Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Opinberunarbókarinnar — síðari hluti
HVAÐ er fram undan hjá þeim sem tilbiðja Jehóva Guð og þeim sem gera það ekki? Hvað bíður Satans og illu andanna? Hvaða blessun hljóta hlýðnir menn í þúsundáraríki Krists? Svörin við þessum og fleiri mikilvægum spurningum er að finna í Opinberunarbókinni 13:1–22:21.a Í þessum köflum er að finna síðustu 9 sýnirnar af þeim 16 sem Jóhannes postuli fékk að sjá undir lok fyrstu aldar.
„Sæll er sá er les þessi spádómsorð og sælir eru þeir sem heyra þau,“ skrifar Jóhannes, „og sæll er sá sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar.“ (Opinb. 1:3; 22:7) Með því að lesa Opinberunarbókina og fara eftir henni getum við styrkt trú okkar og löngunina til að þóknast Guði og syni hans, Jesú Kristi, og það getur gefið okkur bjarta framtíðarvon.b — Hebr. 4:12.
HELLT ÚR SJÖ SKÁLUM REIÐI GUÐS
„Þjóðirnar reiddust og reiði [Guðs] kom og tíminn . . . til að eyða þeim sem jörðina eyða,“ segir í Opinberunarbókinni 11:18. Af áttundu sýninni má sjá að þetta tengist ‚dýri‘ nokkru sem hafði „tíu horn og sjö höfuð“. — Opinb. 13:1.
Jóhannes segir svo frá því sem hann sá í níundu sýninni: „Lambið stóð á Síonarfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir.“ Síðan segir hann: „Þeir voru leystir úr hópi manna.“ (Opinb. 14:1, 4) Í kjölfarið fylgir boðskapur sem englar flytja. Í næstu sýn sér Jóhannes „sjö engla sem höfðu sjö síðustu plágurnar“. Það er greinilega Jehóva sjálfur sem segir englunum að hella úr hinum sjö „skálum Guðs reiði yfir jörðina“, það er að segja yfir ýmislegt sem tilheyrir heimi Satans. Í skálunum eru yfirlýsingar og viðvaranir sem lúta að dómum Guðs. (Opinb. 15:1; 16:1) Í þessum tveim sýnum er að finna ítarlegar upplýsingar um aðra dóma sem tengjast þriðju plágunni og því að sjöundi engillinn básúnar. — Opinb. 11:14, 15.
Biblíuspurningar og svör:
13:8 — Hver er „lífsbók lambsins“? Þessi táknræna bók inniheldur aðeins nöfn þeirra sem ríkja með Jesú Kristi á himnum. Þar á meðal eru nöfn andasmurðra kristinna manna sem eru enn á jörðinni en eiga von um að lifa á himnum.
13:11-13 — Í hvaða merkingu talar tvíhyrnda dýrið eins og dreki og lætur eld falla af himni ofan? Tvíhyrnda dýrið er ensk-ameríska heimsveldið. Það talar eins og dreki af því að það beitir hótunum, þrýstingi og ofbeldi til að þvinga fólk til að viðurkenna það stjórnarform sem það beitir sér fyrir. Það lætur eld falla af himni ofan með því að hegða sér eins og spámaður og fullyrða að það hafi yfirbugað ill öfl í tveim heimsstyrjöldum á 20. öldinni og sigrað kommúnismann.
16:17 — Hvað er „loftið“ sem sjöundi engillinn hellir úr skál sinni yfir? „Loftið“ táknar hugsunarhátt Satans, „anda [hugarfar] þess, sem nú verkar í þeim, sem ekki trúa“. Allir sem tilheyra illum heimi hans anda að sér þessu eitraða lofti. — Ef. 2:2.
Lærdómur:
13:1-4, 18. „Dýr“ stígur „upp af hafinu“. Það táknar stjórnvöld manna sem eiga upptök sín í ólgandi mannhafi heimsins. (Jes. 17:12, 13; Dan. 7:2-8, 17) Dýrið er skapað af Satan og fær vald sitt frá honum. Það ber töluna 666 sem táknar að það sé verulega ófullkomið. Ef við skiljum hvað dýrið táknar eru litlar líkur á að við fylgjum því með aðdáun eða tilbiðjum það eins og mannkynið gerir á heildina litið. — Jóh. 12:31; 15:19.
13:16, 17. Við eigum ekki að láta þvinga okkur til að lúta vilja dýrsins þó að það geti kostað okkur erfiðleika í daglegu lífi og starfi, svo sem að ‚kaupa og selja‘. Ef við fengjum ‚merki dýrsins á hönd okkar eða enni‘ jafngilti það því að láta það stjórna gerðum okkar eða hafa áhrif á huga okkar.
14:6, 7. Yfirlýsing engilsins kennir okkur að það sé áríðandi að boða fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs. Við skulum hjálpa biblíunemendum okkar að óttast Jehóva Guð og gefa honum dýrðina.
14:14-20. Þegar „uppskerutíminn“ er á enda og búið að safna saman þeim sem hljóta hjálpræði, er kominn tími til að engillinn kasti ‚vínviði jarðar‘ í „vínþröngina miklu sem táknar reiði Guðs“. Vínviðinum verður þá endanlega tortímt en hann táknar hið spillta, sýnilega stjórnkerfi Satans yfir mannkyni og „þrúgurnar“ sem eru vondur ávöxtur þeirra. Við skulum vera staðráðin í að láta ekki vínvið jarðar hafa áhrif á okkur.
16:13-16. ‚Óhreinu andarnir‘ tákna áróður illra anda. Hann á að tryggja að konungar jarðar láti ekki haggast þegar hellt er úr sjö skálum reiði Guðs heldur fylki sér gegn honum. — Matt. 24:42, 44.
16:21. Rétt áður en þessi heimur líður undir lok má vera að dómar Jehóva gegn illum heimi Satans verði fluttir með óvenjubeinskeyttum hætti. Líklegt er að haglið tákni þetta. Flestir halda þó áfram að lastmæla Guði.
SIGURSÆLL KONUNGUR RÍKIR
„Babýlon hin mikla“, heimsveldi falskra trúarbragða, er viðurstyggilegur hluti af illum heimi Satans. Hún birtist í 11. sýninni í gervi ‚mikillar skækju‘ — siðlausrar konu sem ‚situr á skarlatsrauðu dýri‘. Dýrið er með „tíu horn“ sem snúast gegn henni og tortíma henni. (Opinb. 17:1, 3, 5, 16) Skækjan er kölluð „borgin mikla“ og í sýninni á eftir er tilkynnt að hún falli og fólk Guðs er hvatt til að forða sér „úr borginni“ hið bráðasta. Margir harma fall borgarinnar miklu en á himni er fagnað „brúðkaupi lambsins“. (Opinb. 18:4, 9, 10, 15-19; 19:7) Í 13. sýninni fer riddari á ‚hvítum hesti‘ í stríð gegn þjóðunum. Illur heimur Satans líður þar með undir lok. — Opinb. 19:11-16.
Hvað um „þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan“? Hvenær verður honum „kastað í díkið elds og brennisteins“? Það kemur fram í 14. sýninni. (Opinb. 20:2, 10) Í síðustu tveim sýnunum fáum við innsýn í það hvernig lífið verður í þúsundáraríkinu. ‚Opinberuninni‘ lýkur með því að Jóhannes sér „móðu lífsvatnsins“ renna „eftir miðju stræti borgarinnar“ og „sá sem þyrstur er“ fær stórfenglegt boð. — Opinb. 1:1; 22:1, 2, 17.
Biblíuspurningar og svör:
17:16; 18:9, 10 — Af hverju harma „konungar jarðarinnar“ veldið sem þeir tortímdu sjálfir? Ástæðurnar eru að öllu leyti eigingjarnar. Eftir að Babýlon hinni miklu hefur verið tortímt er greinilegt að konungar jarðar uppgötva hve þarfur þjónn hún var. Þeir hafa notað hana sem trúarlegt skálkaskjól til að kúga þegna sína. Babýlon hin mikla hjálpaði þeim líka að safna ungum nýliðum til að senda í stríð. Og hún átti drjúgan þátt í því að halda fólki í skefjum.
19:12 — Hvernig stendur á því að enginn þekkir nafnið, sem Jesús ber, nema hann sjálfur? Nafnið virðist tákna þá stöðu og þau hlutverk sem Jesús fer með á Drottins degi eins og lýst er í Jesaja 9:5. Enginn þekkir þetta nafn nema hann sjálfur vegna þess að hlutverk hans er einstætt og hann einn getur skilið hvað er fólgið í því að gegna svona hárri stöðu. En Jesús deilir sumum af hlutverkum sínum með þeim sem mynda brúði hans og ‚ritar á þá nafnið sitt hið nýja‘. — Opinb. 3:12.
19:14 — Hverjir eru í för með Jesú í Harmagedón? Í ‚hersveitunum á himni‘, sem berjast með Jesú í stríði Guðs, verða bæði englar og hinir andasmurðu sem hafa sigrað og hlotið laun sín á himnum. — Matt. 25:31, 32; Opinb. 2:26, 27.
20:11-15 — Hverjir eru skráðir í „lífsins bók“? Hún hefur að geyma nöfn allra sem eiga eilíft líf í vændum — hinna andasmurðu, þeirra sem mynda múginn mikla og dyggra þjóna Guðs sem rísa upp og teljast réttlátir. (Post. 24:15; Opinb. 2:10; 7:9) Þeir sem teljast ranglátir en rísa upp fá nöfn sín því aðeins skráð í „lífsins bók“ að þeir breyti í samræmi við það sem „ritað var í bókunum“, en þar er átt við leiðbeiningar sem birtar verða í þúsundáraríkinu. Nöfnin eru þó ekki skráð með varanlegu bleki. Nöfn hinna andasmurðu verða fyrst varanleg eftir að þeir hafa reynst trúir allt til dauða. (Opinb. 3:5) Nöfn þeirra sem hljóta líf á jörð verða fyrst varanleg þegar þeir hafa staðist lokaprófið eftir að þúsundáraríkið er á enda. — Opinb. 20:7, 8.
Lærdómur:
17:3, 5, 7, 16. ‚Spekin sem að ofan er‘ hjálpar okkur að skilja „leyndardóm konunnar og [skarlatsrauða] dýrsins . . . sem ber hana“. (Jak. 3:17) Þetta táknræna dýr kom fyrst fram í mynd Þjóðabandalagsins og var svo endurlífgað sem Sameinuðu þjóðirnar. Þar sem við höfum fengið að skilja þennan leyndardóm ættum við að vera kostgæfin að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs og boða dómsdag hans.
21:1-6. Við getum verið fullkomlega örugg um að blessunin, sem boðuð er undir stjórn Guðsríkis, verði að veruleika. Ástæðan er sú að sagt er um hana: „Það er fram komið.“
22:1, 17. ‚Móða lífsvatnsins‘ táknar þær ráðstafanir sem Jehóva hefur gert til að endurheimta hlýðna menn úr greipum syndar og dauða. Þetta vatn er aðgengilegt að vissu marki nú þegar. Við skulum bæði þiggja með þökkum boðið um að koma og ‚fá ókeypis lífsins vatn‘ og einnig að láta boðið ganga áfram til annarra.
[Neðanmáls]
a Fjallað er um Opinberunarbókina 1:1–12:17 í greininni „Höfuðþættir Opinberunarbókarinnar — fyrri hluti“ í Varðturninum 15. janúar 2009.
b Fjallað er um Opinberunarbókina vers fyrir vers í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand!
[Mynd á blaðsíðu 5]
Hlýðnir menn hljóta ólýsanlega blessun í Guðsríki.