þurfum að hata sértrúarstefnu líkt og kristnir menn í Efesus því að Jesús fordæmir það að fylgja mönnum. — Matteus 23:10.
10. Hvað bíður þeirra sem gefa gaum að því sem andinn segir?
10 „Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum,“ sagði Jesús. Þegar Jesús var á jörðinni talaði hann undir áhrifum anda Guðs. (Jesaja 61:1; Lúkas 4:16-21) Við ættum þess vegna að gefa gaum að því sem Guð segir okkur núna fyrir milligöngu hans og heilags anda. Jesús lofaði undir leiðsögn andans: „Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs.“ Fyrir smurða kristna menn, sem gefa gaum að því sem andinn segir, merkir þetta ódauðleika í himneskri „Paradís Guðs“, það er að segja í návist hans. ‚Múgurinn mikli‘ hlýðir einnig á það sem andinn segir, og hann fær að búa í paradís á jörð, drekka úr „móðu lífsvatnsins“ og læknast af ‚blöðum trjánna‘ sem vaxa á bökkum hennar. — Opinberunarbókin 7:9; 22:1, 2; Lúkas 23:43.
11. Hvernig getum við stuðlað að kærleika til Jehóva?
11 Efesusmenn höfðu afrækt sinn fyrri kærleika. Hvað er til ráða ef eitthvað svipað er að gerast í söfnuðinum núna? Við skulum eitt og sérhvert stuðla að kærleika til Jehóva með því að tala um ástríka vegu hans. Við getum sýnt að við séum þakklát fyrir kærleikann sem Guð sýndi með lausnarfórn sonar síns. (Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 5:8) Þegar við á getum við minnst á kærleika hans í svörum og dagskrárliðum á samkomum. Við getum sýnt að við elskum Jehóva með því að lofa nafn hans í boðunarstarfinu. (Sálmur 145:10-13) Við getum átt drjúgan þátt í að glæða og styrkja fyrri kærleika safnaðarins með orðum okkar og verkum.
Til engilsins í Smýrnu
12. Lýstu sögu Smýrnu og trúariðkunum þar.
12 Söfnuðurinn í Smýrnu fékk hrós frá Kristi sem nefndur er „sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi“ þegar hann var reistur upp. (Lestu Opinberunarbókina 2:8-11.) Smýrna (nú Ismir í Tyrklandi) stóð á vesturströnd Litlu-Asíu. Grikkir byggðu borgina en Lýdíumenn eyddu hana um 580 f.o.t. Eftirmenn Alexanders mikla reistu hana að nýju á nýjum stað. Hún komst undir yfirráð Rómaveldis þar sem þá var kallað skattlandið Asía. Verslun var blómleg og borgin var kunn fyrir fagrar opinberar byggingar. Þar var reist musteri Tíberíusar keisara og þar með var borgin orðin miðstöð keisaradýrkunar. Dýrkendur urðu að brenna ögn af reykelsi og segja: „Keisarinn er Drottinn.“ Þetta gátu kristnir menn ekki gert því að fyrir þeim ‚er Jesús Drottinn‘, og þeir þoldu „þrengingu“ fyrir vikið. — Rómverjabréfið 10:9.
13. Í hvaða skilningi voru kristnir menn í Smýrnu ríkir þótt fátækir væru af efnislegum gæðum?
13 Kristnir menn í Smýrnu máttu þola fátækt, auk þrengingarinnar. Hugsanlegt er að lagðar hafi verið fjárhagslegar hömlur á þá sökum þess að þeir vildu ekki dýrka keisarann. Þjónar Jehóva nú á dögum verða stundum fyrir áþekkum prófraunum. (Opinberunarbókin 13:16, 17) Þeir sem líkjast hinum kristnu í Smýrnu eru andlega ríkir, þótt fátækir séu af efnislegum gæðum, og það er það sem máli skiptir. — Orðskviðirnir 10:22; 3. Jóhannesarbréf 2.
14, 15. Hvaða hughreystingu fá hinir smurðu í Opinberunarbókinni 2:10?
14 Gyðingar í Smýrnu voru flestir „samkunda Satans“ af því að þeir fylgdu óbiblíulegum erfikenningum, höfnuðu syni Guðs og lastmæltu andagetnum fylgjendum hans. (Rómverjabréfið 2:28, 29) En orð Krists voru einkar hughreystandi fyrir hina smurðu. Hann segir: „Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ — Opinberunarbókin 2:10.
15 Jesús var óhræddur við að deyja fyrir það að verja drottinvald Jehóva. (Filippíbréfið 2:5-8) Þó að Satan heyi stríð við hinar smurðu leifar, sem nú eru, óttast þær ekki þjáningarnar sem þær mega þola — mótlæti, fangavist eða dauða af hendi ofbeldismanna. (Opinberunarbókin 12:17) Þær munu sigra heiminn. Þær fá ekki fölnandi blómsveig til að bera á höfði sér eins og sigurvegarar á kappleikum heiðingja heldur lofar Kristur að reisa þær upp og gefa þeim „kórónu lífsins“ sem er fólgin í ódauðleika á himnum. Hvílík gjöf!
16. Hvaða deilumál ættum við að hafa skýrt í huga ef við tilheyrum söfnuði eins og var í Smýrnu forðum daga?
16 Segjum að við tilheyrum söfnuði sem líkist söfnuðinum í Smýrnu forðum daga. Þá skulum við, hvort sem við berum í brjósti himneska von eða jarðneska, hjálpa trúsystkinum okkar að hafa skýrt í huga hver sé meginástæðan fyrir því að Guð leyfir ofsóknir. Það er vegna deilumálsins um það hvort Guð hafi rétt til að stjórna alheiminum. Hver einasti ráðvandur vottur Jehóva sannar Satan lygara og sýnir fram á að jafnvel ofsóttur maður getur stutt drottinvald Guðs án þess að hvika. (Orðskviðirnir 27:11) Við skulum hvetja trúsystkini okkar til að standast ofsóknir svo að þau geti fengið að „þjóna [Jehóva] óttalaust í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora“ — já, að eilífu. — Lúkas 1:68, 69, 74, 75.
Til engilsins í Pergamos
17, 18. Hvers konar tilbeiðsla var stunduð í Pergamos og hvað gat það kostað að taka ekki þátt í henni?
17 Söfnuðurinn í Pergamos fékk bæði hrós og áminningu. (Lestu Opinberunarbókina 2:12-17.) Pergamos stóð um 80 kílómetrum norður af Smýrnu og heiðin trú var föst í sessi þar. Kaldeískir stjörnuspekingar virðast hafa flúið þangað frá Babýlon. Sjúklingar þyrptust í hið nafnkunna musteri Asklepíosar sem var lækningaguð. Í Pergamos stóð musteri helgað Ágústusi keisara og var borgin kölluð „helsta miðstöð keisaradýrkunar í heimsveldinu á fyrstu öldum þess“. — Encyclopædia Britannica. 1959. 17. bindi. Bls. 507.
18 Í Pergamos var altari helgað Seifi og var borgin einnig miðstöð mannadýrkunar sem Satan stóð fyrir. Það er því ekkert undarlegt að svo skuli að orði kveðið að söfnuðurinn byggi þar sem „hásæti Satans“ var. Dyggur þjónn Jehóva setti lífið að veði með því að neita að dýrka keisarann. Heimurinn er enn á valdi djöfulsins og þjóðartákn eru dýrkuð sem skurðgoð. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Allt frá fyrstu öld fram á okkar dag hafa margir trúir kristnir menn dáið píslarvættisdauða líkt og Antípas, en Kristur kallar hann ‚trúan vott sinn sem deyddur var hjá ykkur‘. Jehóva Guð og Jesús Kristur muna eftir dyggum þjónum eins og honum. — 1. Jóhannesarbréf 5:21.
19. Hvað gerði Bíleam og gegn hverju verða allir kristnir menn að vera á varðbergi?
19 Kristur minnist einnig á „kenningu Bíleams“ en hann var ágjarn falsspámaður sem reyndi að formæla Ísrael. Þegar Guð sneri bölvun hans í blessun greip hann til þess ráðs, í samvinnu við Balak Móabskonung, að lokka marga Ísraelsmenn út í skurðgoðadýrkun og siðleysi. Safnaðaröldungar þurfa að vera staðfastir í réttlætinu eins og Pínehas sem snerist gegn ráðabruggi Bíleams. (4. Mósebók 22:1–25:15; 2. Pétursbréf 2:15, 16; Júdasarbréfið 11) Reyndar verða allir kristnir menn að vara sig á skurðgoðadýrkun og gæta þess að siðleysi nái ekki að síast inn í söfnuðinn. — Júdasarbréfið 3, 4.
20. Hvað ætti kristinn maður að gera ef hann er farinn að gæla við fráhvarfshugmyndir?
20 Söfnuðurinn í Pergamos var í mikilli hættu vegna þess að hann umbar hjá sér menn sem ‚héldu fast við kenningu Nikólaíta‘. Kristur sagði söfnuðinum: „Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.“ Sértrúarmenn vilja spilla trú kristinna manna. Og þeir sem eru ákveðnir í að valda sundrungu erfa ekki Guðsríki. (Rómverjabréfið 16:17, 18; 1. Korintubréf 1:10; Galatabréfið 5:19-21) Ef kristinn maður er farinn að gæla við fráhvarfshugmyndir og langar til að útbreiða þær ætti hann að taka viðvörun Krists til sín! Hann ætti að iðrast og leita aðstoðar öldunganna í söfnuðinum til að forða sjálfum sér frá ógæfu. (Jakobsbréfið 5:13-18) Það er nauðsynlegt að bregðast hart við, því að Jesús kemur skjótt til að fullnægja dómi.
21, 22. Hverjir borða ‚hið hulda „manna“‘ og hvað táknar það?
21 Trúir kristnir menn af hópi hinna smurðu og dyggir félagar þeirra þurfa ekki að óttast dóminn sem framundan er. Þeir eiga blessun í vændum því að þeir gefa gaum að ráðum Jesú sem hann gaf undir handleiðslu heilags anda Guðs. Hinum smurðu, sem sigra heiminn, verður til dæmis boðið að eta af „hinu hulda ‚manna‘“ og þeim verður gefinn ‚hvítur steinn‘ sem á er letrað „nýtt nafn“.
22 Guð gaf Ísraelsmönnum manna til að halda í þeim lífinu þau 40 ár sem þeir voru í eyðimörkinni. ‚Brauð‘ af þessu tagi var geymt í gullkeri í sáttmálsörkinni. Það var því hulið í hinu allra helgasta í musterinu en þar logaði yfirnáttúrlegt ljós sem táknaði nærveru Jehóva. (2. Mósebók 16:14, 15, 23, 26, 33; 26:34; Hebreabréfið 9:3, 4) Engum leyfðist að borða hið hulda manna. En þegar smurðir fylgjendur Jesú rísa upp frá dauðum íklæðast þeir ódauðleika sem er táknað með því að borða ‚hið hulda „manna“‘. — 1. Korintubréf 15:53-57.
23. Hvaða þýðingu hafa ‚hvíti steinninn‘ og ‚nýja nafnið‘?
23 Í rómverskum réttarsal táknaði svartur steinn sakfellingu en hvítur sýknu. Með því að gefa hinum sigrandi smurðu „hvítan stein“ lætur hann í ljós að hann dæmir þá saklausa og hreina. Rómverjar notuðu einnig steina sem „aðgöngumiða“ að mikilvægum atburðum, þannig að ‚hvíti steinninn‘ getur táknað að hinir smurðu fái aðgang að himnum og brúðkaupi lambsins. (Opinberunarbókin 19:7-9) ‚Nýja nafnið‘ táknar greinilega þann heiður að fá að sameinast Jesú og vera samerfingjar hans að ríkinu á himnum. Þetta er einkar hvetjandi fyrir hina smurðu og félaga þeirra í þjónustu Jehóva sem vonast til að fá að lifa í paradís á jörð.
24. Hvaða afstöðu ættum við að taka gagnvart fráhvarfi?
24 Það er gott að hafa hugfast að fráhvarfsmenn ógnuðu söfnuðinum í Pergamos. Ef eitthvað svipað ógnar andlegri velferð okkar safnaðar skulum við hafna fráhvarfinu afdráttarlaust og halda áfram að lifa í sannleikanum. (Jóhannes 8:32, 44; 3. Jóhannesarbréf 4) Þar sem falskennarar eða menn sem aðhyllast fráhvarf geta spillt heilum söfnuði verðum við að standa einarðir gegn fráhvarfi og gæta þess að láta ekki illviljaðar fortölur hindra okkur í að hlýða sannleikanum. — Galatabréfið 5:7-12; 2. Jóhannesarbréf 8-11.
25. Um hvaða orðsendingar Krists fjöllum við í næstu grein?
25 Það eru umhugsunarverð hrósyrði og áminningar sem hinn dýrlegi Jesús Kristur sendi þrem af sjö söfnuðum í Litlu-Asíu. En undir leiðsögn heilags anda hafði hann líka margt að segja hinum söfnuðunum fjórum. Í greininni á eftir fjöllum við um orðsendingar hans til safnaðanna í Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu.
Hvert er svarið?
• Af hverju ættum við að gefa gaum að því sem Kristur segir söfnuðunum?
• Hvernig gætum við átt þátt í að glæða fyrri kærleika safnaðarins?
• Hvernig má segja að kristnir menn í Smýrnu hafi verið ríkir þótt þeir væru fátækir af efnislegum auð?
• Hvernig ættum við að líta á fráhvarfshugsun, í ljósi ástandsins í söfnuðinum í Pergamos?
[Kort á blaðsíðu 10 10]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu]
GRIKKLAND
LITLA-ASÍA
Efesus
Smýrna
Pergamos
Þýatíra
Sardes
Fíladelfía
Laódíkea
[Mynd á blaðsíðu 12]
‚Múgurinn mikli‘ fær að búa í jarðneskri paradís.
[Myndir á blaðsíðu 13]
Kristnir menn eru ofsóttir en sigra þó heiminn.