„Þeir fylgja Lambinu“
„Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer.“ — OPINB. 14:4.
1. Hvað fannst sönnum lærisveinum Jesú um það að fylgja honum?
UM TVEIMUR og hálfu ári eftir að Jesús hóf þjónustu sína var hann „að kenna í samkundunni í Kapernaúm“. Mörgum af lærisveinunum fannst ræða hans þung og „hurfu . . . frá og voru ekki framar með honum“. Þegar Jesús spurði postulana 12 hvort þeir ætluðu líka að fara svaraði Símon Pétur: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs og við trúum og vitum að þú ert hinn heilagi Guðs.“ (Jóh. 6:48, 59, 60, 66-69) Sannir lærisveinar Jesú hættu ekki að fylgja honum. Eftir að þeir voru smurðir með heilögum anda héldu þeir áfram að lúta leiðsögn hans. — Post. 16:7-10.
2. (a) Hver er hinn „trúi og hyggni þjónn“ eða „trúi og hyggni ráðsmaður“? (b) Hvernig hefur þjónninn getið sér gott orð fyrir að „fylgja lambinu“?
2 En hvað um andasmurða kristna menn nú á dögum? Í spádómi Jesú um að hann sé „að koma og veröldin að líða undir lok“ talaði hann um andasmurða fylgjendur sína á jörð sem heild og kallaði þá ‚trúan og hygginn þjón‘ eða ‚trúan og hygginn ráðsmann‘. (Matt. 24:3, 45; Lúk. 12:42) Sem hópur hefur þjónninn getið sér mjög gott orð fyrir að „fylgja lambinu hvert sem það fer“. (Lestu Opinberunarbókina 14:4, 5.) Þeir sem tilheyra þessum hópi eru „skírlífir“ í trúarlegum skilningi af því að þeir hafa ekki saurgað sig af trúarkenningum og -iðkunum ‚Babýlonar hinnar miklu‘, heimsveldis falstrúarbragðanna. (Opinb. 17:5) „Í munni þeirra“ er enga kenningarlega lygi að finna og þeir eru „lýtalausir“ því að þeir eru ekki flekkaðir af heimi Satans. (Jóh. 15:19) Í framtíðinni fá þeir sem eftir eru af hinum andasmurðu á jörð að „fylgja“ lambinu til himna. — Jóh. 13:36.
3. Af hverju er mikilvægt að við treystum þjónshópnum?
3 Jesús hefur sett hinn trúa og hyggna þjón „yfir hjú sín“ til að „gefa þeim mat á réttum tíma“. Hjúin eru allir einstaklingar sem mynda þjónshópinn. Jesús setti þjóninn einnig „yfir allar eigur sínar“. (Matt. 24:45-47) Þessar „eigur“ eru meðal annars hinn ‚mikli múgur‘ ‚annarra sauða‘ sem fer ört vaxandi. (Opinb. 7:9; Jóh. 10:16) Ætti ekki hver og einn af hinum andasmurðu og ‚öðrum sauðum‘ að treysta þjóninum sem hefur verið settur yfir þá? Það eru margar ástæður fyrir því að þjónshópurinn verðskuldar traust okkar. Tvær helstu ástæðurnar eru þessar: (1) Jehóva treystir þjónshópnum. (2) Jesús treystir einnig þjóninum. Við skulum skoða sannanir fyrir því að bæði Jehóva Guð og Jesús Kristur beri fullt traust til trúa og hyggna þjónsins.
Jehóva treystir þjóninum
4. Af hverju getum við treyst andlegu fæðunni sem hinn trúi og hyggni þjónn veitir okkur?
4 Hvað gerir hinum trúa og hyggna þjóni kleift að veita nærandi andlega fæðu á réttum tíma? Jehóva segir: „Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ (Sálm. 32:8) Já, Jehóva leiðbeinir þjóninum. Við getum því treyst fullkomlega biblíulegum skilningi, fræðslu og leiðbeiningum þjónsins.
5. Hvað sýnir að andi Guðs gefur þjónshópnum kraft?
5 Jehóva blessar þjónshópinn einnig með heilögum anda. Þótt andi Jehóva sé ósýnilegur eru áhrif hans sýnileg hjá þeim sem hljóta hann. Tökum sem dæmi hverju hinn trúi og hyggni þjónn hefur áorkað. Vitnað er um Jehóva Guð, son hans og Guðsríki um allan heim. Vottar Jehóva boða fagnaðarerindið um ríkið í rúmlega 230 löndum og eyjaklösum. Er það ekki óyggjandi sönnun þess að andi Guðs gefi þjóninum kraft? (Lestu Postulasöguna 1:8.) Til að veita fólki Jehóva um allan heim tímabæra andlega fæðu verður þjónshópurinn oft að taka mikilvægar ákvarðanir. Þegar þjónninn tekur slíkar ákvarðanir og hrindir þeim í framkvæmd sýnir hann kærleika, hógværð og aðra eiginleika sem mynda ávöxt andans. — Gal. 5:22, 23.
6, 7. Hversu vel treystir Jehóva trúa þjóninum?
6 Til að skilja hve vel Jehóva treystir trúa þjóninum skulum við rifja upp hverju hann hefur lofað þeim sem tilheyra þessum hópi. Páll postuli skrifaði: „Lúðurinn mun gjalla og þá munu dauðir upp rísa óforgengilegir og við munum umbreytast. Forgengilegir og dauðlegir líkamir okkar eiga að breytast í óforgengilega líkami sem dauðinn nær ekki til.“ (1. Kor. 15:52, 53) Andasmurðir fylgjendur Krists, sem þjóna Guði trúfastlega og deyja í forgengilegum mannslíkama, eru ekki aðeins reistir upp sem eilífar andaverur. Þeir verða ódauðlegir, óendanlegir og óforgengilegir. Þeir hljóta andalíkama sem getur ekki eyðst og viðheldur sér líklega sjálfur. Í Opinberunarbókinni 4:4 er sagt að hinir upprisnu sitji í hásætum með gullkórónur á höfði. Konungstign bíður andasmurðra kristinna manna. En það er ekki allt og sumt.
7 „Komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig. Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línklæðið er dygðir heilagra,“ segir í Opinberunarbókinni 19:7, 8. Jehóva hefur valið andasmurða kristna menn sem tilvonandi brúði sonar síns. Óforgengileiki, ódauðleiki, konungstign og ‚brúðkaup lambsins‘ — þetta eru stórkostlegar gjafir! Þær eru skýr sönnun þess að Guð treystir hinum andasmurðu sem „fylgja lambinu hvert sem það fer“.
Þjónninn nýtur trausts Jesú
8. Hvernig sýnir Jesús að hann treystir andasmurðum fylgjendum sínum?
8 Hvaða sönnun höfum við fyrir því að Jesús beri fullt traust til andasmurðra fylgjenda sinna? Síðasta kvöldið, sem hann lifði hér á jörð, gaf hann 11 trúföstum postulum sínum loforð. Hann sagði við þá: „Það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Lúk. 22:28-30) Sáttmálinn um ríkið, sem Jesús gerði við postulana 11, mun að lokum ná til allra hinna 144.000 andasmurðu. (Lúk. 12:32; Opinb. 5:9, 10; 14:1) Myndi Jesús gera sáttmála við þá um að deila með sér völdum í ríki sínu ef hann treysti þeim ekki?
9. Nefndu dæmi um ‚eigur Krists‘.
9 Auk þess hefur Jesús Kristur sett trúa og hyggna þjóninn „yfir allar eigur sínar“ — allar jarðneskar eigur Guðsríkis. (Matt. 24:47) Þessar eigur eru meðal annars höfuðstöðvar Votta Jehóva, deildarskrifstofur í hinum ýmsu löndum, mótshallir og ríkissalir um allan heim og prédikunar- og kennslustarfið. Myndi einhver fela öðrum að varðveita og nota verðmætar eigur sínar ef hann treysti honum ekki?
10. Hvað sýnir að Jesús Kristur er með andasmurðum fylgjendum sínum?
10 Hinn upprisni Jesús birtist trúföstum lærisveinum sínum stuttu áður en hann steig upp til himna. Hann lofaði þeim: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28:20) Hefur hann staðið við þetta loforð? Á síðastliðnum 15 árum hefur söfnuðum Votta Jehóva um allan heim fjölgað um meira en 40 prósent — úr nálega 70.000 í rúmlega 100.000. Og hversu margir lærisveinar hafa bæst í hópinn? Á síðustu 15 árum hafa næstum 4,5 milljónir látið skírast — fleiri en 800 á dag að meðaltali. Þessi mikla aukning er skýr sönnun þess að Kristur leiðbeinir andasmurðum fylgjendum sínum á safnaðarsamkomum og styður þá í prédikunarstarfinu.
Þjónninn er trúr og hygginn
11, 12. Hvernig hefur þjónninn sannað að hann er trúr og hygginn?
11 Fyrst Jehóva Guð og Jesús Kristur bera fullt traust til trúa og hyggna þjónsins ættum við þá ekki að gera slíkt hið sama? Þjónninn hefur sinnt trúfastlega því verkefni sem honum hefur verið falið. Varðturninn hefur til dæmis verið gefinn út í ein 130 ár og samkomur og mót Votta Jehóva halda áfram að byggja okkur upp í trúnni.
12 Trúi þjónninn er líka hygginn því að hann hegðar sér hvorki ósæmilega, með því að ganga lengra en Jehóva býður, né lætur undir höfuð leggjast að fylgja skýrum leiðbeiningum hans. Tökum dæmi. Þjónninn varar við tálgryfjum í illum heimi Satans á meðan leiðtogar falstrúarbragðanna samþykkja ljóst eða leynt guðlausa og eigingjarna hegðun fólks í heiminum. Þjónninn getur veitt skynsamlegar og tímabærar viðvaranir af því að Jehóva Guð og Jesús Kristur blessa hann. Þess vegna verðskuldar þjónninn algert traust okkar. En hvernig getum við sýnt að við treystum trúa og hyggna þjóninum?
‚Förum með‘ hinum andasmurðu því að þeir fylgja lambinu
13. Hvernig getum við sýnt, samkvæmt spádómi Sakaría, að við treystum trúa og hyggna þjóninum?
13 Í Sakaríabók í Biblíunni er talað um „tíu menn“ sem ávarpa Gyðing nokkurn og segja: „Við viljum fara með ykkur.“ (Lestu Sakaría 8:23.) Gyðingurinn táknar greinilega hóp fólks þar sem sagt er við hann: „Við viljum fara með ykkur.“ Nú á dögum táknar hann þá sem eftir eru af hinum andasmurðu — hluta af „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16) „Tíu menn af öllum þjóðtungum“ tákna hinn mikla múg annarra sauða. Andasmurðir kristnir menn fylgja Jesú hvert sem hann fer og á sama hátt fylgir múgurinn mikli hinum trúa og hyggna þjóni eða ‚fer með honum‘. Þeir sem tilheyra múginum mikla ættu aldrei að skammast sín fyrir að vera félagar þeirra sem hafa „fengið köllun til himinsins“. (Hebr. 3:1) Jesús skammast sín ekki fyrir að kalla hina andasmurðu „bræður“. — Hebr. 2:11, neðanmáls.
14. Hvernig er hægt að sýna dyggan stuðning við bræður Krists?
14 Jesús Kristur lítur svo á að dyggur stuðningur við bræður sína sé stuðningur við sig. (Lestu Matteus 25:40.) En hvernig geta þeir sem hafa jarðneska von stutt andasmurða bræður Krists? Aðallega með því að aðstoða þá við að boða fagnaðarerindið. (Matt. 24:14; Jóh. 14:12) Hinum andasmurðu hefur fækkað síðustu áratugi en á sama tíma hefur öðrum sauðum fjölgað. Þegar þeir sem hafa jarðneska von taka þátt í boðunarstarfinu og þjóna jafnvel í fullu starfi ef þeir geta, hjálpa þeir hinum andasmurðu að gegna þeirri skyldu sinni að gera menn að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Ekki má gleyma að það er líka hægt að styðja þetta starf með ýmiss konar fjárframlögum.
15. Hvernig ættum við að líta á þá tímabæru andlegu fæðu sem við fáum frá þjóninum og þær skipulagslegu ákvarðanir sem hann tekur?
15 Hvernig lítum við, hvert og eitt okkar, á þá tímabæru andlegu fæðu sem trúi þjónninn sér okkur fyrir með biblíutengdum ritum, samkomum og mótum? Neytum við hennar með þakklátum huga og erum við fús til að fara eftir því sem við lærum? Hver eru viðbrögð okkar þegar þjónninn tekur skipulagslegar ákvarðanir? Ef við erum fús til að fylgja þeim leiðbeiningum sem við fáum er það sönnun þess að við treystum fyrirkomulagi Jehóva. — Jak. 3:17.
16. Af hverju ættu allir kristnir menn að hlusta á bræður Krists?
16 „Mínir sauðir heyra raust mína,“ sagði Jesús, „og ég þekki þá og þeir fylgja mér.“ (Jóh. 10:27) Þetta á við um andasmurða kristna menn. En hvað um þá sem „fara með“ þeim? Þeir verða að hlusta á Jesú. Þeir verða líka að hlusta á bræður hans enda hefur þeim verið falin meginábyrgðin á því að annast andlega velferð þjóna Guðs. Hvað er fólgið í því að hlýða á rödd bræðra Krists?
17. Hvað er fólgið í því að hlusta á þjónshópinn?
17 Fulltrúi hins trúa og hyggna þjóns nú á dögum er hið stjórnandi ráð sem skipuleggur boðunarstarfið um allan heim og tekur forystuna í því. Hið stjórnandi ráð er skipað reyndum andasmurðum öldungum. Hægt er að segja að þeir fari öðrum fremur með forystuna meðal okkar. (Hebr. 13:7) Þessir andasmurðu umsjónarmenn eru ‚síauðugir í verki Drottins‘ og annast rúmlega 7.000.000 boðbera Guðsríkis um allan heim í meira en 100.000 söfnuðum. (1. Kor. 15:58) Að hlusta á þjónshópinn felur í sér að sýna stjórnandi ráði hans fullan stuðning.
Þeir sem hlusta á þjóninn hljóta blessun
18, 19. (a) Hvaða blessun hljóta þeir sem hlusta á trúa og hyggna þjóninn? (b) Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?
18 Frá því að hinn trúi og hyggni þjónn var útnefndur hefur hann beint „mörgum til réttlætis“. (Dan. 12:3) Þar á meðal eru þeir sem eiga von um að lifa af eyðingu hins núverandi illa heims. Það er mikil blessun að fá að standa réttlátur frammi fyrir Guði.
19 Í framtíðinni mun ‚borgin helga, nýja Jerúsalem [hinar 144.000], stíga niður af himni frá Guði, búin sem brúður er skartar fyrir manni sínum‘. Hvað munu þeir sem hlusta á rödd þjónsins upplifa þá? Í Biblíunni segir: „Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinb. 21:2-4) Við skulum því fyrir alla muni hlusta á Krist og andasmurða bræður hans sem eiga traust okkar skilið.
Hvað lærðir þú?
• Hvaða sannanir eru fyrir því að Jehóva treysti trúa og hyggna þjóninum?
• Hvað sýnir að Jesús Kristur beri fullt traust til þjónshópsins?
• Af hverju verðskuldar trúi ráðsmaðurinn traust okkar?
• Hvernig getum við sýnt að við treystum þjóninum?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Veistu hvern Jehóva hefur útvalið sem tilvonandi brúði sonar síns?
[Myndir á blaðsíðu 26]
Jesús Kristur hefur sett trúa og hyggna þjóninn yfir „eigur sínar“.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Við styðjum hina andasmurðu þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu.