Hve langt austur gátu trúboðar farið?
TÆPLEGA 30 árum eftir dauða Jesú skrifaði Páll postuli að fagnaðarerindið hefði verið boðað „öllu sem skapað er í heiminum“. (Kólossubréfið 1:23) Ekki ber þó að taka orð hans bókstaflega í þeirri merkingu að hver einasta þálifandi manneskja hafi heyrt fagnaðarerindið. Engu að síður er ljóst hvað Páll á við: Kristnir trúboðar fluttu fagnaðarerindið víðs vegar um þann heim sem þá var þekktur.
Hve víða ætli trúboðarnir hafi getað ferðast? Í Biblíunni segir frá því að Páll hafi komist með kaupskipum allt vestur til Ítalíu til að boða fagnaðarerindið. Og þessi dugmikli trúboði vildi fara til Spánar til að boða trúna. — Postulasagan 27:1; 28:30, 31; Rómverjabréfið 15:28.
En hversu langt var hægt að ferðast í hina áttina? Hve langt austur á bóginn ætli trúboðar frumkristninnar hafi farið? Ekki er hægt að segja til um það með nokkurri vissu því að það er ósagt látið í Biblíunni. Það gæti hins vegar komið þér á óvart hve verslunarleiðir teygðu sig langt til austurs frá Miðjarðarhafi á fyrstu öld. Þessar verslunarleiðir gefa að minnsta kosti til kynna að það voru góðir möguleikar á að ferðast býsna langt í austurátt.
Arfleifð Alexanders mikla
Alexander mikli fór um Babýloníu og Persíu og lagði undir sig lönd allt austur til Punjab á norðanverðu Indlandi. Þessir leiðangrar gáfu Grikkjum tækifæri til að kynnast strandlengjunni allt frá ósum Efratar við Persaflóa austur að ósum Indusar.
Brátt fóru kryddjurtir og reykelsi að streyma úr austri um Indlandshaf og Rauðahaf. Í fyrstu var þessi verslun í höndum indverskra og arabískra kaupmanna. En þegar Ptólemear í Egyptalandi uppgötvuðu leyndardóma monsúnvindanna bættust þeir í hópinn og fóru að stunda verslun um Indlandshaf.
Á Indlandshafi blæs staðvindur úr suðvestri frá maí til september og þá er hægt að sigla frá suðurenda Rauðahafs meðfram suðurströnd Arabíuskagans eða beinustu leið til suðurhluta Indlands. Frá nóvember til mars snýst vindáttin við og þá er auðvelt að sigla til baka. Arabískir og indverskir sjómenn höfðu öldum saman nýtt sér vitneskju sína á eðli monsúnvindanna og siglt fram og aftur milli Indlands og Rauðahafs og flutt með sér kanil, nardus og pipar.
Sjóleiðir til Alexandríu og Rómar
Þegar Rómverjar lögðu undir sig þau lönd, sem arftakar Alexanders höfðu ráðið, varð Róm helsti markaður fyrir munaðarvörur frá Austurlöndum — fílabein frá Afríku, reykelsi og myrru frá Arabíu, kryddjurtir og dýra steina frá Indlandi og jafnvel silki frá Kína. Kaupskip fluttu þessar vörur aðallega til tveggja hafna á Rauðahafsströnd Egyptalands, Berenice og Myos Hormos. Þaðan lá flutningaleið á landi til Coptos við Nílarfljót.
Frá Coptos voru vörurnar fluttar niður eftir Níl, aðalsamgönguæð Egyptalands, til Alexandríu þar sem þeim var umskipað og þær fluttar sjóleiðis til Ítalíu eða annarra staða. Einnig var hægt að flytja vörur til Alexandríu um skipaskurð sem tengdi Níl og norðurenda Rauðahafs, skammt frá borginni Súes sem nú er. Egyptaland og hafnarborgirnar þar voru ekki langt frá þeim löndum þar sem Jesús boðaði fagnaðarerindið, og greiðar samgöngur þar á milli.
Gríski landfræðingurinn Strabó, sem var uppi á fyrstu öld, segir að í sinni tíð hafi 120 Alexandríuskip siglt árlega með varning milli Indlands og Myos Hormos. Til er siglingahandbók frá fyrstu öld um þetta svæði. Hún var sennilega skrifuð af grískumælandi kaupmanni frá Egyptalandi til gagns fyrir aðra kaupmenn. Hvað má ráða af þessari ævafornu bók?
Handbók þessi er oft nefnd latneska heitinu Periplus Maris Erythraei (Sigling um Erítreuhaf) og í henni er lýst sjóleiðum sem teygja sig þúsundir kílómetra suður frá Egyptalandi, allt til Sansibar. Höfundur lýsir siglingaleiðum til austurs og tíundar vegalengdir, skipalægi, verslunarstaði, verslunarvörur og lunderni heimamanna meðfram suðurströnd Arabíu, vesturströnd Indlands og allt til Srí Lanka, og síðan upp með austurströnd Indlands allt að ósum Ganges. Nákvæmar og skýrar lýsingar bókarinnar benda til þess að höfundurinn hafi sjálfur komið til staðanna sem hann lýsir.
Vestrænir menn á Indlandi
Á Indlandi voru vestrænir kaupmenn kallaðir Javanar. Samkvæmt handbókinni Periplus var einn af föstum viðkomustöðum þeirra á fyrstu öld hafnarborgin Muziris nálægt suðurodda Indlands.a Ljóð frá fyrstu öldum okkar tímatals, ort á tamíl, minnast æ ofan í æ á þessa kaupmenn. „Hin fögru skip Javana fluttu hingað gull og sneru heim með pipar, og háreystin ómaði um Muziris,“ segir í einu ljóðinu. Í öðru er prins á sunnanverðu Indlandi hvattur til að drekka ilmandi vín sem Javanar hafi komið með. Af öðrum varningi, sem var eftirsóttur á Indlandi, má nefna glervörur, málma, kóralla og vefnaðarvöru.
Fornleifafræðingar hafa fundið margar vísbendingar um að vörur frá Miðjarðarhafslöndum hafi verið fluttar til Indlands. Sem dæmi má nefna að í Arikamedu á suðausturströnd Indlands hafa fundist brot úr rómverskum vínkrukkum og diskum með stimpli leirkerasmiðanna sem framleiddu gripina í Arezzo á Mið-Ítalíu. „Hugur rannsóknarmannsins fer á flug þegar hann lyftir upp úr árseti Bengalflóa leirbrotum með nöfnum iðnaðarmanna sem áttu brennsluofna í útjaðri Arezzo,“ segir í bók einni. Það vitnar einnig um viðskipti milli Miðjarðarhafslanda og Indlands að fundist hefur mikið af rómverskum gull- og silfurpeningum á sunnanverðu Indlandi. Flestir peningarnir eru frá fyrstu öld okkar tímatals og eru með mynd Ágústusar, Tíberíusar og Nerós Rómarkeisara.
Af fornu korti má ráða að rómverskir borgarar hafi hugsanlega stofnað varanlegar verslunarnýlendur á sunnanverðu Indlandi. Kortið er nefnt Tabula Peutingeriana og til er afrit af því frá miðöldum. Það er talið sýna hinn rómverska heim eins og hann var á fyrstu öld, og samkvæmt því stóð Ágústusarmusteri í Muziris. „Slík bygging getur ekki hafa verið reist af öðrum en þegnum Rómaveldis, sennilega þegnum sem bjuggu í Muziris eða dvöldu þar langdvölum.“ — Rome’s Eastern Trade: International Commerce and Imperial Policy, 31 BC–AD 305.
Í rómverskum heimildum er getið um að minnsta kost þrjár indverskar sendinefndir sem komu til Rómar meðan Ágústus var við völd en það var á árabilinu 27 f.Kr. til 14 e.Kr. „Þessar sendinefndir komu í stjórnmálalegum tilgangi,“ segir í bók um málið. Tilgangurinn var sá að semja um hvar viðskipti milli þjóða mættu fara fram, hvar hægt væri að skattleggja, hvar útlendingar mættu búa og þar fram eftir götunum.
Ferðalög milli Miðjarðarhafslanda og Indlands virðast því hafa verið algeng á fyrstu öld okkar tímatals. Það hefur ekki verið neinum vandkvæðum bundið fyrir kristinn trúboða að stíga á skipsfjöl við norðurenda Rauðahafs og sigla til Indlands.
Austur fyrir Indland?
Erfitt er að vita með vissu hve langt kaupmenn frá Miðjarðarhafslöndum hafa hætt sér austur fyrir Indland og hve snemma. Þó er talið að á fyrstu öld hafi sumir vestrænir menn farið allt austur til Taílands, Kambódíu, Súmötru og Jövu.
Ein slík ferð er tímasett í annálum síðari Han-keisaraættarinnar (Hou Han-Shou) sem ná yfir tímabilið frá 23 til 220 e.Kr. Árið 166 kom sendinefnd frá An-tun, konungi í Daqin, til kínversku hirðarinnar og færði Huan-ti keisara gjafir. Kínverjar nefndu Rómaveldi Daqin og An-tun virðist vera kínversk útgáfa nafnsins Antonínus en það var ættarnafn Markúsar Árelíusar sem var keisari í Róm á þeim tíma. Sagnfræðingar geta sér þess til að hér hafi ekki verið um opinbera sendiför að ræða heldur tilraun vestrænna kaupmanna til að kaupa silki beint frá Kína í stað þess að kaupa það af milliliðum.
En víkjum aftur að hinni upphaflegu spurningu: Hve langt austur gætu kristnir trúboðar á fyrstu öld hafa komist? Til Indlands eða austar? Það er hugsanlegt. Að minnsta kosti barst boðskapur kristninnar nógu langt til þess að Páll gat sagt að hann ‚hefði borist til alls heimsins‘ — það er að segja til fjarlægra kima þess heims sem var þekktur á þeim tíma. — Kólossubréfið 1:6.
[Neðanmáls]
a Ekki er vitað með vissu hvar Muziris stóð en fræðimenn telja það hafa verið við ósa árinnar Periyar í Keralaríki.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 30]
Keisari kvartar
Það er árið 22 að Tíberíus Rómarkeisari harmar taumlaust óhóf samlanda sinna. Með gegndarlausri fíkn þeirra í munað og hóflausri sókn heldri kvenna í Róm eftir skartgripum var auðæfum ríkisins sóað og þeim dreift til „framandi eða fjandsamlegra þjóða“. Rómverski sagnaritarinn Plíníus eldri (23-79) kvartar einnig undan áþekkum útgjöldum. Hann skrifaði: „Sé miðað við allra lægsta útreikning taka Indland, Seres og Arabíuskagi frá ríkinu eitt hundrað milljónir sesterta á ári hverju — svo hátt gjald greiðum við fyrir munaðinn og konur okkar.“b
[Neðanmáls]
b Sérfræðingar hafa reiknað út að 100 milljónir sesterta hafi jafngilt 2 prósentum af landsframleiðslu Rómaveldis.
[Credit line]
Museo della Civiltà Romana, Róm; Todd Bolen/Bible Places.com
[Rammi/mynd á blaðsíðu 31]
Hvar leituðu kaupmenn fanga?
Jesús talaði um ‚kaupmann sem leitaði að fögrum perlum‘ og á þar við farandkaupmann. (Matteus 13:45) Í Opinberunarbókinni er sömuleiðis talað um „kaupmenn jarðarinnar“ sem versluðu með farma af gimsteinum, silki, ilmviði, fílabeini, kanelberki, reykelsi og balsam. (Opinberunarbókin 18:11-13) Þessar vörur fengust á verslunarleiðum austur af Palestínu. Ilmviður svo sem sandalviður var fluttur frá Indlandi. Dýrmætar perlur fengust við Persaflóa og Rauðahaf, og einnig í nágrenni Muziris og á Srí Lanka, að því er höfundur Periplus Maris Erythraei segir. Bestar og verðmætastar voru trúlega perlur frá Indlandshafi.
[Kort á blaðsíðu 28, 29]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
Nokkrar af verslunarleiðunum milli Rómar og Asíu á fyrstu öld.
Arezzo
Róm
MIÐJARÐARHAF
AFRÍKA
Alexandría
EGYPTALAND
Coptos
Níl
Myos Hormos
Berenice
Sansibar
Rauðahaf
Jerúsalem
ARABÍA
Efrat
BABÝLONÍA
Persaflói
PERSÍA
↓ Norðaustlægur monsúnvindur
↑ Suðvestlægur monsúnvindur
Indus
PUNJAB
Ganges
Bengalflói
INDLAND
Arikamedu
Muziris
SRÍ LANKA
INDLANDSHAF (ERÍTREUHAF)
KÍNA
HAHN- KEISARADÆMIÐ
TAÍLAND
KAMBÓDÍA
VÍETNAM
Súmatra
Java
[Mynd á blaðsíðu 29]
Líkan af rómversku kaupskipi.
[Credit line]
Skip: Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.