Fullkomnum heilagleika okkar í guðsótta
„Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ — 2. KORINTUBRÉF 7:1.
1. Hvernig vitum við að háttsettir englar viðurkenna heilagleika Jehóva?
JEHÓVA er hinn heilagi Guð. Englar í hárri stöðu á himnum boða heilagleika hans með ótvíræðum orðum: „Heilagur, heilagur, heilagur er [Jehóva] allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.“ Spámaðurinn Jesaja sá serafa kalla þessa hrífandi lýsingu á áttundu öld f.o.t. Við lok fyrstu aldar okkar tímatals sá Jóhannes postuli í mörgum sýnum það sem gerast átti „á Drottins degi“ sem er núna. Hann sá fjórar verur umhverfis hásæti Jehóva og heyrði þær boða linnulaust: „Heilagur, heilagur, heilagur, [Jehóva] Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.“ Þessar þreföldu yfirlýsingar himneskra andavera Jehóva undirstrika hinn eðlislæga og mikla heilagleika skaparans. — Jesaja 6:2, 3; Opinberunarbókin 1:10; 4:6-8.
Heilagleiki og aðgreining
2. (a) Hvað felst í heilagleika og hvernig má heimfæra það á Jehóva? (b) Hvernig lagði Móse áherslu á heilagleika Jehóva?
2 Heilagleiki merkir ekki aðeins trúarlegur hreinleiki eða flekkleysi heldur líka það að halda aðgreindum eða helguðum. Jehóva er í æðsta skilningi hreinn og flekklaus og algerlega aðgreindur frá öllum hinum saurugu guðum þjóðanna. Móse lagði áherslu á þessa hlið heilagleika hans þegar hann söng: „Hver er sem þú, [Jehóva], meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik?“ — 2. Mósebók 15:11.
3. Á hvaða sviðum áttu Ísraelsmenn að vera heilagir og hvernig hjálpaði Jehóva þeim til þess?
3 Hinn heilagi Guð Jehóva krafðist þess að Ísraelsmenn til forna, þjóð hans á jörð, væru heilagir. Þess var krafist ekki aðeins af prestunum og levítunum heldur af allri þjóðinni. Jehóva sagði við Móse: „Tala þú til alls safnaðar Ísraelsmanna og seg við þá: Þér skuluð vera heilagir, því að ég, [Jehóva], Guð yðar, er heilagur.“ (3. Mósebók 19:2) Til að svo mætti verða gaf Jehóva þjóðinni lögmál til að hjálpa henni að halda sér hreinni andlega, siðferðilega, hugarfarslega, líkamlega og hvað snerti trúarsiði, en hið síðastnefnda tengdist guðsdýrkun hennar í tjaldbúðinni og síðar í musterinu.
Aðgreind þjóð
4, 5. (a) Í hvaða skilningi var Ísrael að holdinu helguð þjóð? (b) Hvers er krafist af andlegum Ísraelsmönnum og hvernig staðfestir Pétur postuli það?
4 Í sama mæli og Ísraelsmenn fylgdu lögmáli Guðs skáru þeir sig úr hinum spilltu þjóðum umhverfis. Þeir voru þjóð sem haldið var aðgreindri, var helguð til þjónustu við hinn heilaga Guð, Jehóva. Móse sagði Ísrael: „Þú ert [Jehóva] Guði þínum helgaður lýður. Þig hefir [Jehóva] Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar.“ — 5. Mósebók 7:6.
5 Slíks hreinleika og slíkrar aðgreiningar er líka krafist af hinum andlega Ísrael. Pétur postuli skrifaði hinum útvöldu, andlegu Ísraelsmönnum: „Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar. Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: ‚Verið heilagir, því ég er heilagur.‘“ — 1. Pétursbréf 1:1, 14-16.
6, 7. (a) Hvernig er þeim sem mynda múginn mikla lýst í 7. kafla Opinberunarbókarinnar og hvers er eðlilega krafist af þeim? (b) Hvað verður skoðað í tölugreinunum á eftir?
6 Í 7. kafla Opinberunarbókarinnar er þeim sem mynda ‚múginn mikla‘ svo lýst að þeir standi „frammi fyrir hásætinu [hásæti Jehóva] og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum“ sem þeir hafa ‚þvegið og hvítfágað í blóði lambsins.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 14) Hvítu skikkjurnar tákna hreina og réttláta stöðu þeirra frammi fyrir Jehóva sem hann veitir þeim vegna trúar þeirra á lausnarblóð Krists. Þannig verða bæði smurðir kristnir menn og þeir sem mynda hinn ‚mikla múg‘ ‚annarra sauða‘ að halda sér hreinum andlega og siðferðilega til að geta dýrkað Jehóva á þann hátt sem hann hefur velþóknun á. — Jóhannes 10:16.
7 Við skulum nú íhuga hvernig krafist var af þjónum Jehóva til forna að þeir héldu sér hreinum í huga og á líkama og hvers vegna sömu meginreglur eiga við þjóna Guðs nú á dögum.
Andlegur hreinleiki
8. Hvers vegna máttu Ísraelsmenn ekki koma nálægt trúarbrögðum Kanverja?
8 Ísraelsmenn að holdinu urðu að leggja sig í líma við að halda sér aðgreindum frá þeim óhreinu trúarbrögðum sem aðrar þjóðir iðkuðu. Fyrir munn Móse sagði Jehóva Ísraelsmönnum: „Varast þú að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa lands þess, sem þú kemur til, svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru, ef þeir búa á meðal þín, heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra [notaðir í tengslum við sauruga kynlífsdýrkun] og höggva niður asérur þeirra. Þú skalt eigi tilbiðja neinn annan guð, því að [Jehóva] nefnist vandlætari [eða „er Guð er krefst algerrar hollustu,“ New World Translation Reference Bible, neðanmáls]. Vandlátur Guð er hann. Varast að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa landsins, því að þeir munu taka fram hjá með guðum sínum og þeir munu færa fórnir guðum sínum.“ — 2. Mósebók 34:12-15.
9. Hvaða skýr fyrirmæli fengu hinar trúföstu leifar sem yfirgáfu Babýlon árið 537 f.o.t.?
9 Öldum síðar innblés Jehóva Jesaja að ávarpa þær trúföstu leifar, sem myndu snúa heim til Júda frá Babýlon, með þessum spádómsorðum: „Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker [Jehóva] [sem nota skyldi við endurreisn sannrar guðsdýrkunar í musterinu í Jerúsalem].“ — Jesaja 52:11.
10, 11. (a) Hvaða áþekk fyrirmæli fengu andlegir Ísraelsmenn á fyrstu öld okkar tímatals? (b) Hvernig hefur þessum fyrirmælum verið fylgt sérstaklega frá 1919 og 1935, og á hvaða aðra vegu halda hinar smurðu leifar og félagar þeirra sér andlega hreinum?
10 Á sama hátt verða andlegir Ísraelsmenn og félagar þeirra að halda sér óspilltum af skurðgoðatrúarbrögðum þessa heims. Í bréfi til smurðra kristinna manna í söfnuðinum í Korintu sagði Páll: „Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn. Þess vegna segir [Jehóva]: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér.“ — 2. Korintubréf 6:16, 17.
11 Frá 1919 hafa hinar hreinsuðu og fáguðu smurðu leifar verið frelsaðar frá óhreinum skurðgoðatrúarbrögðum Babýlonar hinnar miklu. (Malakí 3:1-3) Þær hafa hlýtt kallinu frá himnum: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4) Frá 1935 hefur vaxandi ‚mikill múgur‘ ‚annarra sauða‘ með sama hætti hlýtt þessu kalli og yfirgefið óhrein, babýlonsk trúarbrögð. Hinir smurðu og félagar þeirra halda sér líka andlega hreinum með því að forðast sérhverja snertingu við hinar skaðvænlegu hugmyndir fráhvarfsmanna. — Jóhannes 10:16; 2. Jóhannesarbréf 9-11.
Siðferðilegur hreinleiki
12. (a) Hvernig upphóf Jehóva siðferði Ísraelsmanna langt yfir siðferði þjóðanna í kring? (b) Hvaða strangar reglur voru prestastéttinni settar?
12 Með lagasáttmálanum hóf Jehóva siðferðisástand Ísraelsmanna langt upp yfir þá spillingu sem ríkti meðal þjóðanna umhverfis. Hjónaband og fjölskyldulíf nutu verndar í Ísrael. Hið sjöunda af boðorðunum tíu lagði bann við hjúskaparbroti. Refsað var harðlega fyrir bæði hjúskaparbrot og saurlifnað. (5. Mósebók 22:22-24) Meyjar nutu verndar undir lögmálinu. (5. Mósebók 22:28, 29) Sérstaklega strangar reglur giltu um hjúskap prestastéttarinnar. Af æðsta prestinum var þess krafist að hann veldi sér hreina mey fyrir eiginkonu. — 3. Mósebók 21:6, 7, 10, 13.
13. Við hvað er meðlimum ‚brúðar‘ Krists líkt og hvers vegna?
13 Á sama hátt á æðsti presturinn mikli, Jesús Kristur, ‚brúði‘ myndaða af 144.00 smurðum kristnum mönnum sem líkt er við ‚meyjar.‘ (Opinberunarbókin 14:1-5; 21:9) Þeir halda sér óflekkuðum af heimi Satans og hreinum kenningalega og siðferðilega. Páll postuli skrifaði smurðum kristnum mönnum í Korintu: „Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.“ (2. Korintubréf 11:2) Páll skrifaði einnig: „Kristur elskaði kirkjuna [söfnuðinn] og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess að hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus.“ — Efesusbréfið 5:25-27.
14, 15. (a) Hvað þarf að haldast í hendur við andlegan hreinleika brúðarhópsins og hvaða ritningarstaður sýnir það? (b) Hvernig er ljóst að gerðar eru svipaðar siðferðiskröfur til hinna annarra sauða einnig?
14 Andlegur hreinleiki brúðar Krists verður að haldast í hendur við siðferðilegan hreinleika af hálfu þeirra er mynda hana. Páll postuli sagði: „Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, [né] hórkarlar . . . Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.
15 Að slíkar kröfur um siðferðilegan hreinleika séu einnig gerðar til hinna ‚annarra sauða‘ er ljóst af því hverja Jehóva segist munu útiloka frá hinum fyrirheitna ‚nýja himni og nýju jörð.‘ Við lesum: „En fyrir . . . viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn . . . er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði.“ — Opinberunarbókin 21:1, 8.
Heiðvirt hjónaband
16, 17. (a) Hvaða ritningarstaðir sýna að ekki er krafist ókvænis til að halda sér siðferðilega hreinum? (b) Hvernig getur kristinn maður sýnt tilhlýðilegan guðsótta með vali sínu á maka, og hvers vegna væri óhyggilegt að virða ekki leiðbeiningar postulans?
16 Þess er ekki krafist af smurðum meðlimum brúðarhópsins og hinum öðrum sauðum að vera einhleypir, til að þeir geti haldið sér siðferðilega hreinum. Skyldubundið ókvæni er óbiblíulegt. (1. Tímóteusarbréf 4:1-3) Kynmök innan hjónabands eru ekki óhrein. Orð Guðs segir: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ — Hebreabréfið 13:4.
17 En kristinn maður, sem vill ‚fullkomna heilagleika sinn í guðsótta,‘ getur ekki leyft sér að giftast hverjum sem hann vill. Rétt áður en Páll postuli ráðlagði kristnum bræðrum sínum að ‚hreinsa sig af allri saurgun á líkama og anda og fullkomna helgun sína í guðsótta‘ skrifaði hann: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? . . . Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?“ (2. Korintubréf 6:14, 15; 7:1) Sem hluti hinnar aðgreindu og hreinu þjóðar Jehóva verður kristinn karl eða kona, sem vill ganga í hjónaband, að virða þær postullegu hömlur að gera það „aðeins . . . í Drottni,“ það er að segja að velja sér fyrir maka einungis vígðan, skírðan og trúfastan þjón Jehóva. (1. Korintubréf 7:39) Líkt og til forna væri afar óhyggilegt af vígðum þjóni Guðs núna að virða ekki þessi heilræði Ritningarinnar. (Samanber 5. Mósebók 7:3, 4; Nehemía 13:23-27.) Það bæri ekki vott um heilnæman ótta við hinn mikla húsbónda okkar, Jehóva. — Malakí 1:6.
18. Á hvaða annan hátt geta kristnir menn haldið hjónabandi sínu heiðvirðu?
18 Í Ísrael voru lög sem settu vissar skorður kynferðislegum athöfnum jafnvel innan vébanda hjónabands. Eiginmaður átti ekki að hafa mök við konu sína meðan hún hafði tíðablæðingar. (3. Mósebók 15:24; 18:19; 20:18) Þetta lagaboð kallaði á kærleiksríka tillitssemi og sjálfstjórn af hálfu ísraelskra karlmanna. Ættu kristnir menn að sýna eiginkonum sínum einhverja minni tillitssemi? Pétur postuli segir að kristnir eiginmenn skuli búa með eiginkonum sínum „með skynsemi,“ það er að segja þekkingu á eðli þeirra ‚sem veikara keri.‘ — 1. Pétursbréf 3:7.
Gengið ‚brautina helgu‘
19, 20. (a) Lýstu breiða veginum sem þorri mannkyns fer. (b) Hvernig verða þjónar Jehóva að skera sig úr heimi Satans? (c) Hvaða braut ganga þjónar Guðs, hvenær var hún opnuð og hverjir einir fá að ganga hana?
19 Það sem hér hefur verið rætt undirstrikar hið breikkandi bil sem aðgreinir þjóna Jehóva frá heimi Satans. Undanlátsemi og nautnasýki fer sífellt vaxandi í núverandi heimskerfi. Jesús sagði: „Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn.“ (Matteus 7:13) Þorri mannkyns fer breiða veginn. Svo vitnað sé í orð Péturs postula er það vegur ‚saurlifnaðar, girndar, ofdrykkju, óhófs, samdrykkja og svívírðilegrar skurðgoðadýrkunar,‘ vegur sem liggur út í „spillingardíki.“ (1. Pétursbréf 4:3, 4) Hann liggur út í tortímingu.
20 Þjónar Guðs ganga hins vegar annan veg, hreinan veg sem einungis hreinir menn ganga. Jesaja spámaður sagði fyrir að þessi vegur yrði opnaður á tíma endalokanna. Hann skrifaði: „Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga.“ (Jesaja 35:8) Bókin Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans segir um þennan spádóm: „Það var . . . árið 1919 að táknræn braut var opnuð hinum glöðu þjónum Guðs. Þeir sem vildu vera heilagir í augum Jehóva gengu þessa ‚braut,‘ ‚brautina helgu.‘ . . . Þótt mjög sé nú liðið á ‚endalok veraldar‘ stendur þessi ‚braut‘ Guðs enn opin. Stórir hópar þakklátra manna . . . halda út á hinn andlega paradísarveg, ‚brautina helgu.‘“a
21. Hvernig og hvers vegna verða þjónar Jehóva að vera ólíkir fylgjendum djöfulsins, og hvað verður fjallað um í greininni á eftir?
21 Já, hinar smurðu leifar andlegra Ísraelsmanna og félagar þeirra, hinir aðrir sauðir, skera sig nú úr heimi Satans sem ber alls ekkert skynbragð lengur á heilagleika. Ekkert er heilagt þeim manngrúa djöfulsins sem gengur ‚breiða veginn sem liggur til glötunar.‘ Bæði eru þeir andlega og siðferðilega óhreinir, og í mörgum tilfellum einnig líkamlega óhreinir og druslulegir til fara að ekki sé meira sagt. Samt segir Páll postuli: „Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ (2. Korintubréf 7:1) Greinin sem fylgir mun fjalla um það á hvaða vegu þjónar Guðs ættu að gæta þess að vera hreinir í huga og á líkama.
[Neðanmáls]
a 16. kafli, bls. 134-5.
Til upprifjunar
◻ Hvað er fólgið í heilagleika og hvers vegna má segja að Jehóva sé heilagur í æðsta skilningi?
◻ Á hvaða tvo vegu áttu Ísraelsmenn að sýna sig heilaga þjóð?
◻ Hvers er krafist af andlegum Ísraelsmönnum og félögum þeirra, hinum öðrum sauðum?
◻ Hvernig ætti guðsótti að hafa áhrif á makaval?
◻ Hvaða tvo vegu er um að velja nú á dögum og hvers vegna verða menn að velja afdráttarlaust?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Orð Guðs segir: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður.“