NÁMSGREIN 41
Verum trúföst þegar ,þrengingin mikla‘ gengur yfir
„Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu. Drottinn varðveitir hina trúföstu.“ – SÁLM. 31:24.
SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð
YFIRLITa
1, 2. (a) Hverju lýsa þjóðarleiðtogar heimsins bráðlega yfir? (b) Hvaða spurningum þurfum við að fá svör við?
ÍMYNDAÐU þér að þjóðarleiðtogar heimsins hafi rétt lokið við að lýsa yfir ,friði og engri hættu‘, alveg eins og við höfum beðið eftir. Þeir fullyrða ef til vill stoltir að heimurinn hafi aldrei verið jafn öruggur. Þeir vilja telja okkur trú um að þeir hafi fulla stjórn á ástandinu í heiminum. En þeir hafa alls enga stjórn á því sem gerist í kjölfarið. Hvers vegna? Vegna þess að samkvæmt spádómi Biblíunnar „kemur snögglega tortíming yfir þá ... Og þeir munu alls ekki undan komast“. – 1. Þess. 5:3.
2 Við þurfum að fá svör við nokkrum mikilvægum spurningum. Hvað gerist í ,þrengingunni miklu‘? Hvað ætlast Jehóva til að við gerum á þeim tíma? Og hvernig getum við undirbúið okkur svo að við getum verið trúföst þegar þrengingin mikla gengur yfir? – Matt. 24:21.
HVAÐ GERIST Í ,ÞRENGINGUNNI MIKLU‘?
3. Hvernig eyðir Guð ,Babýlon hinni miklu‘ samkvæmt Opinberunarbókinni 17:5, 15–18?
3 Lestu Opinberunarbókina 17:5, 15–18. ,Babýlon hinni miklu‘ verður tortímt! Eins og fram hefur komið hafa þjóðarleiðtogar heimsins enga stjórn á atburðarásinni þegar hér er komið sögu. Hvers vegna? Vegna þess að „Guð [leggur] þeim í brjóst að gera vilja sinn“. Hver er þessi vilji? Að eyða heimsveldi falstrúarbragðanna, þar á meðal kristna heiminum.b Guð mun leggja ,hornunum tíu‘ á ,skarlatsrauða dýrinu‘ í brjóst að gera vilja sinn. Hornin tíu tákna stjórnmálaöflin sem styðja „dýrið“ – Sameinuðu þjóðirnar. (Opinb. 17:3, 11–13; 18:8) Þrengingin mikla hefst þegar þessi stjórnmálaöfl snúa sér gegn falstrúarbrögðunum. Sú mikla ógæfa mun snerta allt mannkyn.
4. (a) Hvaða ástæður gætu þjóðarleiðtogar heimsins tilgreint fyrir árásinni á falstrúarbrögðin? (b) Hvað gera þeir sennilega sem tilheyrðu þessum trúarbrögðum?
4 Við vitum ekki hvaða ástæður þjóðarleiðtogar heimsins munu tilgreina fyrir árás sinni á Babýlon hina miklu. Þeir gætu sagt að trúarbrögðin tálmi friði og að þau blandi sér stöðugt í stjórnmál. Eða þeir gætu sagt að þessar trúarstofnanir hafi sankað að sér allt of miklum auðæfum og eignum. (Opinb. 18:3, 7) Þegar ráðist verður á trúarbrögðin er ólíklegt að öllum sem tilheyra þeim verði tortímt. Öllu heldur er líklegt að þjóðirnar leysi upp trúarlegar stofnanir. Þegar þessum stofnunum hefur verið rutt úr vegi gera þeir sem tilheyrðu þeim sér grein fyrir að leiðtogar þeirra hafi brugðist sér og reyna sennilega að afneita tengslum við þessi trúarbrögð.
5. Hverju hefur Jehóva lofað varðandi þrenginguna miklu og hvers vegna?
5 Biblían gefur ekki til kynna hve langan tíma tekur að eyða Babýlon hinni miklu en við vitum að það tekur tiltölulega stuttan tíma. (Opinb. 18:10, 21) Jehóva hefur lofað að ,stytta daga‘ þrengingarinnar svo að þeir „sem hann hefur útvalið“ og sönn trú tortímist ekki. (Mark. 13:19, 20) En hvað ætlast Jehóva til að við gerum frá því að þrengingin hefst og þar til Harmagedónstríðið skellur á?
HVIKUM ALDREI FRÁ SANNRI TILBEIÐSLU Á JEHÓVA
6. Hvers vegna er ekki nóg að slíta tengslin við falstrúarbrögð?
6 Eins og rætt var í síðustu grein ætlast Jehóva til að tilbiðjendur sínir segi skilið við Babýlon hina miklu. En það er ekki nóg að slíta tengslin við falstrúarbrögð. Við verðum að vera staðráðin í að styðja sanna trú – hreina tilbeiðslu á Jehóva. Skoðum á hvaða tvo vegu við getum gert það.
7. (a) Hvernig getum við haldið okkur staðfastlega við réttlátar siðferðisreglur Jehóva? (b) Hvernig undirstrikar Hebreabréfið 10:24, 25 mikilvægi þess að sækja samkomur og hvers vegna er það sérstaklega áríðandi núna?
7 Í fyrsta lagi verðum við að halda okkur staðfastlega við réttlátar siðferðisreglur Jehóva. Við megum ekki samþykkja siðleysi heimsins. Við samþykkjum til dæmis ekki kynferðislegt siðleysi í nokkurri mynd, þar á meðal líferni samkynhneigðra og hjónaband þeirra. (Matt. 19:4, 5; Rómv. 1:26, 27) Í öðru lagi verðum við að halda áfram að tilbiðja Jehóva með trúsystkinum okkar. Við gerum það hvenær sem við getum hvort heldur í ríkissölum okkar, eða í heimahúsum eða í leyni ef nauðsynlegt er. Hvað sem gerist verðum við að halda þeirri venju að koma saman til að tilbiðja Jehóva. Við þurfum að sækja samkomur og það ,því fremur sem við sjáum að dagurinn færist nær‘. – Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.
8. Hvernig á boðskapur okkar líklega eftir að breytast?
8 Boðskapurinn sem við færum fólki mun líklega breytast í þrengingunni miklu. Nú segjum við fólki frá fagnaðarboðskapnum um ríkið og leitumst við að gera það að lærisveinum. En þegar þar er komið sögu má vera að við flytjum boðskap sem er harður eins og högl. (Opinb. 16:21) Ef til vill segjum við fólki að heimur Satans líði bráðlega undir lok. Við eigum eftir að fá að vita nákvæmlega hver boðskapurinn verður og hvernig á að koma honum á framfæri. Eigum við eftir að nota sömu aðferðir og hafa verið notaðar í rúmlega hundrað ár til að ljúka verkefni okkar? Eða förum við öðruvísi að? Það á eftir að koma í ljós. Hvað sem því líður fáum við sennilega þann heiður að boða hugrökk dómsboðskap Jehóva. – Esek. 2:3–5.
9. Hvernig bregðast þjóðarleiðtogar heimsins hugsanlega við boðskap okkar og hvað getum við verið fullviss um?
9 Boðskapur okkar mun að öllum líkindum ögra þjóðarleiðtogum heimsins og fá þá til að reyna að þagga niður í okkur í eitt skipti fyrir öll. Þá þurfum við að treysta á stuðning Jehóva alveg eins og við gerum í boðuninni núna. Við getum verið fullviss um að Jehóva veitir okkur kraft til að gera vilja hans. – Míka 3:8.
VERUM VIÐBÚIN ÁRÁSINNI Á ÞJÓNA GUÐS
10. Hvernig bregst meirihluti mannkyns við því sem gerist í þrengingunni miklu samkvæmt spádóminum í Lúkasi 21:25–28?
10 Lestu Lúkas 21:25–28. Það verður mikið áfall fyrir fólk í þrengingunni miklu að sjá allt hrynja sem virtist svo traust og varanlegt. Fólk fyllist „angist“ því að það óttast um líf sitt á þessum myrkasta tíma mannkyns. (Sef. 1:14, 15) Lífið verður sennilega líka erfiðara fyrir þjóna Jehóva. Við gætum þurft að þola ýmsar raunir vegna þess að við erum ekki hluti af heiminum. Við gætum þurft að líða skort.
11. (a) Hvers vegna beinist athyglin að vottum Jehóva? (b) Hvers vegna þurfum við ekki að óttast þrenginguna miklu?
11 Vera má að fólki sem tilheyrði trúarbrögðunum sem var eytt verði á einhverjum tímapunkti misboðið vegna þess að vottar Jehóva stunda sína tilbeiðslu áfram. Við getum rétt ímyndað okkur uppnámið sem gæti orðið, ekki síst á samfélagsmiðlum. Þjóðirnar og Satan stjórnandi þeirra munu hata okkur fyrir að vera eina trúfélagið sem eftir stendur. Þjóðirnar munu ekki hafa náð því markmiði að eyða öllum trúarbrögðum í heiminum. Athygli þeirra beinist því að okkur. Þjóðirnar verða þá komnar í hlutverk sitt sem Góg í Magóg.c Þær gera með sér bandalag til að gera grimmilega allsherjarárás á fólk Jehóva. (Esek. 38:2, 14–16) Það getur gert okkur óróleg að hugsa um það sem gæti gerst í þrengingunni miklu þar sem við þekkjum ekki atburðarásina til hlítar. En eitt er víst: Við þurfum ekki að óttast þrenginguna miklu. Jehóva mun gefa okkur lífsnauðsynleg fyrirmæli. (Sálm. 34:20) Við munum geta ,rétt úr okkur og borið höfuðið hátt‘ því að við vitum að ,lausn okkar er í nánd‘.d
12. Hvernig hefur ,trúi og hyggni þjónninn‘ búið okkur undir það sem gerist í framtíðinni?
12 ,Trúi og hyggni þjónninn‘ hefur verið að undirbúa okkur svo að við getum verið trúföst í þrengingunni miklu. (Matt. 24:45) Hann hefur gert það á marga vegu. Dæmi um það er dagskráin á umdæmismótunum 2016–2018. Á mótunum vorum við hvött til að styrkja þá eiginleika sem eru okkur nauðsynlegir nú þegar dagur Jehóva nálgast. Skoðum nokkra af þessum eiginleikum.
STYRKJUM TRÚFESTI OKKAR, ÞOLGÆÐI OG HUGREKKI
13. Hvernig getum við styrkt trúfesti okkar við Jehóva og hvers vegna þurfum við að gera það núna?
13 Trúfesti: Stef umdæmismótsins 2016 var „Verum Jehóva trú“. Við lærðum á mótinu að við verðum Jehóva trúföst ef við eigum sterkt og náið samband við hann. Við vorum minnt á það að við getum nálægt okkur Jehóva með því að biðja til hans í einlægni og rannsaka orð hans vandlega. Þannig getum við fengið kraft til að sigrast á erfiðustu prófraunum sem við kunnum að mæta. Við megum búast við að trúfesti okkar við Guð og ríki hans verði reynd enn meir eftir því sem nær dregur endalokum heimskerfis Satans. Fólk mun sennilega halda áfram að hæðast að okkur. (2. Pét. 3:3, 4) Ein aðalástæðan fyrir því er að við styðjum ekki heim Satans á nokkurn hátt. Við verðum að styrkja samband okkar við Jehóva núna til að geta verið trúföst í þrengingunni miklu.
14. (a) Hvaða breyting verður á forystunni í söfnuði Jehóva á jörðinni? (b) Hvers vegna þurfum við að sýna trúfesti þá?
14 Í þrengingunni miklu verður breyting á forystunni í söfnuði Jehóva á jörðinni. Á einhverjum tímapunkti verða hinir andasmurðu sem eftir eru á jörðinni kallaðir til himna til að taka þátt í stríðinu við Harmagedón. (Matt. 24:31; Opinb. 2:26, 27) Það þýðir að hið stjórnandi ráð verður ekki lengur hjá okkur hér á jörðinni. En múgurinn mikli verður samt sem áður skipulagður hópur. Hæfir bræður meðal annarra sauða munu fara með forystuna. Við þurfum að sýna trúfesti með því að styðja þessa bræður og fylgja þeim leiðbeiningum sem þeir fá frá Guði. Björgun okkar verður háð því.
15. Hvernig getum við styrkt þolgæði okkar og hvers vegna er mikilvægt að gera það núna?
15 Þolgæði: Stef umdæmismótsins 2017 var „Gefumst ekki upp!“ Á mótinu lærðum við hvernig við getum styrkt hæfileikann til að standast prófraunir. Við lærðum að þolgæði er ekki háð hagstæðum aðstæðum. Við getum styrkt þolgæði okkar með því að treysta á Jehóva. (Rómv. 12:12) Gleymum aldrei loforði Jesú: „Sá sem staðfastur er allt til enda verður hólpinn.“ (Matt. 24:13) Það þýðir að við þurfum að vera þolgóð, hvaða erfiðleikum sem við mætum. Við styrkjumst áður en þrengingin mikla skellur á með því að vera þolgóð í öllum raunum núna.
16. Hvað ræður því hvort við séum hugrökk og hvernig getum við eflt hugrekki okkar núna?
16 Hugrekki: Stef umdæmismótsins 2018 var „Verum hugrökk!“ Við vorum minnt á að geta okkar og hæfileikar ráða því ekki hvort við séum hugrökk. Ósvikið hugrekki byggist á trausti á Jehóva alveg eins og þolgæði. Hvernig getum við styrkt traust okkar til hans? Með því að lesa daglega í orði hans og hugleiða hvernig hann bjargaði fólki sínu forðum daga. (Sálm. 68:21; 2. Pét. 2:9) Þegar þjóðirnar gera árás á okkur í þrengingunni miklu þurfum við að vera hugrökk og treysta Jehóva sem aldrei fyrr. (Sálm. 112:7, 8; Hebr. 13:6) Ef við treystum honum núna höfum við það hugrekki sem þarf þegar Góg gerir árás.e
HORFUM FRAM TIL BJÖRGUNAR OKKAR
17. Hvers vegna þurfum við ekki að óttast Harmagedón? (Sjá mynd á forsíðu.)
17 Eins og nefnt var í síðustu grein hafa flest okkar lifað alla sína ævi á hinum síðustu dögum. En við eigum þá von að lifa af þrenginguna miklu. Stríðið við Harmagedón markar endalok þessa heimskerfis. Við höfum þó ekkert að óttast. Hvers vegna? Þetta verður stríð Guðs. (Orðskv. 1:33; Esek. 38:18–20; Sak. 14:3) Þegar Jehóva gefur merki ræðst himneskur her hans til bardaga undir forystu Jesú. Með honum verða hinir andasmurðu, sem hafa fengið upprisu, ásamt milljónum engla. Saman heyja þeir stríð gegn Satan og illum öndum hans og herjum þeirra á jörðinni. – Dan. 12:1; Opinb. 6:2; 17:14.
18. (a) Hverju hefur Jehóva lofað? (b) Hvað fullvissar Opinberunarbókin 7:9, 13–17 þig um varðandi framtíðina?
18 Jehóva hefur lofað: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt.“ (Jes. 54:17) „Mikill múgur“ trúfastra tilbiðjenda Jehóva kemur lifandi „úr þrengingunni miklu“ og heldur áfram að þjóna honum. (Lestu Opinberunarbókina 7:9, 13–17.) Biblían gefur okkur ríka ástæðu til að treysta á björgun Jehóva í framtíðinni. Við vitum að hann „varðveitir hina trúföstu“. (Sálm. 31:24) Allir sem elska og lofa Jehóva munu gleðjast yfir því að sjá hann hreinsa heilagt nafn sitt af öllum ákærum. – Esek. 38:23.
19. Hvaða dásamlega framtíð bíður okkar bráðlega?
19 Ímyndaðu þér hvernig 2. Tímóteusarbréf 3:2–5 gæti hljómað ef verið væri að lýsa fólki í nýja heiminum sem er laust undan áhrifum Satans. (Sjá rammann „Menn verða ...“) Bróðir George Gangas, sem sat í stjórnandi ráði, lýsti því þannig: „Heimurinn verður dásamlegur staður þegar allir tilbiðja Jehóva! Þú færð fljótlega tækifæri til að lifa í nýjum heimi. Þú færð að lifa jafn lengi og Jehóva. Við fáum að lifa að eilífu.“ Hvílík framtíðarsýn!
SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg
a Við vitum að mannkynið gengur bráðlega í gegnum ,mikla þrengingu‘. Hvernig mun okkur vegna? Hvað ætlast Jehóva til að við gerum á þeim tíma? Hvaða eiginleika þurfum við að styrkja núna til að geta verið trúföst? Þessum spurningum er svarað í greininni.
b ORÐASKÝRING: Kristni heimurinn samanstendur af kirkjufélögum sem segjast vera kristin en kenna fólki ekki að tilbiðja Jehóva í samræmi við meginreglur hans.
c ORÐASKÝRING: Hugtakið Góg í Magóg (eða Góg) vísar til bandalags þjóða sem mun berjast gegn sannri tilbeiðslu í þrengingunni miklu.
d Sjá greinarnar „Seg þú okkur, hvenær verður þetta?“ í Varðturninum 15. júlí 2013, „Lausn ykkar er í nánd“ í Varðturninum 15. júlí 2015 og 21. kafla bókarinnar Ríki Guðs stjórnar til að fá nánari upplýsingar um atburðina í aðdraganda Harmagedón.
e Stef umdæmismótsins 2019 er „Kærleikurinn bregst aldrei“. Mótið á eftir að styrkja þá sannfæringu okkar að við erum alltaf örugg undir kærleiksríkri vernd Jehóva. – 1. Kor. 13:8.
f MYND: Í þrengingunni miklu hefur lítill hópur hugrakkra votta komið saman í skógi til að halda samkomu.
g MYND: Mikill múgur trúfastra og glaðra tilbiðjenda Jehóva kemur lifandi úr þrengingunni miklu.