Skipulag Jehóva styður þig í starfi
„Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða.“ — OPINBERUNARBÓKIN 14:6.
1. Hvernig hafa vottar Jehóva verið reyndir og hvers vegna hafa þeir haldið velli?
HVERS vegna er nauðsynlegt að átta sig á hvernig himneskt skipulag Jehóva styður hið kristna boðunarstarf? Vegna þess að vottar Jehóva hefðu ekki getað prédikað fagnaðarerindið um ríki Guðs í fjandsamlegum heimi án þess að hafa himneskar hersveitir hans sér til fulltingis. Vottarnir hafa prédikað á öld öfgakenndrar þjóðernishyggju, pólitískrar alræðisstjórnar, heimsstyrjalda og margs konar mótlætis. Hefðu vottarnir getað staðið af sér linnulausa orrahríð fordóma, hleypidóma og oft grimmilegra ofsókna um heim allan án hjálpar Jehóva? — Sálmur 34:8.
Þeir hafa staðið af sér andstöðu um heim allan
2. Hvað er hliðstætt með sannkristnum mönnum fyrstu aldar og nútímans?
2 Núna á 20. öldinni hafa bæði trúarlegir og pólitískir óvinir lagt allar hugsanlegar hindranir í götu votta Jehóva, lagalegar sem aðrar, í von um að tálma þeim eða að hindra starf þeirra. Kristnir bræður og systur hafa verið ofsótt, ófrægð, nídd og rægð. Margir hafa jafnvel verið drepnir, oft að undirlagi klerka Babýlonar hinnar miklu. Segja má um þá eins og um frumkristna menn að „það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ Líkt og klerkar Gyðinga á tímum Krists börðust með oddi og egg gegn þjónustu hans, eins hafa klerkar og fráhvarfsmenn í félagi við pólitíska friðla sína reynt að bæla niður hið mikla fræðslustarf fólks Jehóva. — Postulasagan 28:22; Matteus 26:59, 65-67.
3. Hvað getum við lært af ráðvendni Henryku Żur?
3 Lítum til dæmis á það sem gerðist í Póllandi 1. mars árið 1946. Henryka Żur, 15 ára vottastúlka úr nágrenni Chełm, var að heimsækja áhugasamt fólk í nálægu þorpi ásamt trúbróður sínum. Þau voru tekin til fanga af mönnum úr kaþólskri herdeild sem nefndist Narodowe Siły Zbrojne (Þjóðarhersveitirnar). Bróðurnum var misþyrmt grimmilega en slapp lifandi. Henryka var ekki svo lánsöm. Hún var pynduð hrottalega svo klukkustundum skipti og reynt að fá hana til að gera kaþólskt krossmark. Einn af kvölurum hennar sagði: „Þú mátt trúa hverju sem þú vilt innst inni; gerðu bara kaþólskt krossmark. Annars skjótum við þig!“ En bilaði ráðvendni hennar? Nei, trúarbleyðurnar drógu hana út í nálægan skóg og skutu hana. En það var hún sem sigraði því að þeim tókst ekki að brjóta ráðvendni hennar á bak aftur.a — Rómverjabréfið 8:35-39.
4. Hvernig hafa stjórnmála- og trúaröfl reynt að bæla niður prédikun fagnaðarerindisins?
4 Í meira en hundrað ár hafa nútímaþjónar Guðs mátt sæta illri meðferð og ruddaskap. Vottar Jehóva tilheyra hvorki hinum stóru trúfélögum Satans né vilja tilheyra þeim og eru þar af leiðandi álitnir viðeigandi skotspónn fordómafullra gagnrýnenda og ofstækisfullra andstæðinga. Þeir hafa mátt sæta grimmilegum ofsóknum stjórnmálaaflanna. Margir hafa dáið píslarvættisdauða vegna trúar sinnar. Jafnvel svokölluð lýðræðisríki hafa reynt að torvelda prédikun fagnaðarerindisins. Biblíunemendurnir, eins og vottarnir voru kallaðir, voru sakaðir um undirróðursstarfsemi árið 1917 að undirlagi klerka í Kanada og Bandaríkjunum. Forystumenn Varðturnsfélagsins voru ranglega fangelsaðir en hlutu síðar uppreisn æru. — Opinberunarbókin 11:7-9; 12:17.
5. Hvaða orð hafa verið þjónum Jehóva til hvatningar?
5 Satan hefur beitt öllum tiltækum ráðum til að reyna að stöðva boðunarstarf bræðra Krists og dyggra félaga þeirra. En eins og dæmin sanna hafa hvorki hótanir, þvinganir, ofbeldi, fangavist, fangabúðir né jafnvel dauðinn megnað að þagga niður í vottum Jehóva. Og þannig hefur það verið alla mannkynssöguna. Æ ofan í æ hafa orð Elísa verið til hvatningar: „Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“ Ein ástæðan er sú að trúfastir englar eru langtum fleiri en sveitir djöfulsins. — 2. Konungabók 6:16; Postulasagan 5:27-32, 41, 42.
Jehóva blessar kostgæfna prédikun
6, 7. (a) Hvað var gert snemma á öldinni til að prédika fagnaðarerindið? (b) Hvaða gagnleg breyting var gerð árið 1943?
6 Á 20. öldinni hafa vottar Jehóva nýtt sér margar tækniframfarir til að auka og hraða hinu mikla vitnisburðarstarfi áður en endirinn kemur. Charles Taze Russell, fyrsti forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, beitti sér fyrir því árið 1914 að gerð yrði átta stunda löng sýning sem nefndist „Sköpunarsagan í myndum.“ Blandað var saman litskyggnum og kvikmyndum sem samstilltar voru biblíuskýringum á hljómplötum. Sýningin vakti mikla athygli fólks víða um lönd á þeim tíma. Síðar, á fjórða og fimmta áratugnum, urðu vottarnir þekktir fyrir að prédika hús úr húsi með hjálp ferðagrammófóna sem þeir notuðu til að spila upptökur af biblíuræðum J. F. Rutherfords, annars forseta Varðturnsfélagsins.
7 Árið 1943 var stigið djarft skref undir forystu Nathans H. Knorrs, þriðja forseta Félagsins. Þá var ákveðið að setja á laggirnar skóla í öllum söfnuðum handa boðberum trúarinnar. Vottarnir skyldu fá þjálfun í að prédika og kenna hús úr húsi án þess að nota grammófóna. Síðan hafa aðrir skólar verið settir á laggirnar til að þjálfa trúboða, brautryðjendur, safnaðaröldunga og umsjónarmenn útibúa Varðturnsfélagsins. Með hvaða árangri?
8. Hvernig sýndu vottarnir mikla trú árið 1943?
8 Árið 1943, meðan síðari heimsstyrjöldin var í algleymingi, voru aðeins 129.000 vottar starfandi í 54 löndum. En þeir trúðu og treystu að Matteus 24:14 uppfylltist áður en endirinn kæmi. Þeir voru sannfærðir um að Jehóva léti boða hinn mikilvæga viðvörunarboðskap áður en sú atburðarás hæfist sem binda myndi enda á þetta spillta heimskerfi. (Matteus 24:21; Opinberunarbókin 16:16; 19:11-16, 19-21; 20:1-3) Hafa þeir hlotið umbun erfiðis síns?
9. Hvað sýnir að vitnisburðarstarfið hefur blómgast?
9 Núna eru 13 lönd með meira en 100.000 starfandi votta hvert. Nokkur þessara landa eru undir ægivaldi kaþólsku kirkjunnar. En líttu á stöðuna þar. Í Brasilíu eru boðberar fagnaðarerindisins um það bil 450.000 og rösklega 1.200.000 sóttu minningarhátíðina um dauða Krists árið 1997. Mexíkó er annað dæmi þar sem starfa næstum 500.000 vottar og ríflega 1.600.000 sóttu minningarhátíðina. Af öðrum kaþólskum löndum má nefna Ítalíu (um 225.000 vottar), Frakkland (um 125.000), Spán (rösklega 105.000) og Argentínu (ríflega 115.000). Í Bandaríkjunum, þar sem mótmælendatrú, kaþólsk trú og gyðingatrú eru fjölmennastar, eru vottarnir um 975.000 og meira en 2.000.000 manna sóttu minningarhátíðina. Menn streyma hópum saman út úr Babýlon hinni miklu, heimsveldi falstrúarbragðanna, sem er uppfull af dulúðlegum kenningum, og leita til hinna einföldu og öruggu fyrirheita Guðs um ‚nýjan himin og nýja jörð.‘ — 2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 2:3, 4; 65:17; Opinberunarbókin 18:4, 5; 21:1-4.
Þeir laga sig að þörfum fólks
10. Hvernig hafa aðstæður breyst sums staðar?
10 Margir, sem hafa snúið sér til Jehóva fyrir milligöngu Krists Jesú, hafa fundist með starfi hús úr húsi. (Jóhannes 3:16; Postulasagan 20:20) En öðrum aðferðum hefur einnig verið beitt. Tímarnir eru breyttir og efnahagsástandið er þannig að margar konur vinna úti. Oft eru fáir heima á virkum dögum. Vottar Jehóva hafa lagað sig að breyttum aðstæðum. Líkt og Jesús og fyrstu lærisveinar hans fara þeir þangað sem fólkið er á hverjum tíma. — Matteus 5:1, 2; 9:35; Markús 6:34; 10:1; Postulasagan 2:14; 17:16, 17.
11. Hvar prédika vottar Jehóva núna og með hvaða árangri?
11 Vottarnir taka frumkvæðið og prédika með háttvísi fyrir fólki á stórum bílastæðum, í verslanamiðstöðvum, verksmiðjum, skrifstofum og fyrirtækjum, í skólum, á lögreglustöðvum, bensínstöðvum, hótelum, veitingahúsum og á götum úti. Þeir prédika alls staðar þar sem fólk er að finna. Og þegar fólk er heima halda vottarnir áfram að heimsækja það þar. Þessar sveigjanlegu og raunhæfu aðferðir skila sér í aukinni dreifingu biblíurita. Sauðumlíkir menn finnast og ný biblíunámskeið eru hafin. Fimm og hálf milljón manna vinnur sjálfboða að mesta fræðslustarfi mannkynssögunnar. Nýtur þú þeirra sérréttinda að vera einn af þeim? — 2. Korintubréf 2:14-17; 3:5, 6.
Hvað knýr votta Jehóva til verka?
12. (a) Hvernig kennir Jehóva fólki sínu? (b) Hvaða áhrif hefur þessi kennsla?
12 Hvaða hlutverki gegnir hið himneska skipulag í þessu öllu? Jesaja spáði: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 54:13) Jehóva er að kenna þessu sameinaða heimsbræðralagi fyrir milligöngu sýnilegs skipulags síns á jörðinni — í ríkissölum og á svæðis- og umdæmismótum. Kennsla hans stuðlar að friði og einingu. Hún hefur skapað fólk sem á engan sinn líka, fólk sem hefur lært að elska hvert annað og náungann eins og sjálft sig. Hvar sem það býr í þessum klofna og sundraða heimi hefur það lært að hata ekki náungann. — Matteus 22:36-40.
13. Hvernig getum við verið viss um að englar hafi hönd í bagga með prédikunarstarfinu?
13 Það er kærleikur sem knýr votta Jehóva til að halda áfram að prédika þrátt fyrir sinnuleysi manna eða ofsóknir. (1. Korintubréf 13:1-8) Þeir vita að björgunarstarfi þeirra er stýrt af himni eins og Opinberunarbókin 14:6 segir. Hvaða boðskapur er boðaður undir handleiðslu engla? „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ Prédikun fagnaðarerindisins um ríkið upphefur nafn Jehóva. Fólki er boðið að gefa skaparanum, Guði, dýrðina, en ekki sköpunarverum hans eða blindri þróun. Og hvers vegna er prédikunarstarfið svona áríðandi? Vegna þess að stund dóms hans er runnin upp — dóms gegn Babýlon hinni miklu og öllum öðrum geirum hins sýnilega heimskerfis Satans. — Opinberunarbókin 14:7; 18:8-10.
14. Hverjir taka þátt í þessari miklu kennsluherferð?
14 Enginn vígður kristinn maður er undanþeginn þessu prédikunarstarfi. Andlegir öldungar taka forystuna í prédikunarstarfi safnaðarins. Þjálfaðir brautryðjendur eru uppteknir af þessu starfi. Kostgæfnir boðberar bera ríkisboðskapinn til ystu afkima jarðar, hvort sem þeir geta prédikað aðeins fáeinar klukkustundir í mánuði eða margar. — Matteus 28:19, 20; Hebreabréfið 13:7, 17.
15. Hvað ber vott um áhrifin af prédikun votta Jehóva?
15 Hefur allt þetta erfiði haft áhrif á heiminn? Já, sú staðreynd að votta Jehóva er oft getið í sjónvarpsþáttum og fréttadálkum dagblaða er ein einföld sönnun þess. Oft er athyglinni þannig beint að þrautseigju okkar og einbeitni í að ná til allra. Kostgæfni okkar og stöðug nálægð hefur veruleg áhrif, jafnvel þótt þorri manna hafni boðskapnum og boðberunum.
Kostgæfni okkar að ljúka vitnisburðinum
16. Hvaða afstöðu ættum við að sýna á þeim skamma tíma sem eftir er?
16 Við vitum ekki hve langan tíma þetta heimskerfi á eftir og við þurfum ekki heldur að vita það, svo framarlega sem við þjónum Jehóva af hreinum hvötum. (Matteus 24:36; 1. Korintubréf 13:1-3) En við vitum að prédika þarf fagnaðarerindið „fyrst“ til að kærleikur Jehóva, máttur og réttvísi komi greinilega fram. (Markús 13:10) Við verðum því að lifa dyggilega eftir vígsluheiti okkar í samræmi við aðstæður okkar, óháð því hve mörg ár við höfum beðið óþreyjufull eftir endi þessa illa, rangláta og ofbeldisfulla heims. Við erum kannski öldruð eða veik en við getum samt þjónað Jehóva af sömu kostgæfni og við gerðum þegar við vorum yngri og hraustari. Kannski getum við ekki notað jafnmikinn tíma til boðunarstarfsins og áður, en við getum að minnsta kosti fært Jehóva jafngóðar lofgerðarfórnir. — Hebreabréfið 13:15.
17. Segðu hvetjandi frásögu sem getur hjálpað okkur öllum.
17 Hvort sem við erum ung eða gömul skulum við því vera kostgæfin og segja öllum sem við hittum frá hinum fagra boðskap um nýja heiminn. Verum eins og feimna sjö ára stúlkan í Ástralíu sem fór með móður sinni út í búð. Hún hafði heyrt í ríkissalnum að það væri mjög mikilvægt að allir prédikuðu, þannig að hún stakk tveim biblíubæklingum niður í töskuna sína. Meðan móðirin var upptekin við afgreiðsluborðið hvarf sú litla. Þegar móðirin fór að leita að henni var hún að bjóða konu bækling. Móðirin gekk til konunnar til að afsaka að dóttirin skyldi vera að ónáða hana, en konan þáði bæklinginn með þökkum. Þegar móðirin var orðin ein með dóttur sinni spurði hún hana hvernig hún hefði þorað að taka ókunna konu tali. „Ég sagði bara við sjálfa mig: Viðbúin, tilbúin, nú! Og svo gerði ég það!“
18. Hvernig getum við sýnt lofsvert hugarfar?
18 Við þurfum öll að vera eins og ástralska stúlkan, sérstaklega til að koma fagnaðarerindinu á framfæri við ókunnuga eða jafnvel opinbera embættismenn. Við erum kannski smeyk við að okkur verði hafnað. Gleymum ekki hvað Jesús sagði: „Hafið . . . ekki áhyggjur af því, hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja. Því að heilagur andi mun kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber.“ — Lúkas 12:11, 12.
19. Hvernig hugsarðu um þjónustu þína?
19 Treystu því á hjálp anda Guðs þegar þú tekur fólk vingjarnlega tali til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. Milljónir manna setja traust sitt á karla og konur sem oft eru ekki traustsins verð og eru horfin af sjónarsviðinu á morgun. Við treystum á Jehóva og himneskt skipulag hans — Krist Jesú, hina heilögu engla og upprisna smurða kristna menn — sem lifa að eilífu! Munum því: „Fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“ — 2. Konungabók 6:16.
[Neðanmáls]
a Finna má fleiri dæmi í Árbók votta Jehóva 1994, bls. 217-20.
Hvert er svarið?
◻ Hvaða hlutverki hefur himneskt skipulag Guðs gegnt í því að fólk hans skuli hafa haldið velli?
◻ Hvaða stjórnmála- og trúaröfl hafa ráðist á votta Jehóva á 20. öldinni?
◻ Hvernig hafa vottar Jehóva aðlagað boðunarstarf sitt kröfum tímans?
◻ Hvað hvetur þig til að prédika?
[Mynd á blaðsíðu 12]
Henryka Żur
[Myndir á blaðsíðu 15]
Japan
Martiník
Bandaríkin
Kenía
Bandaríkin
Vottar Jehóva prédika hvar og hvenær sem þeir finna fólk.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Fyrr á öldinni voru grammófónar notaðir til að útbreiða boðskapinn um Guðsríki.