Skækjan illræmda — tortíming hennar
„Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna.“ — OPINBERUNARBÓKIN 19:1, 2.
1. Hvernig hefur skækjan mikla drýgt saurlifnað með „konungum jarðarinnar“ og hvaða afleiðingar hefur það haft?
ÞAÐ sem við höfum rætt fram til þessa er nógu alvarlegt. En við ættum að veita athygli að Opinberunarbókin 17:2 talar líka um að skækjan mikla hafi drýgt saurlifnað með „konungum jarðarinnar.“ Enda þótt hún sé fallin er hún enn þá innilegur vinur heimsins og reynir með kænskubrögðum að láta veraldlega valdhafa þjóna áformum sínum. (Jakobsbréfið 4:4) Þetta andlega skækjulífi, fólgið í óleyfilegum mökum milli Babýlonar hinnar miklu og pólitískra valdhafa, hefur kostað tugi milljóna saklausra manna lífið! Það var nógu slæmt að skækjan mikla skyldi vera með í verki beggja vegna víglínunnar í fyrri heimsstyrjöldinni, en syndir hennar í síðari heimsstyrjöldinni hafa svo sannarlega ‚hlaðist allt upp til himins‘! (Opinberunarbókin 18:5) Hvers vegna segjum við það?
2. (a) Hvernig hjálpaði Franz von Papen Adolf Hitler að verða einræðisherra Þýskalands og hvernig lýsti fyrrverandi kanslari Þýskalands þessum páfalega riddara? (b) Hvaða tveim klásúlum í sáttmála nasistaríkisins og Páfagarðs var haldið leyndum? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
2 Nú, svo við tökum aðeins eitt dæmi, hvernig varð harðstjórinn Adolf Hitler kanslari — og einræðisherra — Þýskalands? Það var í gegnum pólitískt leynimakk páfalegs riddara sem fyrrverandi kanslari Þýskalands, Kurt von Schleicher, kallaði „þess konar svikara að Júdas Ískaríot er dýrlingur í samanburði við hann.“ Þetta var Franz von Papen sem fékk kaþólsk öfgasamtök og leiðtoga í iðnaði til að beita sér gegn kommúnisma og fyrir því að sameina Þýskaland undir stjórn Hitlers. Á móti gerði Hitler von Papen að aðstoðarkanslara. Hitler gerði út sendinefnd til Rómar undir forystu von Papens til að gera sáttmála milli nasistaríkisins og Páfagarðs. Píus páfi XI lét þess getið við þýsku sendinefndina að hann fagnaði því mjög að „þýska stjórnin skyldi nú vera undir forystu manns er væri afdráttarlaus andstæðingur kommúnismans,“ og þann 20. júlí 1933 undirritaði Pacelli kardináli (sem skömmu síðar varð Píus páfi XII) sáttmálann við hátíðlega athöfn í Páfagarði.a
3. (a) Hvað sagði sagnfræðingur um sáttmálann milli nasistaríkisins og Páfagarðs? (b) Hvaða sæmd var Franz von Papen veitt við hátíðahöldin í Páfagarði? (c) Hvaða hlutverki gegndi Franz von Papen í því er nasistar lögðu Austurríki undir sig?
3 Sagnfræðingur segir: „Sáttmálinn [við Páfagarð] var mikill sigur fyrir Hitler. Hann veitti honum fyrsta siðferðilega stuðninginn sem hann hafði fengið frá umheiminum, og það frá einhverjum tignasta aðila sem hugsast gat.“ Við hátíðahöldin í Páfagarði sæmdi Pacelli kardináli von Papen hinu virta heiðursmerki páfa, riddarakrossinum af reglu Píusar.b Winston Churchill segir frá því í bók sinni, The Gathering Storm, gefin út árið 1948, hvernig von Papen notfærði sér „orðstír sinn sem góður kaþólikki“ til að afla stuðnings kirkjunnar við yfirtöku nasista á stjórn Austurríkis. Árið 1938 fyrirskipaði Innitzer kardináli að allar kirkjur Austurríkis skyldu draga hakakrossfánann að húni, hringja klukkum og biðja fyrir einræðisherra nasista í tilefni af afmæli Adolfs Hitlers.
4, 5. (a) Hvers vegna hvílir gríðarleg blóðskuld á Páfagarði? (b) Hvernig studdu kaþólskir biskupar í Þýskalandi Hitler fyrir opnum tjöldum?
4 Það hvílir því ógnarþung blóðskuld á Páfagarði! Sem einn af forystuaðilum Babýlonar hinnar miklu átti hann umtalsverðan þátt í að koma Hitler til valda og veita honum „siðferðilegan“ stuðning. Páfagarður gekk enn lengra með því að veita grimmdarverkum hans þegjandi samþykki. Hinn langa áratug, sem ógnarstjórn nasista stóð, þagði páfinn í Róm þunnu hljóði meðan hundruð þúsunda kaþólskra hermanna börðust og féllu til dýrðar nasistastjórninni, og milljónum ógæfusamra manna var útrýmt í gasklefum Hitlers.
5 Hinir kaþólsku biskupar Þýskalands studdu jafnvel Hitler fyrir opnum tjöldum. Sama dag og Japanir — sem voru stríðsbandamenn Þjóðverja á þeim tíma — gerðu skyndiárásina á Pearl Harbor birtist þessi frétt í The New York Times: „Þing kaþólskra biskupa í Þýskalandi, haldið í Fulda, hefur mælt með að tekin verði upp sérstök ‚stríðsbæn‘ er lesin skuli við upphaf og endi allra guðsþjónusta. Í bæninni er Almættið ákallað um að blessa þýska herinn með sigri og halda verndarhendi yfir lífi og heilsu allra hermanna. Biskuparnir gáfu kaþólsku klerkastéttinni enn fremur fyrirmæli um að minnast í sérstakri sunnudagsprédikun, að minnsta kosti einu sinni í mánuði, þýskra hermanna ‚í lofti, láði og legi.‘“
6. Hvaða kvöl og grimmdarverk hefði ef til vill mátt umflýja ef andlegur saurlifnaður Páfagarðs og nasista hefðu ekki komið til?
6 Ef ekkert ástarsamband hefði verið milli Páfagarðs og nasista hefði kannski mátt hlífa heiminum við þeirri kvöl að sjá tugi milljóna hermanna og óbreyttra borgara drepna í stríðinu, við kvöl þeirra 6 milljóna Gyðinga sem voru myrtir fyrir að vera ekki aríar og — þeirra sem dýrmætastir voru í augum Jehóva — þúsunda votta hans, bæði af hinum smurðu og hinum ‚öðrum sauðum,‘ sem þoldu hinar mestu hörmungar og létust margir í fangabúðum nasista. — Jóhannes 10:10, 16.
Skækjan skoðuð úr nálægð
7. Hvernig lýsir Jóhannes skækjunni miklu úr nálægð?
7 Sannarlega er hún við hæfi sú sýn sem opnast okkur næst í spádómi Opinberunarbókarinnar! Þegar við flettum upp í 17. kafla, 3. til 5. versi, heyrum við Jóhannes segja um engilinn: „Og hann leiddi mig burt í anda á eyðimörk. Og ég sá konu sitja á skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum, og hafði það sjö höfuð og tíu horn. Og konan var skrýdd purpura og skarlati, og var búin gulli og gimsteinum og perlum. Hún hafði í hendi sér gullbikar, fullan viðurstyggðar, og var það óhreinleikur saurlifnaðar hennar. Og á enni hennar var ritað nafn, sem er leyndardómur: Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.“
8. Hvað ber skækjan mikla í gullbikar sínum sem gefur vísbendingu um hver hún sé? (b) Hvernig er Babýlon hin mikla táknrænt íklædd „purpura og skarlati“ og prýdd ‚gulli og gimsteinum og perlum‘?
8 Jóhannes virðir hér Babýlon hina miklu fyrir sér úr nálægð. Hún á sannarlega heima í þessari eyðimörk meðal villidýranna sem byggja hana. Þessi mikla skækja er auðþekkt á því sem hún ber í bikar sínum þótt hann sé dýrmætur að sjá hið ytra. Hún bergir á drykk sem er viðurstyggilegur í augum Guðs. Vinfengi hennar við heiminn, falskar kenningar, lausung í siðferðismálum og daður við stjórnmálaöflin — ekkert af þessu umber Jehóva, „dómari alls jarðríkis.“ (1. Mósebók 18:22-26; Opinberunarbókin 18:21, 24) Hún skrýðir sig og skreytir fagurlega! Hún er nafntoguð fyrir mikilfenglegar dómkirkjur sínar, tilkomumikinn byggingarstíl og steinda glugga, fyrir pagóður sínar skreyttar gulli og gersemum og aldagömul musteri og helgidóma. Í samræmi við klæðatísku ‚skækjunnar miklu‘ bera prestar hennar og munkar dýr skartklæði, ýmist skarlatsrauð, purpurarauð eða saffrangul. — Opinberunarbókin 17:11.
9. Hve langa sögu eiga blóðsúthellingar Babýlonar hinnar miklu sér og með hvaða viðeignadi hætti lýkur Jóhannes lýsingu sinni á henni?
9 Ámælisverðastur er þó blóðþorsti hennar. Þar hefur Jehóva langan og háan reikning að gera upp við hana! Hún hefur ljáð blóðþyrstum einræðisherrum nútímans stuðning sinn og viðurstyggileg, blóði drifin saga hennar teygir sig langt aftur í aldir með trúarstyrjöldum, rannsóknarréttinum og krossferðunum, já, hún nær allt aftur til píslarvættisdauða sumra af postulunum og aftöku Guðs eigin sonar, Drottins Jesú Krists, og enn lengra. (Postulasagan 3:15; Hebreabréfið 11:36, 37) Við allt þetta má bæta þeim vottum Jehóva nútímans sem hafa verið drepnir með skotsveit, snöru, öxi, fallöxi, sverði og ómanneskjulegri meðferð í fangelsum og fangabúðum. Engin furða er að Jóhannes skuli ljúka lýsingu sinni með því að segja: „Og ég sá að konan var drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta“! — Opinberunarbókin 17:6.
‚LEYNDARDÓMUR KONUNNAR OG DÝRSINS‘
10. (a) Hvernig hefur skækjan mikla ofsótt votta Jehóva allt til þessa dags? (b) Hvers konar leiðtogar eru klerkar Babýlonar hinnar miklu?
10 Jóhannes „undraðist stórlega“ yfir því sem hann sá. Við undrumst líka! Á fjórða og fimmta áratug þessarar aldar beitti skækjan mikla öfgahópum kaþólskra og pólitískum klækjabrögðum til að ofsækja og banna trúfasta votta Jehóva. Hvar sem Babýlon hin mikla hefur nægileg ítök heldur hún fram á þennan dag áfram að hindra, takmarka og gefa villandi mynd af starfi votta Jehóva sem boða hina dýrlegu von um Guðsríki. Með því að halda hundruðum milljóna manna fjötruðum í trúarstofnunum skækjunnar miklu þjóna klerkar hennar sem ‚blindir leiðtogar blindra‘ og leiða þá út í díki tortímingar. Aldrei að eilífu gæti þessi illræmda skækja sagt með Páli postula: ‚Ég vitna fyrir yður að ég er hrein af blóði allra.‘ — Matteus 15:7-9, 14; 23:13; Postulasagan 20:26, Ísl. bi. 1912.
11, 12. Hver er leyndardómurinn um ‚skarlatsrauða dýrið‘ sem ber skækjuna illræmdu á baki sér, og hvernig var þessi leyndardómur upplýstur fyrir vottum Jehóva árið 1942?
11 Engillinn veitti undrun Jóhannesar athygli og sagði við hann: „Hví ertu forviða? Ég mun segja þér leyndardóm konunnar og dýrsins, sem hana ber, þess er hefur höfuðin sjö og hornin tíu.“ (Opinberunarbókin 17:7) Hvert er þetta ‚dýr‘? Meira en 600 árum fyrr hafði spámaðurinn Daníel séð ýmis dýr í sýnum og verið skýrt frá því að þau táknuðu ‚konunga‘ eða pólitískar stjórnir hér á jörð. (Daníel 7:2-8, 17; 8:2-8, 19-22) Jóhannes sér hér í sýn slíkar stjórnir allar saman — ‚skarlatsrautt dýr.‘ Þetta er Þjóðabandalagið sem kom fram á sjónarsviðið árið 1920 en steyptist niður í undirdjúp aðgerðarleysis þegar síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939. En hver er ‚leyndardómur konunnar og dýrsins‘?
12 Vegna guðlegrar forsjár fengu vottar Jehóva þann leyndardóm upplýstan árið 1942. Síðari heimssyrjöldin var þá í algleymingi og margir héldu að hún myndi magnast upp í Harmagedónstríðið. En Jehóva hafði annað í huga! Vottar hans áttu enn þá mikið starf óunnið! Á mótum þeirra, sem nefnd voru Guðræðismót nýja heimsins og fram fóru í Bandaríkjunum, með aðalmótsstaðinn í borginni Cleveland í Ohiofylki þann 18.-20. september 1942, flutti forseti Varðturnsfélagsins, Nathan H. Knorr, opinbera ræðu er nefndist „Friður — getur hann varað?“ Þar ræddi hann um Opinberunarbókina 17:8 sem segir um ‚skarlatsrauða dýrið‘: „[Það] var, en er ekki, og það mun stíga upp frá undirdjúpinu og fara til glötunar.“ Hann sýndi fram á hvernig Þjóðabandalagið „var“ frá 1920 til 1939. Núna var náð stiginu „er ekki“ sökum þess að Þjóðabandalagið var dáið. En eftir stríðið áttu þessi samtök þjóðanna að stíga upp úr undirdjúpinu. Rættist þessi spá Biblíunnar? Svo sannarlega! Árið 1945 steig hið alþjóðlega „dýr“ upp úr undirdjúpi athafnaleysis undir nafninu Sameinuðu þjóðirnar.
13. Hvernig hefur Babýlon hin mikla haldið áfram skækjulífi sínu með ‚dýrinu‘ Sameinuðu þjóðunum?
13 Þótt fall Babýlonar hinnar miklu hafi veikt hana í sessi hefur hún haldið áfram skækjulífi sínu með ‚dýrinu,‘ Sameinuðu þjóðunum. Til dæmis komu tignarmenn sjö helstu trúarbragða heims, svonefndra kristinna og ókristinna, sögð eiga innan sinnar vébanda helming jarðarbúa, saman í San Fransisco í júní 1965 til að halda upp á 20 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna.c Þetta sama ár lýsti Páll páfi VI Sameinuðu þjóðunum sem „síðustu von friðar og sameiningar“ og síðar lét Jóhannes Páll páfi II í ljós von sína um að „Sameinuðu þjóðirnar muni ávallt vera æðsti dómsvettvangur friðar og réttvísi.“ Árið 1986 tók heimsveldi falstrúarbragðanna forystuna í að styðja alþjóðlegt friðarár Sameinuðu þjóðanna. En skiluðu trúarbænir þeirra sönnum friði og öryggi? Því fer fjarri! Í sívaxandi mæli sýna aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að þau bera engan sannan kærleika til skækjunnar miklu.
Skækjunni tortímt
14. Hvaða sérstaka þjónustu á ‚dýrið‘ Sameinuðu þjóðirnar að inna af hendi og hvernig lýsir engill Guðs henni?
14 Þegar þar að kemur verður ‚skarlatsrauða dýrið‘ sjálft að fara til eyðingar. En áður en það gerist, og meira að segja áður en það gerir sína dýrslegu lokaárás á þjóna Guðs, þarf það að inna sérstaka þjónustu af hendi. Jehóva ‚leggur dýrinu og hervæddum hornum þess í brjóst að gera vilja sinn.‘ Með hvaða afleiðingum? Engill Guðs svarar: „Og hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ Hún hefur verið ‚stærilát og lifað í óhófi‘ en núna snúast leikar. Mikilfenglegar trúarbyggingar hennar og gífurlegar eignir fá ekki bjargað henni. Eins og engillinn segir: „Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er [Jehóva] Guð, sem hana dæmdi.“ — Opinberunarbókin 17:16, 17; 18:7, 8.
15. Hvernig munu pólitískir friðlar skækjunnar, ásamt auðjöfrum viðskiptalífsins, bregðast við dauða hennar?
15 Pólitískir friðlar hennar munu harma dauða hennar og segja: „Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn.“ Og auðjöfrar viðskiptalífsins, sem rökuðu að sér illa fengnum ágóða með henni, munu ‚gráta og harma og segja: „Vei, vei, borgin mikla, . . . Á einni stundu eyddist allur þessi auður.“‘ — Opinberunarbókin 18:9-17.
16. Hvernig munu þjónar Guðs bregðast við eyðingu skækjunnar miklu og hvernig staðfestir Opinberunarbókin það?
16 En hver verða viðbrögð þjóna Guðs? Þau eru innifalin í orðum engilsins: „Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu og þér postular og spámenn, því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni.“ Snögglega verður henni kastað niður svo að hún fái aldrei framar að smána heilagt nafn Jehóva. Gereyðing skækjunnar miklu kallar á fögnuð og sigursöng til lofs Jehóva. Fyrsti lof- og gleðisöngurinn hljómar: „Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna.“ — Opinberunarbókin 18:20-19:3.
17. Hvernig verður dómi Guðs fullnægt til enda eftir að skækjunni miklu er eytt?
17 Dómi Guðs verður fullnægt skjótlega til enda þegar „konungur konunga og Drottinn drottna,“ Kristur Jesús, „treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda“ í Harmagedón. Þar gerir hann út af við óguðlega valdhafa og alla aðra sem eftir eru af skipulagi Satans á jörð. Hræfuglar munu éta hræ þeirra. (Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21) Við ættum að fagna því stórlega að tími Guðs skuli vera nálægur þegar hann losar hið fagra heimili okkar, jörðina, við allt sem er óheilagt, óhreint og spillandi!
18. Hvert er hið mikla hámark Opinberunarbókarinnar?
18 Er þetta hámark Opinberunarbókarinnar? Nei, það er ókomið enn! Þegar lýkur upprisu hinna 144.000 til himna á brúðkaup lambsins sér stað. „Brúður“ þess, búin skartklæðum fyrir manni sínum, tekur sér sæti í ‚nýjum himni‘ og þaðan stígur hún í táknrænni merkingu niður sem meðhjálp brúðgumans við að fullna tilgang Jehóva að ‚gera alla hluti nýja.‘ Andleg fegurð brúðarinnar er hin sama og fegurð borgarinnar helgu, nýju Jerúsalem, sem Jehóva Guð hinn alvaldi fyllir dýrð sinni og lambið er lampi hennar. (Opinberunarbókin 21:1-5, 9-11, 23) Hér nær Opinberunarbókin hinu mikla hámarki sínu, þegar nafn Jehóva er helgað og lambið, Kristur Jesús, ásamt brúði sinni, hinni nýju Jerúsalem, blessar hlýðið mannkyn með eilífu lífi í jarðneskri paradís.
19. (a) Hvað er nauðsynlegt til að hljóta hjálpræði, auk þess að ganga út úr Babýlon hinni miklu? (b) Hvað stendur enn til boða, hvernig ættum við að bregðast við því og hvers vegna er það áríðandi?
19 Hefur þú vaknað til vitundar um tvískinnung falstrúarbragðanna og gengið út úr Babýlon hinni miklu? Og hefur þú stigið önnur og fleiri skref sem þarf til að nálgast Jehóva Guð fyrir milligöngu Krists Jesú, með því að vígjast honum af öllu hjarta og hljóta skírn? Það er líka nauðsynlegt til að hljóta hjálpræði. Þegar nálgast tilsettur tími Jehóva til að fullnægja lokadóminum bergmálar af knýjandi ákafa og síauknum krafti boðið: „Andinn og brúðurin segja: ‚Kom þú!‘“ Megi allir sem hlýða þessu kalli vígja líf sitt Jehóva og taka af kappi að bjóða enn öðrum að ‚koma!‘ Já, „sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinberunarbókin 22:17) Boðið stendur enn. Þú munt uppskera mikla hamingju ef þú tekur rétta afstöðu og heldur þér við hana frammi fyrir hásæti Guðs og lambsins sem einn af vígðum, skírðum þjónum Jehóva. Fylling tímans er nær en þú kannski heldur! Já, hið mikla hámark Opinberunarbókarinnar er í nánd!
[Neðanmáls]
a Af augljósum ástæðum varð tveim klásúlum sáttmálans haldið leyndum á þeim tíma, en þær fjölluðu um samstöðu gegn Sovétríkjunum og skyldur kaþólskra presta er skráðir væru í her Hitlers. Slík herkvaðning presta var brot á Versalasamningnum frá 1919 sem Þjóðverjar voru enn bundnir af, og hefði þessi klásúla komist í hámæli hefði hún getað valdið ókyrrð meðal annarra er undirrituðu Versalasamninginn.
b Franz von Papen var meðal nasistanna sem leiddir voru fyrir rétt sem stríðsglæpamenn í Nürnberg í Þýskalandi síðla á fimmta áratugnum. Hann var sýknaður en hlaut síðan þungan dóm frá þýskum dómstóli er vann að upprætingu nasisma. Enn síðar, árið 1959, var hann gerður að einkaráðsmanni páfa.
c Páll páfi VI sagði um þennan fund: „Það er í senn rétt og viðeigandi að undirritunar sáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir 20 árum skuli meðal annars minnst við hátíðlega athöfn með því að kalla saman trúarlegt friðarþing.“
[Rammi á blaðsíðu 11]
ÞÖGN PÁFANS
Í bók sinni, Franz von Papen — His Life and Times, gefin út árið 1939, lýsir H. W. Blood-Ryan í smáatriðum leynimakki þessa páfalega riddara til að koma Hitler til valda og gera sáttmálann milli Páfagarðs og nasista. Höfundur segir um hin skipulögðu fjöldamorð á Gyðingum, vottum Jehóva og fleirum: „Hvers vegna þagði Pacelli [Píus páfi XII]? Vegna þess að hann sá í áætlunum von Papens um heilagt rómversk keisaradæmi Vestur-Þjóðverja sterkari kaþólska kirkju og Páfagarð á nýjan leik í sæti veraldlegs valds . . . Sá hinn sami Pacelli fer nú með andlega einræðisstjórn yfir milljónum sálna en þó var tæplega hvíslað til andmælis árásum og ofsóknum Hitlers. . . . Þegar þessar línur eru skrifaðar hefur staðið yfir slátrun í þrjá daga en ekki ein einasta bæn heyrst frá Páfagarði fyrir sálum hermannanna sem fullur helmingur er kaþólskrar trúar. Þau verða hræðileg reikningsskilin þegar þessir menn, sviptir öllum jarðneskum áhrifum, standa frammi fyrir Guði sínum sem mun krefja þá reikningsskapar. Hvað geta þeir fært fram sér til afsökunar? Ekkert!“
[Rammi á blaðsíðu 15]
PÁFAGARÐUR FLÆKTUR Í MÁLIÐ
Þann 6. mars 1988 skýrði The New York Times frá því að Páfagarður reiknaði með meiri rekstrarhalla árið 1988 en nokkru sinni fyrr, 61,8 milljónum dollara. Blaðið sagði: „Ætla má að þar sé meðal annars gert ráð fyrir greiðslu nálega 250 milljóna dollara til lánadrottna Banco Ambrosiano sem gefið var vilyrði fyrir árið 1984. Páfagarður átti mikið saman að sælda við þennan banka í Mílanó áður en hann varð gjaldþrota árið 1982.“ Svo mikil var aðild Páfagarðs að þessu hneyksli að hann hefur staðfastlega neitað að framselja yfirvöldum þrjá háttsetta embættismenn Páfagarðs, meðal annars bandarískan erkibiskup, til að hægt sé að kalla þá fyrir ítalska dómstóla!
[Myndir á blaðsíðu 12]
Mikil blóðskuld hvílir á Páfagarði ásamt þeim von Papen og Hitler.
[Rétthafi]
UPI/Bettmann Newsphotos
UPI/Bettmann Newsphotos
[Myndir á blaðsíðu 14]
Í stað þess að styðja Guðsríki hafa páfarnir lofað Sameinuðu þjóðirnar sem ‚síðustu friðarvonina.‘
[Rétthafi]
Innfelldu myndirnar eru birtar með leyfi Sameinuðu þjóðanna.