NÁMSGREIN 46
Loforð Jehóva um að gera jörðina að paradís er öruggt
‚Allir sem leita sér blessunar á jörð hljóta blessun hjá Guði sannleikans.‘ – JES. 65:16.
SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust
YFIRLITa
1. Hver var boðskapur Jesaja spámanns til Ísraelsmanna?
SPÁMAÐURINN Jesaja lýsti Jehóva sem „Guði sannleikans“. Orðið sem er þýtt „sannleikur“ merkir bókstaflega ‚amen‘. (Jes. 65:16, neðanmáls.) Orðið „amen“ merkir ‚verði svo‘ eða ‚vissulega‘. Þegar það er notað í Biblíunni í tengslum við Jehóva eða Jesú er það trygging fyrir áreiðanleika. Jesaja var í raun að segja Ísraelsmönnum að hvenær sem Jehóva segði eitthvað fyrir myndi það rætast. Jehóva hefur sannað þetta með því að standa við öll loforð sín.
2. Hvers vegna getum við treyst loforðum Jehóva um framtíðina og hvaða spurningar skoðum við?
2 Getum við haft sama traust á loforðum Jehóva um framtíðina? Næstum 800 árum eftir daga Jesaja útskýrði Páll postuli hvers vegna loforð Guðs eru alltaf traust. Hann sagði: „Guð getur ekki logið.“ (Hebr. 6:18) Rétt eins og uppspretta gefur ekki bæði af sér ferskt vatn og salt getur Jehóva, uppspretta sannleika, ekki logið. Við getum því fullkomlega treyst öllu sem Jehóva segir, þar á meðal loforðum hans um framtíðina. Í þessari námsgrein skoðum við eftirfarandi spurningar: Hvað hefur Jehóva lofað að gefa okkur í framtíðinni? Og hvaða tryggingu hefur Jehóva gefið sem sýnir að loforð hans rætist?
HVERJU HEFUR JEHÓVA LOFAÐ?
3. (a) Hvaða loforð þykir þjónum Guðs vænt um? (Opinberunarbókin 21:3, 4) (b) Hvernig eru viðbrögð sumra þegar við segjum þeim frá þessu loforði?
3 Þjónum Guðs um allan heim þykir vænt um loforðið sem við ætlum að skoða. (Lestu Opinberunarbókina 21:3, 4.) Jehóva lofar að sá tími komi þegar „dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til“. Mörg okkar nota þessi uppörvandi biblíuvers um lífið í paradís þegar við boðum öðrum trúna. Hvernig bregst fólk við þegar við segjum því frá þessu loforði? Sumir gætu sagt að það sé of gott til að vera satt.
4. (a) Hvað vissi Jehóva og sá fyrir? (b) Hvað gerði Jehóva auk þess að gefa loforð?
4 Þegar Jehóva innblés Jóhannesi postula að skrá þetta loforð um lífið í paradís vissi hann að við myndum segja öðrum frá þessari von þegar við boðum þeim Guðsríki. Jehóva sá einnig fyrir að margir ættu erfitt með að trúa þessu loforði um „nýja hluti“. (Jes. 42:9; 60:2; 2. Kor. 4:3, 4) Hvernig getum við fullvissað aðra – og okkur sjálf – um að blessunin sem er lýst í Opinberunarbókinni 21:3, 4 verði að veruleika? Jehóva gaf ekki bara þetta uppörvandi loforð heldur sá líka fyrir sannfærandi rökum til að við gætum treyst því. Hvaða rök eru þetta?
JEHÓVA STAÐFESTIR LOFORÐ SITT
5. Af hverju getum við treyst loforði Guðs um paradís og hvaða biblíuvers sýna það?
5 Við fáum rök fyrir því að loforð Jehóva um paradís sé áreiðanlegt í næstu versum. Við lesum: „Sá sem sat í hásætinu sagði: ‚Ég geri alla hluti nýja.‘ Hann bætti við: ‚Skrifaðu, því að þessi orð eru áreiðanleg og sönn.‘ Síðan sagði hann við mig: ‚Þetta er orðið að veruleika. Ég er alfa og ómega, upphafið og endirinn.‘“ – Opinb. 21:5, 6a.
6. Hvernig hjálpar Opinberunarbókin 21:5, 6 okkur að treysta því að Jehóva standi við loforð sitt?
6 Hvernig styrkja þessi vers traust okkar á loforði Guðs? Revelation Climax-bókin segir um þau: „Það er eins og Jehóva sjálfur undirriti tryggingu eða afsalsbréf fyrir þessari blessun í framtíðinni.“b Loforð Guðs er að finna í Opinberunarbókinni 21:3, 4. En í versi 5 og 6 má segja að við sjáum undirskrift Jehóva sem tryggir áreiðanleika loforðsins. Skoðum betur hvernig hann orðar þessa tryggingu.
7. Hver byrjar að tala í versi 5 og hvað er svona sérstakt við það?
7 Í upphafi 5. versins segir: „Sá sem sat í hásætinu sagði.“ (Opinb. 21:5a) Þetta er sérstakt því að þetta er eitt af aðeins þrem skiptum í Opinberunarbókinni sem Jehóva sjálfur talar. Það var ekki engill og ekki einu sinni Jesús sem setti fram þessa tryggingu heldur Jehóva sjálfur! Þetta sýnir svo ekki verður um villst að við getum algerlega treyst því sem segir í framhaldinu. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva „getur ekki logið“. (Tít. 1:2) Þessi yfirlýsing tryggir áreiðanleika þess sem segir í Opinberunarbókinni 21:5, 6.
„ÉG GERI ALLA HLUTI NÝJA“
8. Hvernig bendir Jehóva á áreiðanleika loforðs síns? (Jesaja 46:10)
8 Guð segir: „Ég geri alla hluti nýja.“ Jehóva er að tala um breytingar í framtíðinni. En hann veit með svo öruggri vissu að loforð hans verði að veruleika að á frummálinu, grísku, er hér notað orðasamband sem gefur til kynna að hann sé að hrinda því í framkvæmd nú þegar. – Lestu Jesaja 46:10.
9. (a) Til hvers vísa orðin ‚gera alla hluti nýja‘? (b) Hvað verður um þá ‚himna og jörð‘ sem nú eru?
9 Jehóva segist ‚gera alla hluti nýja‘. Í þessum kafla í Biblíunni merkir þetta að Jehóva geri tvennt – endurnýi og lagfæri. Hvað ætlar hann að endurnýja? Í Opinberunarbókinni 21:1 segir: „Hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin.“ „Hinn fyrri himinn“ stendur fyrir ríkisstjórnir manna undir áhrifum Satans og illra anda hans. (Matt. 4:8, 9; 1. Jóh. 5:19) Orðið „jörð“ er stundum notað í Biblíunni um þá sem búa á jörðinni. (1. Mós. 11:1; Sálm. 96:1) „Hin fyrri jörð“ merkir þannig hið illa samfélag manna nú á dögum. Jehóva ætlar ekki einfaldlega að betrumbæta „himinn“ og „jörð“ heldur ætlar hann að eyða þeim algerlega. Hann skiptir þeim út fyrir „nýjan himin og nýja jörð“ – nýja stjórn og nýtt samfélag manna.
10. Hvað mun Jehóva gera nýtt?
10 Það sem segir í Opinberunarbókinni 21:5 nær líka til þess sem Jehóva ætlar að lagfæra. Tökum eftir að hann segir ekki „ég geri allt upp á nýtt“ heldur „ég geri alla hluti nýja“. Jehóva mun færa jörðina í gott lag og gera hana og mennina fullkomna. Eins og Jesaja sagði fyrir verður jörðin að yndislegum lystigarði – Eden sem nær um allan hnöttinn. Og hann mun gera okkur eins og ný með því að lækna hvert og eitt okkar fullkomlega. Lamaðir, blindir og heyrnalausir fá lækningu og dánir fá jafnvel upprisu til lífs. – Jes. 25:8; 35:1–7.
„ÞESSI ORÐ ERU ÁREIÐANLEG OG SÖNN ... ÞETTA ER ORÐIÐ AÐ VERULEIKA“
11. Hvað sagði Jehóva Jóhannesi að gera og hvers vegna?
11 Hvað fleira sagði Guð sem fullvissar okkur um að við getum treyst honum? Jehóva sagði Jóhannesi: „Skrifaðu, því að þessi orð eru áreiðanleg og sönn.“ (Opinb. 21:5) Jehóva sagði honum ekki bara að skrifa. Hann sagði honum líka ástæðuna fyrir því að gera það: „Því að þessi orð eru áreiðanleg og sönn.“ Orð Guðs eru traust og nákvæm! Jóhannes hlýddi fyrirmælum Jehóva og við erum þakklát fyrir það því að nú getum við lesið um loforð hans varðandi paradís og hugleitt þá yndislegu blessun sem bíður okkar.
12. Hvers vegna gat Jehóva með réttu sagt: „Þetta er orðið að veruleika“?
12 Hvað segir Guð næst? „Þetta er orðið að veruleika.“ (Opinb. 21:6) Hvers vegna sagði Jehóva að þessi loforð hefðu þegar ræst? Þannig getur hann talað vegna þess að ekkert getur hindrað hann í að koma áætlun sinni í verk. Síðan segir Jehóva nokkuð sem fullvissar okkur enn frekar um að hann standi við loforð sitt. Hvað er það?
„ÉG ER ALFA OG ÓMEGA“
13. Hvers vegna sagði Jehóva: „Ég er alfa og ómega“?
13 Eins og áður er minnst á talaði Jehóva sjálfur þrisvar sinnum við Jóhannes í sýn. (Opinb. 1:8; 21:5, 6; 22:13) Við öll þessi tækifæri sagði Jehóva: „Ég er alfa og ómega.“ Alfa er fyrsti bókstafurinn í gríska stafrófinu og ómega sá síðasti. Með því að segjast vera „alfa og ómega“ gefur Jehóva til kynna að þegar hann byrjar á einhverju ljúki hann því.
14. (a) Nefndu dæmi um það þegar Jehóva sagði í raun „alfa“ og hvenær hann mun segja „ómega“. (b) Hvað fullvissar 1. Mósebók 2:1–3 okkur um?
14 Eftir að Jehóva skapaði Adam og Evu sagði hann þeim hver tilgangur sinn með mannkynið og jörðina væri. Biblían segir: „Guð blessaði þau og sagði við þau: ‚Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina. Leggið hana undir ykkur.‘“ (1. Mós. 1:28) Á því augnabliki sagði Jehóva í raun „alfa“. Hann opinberaði skýrt fyrirætlun sína: Sá tími kæmi þegar fullkomnir, hlýðnir afkomendur Adams og Evu fylltu jörðina og breyttu henni í paradís. Þegar sá tími kemur má segja að Jehóva segi „ómega“. Eftir að hafa fullgert ‚himinn og jörð og allt sem tilheyrir þeim‘ sagði hann nokkuð sem sýnir að tilgangur hans verður sannarlega að veruleika. Við getum lesið um það í 1. Mósebók 2:1–3. (Lestu.) Jehóva tók sjöunda daginn frá sem heilagan dag. Hvað merkir það? Jehóva tryggir að ekkert geti komið í veg fyrir að fyrirætlun hans með mannkynið og jörðina verði að veruleika í lok sjöunda dagsins.
15. Hvers vegna gæti virst sem Satan hefði tekist að setja fyrirætlun Jehóva með mannkynið á hliðina?
15 Eftir uppreisn Adams og Evu voru þau orðin syndug og gáfu afkomendum sínum synd og dauða í arf. (Rómv. 5:12) Þannig gæti virst sem Satan hefði tekist að setja á hliðina fyrirætlun Guðs um að fylla jörðina af fullkomnu, hlýðnu fólki. Gat Satan gert Jehóva ómögulegt að segja nokkurn tíma „ómega“? Hann gæti hafa hugsað sem svo að Jehóva væri í klípu. Hann hélt kannski að Jehóva tæki Adam og Evu af lífi og skapaði önnur fullkomin hjón í staðinn til að standa við fyrirætlun sína. En ef Guð hefði gert það hefði Djöfullinn ásakað hann um að vera lygari. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva hafði sagt Adam og Evu að afkomendur þeirra myndu fylla jörðina, eins og kemur fram í 1. Mósebók 1:28.
16. Hvers vegna gæti Satan hafa hugsað að hann myndi geta sakað Jehóva um að hafa mistekist?
16 Hvað annað gæti Satan hafa hugsað að Guð kysi að gera? Kannski að Jehóva myndi leyfa Adam og Evu að eignast ófullkomna afkomendur sem gætu aldrei náð fullkomleika. (Préd. 7:20; Rómv. 3:23) Þá hefði Djöfullinn vafalaust sakað Jehóva um mistök. Hvers vegna? Vegna þess að þá myndi sú fyrirætlun Guðs að fylla paradísarjörð af fullkomnum, hlýðnum afkomendum Adams og Evu ekki verða að veruleika.
17. Hvernig tók Jehóva á uppreisn Satans og fyrstu mannanna og hver verður endanleg útkoma? (Sjá einnig mynd.)
17 Jehóva brást við uppreisn Satans og fyrstu mannanna á þann hátt að það hefur örugglega gert Satan orðlausan. (Sálm. 92:5) Í stað þess að reynast lygari reyndist Jehóva sannorður með því að leyfa Adam og Evu að eignast börn. Og Jehóva sýndi að ef hann segist ætla að gera eitthvað getur ekkert stöðvað hann. Hann sá til þess að fyrirætlun sín yrði að veruleika með því að sjá fyrir „afkomanda“ sem myndi bjarga hlýðnum afkomendum Adams og Evu. (1. Mós. 3:15; 22:18) Ráðstöfun Jehóva um lausnargjaldið hlýtur að hafa komið Satan í opna skjöldu! Hvers vegna? Vegna þess að hún byggist á óeigingjörnum kærleika. (Matt. 20:28; Jóh. 3:16) Hann er eiginleiki sem hinn sjálfselski Satan hefur ekki til að bera. Hverju kemur lausnargjaldið til leiðar? Í lok þúsund áranna munu fullkomnir, hlýðnir afkomendur Adams og Evu búa á paradísarjörð, alveg eins og Jehóva áformaði í upphafi. Þá mun Jehóva segjast vera „ómega“.
HVERNIG STYRKJUM VIÐ TRAUST OKKAR Á LOFORÐI JEHÓVA UM PARADÍS?
18. Hvaða þrjár ástæður gefur Jehóva okkur til að treysta sér? (Sjá einnig rammann „Þrjár ástæður til að treysta loforði Jehóva“.)
18 Hvað höfum við skoðað sem við getum notað til að hjálpa þeim sem efast um að Guð standi við loforð sín um paradís? Í fyrsta lagi er það Jehóva sjálfur sem gefur þetta loforð. Opinberunarbókin segir: „Sá sem sat í hásætinu sagði: ‚Ég geri alla hluti nýja.‘“ Hann býr yfir visku, mætti og löngun til að standa við loforð sín. Í öðru lagi er öruggt að hann standi við loforð sín, svo öruggt að það er eins og hann hafi nú þegar uppfyllt þau. Hann segir: „Þessi orð eru áreiðanleg og sönn ... þetta er orðið að veruleika.“ Í þriðja lagi, þegar Jehóva byrjar á einhverju hættir hann ekki fyrr en hann hefur klárað það. Þess vegna segir hann: „Ég er alfa og ómega.“ Jehóva mun sýna fram á að Satan sé lygari og að honum sé ómögulegt að hindra hann í að framkvæma vilja sinn.
19. Hvað getum við gert þegar einhverjum finnst erfitt að trúa loforði Guðs um paradís?
19 Mundu að þú styrkir þína eigin trú í hvert sinn sem þú segir fólki í boðuninni frá því hvernig Jehóva fullvissar okkur um að hann standi við loforð sín. Næst þegar þú lest uppörvandi loforðið í Opinberunarbókinni 21:4 um komandi paradís og einhver segir að það hljómi of gott til að vera satt gæti verið góð hugmynd að lesa og útskýra 5. og 6. vers. Þú gætir sýnt hvernig Jehóva hefur ábyrgst loforð sitt með því að undirrita það, ef svo má að orði komast, með eigin undirskrift. – Jes. 65:16.
SÖNGUR 145 Loforð Guðs um paradís
a Í þessari námsgrein er fjallað um það hvernig Jehóva fullvissar okkur um að hann standi við loforð sitt um paradís. Í hvert skipti sem við segjum öðrum frá því hvernig hann gerir það styrkjum við traust okkar á loforðum Jehóva.