Síðustu dagar — uppskerutími
„Og ég sá, og sjá: Hvítt ský, og einhvern sá ég sitja á skýinu, líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfðinu og í hendi sér bitra sigð.“ — OPINBERUNARBÓKIN 14:14.
1. Nefndu sumt af því sem gerir okkar öld einstaka.
TUTTUGASTA öldin hefur verið mjög róstusöm. Mannkynið hefur mátt þola tvær villimannlegar heimsstyrjaldir. Eitt landið af öðru hefur goldið mikið afhroð í byltingum. Hungursneyð hefur valdið meiri þjáningum en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns. Fjárhagsleg óvissa, glæpir, mengun og óttalegir sjúkdómar ógna velferð sérhvers manns. Jafnframt hefur maðurinn séð gríðarlegar framfarir í vísindum. Hann hefur beislað orku frumeindarinnar og jafnvel gengið á tunglinu. Svo sannarlega er okkar kynslóð einstök á marga vegu. Eitt stendur þó upp úr sem þýðingarmesti atburður okkar tíma og allt annað hverfur í skuggann af því.
2. Hvaða atburði spáði Daníel fyrir okkar tíma?
2 Spámaðurinn Daníel sagði þennan tímamótaatburð fyrir á sjöttu öld fyrir okkar tímatal. Guðinnblásin frásögn hans hljóðar svo: „Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann. Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur.“ — Daníel 7:13, 14.
3. (a) Hver er „hinn aldraði“ og hvað gaf hann ‚einhverjum sem mannssyni líktist‘? (b) Hver er þessi ‚sem mannssyni líkist‘ og hver urðu viðbrögð trúarleiðtoga Gyðinga þegar hann gaf það til kynna?
3 „Hinn aldraði“ er Jehóva Guð. Daníel sér hann í „skýjum himins,“ það er að segja á ósýnilegu tilverusviði andavera þar sem hann gefur konungdóm ‚einhverjum sem mannssyni líktist.‘ Hver er þessi ‚einhver‘? Jesús svaraði þeirri spurningu árið 33 þegar æðstaráðið hélt réttarhöld yfir honum. Æðsti prestur Gyðinga krafði hann svars við því hvort hann væri Kristur eða ekki. Djarfmæltur vitnaði Jesús í spádóm Daníels og heimfærði á sjálfan sig. Hann sagði: „Upp frá þessu munuð þér sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins.“ Í stað þess að lúta útnefndum konungi Jehóva sakaði æðsti presturinn hann um guðlast. Trúarleiðtogar Gyðinga þröngvuðu síðan Pontíus Pílatusi til að dæma Jesú til dauða. — Matteus 26:63-65; 27:1, 2, 11-26.
4. Hvenær fékk Jesús konungskórónuna og þrátt fyrir hvaða andstöðu?
4 Þessi tilraun til að gera orð Jesú að engu mistókst þegar hann var vakinn upp frá dauðum og steig upp til himna til að bíða þess að upp rynni tími Jehóva til að gefa honum ríkið. (Postulasagan 2:24, 33, 34; Sálmur 110:1, 2) Hann rann upp árið 1914. Allt bendir til að síðla það ár hafi Jesús fengið konungskórónuna frá ‚hinum aldraða‘ og byrjað að ríkja. (Matteus 24:3-42) Hið nýfædda Guðsríki mætti megnri andstöðu. En trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld, allur hinn samanlagði máttur þjóðanna og jafnvel Satan og illir andar hans gátu ekki komið í veg fyrir að vilji Guðs næði fram að ganga. (Sálmur 2:2, 4-6; Opinberunarbókin 12:1-12) Á tilsettum tíma árið 1914 söng himneskur kór: „Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.“ (Opinberunarbókin 11:15) Upp frá því höfum við lifað ‚síðustu daga‘ þessa illa heimskerfis. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.
Uppskerutími
5. (a) Hverjir áttu, samkvæmt spádómi Daníels, að þjóna hinum nýkrýnda konungi? (b) Hvaða sýn sá Jóhannes um hinn nýkrýnda konung?
5 Samkvæmt spádómi Daníels áttu „allir lýðir, þjóðir og tungur“ að þjóna honum. Hvernig getur það gerst ef mannkynið í heild hafnar honum sem konungi? Leikræn sýn birt Jóhannesi postula veitir okkur svarið. Jóhannes segir svo frá: „Sjá: Hvítt ský, og einhvern sá ég sitja á skýinu, líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfðinu og í hendi sér bitra sigð.“ (Opinberunarbókin 14:14) Líkt og í sýn Daníels kemur Jesús hér á skýi og er nefndur ‚einhver sem mannssyni líktist.‘ Hann ber konungskórónu en í hönd sér hefur hann ekki veldissprota heldur sigð uppskerumanns. Hvers vegna?
6. Hvaða starf bauð Jehóva hinum nýkrýnda Jesú að inna af hendi?
6 Jóhannes heldur áfram: „Og annar engill kom út úr musterinu. Hann kallaði hárri röddu til þess sem á skýinu sat: ‚Ber þú út sigð þína og sker upp, því að komin er stundin til að uppskera, sáðland jarðarinnar er fullþroskað.‘“ Enda þótt Jesús sé konungur hlýðir hann fyrirmælum sem honum berast frá Jehóva í ‚musteri‘ hans. Þegar Jehóva fyrirskipar honum að hefja uppskerustarf á síðustu dögum, hlýðir hann. Jesús „brá sigð sinni á jörðina og upp var skorið á jörðinni.“ — Opinberunarbókin 14:15, 16; Hebreabréfið 9:24; 1. Korintubréf 11:3.
7. (a) Hvað var ‚upp skorið á jörðinni?‘ (b) Á hverju byrjaði þessi ‚uppskera‘?
7 Hvað er ‚upp skorið á jörðinni‘? Það er fólk sem gengur út úr heimskerfi Satans til að þjóna Jehóva og skipuðum konungi hans. Uppskeran hefst á því að safnað er saman þeim sem eftir eru af 144.000 væntanlegum meðstjórnendum Krists í ríkinu á himnum. (Matteus 13:37-43) Þeir eru „Ísrael Guðs,“ „frumgróði handa Guði og handa lambinu.“ Þeir eru keyptir „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.“ (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 14:4; 5:9, 10) Með þeim hætti fara menn af öllum ‚lýðum, þjóðum og tungum‘ að þjóna hinum krýnda konungi Jesú.
8. (a) Hvenær lauk að mestu samansöfnun hinna síðustu af þeim smurðu? (b) Hvernig hélt uppskerustarfið áfram í samræmi við aðra sýn Jóhannesar?
8 En þeir eru þó ekki einir. Í annarri sýn sér Jóhannes innsiglaða hina síðusta af þeim 144.000. (Opinberunarbókin 7:1-8) Ljóst er að söfnun þeirra var að mestu lokið árið 1935. En þá sér Jóhannes ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki, kynkvíslum, lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu.‘ (Opinberunarbókin 7:9-17) Uppskerustarfið heldur því áfram og margir fleiri af ‚öllum lýðum, þjóðum og tungum‘ fara að þjóna konunginum Jesú.
9. Hverjir eru þessir nýju einstaklingar og hvaða aðrir spádómar minnast á að þeir skuli ganga fram „á síðustu dögum“?
9 Þessir nýju þjónar hans hlakka til að fá að lifa í paradís á jörð undir stjórn hins skipaða konungs, Jesú. (Sálmur 37:11, 29; 72:7-9) Söfnun þeirra var sögð fyrir í fjölmörgum öðrum spádómum. Til dæmis sagði Jesaja fyrir að „á hinum síðustu dögum“ myndu þjóðirnar streyma til húss Jehóva. (Jesaja 2:2, 3) Haggaí spáði því að þjóðirnar yrðu hrærðar, þannig að „gersemar allra þjóða“ myndu koma til húss Jehóva. (Haggaí 2:7) Sakaría talaði um „tíu menn af þjóðum ýmissa tungna“ er gengju í lið með þjónum Guðs. (Sakaría 8:23) Enn fremur spáði Jesús sjálfur um þennan mikla múg. Hann sagði: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.“ — Matteus 25:31-33.
10. (a) Hvað er átt við með því að ‚upp sé skorið á jörðinni‘? (b) Hverjir einir vinna með englunum að þessu starfi?
10 Allt mannkynið er rannsakað vandlega til að kanna hverjir eru „sauðir“ og hverjir „hafrar.“ Hvernig fer þetta skoðunarstarf fram? Í sýn Jóhannesar var ‚upp skorið á jörðinni‘ í tengslum við kröftugan boðskap sem englar boðuðu. Einn af englunum boðar ‚eilífan fagnaðarboðskap.‘ Annar tilkynnir fall ‚Babýlonar hinnar miklu.‘ Sá þriðji varar menn við því að tilbiðja „dýrið,“ stjórnmálakerfi Satans. (Opinberunarbókin 14:6-10) Að vísu hefur enginn bókstaflega heyrt raddir þessara engla. En menn hafa heyrt trúfasta menn bera fram samsvarandi boðskap. (Matteus 24:14; Jesaja 48:20; Sakaría 2:7; Jakobsbréfið 1:27; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Ljóst er því að menn eru notaðir til að flytja boðskapinn undir umsjón engla. Viðbrögð manna við boðskap englanna ráða því hvort þeir fylla flokk ‚sauðanna‘ eða ‚hafranna.‘ Núna á 20. öldinni hafa aðeins vottar Jehóva unnið með englunum að þessu þýðingarmikla starfi.
11. Hve þýðingarmikið er það að flytja mönnum boðskap englanna?
11 Að útbreiða þennan boðskap er margfalt þýðingarmeira en nokkurt annað starf sem unnið er nú á dögum. Engin straumhvörf í stjórnmálum eða uppgötvun vísindanna kemst í námunda við það. Þessi boðskapur vísar veginn að lausn allra vandamála mannkynsins og segir frá eilífu hjálpræði trúfastra manna. Og það sem mestu máli skiptir — hann er tengdur því að helga nafn Jehóva.
Ársskýrslan
12, 13. Nefndu nokkur atriði úr ársskýrslunni sem gefa til kynna að mikilli ‚uppskeru‘ hafi þegar verið safnað.
12 Af þessum orsökum hlakka vottar Jehóva alltaf til þess að lesa ársskýrsluna um starf skipulags Jehóva. Þeir fagna því að sjá stöðug merki þess að starf þeirra njóti blessunar hans. Ef þú skoðar skýrslu ársins 1987 (birt í mörgum erlendum útgáfum þessa tímarits þann 1. janúar 1988 og Árbók votta Jehóva 1988) sérð þú að englarnir og samstarfsmenn þeirra á jörð voru stórkostlega athafnasamir síðastliðið ár.
13 Fagnaðarerindið ómaði í 210 löndum — hjá ‚sérhverjum lýð, þjóð og tungu‘ sem nú er hægt að ná til. (Markús 13:10) Alls 3.395.612 unnu saman þegar flest var að starfi — fleiri en nokkru sinni fyrr í sögu kristninnar. Jafnvel fyrir einstök lönd sjást tilkomumiklar tölur. Í Bandaríkjunum náðist nýtt hámark boðbera, alls 773.219. Í Brasilíu var hámarkstalan 216.216 og í Mexíkó 222.168. Sex önnur lönd, Bretland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Nígería og Filippseyjar, náðu yfir 100.000 boðberum hvert. Á hinn bóginn eru til fjölmennar þjóðir þar sem starfandi eru aðeins nokkur þúsund boðberar eða færri. Starf þessara trúföstu sálna, sem láta ljós sannleikans skína við erfiðar aðstæður, er einnig gífurlega þýðingarmikið. — Matteus 5:14-16.
14. Hvers konar fólki er safnað inn í skipulag Jehóva?
14 Að sjálfsögðu hafa þjónar Guðs ekki aðeins áhuga á aukningu og háum tölum. Þeir vita þó að allir þessir nýju, sem koma inn í skipulag Jehóva, eru „gersemar“ í augum hans. Margir höfðu ‚andvarpað og kveinað yfir öllum þeim svívirðingum‘ sem þeir sáu í kristna heiminum. (Esekíel 9:4) Þeir streyma allir til ‚fjalls Jehóva‘ vegna þess að þeir vilja láta fræða sig um veg Guðs. (Jesaja 2:2, 3) Þetta er geysiöflugur vitnisburður um blessun Jehóva — að í þessu spillta og lífsþægindasjúka heimskerfi skuli hundruð þúsundir manna ár hvert ganga fram sem „gersemar“ Jehóva!
Áríðandi tímar
15. (a) Til hve stórs svæðis nær prédikunarstarfið? (b) Hve starfssamur er ‚múgurinn mikli‘ samkvæmt sýn Jóhannesar?
15 Prédikunarstarf votta Jehóva er áríðandi. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að starfssvæðið er stórt. Það þarf að boða fagnaðarerindið „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ (Opinberunarbókin 14:6) Í dæmisgöu Jesú er fólki af ‚öllum þjóðum‘ skipt í „sauði“ og „hafra.“ Enn er mikið starf óunnið. Það á því vel við að Jóhannes skuli sjá ‚múginn mikla‘ lofa Guð „dag og nótt í musteri hans.“ (Opinberunarbókin 7:15) Í uppfyllingu þessarar sýnar skilaði ‚múgurinn mikli‘ í félagi við andlega bræður sína alls 739.019.286 klukkustunda prédikun síðastliðið ár — stundafjölda sem er nánast ofvaxinn skilningi okkar. Á heimsmælikvarða samsvaraði það að meðaltali yfir 18 klukkustundum á hvern boðbera á mánuði. Berðu það saman við 12 klukkustundir að meðaltali fyrir aðeins tíu árum; þá má þér ljóst vera að prédikunarstarfið er að sækja í sig veðrið. Hvernig eru meðaltölur þínar í samanburði við heimsmeðaltalið?
16. (a) Nefndu eina ákveðna leið til að vera ötull við prédikun orðsins. (b) Hve margir tóku þátt í því starfi síðastliðið ár?
16 Ný hámarkstala reglulegra brautryðjenda og aðstoðarbrautryðjenda náðist á árinu: 650.095. Síðastliðið ár voru fleiri brautryðjendur úti á akrinum en sem nam heildartölu boðbera árið 1955. Varst þú einn af þessum brautryðjendum? Ef svo var valdir þú afbragðsgóða leið til að fara eftir hvatningarorðum Páls: „Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Hvernig væri að setja sér það markmið að taka þátt í brautryðjandastarfi að minnsta kosti einn mánuð á þjónustuárinu 1988?
Góðar vaxtarhorfur
17. Hvaða tölur sýna að vaxtarhorfurnar eru góðar?
17 Vaxtarhorfurnar eru frábærar. Biblíunámin voru alls 3.005.048 — og sérhver biblíunemandi er hugsanleg ‚gersemi‘! Auk þess sótti alls 8.965.221 kvöldmáltíð Drottins í apríl síðastliðið ár. Minnihluti viðstaddra voru vottar Jehóva. Sumir höfðu nýlega sýnt fagnaðarerindinu áhuga. Þeir voru boðnir hjartanlega velkomnir og hvattir til að halda áfram að taka góðum framförum. Aðrir hafa kannski verið viðstaddir slík hátíðahöld nokkrum sinnum fyrr. Þeir virðast hafa ánægju af að vera í félagsskap vottanna en hafa enn ekki fundið hjá sér hvöt til að gera meira en það.
18. Hvað þurfa menn að gera, samkvæmt spádómum Jesú og Sakaría, til að teljast í hópi ‚sauða‘ Jehóva?
18 Þeir eiga hrós skilið fyrir áhuga sinn á sannindum Biblíunnar. En munum að í dæmisögu Jesú eru „sauðirnir,“ sem fara til eilífs lífs, þeir sem eru hjálpsamir við smurða bræður Krists og starfa með þeim. (Matteus 25:34-40, 46) Í spádómi Sakaría lýsa „tíu menn“ hiklaust yfir: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ (Sakaría 8:23) Þeir eru ekki bara vinsamlegir í viðmóti. Þeir „taka í“ þjóna Guðs og fara með þeim, þeir vígja sig til að þjóna Guði þessara manna. Á okkar dögum felur það í sér að verða virkur félagi í skipulagi Jehóva.
Tíminn er knappur
19, 20. (a) Hvað mun gerast samkvæmt sýn Jóhannesar þegar ‚uppskeru jarðarinnar‘ er lokið? (b) Hvað mun það hafa í för með sér fyrir alla sem lúta ekki konunginum Jesú?
19 Uppskerustarfið er áríðandi af annarri ástæðu. Því verður bráðlega lokið. (Matteus 24:32-34) Hvað gerist þá? Lesum lýsingu Jóhannesar á sýn sinni: „Og annar engill gekk út úr musterinu, sem er á himni, og hann hafði líka bitra sigð. Og annar engill gekk út frá altarinu, hann hafði vald yfir eldinum. Hann kallaði hárri röddu til þess, sem hafði bitru sigðina: ‚Ber þú út bitru sigðina þína, og sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar, því að vínberin á honum eru orðin þroskuð.‘ Og engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínvið jarðarinnar og kastaði honum í reiði-vínþröng Guðs hina miklu.“ — Opinberunarbókin 14:17-19.
20 Eftir að uppskeru ‚gersemanna‘ er lokið er engin ástæða til að láta þennan spillta heim standa lengur. ‚Vínviður jarðarinnar,‘ heimskerfi Satans í heild, verður höggvinn niður og eyðilagður. Á þeirri stundu verða jafnvel andstæðingar hins skipaða konungs Jehóva neyddir til að horfast í augu við hann. Jóhannes skrifaði: „Sjá, hann [Jesús] kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum.“ (Opinberunarbókin 1:7; Matteus 24:30) Þá munu rætast orð Jesú við trúarleiðtoga Gyðinga sem voru fremstir í flokki þeirra „sem stungu hann.“ (Matteus 26:64) Að sjálfsögðu verða þessir trúhræsnarar ekki reistir upp til að „sjá“ Jesú persónulega. (Matteus 23:33) En allir nútímamenn, sem sýna sama hugarfar og neita að viðurkenna skipaðan konung Jehóva, verða neyddir til að viðurkenna hann þegar hann kemur til að eyða þjóðunum í Harmagedón. — Opinberunarbókin 19:11-16, 19-21.
21. Hvers vegna ættu þjónar Guðs að vera ötulir verkamenn í félagi við englana á himnum?
21 Hér er í húfi björgun einstakra manna. Við berum þá miklu ábyrgð að vera samstarfsmenn englanna. En það eru mikil sérréttindi! Megum við halda áfram að vinna kappsamlega í félagi við himneska engla að því að leita uppi sauðumlíka menn, „gersemar“ Jehóva, áður en uppskerustarfinu lýkur.
Getur þú svarað?
◻ Hver er stærsti viðburður 20. aldarinnar enn sem komið er?
◻ Hvað er ‚upp skorið á jörðinni‘ og hvernig er því safnað?
◻ Nefndu nokkur einkenni ‚sauða‘ Jehóva.
◻ Hvernig sýnir ársskýrslan að Jehóva blessar uppskerustarfið?
◻ Hvers vegna er prédikunarstarfið áríðandi?