Sextándi kafli
Endalok konunganna tveggja nálgast
1, 2. Hver tók við hlutverki konungsins norður frá eftir síðari heimsstyrjöldina?
FRANSKI heimspekingurinn og sagnfræðingurinn Alexis de Tocqueville lýsti hinu pólitíska andrúmslofti Bandaríkjanna og Rússlands svo árið 1835: „Frelsi er aðalverkfæri annars þeirra; ánauð verkfæri hins. Þau . . . fara ólíkar leiðir en engu að síður virðist það leynilegur ásetningur forsjónarinnar að þau eigi einhvern tíma að hafa örlög hálfrar heimsbyggðarinnar í hendi sér.“ Hvernig rættist þessi forspá í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar? Sagnfræðingurinn J. M. Roberts segir: „Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar leit loks út fyrir að örlög heimsins væru í höndum tveggja öflugra og afar ólíkra valdakerfa. Annað var með bækistöðvar þar sem áður var Rússland, hitt í Bandaríkjum Norður-Ameríku.“
2 Í heimsstyrjöldunum tveim hafði Þýskaland verið erkióvinur konungsins suður frá, sem var ensk-ameríska heimsveldið, og hafði þá verið í hlutverki konungsins norður frá. En eftir síðari heimsstyrjöldina var Þýskaland tvískipt. Vestur-Þýskaland varð bandamaður konungsins suður frá og Austur-Þýskaland skipaði sér með annarri voldugri þjóðaheild — kommúnísku þjóðafylkingunni undir forystu Sovétríkjanna. Þessi þjóðafylking reis upp sem konungur norðursins og var öflugur andstæðingur ensk-ameríska bandalagsins. Og samkeppni þessara tveggja konunga varð að köldu stríði sem stóð allt frá 1948 til 1989. Áður hafði hinn þýski konungur norðursins beitt sér „gegn hinum heilaga sáttmála.“ (Daníel 11:28, 30) Hvernig myndi kommúníska þjóðafylkingin koma fram gagnvart sáttmálanum?
SANNKRISTNIR MENN FALLA EN STANDA STÖÐUGIR
3, 4. Hverjir eru það sem „syndga gegn sáttmálanum“ og hvernig samband hafa þeir átt við konunginn norður frá?
3 „Þá sem syndga gegn sáttmálanum, mun hann [konungurinn norður frá] með fláttskap tæla til fráhvarfs,“ segir engill Guðs, „en þeir menn, sem þekkja Guð sinn, munu stöðugir standa og drýgja dáð. Hinir vitru meðal lýðsins munu kenna mörgum hyggindi, en um hríð munu þeir falla fyrir sverði og báli, fyrir herleiðingum og fjárránum.“ — Daníel 11:32, 33.
4 Þeir sem „syndga gegn sáttmálanum“ hljóta að vera leiðtogar kristna heimsins sem segjast vera kristnir en óvirða nafn kristninnar með verkum sínum. „[Í síðari heimsstyrjöldinni] reyndi sovéska stjórnin að tryggja sér fjárhagslegan og siðferðilegan stuðning kirknanna til varnar fósturjörðinni,“ segir Walter Kolarz í bók sinni Religion in the Soviet Union. Eftir stríðið reyndu kirkjuleiðtogar að viðhalda þessari vináttu, þrátt fyrir guðleysisstefnu þess veldis sem var núna konungur norðursins. Þannig varð kristni heimurinn í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr hluti af þessum heimi, en það var viðurstyggilegt fráhvarf í augum Jehóva. — Jóhannes 17:16; Jakobsbréfið 4:4.
5, 6. Hverjir voru það sem ‚þekktu Guð sinn‘ og hvernig vegnaði þeim undir stjórn konungsins norður frá?
5 Hvað um sannkristna menn, þá sem voru ‚vitrir‘ og ‚þekktu Guð sinn‘? Þótt kristnir menn á yfirráðasvæði konungsins norður frá væru ‚yfirvöldum undirgefnir‘ eins og vera bar tilheyrðu þeir ekki þessum heimi. (Rómverjabréfið 13:1; Jóhannes 18:36) Þeir gættu þess að gjalda „keisaranum það, sem keisarans er,“ en guldu jafnframt „Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 22:21) Þetta reyndi mjög á ráðvendni þeirra. — 2. Tímóteusarbréf 3:12.
6 Afleiðingin var sú að kristnir menn bæði ‚féllu‘ og ‚stóðu stöðugir.‘ Þeir féllu í þeim skilningi að þeir voru ofsóttir grimmilega og sumir jafnvel drepnir, en þeir stóðu stöðugir í þeim skilningi að langflestir voru trúfastir. Þeir sigruðu heiminn alveg eins og Jesús. (Jóhannes 16:33) Og þeir hættu aldrei að prédika, jafnvel þótt þeir væru í fangelsi eða fangabúðum. Þannig ‚kenndu þeir mörgum hyggindi.‘ Vottum Jehóva fjölgaði þrátt fyrir ofsóknir í flestum löndum sem konungurinn norður frá réð yfir. Svo er trúfesti ‚hinna vitru‘ fyrir að þakka að ‚múginum mikla‘ hefur fjölgað jafnt og þétt í þessum löndum. — Opinberunarbókin 7:9-14.
FÓLK JEHÓVA ER HREINSAÐ
7. Hvaða ‚dálitla hjálp‘ fengu smurðir kristnir menn sem bjuggu á áhrifasvæði konungsins norður frá?
7 „Þá er þeir [fólk Guðs] falla, mun þeim veitast dálítil hjálp,“ segir engillinn. (Daníel 11:34a) Sigur konungsins suður frá í síðari heimsstyrjöldinni jók nokkuð frjálsræði kristinna manna á valdasvæði keppinautar hans. (Samanber Opinberunarbókina 12:15, 16.) Það rofaði líka til endrum og eins hjá þeim sem sættu ofsóknum arftaka hans. Er leið að lokum kalda stríðsins rann upp fyrir mörgum stjórnendum að þeim stafaði engin hætta af trúföstum kristnum mönnum og veittu þeim lagalega viðurkenningu. Einnig var mikil hjálp í hinum ört stækkandi mikla múgi sem brást vel við dyggilegri prédikun hinna smurðu og gekk til liðs við þá. — Matteus 25:34-40.
8. Hvernig gengu sumir til liðs við fólk Guðs „af yfirdrepskap“?
8 Ekki gekk þó öllum gott til sem létust hafa áhuga á að þjóna Guði á árum kalda stríðsins. Engillinn hafði sagt: „Þá munu margir fylla flokk þeirra af yfirdrepskap.“ (Daníel 11:34b) Töluvert margir sýndu áhuga á sannleikanum en voru ekki fúsir til að vígjast Guði. Sumir virtust taka við fagnaðarerindinu en voru í reynd njósnarar yfirvalda. Í skýrslu frá einu landi segir: „Sumir þessara ófyrirleitnu manna voru svarnir kommúnistar sem höfðu læðst inn í skipulag Drottins, flaggað mikilli kostgæfni og jafnvel verið skipaðir í háar þjónustustöður.“
9. Af hverju leyfði Jehóva að sumir trúfastir kristnir menn ‚féllu‘ af völdum laumumanna?
9 Engillinn heldur áfram: „En þar sem nokkrir af hinum vitru falla, þá er það til að skíra, reyna og hreinsa aðra meðal þeirra, allt til endalokanna, því að hinn ákveðni tími er enn ekki liðinn.“ (Daníel 11:35) Laumumennirnir urðu þess valdandi að sumir hinna trúföstu féllu í hendur yfirvalda. Jehóva leyfði þetta til að fága og hreinsa fólk sitt. Þessir trúföstu menn lærðu þolgæði af trúarraunum sínum eins og Jesús „lærði . . . hlýðni af því, sem hann leið.“ (Hebreabréfið 5:8; Jakobsbréfið 1:2, 3; samanber Malakí 3:3.) Þannig voru þeir ‚skírðir, reyndir og hreinsaðir.‘
10. Hvað merkja orðin „allt til endalokanna“?
10 Þjónar Jehóva áttu að falla og hreinsast „allt til endalokanna.“ Þeir búast auðvitað við ofsóknum uns þetta illa heimskerfi líður undir lok. En hreinsun og fágun fólks Guðs vegna átroðnings konungsins norður frá á sér stað á ‚hinum ákveðna tíma.‘ ‚Endalokin‘ í Daníel 11:35 hljóta því að vera endir þess tímabils sem þarf til að hreinsa þjóna Guðs meðan þeir búa við árásir konungsins norður frá. Þeir hættu greinilega að falla á ‚ákveðnum tíma‘ Jehóva.
KONUNGURINN OFMETNAST
11. Hvað sagði engillinn um afstöðu konungsins norður frá til drottinvalds Jehóva?
11 Engillinn heldur áfram og segir um konung norðursins: „Konungurinn mun fram fara eftir geðþótta sínum. Hann mun hefja sig upp yfir og ofmetnast gegn sérhverjum guði og mæla afaryrði í gegn Guði guðanna [með því að neita að viðurkenna drottinvald Jehóva]. Og hann mun giftudrjúgur verða þar til reiðinni er lokið, því að það, sem ályktað hefir verið, er þá fram komið. Og hann mun ekki skeyta guðum feðra sinna, né heldur uppáhaldsgoði kvennanna, já, engum guði mun hann skeyta, heldur hreykja sér yfir allt.“ — Daníel 11:36, 37.
12, 13. (a) Hvernig hafnaði konungur norðursins „guðum feðra sinna“? (b) Hverjar voru ‚konurnar‘ sem konungur norðursins skeytti ekki um? (c) Hvaða „guð“ heiðraði konungur norðursins?
12 Konungur norðursins uppfyllti þessi spádómsorð með því að hafna „guðum feðra sinna,“ svo sem þrenningarguðdómi kristna heimsins. Kommúníska þjóðafylkingin beitti sér fyrir hreinni guðleysisstefnu. Þar með gerði konungurinn norður frá sjálfan sig að guði og ‚ofmetnaðist gegn öllum.‘ Hann fór fram „eftir geðþótta sínum“ og skeytti ekki um ‚uppáhaldsgoð kvennanna‘ — undirgefinna ríkja líkt og Norður-Víetnams sem voru eins og þernur þess stjórnarfars sem hann beitti sér fyrir.
13 Engillinn heldur spádóminum áfram og segir: „En guð virkjanna mun hann í stað þess heiðra, guð, sem feður hans þekktu ekki, mun hann heiðra, með gulli og silfri, með dýrum steinum og gersemum.“ (Daníel 11:38) Konungur norðursins setti reyndar traust sitt á tæknivædda hernaðarstefnu sem kölluð er „guð virkjanna.“ Hann leitaði sér hjálpræðis hjá þessum ‚guði‘ og fórnaði gífurlegum auðæfum á altari hans.
14. Hvernig ‚aflaði konungur norðursins sér manna‘?
14 „Í hin rammgjörðu vígin mun hann afla sér manna, er tilheyra útlendum guði. Þeim sem hann viðurkenna, mun hann veita mikla sæmd og láta þá ríkja yfir mörgum og úthluta þeim landi að verðlaunum.“ (Daníel 11:39) Konungurinn norður frá treysti á ‚útlendan guð,‘ herveldisstefnu sína, ‚aflaði sér manna‘ og varð hið ógurlegasta herveldi á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þeim sem studdu hugmyndafræði hans var umbunað með stjórnmálalegum, efnahagslegum og stundum hernaðarlegum stuðningi.
‚STIMPINGAR‘ Á ENDALOKATÍMANUM
15. Hvernig hefur konungur suðursins „stimpast við“ konung norðursins?
15 „Þegar að endalokunum líður, mun konungurinn suður frá heyja stríð við hann [„stimpast við hann,“ samkvæmt nákvæmri þýðingu frumtextans],“ segir engillinn við Daníel. (Daníel 11:40a) Hefur konungur suðursins „stimpast við“ konunginn norður frá á ‚endalokatímanum‘? (Daníel 12:4, 9) Svo sannarlega. Með refsiákvæðum friðarsamningsins, sem beitt var eftir fyrri heimsstyrjöldina gegn Þýskalandi, þáverandi konungi norðursins, var vissulega verið að stjaka við honum og espa hann til að hefna sín. Eftir sigurinn í síðari heimsstyrjöldinni miðaði konungurinn suður frá ógurlegum kjarnavopnum á keppinaut sinn og stofnaði öflugt hernaðarbandalag gegn honum, Atlantshafsbandalagið (NATO). Breskur sagnfræðingur segir um hlutverk Atlantshafsbandalagsins: „Það var helsta tækið til að halda Sovétríkjunum í skefjum en þau voru nú álitin helsta ógnin við frið í Evrópu. Það gegndi þessu hlutverki með ágætum í 40 ár.“ Á árum kalda stríðsins ‚stimpaðist‘ konungur suðursins einnig við keppinaut sinn með háþróaðri njósnatækni, auk þess að áreita hann stjórnmálalega og hernaðarlega.
16. Hvernig brást konungur norðursins við áreitni konungsins suður frá?
16 Hvernig brást konungur norðursins við? „Konungurinn norður frá mun þeysast í móti honum með vögnum, riddurum og mörgum skipum, og brjótast inn í lönd hans og vaða yfir þau og geysast áfram.“ (Daníel 11:40b) Konungur norðursins hefur rekið áberandi útþenslustefnu á hinum síðustu dögum. Í síðari heimsstyrjöldinni óð hinn nasíski ‚konungur‘ út yfir landamæri sín inn í nærliggjandi lönd. Að stríðinu loknu byggði arftaki hans upp öflugt heimsveldi. Í kalda stríðinu barðist konungur norðursins óbeint við keppinaut sinn í staðbundnum átökum og uppreisnum í Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku þar sem þeir studdu gagnstæðar fylkingar. Konungurinn norður frá ofsótti sannkristna menn með því að tálma starfi þeirra án þess þó að stöðva það. Og með hernaðarlegum og pólitískum yfirgangi sínum náði hann fjölda landa undir áhrifavald sitt. Það var einmitt það sem engillinn hafði spáð: „Þá mun hann og brjótast inn í það landið, sem er prýði landanna [hin andlega landareign fólks Jehóva], og tíþúsundir munu að velli lagðar [í þeirri merkingu að hann nær mörgum löndum undir áhrif sín].“ — Daníel 11:41a.
17. Hvaða takmörk voru sett á útþenslustefnu konungsins norður frá?
17 En konungur norðursins náði ekki heimsyfirráðum. Engillinn boðaði: „Þessir munu bjarga sér undan hendi hans: Edómítar, Móabítar og kjarni Ammóníta.“ (Daníel 11:41b) Í fornöld lágu Edóm, Móab og Ammón á milli Egyptalandskonungs í suðri og Sýrlandskonungs í norðri. Í nútímanum tákna þau þjóðir, stofnanir og samtök sem konungurinn norður frá beindi spjótum sínum að en tókst ekki að ná á sitt vald.
EGYPTALAND KEMST EKKI UNDAN
18, 19. Hvernig fann konungurinn suður frá fyrir áhrifum keppinautar síns?
18 Engill Jehóva heldur áfram: „Hann [konungurinn norður frá] mun rétta hönd sína út yfir löndin, og Egyptaland mun ekki komast undan. Hann mun kasta eign sinni á fjársjóðu Egyptalands af gulli og silfri og á allar gersemar þess, og Líbýumenn og Blálendingar munu vera í för með honum.“ (Daníel 11:42, 43) Útþenslustefna konungsins norður frá hafði jafnvel áhrif á „Egyptaland,“ konunginn suður frá. Hann beið til dæmis mikinn ósigur í Víetnam. Og hvað um ‚Líbýumenn og Blálendinga‘? Þessir nágrannar Egypta að fornu geta hæglega táknað þjóðir sem eru landfræðilega séð grannþjóðir „Egyptalands“ nútímans (konungsins suður frá). Stundum hafa þær ‚verið í för með‘ konungi norðursins með því að fylgja honum að málum.
19 Hefur konungur norðursins ráðið yfir ‚fjársjóðum Egyptalands‘? Hann hefur svo sannarlega haft mikil áhrif á það hvernig konungur suðursins hefur notað fjármuni sína. Sökum ótta við keppinaut sinn hefur konungurinn suður frá varið gífurlegum fjármunum í að halda uppi öflugum landher, sjóher og flugher. Að því leyti má segja að konungurinn norður frá hafi ‚kastað eign sinni á‘ auðæfi konungsins suður frá.
HINSTA HERFÖRIN
20. Hvernig lýsir engillinn hinstu herför konungsins norður frá?
20 Keppni konunganna norður frá og suður frá er senn á enda, jafnt hernaðarleg, efnahagsleg sem og annars konar. Engill Jehóva lýsir átökum framtíðarinnar og segir: „En fregnir frá austri og norðri munu skelfa hann [konunginn norður frá]. Mun hann þá í mikilli bræði hefja ferð sína til þess að eyða og tortíma mörgum. Hann mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði. Þá mun hann undir lok líða og enginn hjálpa honum.“ — Daníel 11:44, 45.
21. Hvað vitum við ekki enn um konunginn norður frá?
21 Það var alvarlegt áfall fyrir konunginn norður frá þegar Sovétríkin liðuðust sundur í desember 1991. Hver verður þessi konungur þegar Daníel 11:44, 45 rætist? Verður hann eitt þeirra ríkja sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum? Eða tekur einhver annar við hlutverki hans eins og gerst hefur nokkrum sinnum áður? Fer nýtt vígbúnaðarkapphlaup af stað þegar fleiri þjóðir koma sér upp kjarnavopnum, og á það eftir að hafa áhrif á það hver fari með hlutverk þessa konungs? Tíminn einn getur svarað þessum spurningum. Það er hyggilegt af okkur að vera ekki með getgátur um það. Þegar konungurinn norður frá leggur upp í hinstu herför sína verður uppfylling spádómsins augljós öllum sem búa yfir biblíulegum skilningi. — Sjá „Konungarnir í 11. kafla Daníelsbókar,“ á bls. 284.
22. Hvaða spurningar vakna um lokaárás konungsins norður frá?
22 Við vitum þó hvað konungur norðursins gerir bráðlega. „Fregnir frá austri og norðri munu skelfa hann“ svo að hann leggur upp í herför ‚til þess að eyða mörgum.‘ Gegn hverjum fer hann og hvaða „fregnir“ eru kveikjan að þessari árás?
FREGNIR SKELFA HANN
23. (a) Hvaða stórviðburður á sér stað fyrir Harmagedón? (b) Hverjir eru ‚konungarnir úr austri‘?
23 Athugum hvað Opinberunarbókin segir um endalok Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. Þessi mikli óvinur sannrar guðsdýrkunar verður ‚í eldi brenndur‘ í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ sem nefnt er Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16; 18:2-8) Eyðingin er boðuð þannig að hellt er úr sjöttu reiðiskál Guðs yfir hið táknræna Efratfljót. Fljótið þornar upp svo að ‚vegur sé búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri.‘ (Opinberunarbókin 16:12) Hvaða konungar eru þetta? Engir aðrir en Jehóva Guð og Jesús Kristur. — Samanber Jesaja 41:2; 46:10, 11.
24. Hvaða aðgerð Jehóva kann að koma konungi norðursins úr jafnvægi?
24 Eyðingu Babýlonar hinnar miklu er lýst á skýru og lifandi máli í Opinberunarbókinni sem segir: „Hornin tíu, sem þú sást [þeir konungar sem eru við völd á endalokatímanum], og dýrið [Sameinuðu þjóðirnar], munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:16) Af hverju eyða valdhafarnir Babýlon hinni miklu? Af því að ‚Guð leggur þeim í brjóst að gera vilja sinn.‘ (Opinberunarbókin 17:17) Einn þessara valdhafa er konungurinn norður frá. Vera má að fregnirnar „frá austri“ vísi til þessa verks Jehóva að leggja mennskum leiðtogum í brjóst að gereyða trúarskækjunni miklu.
25. (a) Hverjir eru sérstakt skotmark konungsins norður frá? (b) Hvar mun konungur norðursins „slá skrauttjöldum sínum“?
25 En hinn heiftúðugi konungur norður frá á sér sérstakt skotmark. Hann „mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði,“ segir engillinn. Á tímum Daníels var hafið Miðjarðarhaf og fjallið helga var Síon þar sem musteri Guðs hafði staðið. Í uppfyllingu spádómsins fer hinn reiði konungur norðursins í herför gegn fólki Guðs. Í andlegum skilningi táknar staðurinn „milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði“ andlega landareign smurðra þjóna Jehóva. Þeir eru komnir úr ‚ólgusjó‘ mannkynsins, sem er fjarlægt Guði, og eiga þá von að ríkja á himnesku Síonfjalli með Jesú Kristi. — Jesaja 57:20; Hebreabréfið 12:22; Opinberunarbókin 14:1.
26. Hvaðan geta fregnirnar frá „norðri“ verið komnar samkvæmt spádómi Esekíels?
26 Esekíel, sem var samtíða Daníel, spáði líka að fólk Guðs yrði fyrir árás „á hinum síðustu dögum.“ Hann sagði að frumkvöðull árásarinnar yrði Góg frá Magóg, það er að segja Satan djöfullinn. (Esekíel 38:14, 16) Úr hvaða átt kemur Góg í táknrænum skilningi? „Lengst úr norðri,“ segir Jehóva fyrir munn Esekíels. (Esekíel 38:15) En þótt árásin sé grimmileg verður fólki Jehóva ekki tortímt. Þessi stórbrotni bardagi á sér stað vegna herkænsku Jehóva sem ætlar sér að gereyða hersveitum Gógs. Hann segir því við Satan: „Ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út.“ „[Ég skal] láta þig koma lengst úr norðri og leiða þig upp á Ísraels fjöll.“ (Esekíel 38:4; 39:2) Fregnirnar frá „norðri,“ sem konungur norðursins reiðist svo mjög, hljóta því að koma frá Jehóva. En það er Guð sem ákveður hverjar þessar „fregnir frá austri og norðri“ verða og það kemur í ljós síðar.
27. (a) Af hverju fær Góg þjóðirnar, þeirra á meðal konunginn norður frá, til að ráðast á fólk Jehóva? (b) Hvernig fer árás Gógs?
27 Góg ráðgerir allsherjarárás vegna þess hve „Ísrael Guðs“ og hinum ‚mikla múgi‘ ‚annarra sauða‘ vegnar vel. Þeir tilheyra ekki lengur heimi hans. (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16; 17:15, 16; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Góg horfir með óbeit á „þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér [í andlegum skilningi] búfjár og fjármuna.“ (Esekíel 38:12) Hann lítur á hina andlegu landareign kristinna manna sem auðunnið ‚bændabýlaland‘ og leggur allt í sölurnar til að afmá þessa hindrun í vegi þess að hann ráði algerlega yfir mannkyninu. En honum mistekst. (Esekíel 38:11, 18; 39:4) Þegar konungar jarðar, þeirra á meðal konungurinn norður frá, ráðast á fólk Jehóva ‚líða þeir undir lok.‘
‚KONUNGURINN LÍÐUR UNDIR LOK‘
28. Hvað vitum við um framtíð konunganna norður frá og suður frá?
28 Hinsta herför konungsins norður frá er ekki farin gegn konungi suðursins. Það er því ekki hinn mikli keppinautur hans sem ræður niðurlögum hans. Og það er ekki heldur konungurinn norður frá sem tortímir konunginum suður frá heldur er það ríki Guðs sem gerir það „án manna tilverknaðar.“a (Daníel 8:25) Reyndar ryður Guðsríki öllum konungum jarðar úr vegi í stríðinu við Harmagedón, og það er greinilega þannig sem fer fyrir konungi norðursins. (Daníel 2:44) Daníel 11:44, 45 lýsir atburðum sem eru aðdragandi þessa lokastríðs. Það er ekkert skrýtið að ‚enginn skuli hjálpa‘ konunginum norður frá þegar endalok hans ber að garði.
[Neðanmáls]
a Sjá 10. kafla þessarar bókar.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hver tók við hlutverki konungsins norður frá eftir síðari heimsstyrjöldina?
• Hvað verður að lokum um konunginn norður frá og konunginn suður frá?
• Hvaða gagn hefurðu haft af því að gefa gaum að spádómi Daníelsbókar um samkeppni konunganna tveggja?
[Tafla/mynd á blaðsíðu 284]
KONUNGARNIR Í 11. KAFLA DANÍELSBÓKAR
Konungurinn Konungurinn
norður frá suður frá
Daníel 11:5 Selevkos 1. Níkator Ptólemeos 1.
Daníel 11:6 Antíokos 2. Ptólemeos 2.
(eiginkona: Laódíka) (dóttir: Berníka)
Daníel 11:7-9 Selevkos 2. Ptólemeos 3.
Daníel 11:10-12 Antíokos 3. Ptólemeos 4.
Daníel 11:13-19 Antíokos 3. Ptólemeos 5.
(dóttir: Kleópatra 1.) Arftaki:
Arftakar: Ptólemeos 6.
Selevkos 4. og
Antíokos 4.
Daníel 11:20 Ágústus
Daníel 11:21-24 Tíberíus
Daníel 11:27-30a Þýska keisaradæmið Bretland og síðan
(fyrri heimsstyrjöldin) ensk-ameríska
heimsveldið
Daníel 11:30b, 31 Þriðja ríki Hitlers Ensk-ameríska
(síðari heimsstyrjöldin) heimsveldið
Daníel 11:32-43 Kommúníska þjóða- Ensk-ameríska
fylkingin (kalda stríðið) heimsveldið
Daníel 11:44, 45 Ókomiðb Ensk-ameríska
heimsveldið
[Neðanmáls]
b Spádómurinn í 11. kafla Daníelsbókar segir ekki fyrir um nöfn þeirra stjórnmálaafla sem gegna hlutverki konungsins norður frá og konungsins suður frá á ýmsum tímum. Þau koma ekki í ljós fyrr en eftir að atburðarásin hefst. Og þar eð átökin ganga í hrinum koma átakalaus tímabil inn á milli meðan annar konungurinn drottnar en hinn liggur í dvala.
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 271]
[Myndir á blaðsíðu 279]
Konungurinn suður frá hefur ‚stimpast við‘ keppinaut sinn, meðal annars með háþróaðri njósnatækni og hernaðarhótunum.