„Ég gjöri alla hluti nýja“
„Sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ — OPINBERUNARBÓKIN 21:5.
1, 2. (a) Hvaða spurningu bar Salómon fram fyrir þrem árþúsundum? (b) Hvað virðist núna andmæla orðum Salómons?
„EKKERT er nýtt undir sólinni.“ Þetta eru orð hins vitra Salómons konungs. Síðan spyr hann: „Er nokkuð til sem menn geta sagt um: ‚Sjáðu þetta; það er nýtt‘?“ (Prédikarinn 1:9, 10, NW) Hvernig myndum við svara þeirri spurningu núna?
2 Hafa ekki vísindi og tækni fært okkur svo margt nýtt í hendur nú á 20. öldinni? Lítum bara á samgöngutæknina með sínum hraðfleygu þotum, aflmiklu bifreiðum og hraðskreiðu járnbrautarlestum. Og þá má ekki gleyma undraverðum framförum á sviði fjarskipta, notkun gervihnatta eða geimförum sem hafa komið mönnum alla leið til tunglsins. Og hvað um heimilistæki svo sem kæliskápa og sjálfvirkar þvottavélar sem svo mörg heimili eru búin? Sumir kynnu að segja: ‚Nú, það er allt nýtt undir sólinni!‘
3. Hvaða skelfileg þróun hefur átt sér stað hérna „undir sólinni“? (Lúkas 21:25, 26; Sálmur 53:2)
3 En dokaðu við! Það er líka eitthvað hræðilegt, skelfilegt að sjá undir sólinni. Hvað er það? Jörðin er orðin að herbúðum! Þetta hófst árið 1914 þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út. Þá var í fyrsta skipti beitt vélbyssum, flugvélum, skriðdrekum og kafbátum í hernaði. Innan við þrem áratugum síðar fylgdi síðari heimsstyrjöldin í kjölfarið. Hún olli fjórfalt meira mann- og eignatjóni en sú fyrri. Í henni komu fram enn skelfilegri morðtól — eldvörpur, eldsprengjur og að síðustu kjarnorkusprengjan — fyrirrennari hinna djöfullegu kjarnorkuvopna sem nú ógna tilveru mannkynsins hér á jörðinni.
4. (a) Hvað átti Salómon við þegar hann sagði að ‚ekkert nýtt væri undir sólinni‘? (b) Hvernig er viska Guðs og kærleikur auðsær af því sem hann hefur gert og á eftir að gera „undir sólinni“?
4 Getum við þá í sannleika sagt að ‚ekkert sé nýtt undir sólinni‘? Já, við getum það, því að allt sem við höfum verið að tala um er komið úr þeim efnisheimi sem mannkynið hefur alltaf búið í. Jafnvel það er ekkert nýtt þegar maðurinn sprengir vetnissprengju. Samruni vetnisatóma hefur átt sér stað í sólinni um milljarða ára. Það er uppspretta þeirrar stöðugu skjannabirtu og orku sem lýsir upp, vermir og lífgar jörðina okkar. Sólarorkan verkar á blaðgrænu jurtanna og byggir upp sykrur og mölva sem eru undirstöðufræða hinnar ótöldu mergðar lifandi vera sem byggja jörðina umhverfis okkur. Sannarlega megum við vera þakklát fyrir að alvitur skapari jarðarinnar skuli hafa séð henni fyrir þessum stöðuga straumi beislaðrar kjarnorku! (Sálmur 104:24) Þótt óguðlegir menn hyggist misnota slíka kjarnorku til að fremja fjöldamorð getum við fagnað því að Guð muni „eyða“ þeim sem reyna að ‚eyða jörðina.‘ — Opinberunarbókin 11:18.
5. (a) Hvers vegna var það rétt hjá Salómon að ‚ekkert væri nýtt undir sólinni‘? (b) Hvernig staðfesta lífshættir ófullkominna manna orð Salómons?
5 Salómon hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði: „Ekkert er nýtt undir sólinni,“ því að það er ekkert nýtt við hráefnin, orkulindirnar eða náttúrulögmálin sem eru grundvöllur hins núverandi heimskerfis jarðarinnar. Þau hafa alltaf verið hluti af sköpunarverki Guðs. (Sálmur 24:1; Opinberunarbókin 4:11) Það er ekkert nýtt við sólarupprás og sólarlag, veðurfar eða hina náttúrlegu hringrás sem vökvar og lífgar jörðina. Hvað varðar lífsstíl ófullkominna, dauðlegra manna er í rauninni ekkert nýtt heldur, þrátt fyrir að tískan sé síbreytileg. Jafnvel í velmegunarríkjum heims þykir mörgum lífið endalaust og endurtekið ‚strit.‘ Á hér um bil 70 til 80 árum gengur syndugur maðurinn „til síns eilífðar-húss“ — grafarinnar. Eins og Salómon komst að orði: „Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni.“ — Prédikarinn 1:4-9; 12:5.
„Ný sköpun“ undir sólinni
6. (a) Hvers vegna er ekki að vænta nýrra efnislega sköpunarverka í náinni framtíð? (b) Hvernig og hvenær gerði Jehóva eitthvað „nýtt undir sólinni“?
6 Á efnislega vísu er vissulega ‚ekkert nýtt undir sólinni.‘ Jehóva mun ekki heldur vinna að nýrri, efnislegri sköpun á hinum yfirstandandi 7000 ára hvíldardegi sínum frá slíkum verkum. Þó hefur gerst eitthvað nýtt undir sólinni. Hvenær? Það var árið 2 f.o.t. að engill Jehóva birtist skyndilega lítillátum fjárhirðum í nánd við Betlehem og tilkynnti þeim nokkuð undravert og nýtt. Hann sagði: „Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“ Fjöldi helgra engla tók síðan undir með honum í að lofa Guð með þessum orðum: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ — Lúkas 2:8-14.
7. (a) Hvaða nýjung átti sér stað við skírn Jesú? (b) Hvernig ruddi Jesús brautina frekari nýjungum?
7 Þrítugur að aldri lét þessi frelsari skírast í Jórdanánni. Þegar í stað gerðist annað nýtt undir sólinni. Lúkas 3:21, 22 lýsir því með þessum orðum: „Þá bar svo við, er [Jesús] gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist, og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: ‚Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.‘“ Á þessari stundu varð Jesús ‚ný sköpun,‘ andagetinn sonur Guðs. (2. Korintubréf 5:17) Næstu þrjú og hálft ár bar Jesús kröftuglega vitni um ríki Guðs og safnaði um sig fyrstu lærisveinunum. Þá, árið 33 að okkar tímatali, eftir fórnardauða sinn og upprisu á andlegu tilverusviði, bar Jesús verðmæti lausnarfórnar sinnar fram ‚fyrir augliti Guðs.‘ Það opnaði leiðina enn frekari, nýjum atburðum hérna „undir sólinni.“ — Hebreabréfið 9:24; 1. Pétursbréf 3:18.
8. Hvernig varð ‚ný sköpun‘ til?
8 Á hvítasunnudeginum þetta ár byrjaði Jesús að úthella heilögum anda yfir trúfasta lærisveina sína, og gaf með því til kynna að þeir væru nú sameinaðir honum sem synir Guðs. Páll postuli talar um þessa ‚nýju sköpun‘ í 2. Korintubréfi 5:17 og 18: „Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til. Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar.“
9. Hvaða tilgangi þjónar hin ‚nýja sköpun‘?
9 Pétur postuli ávarpar þessa nýju sköpun svo: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pétursbréf 2:9) Hérna á jörðinni hafa þessir konunglegu prestar kostgæfilega boðað „stórmerki Guðs“ tengd tilgangi hans með ríkið. Eftir að hafa ráðvandir lokið jarðneskri þjónustu sinni fá þeir sem mynda þessa ‚nýju sköpun‘ upprisu til að eiga hlut með Kristi í ríki hans á himnum, eftir að Jesús kemur til musteris Jehóva. — Postulasagan 2:11; Rómverjabréfið 8:14-17; Malakí 3:1, 2.
Endursköpunin
10. (a) Hvað sagði Jehóva um ‚endursköpun‘? (b) Í hverju er þeim sem mynda ‚nýju sköpunina‘ boðið að taka þátt?
10 En er þessi ‚nýja sköpun,‘ sem hófst með Jesú Kristi, hið eina „nýja“ sem birtist „undir sólinni“? Alls ekki! Meðan Jesús var enn hér á jörðinni sagði hann lærisveinum sínum: „Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Matteus 19:28) ‚Lítilli hjörð‘ prófaðra og reyndra lærisveina Jesú — alls 144.000 — er boðið að eiga hlut með Jesú í ríki hans og sitja í hásætum til að dæma „tólf ættkvíslir Ísraels.“ — Lúkas 12:32; 22:28-30; Opinberunarbókin 14:1-5.
11. Af hvaða tveim hliðum fórnar Jesú var gefin fyrirmynd á friðþægingardeginum og hvernig?
11 Hverjar eru þá þessar „tólf ættkvíslir“? Ráðstafanir Jehóva tengdar friðþægingardeginum í Forn-Ísrael gefa okkur vísbendingu um það. Ár hvert, á tíunda degi sjöunda mánaðarins, átti æðsti presturinn að fórna uxa í syndafórn „fyrir sig og hús sitt.“ Þetta táknar fórn Jesú eins og henni er beitt fyrir ‚hús‘ undirpresta hans. En hvað um aðra Ísraelsmenn? Þessu næst varpaði æðsti presturinn hlutkesti um tvo geithafra. Öðrum fórnaði hann ‚lýðnum til syndafórnar.‘ Hinn hafurinn var sendur út í eyðimörkina eftir að syndir þjóðarinnar höfðu verið játaðar yfir honum. Þetta táknaði hvernig Jesús úthellti lífsblóði sínu sem fórn og tók algerlega burt syndir alls mannkynsins aðrar en þær sem tilheyrðu prestahúsi hans. — 3. Mósebók 16:6-10, 15.
12. Hvernig skýrir orðabók merkingu orðsins þýtt ‚endursköpun‘?
12 „Tólf ættkvíslir Ísraels“ tákna eitt og hið sama í Matteusi 19:28. Hér er merkingin víkkuð út fyrir það að ná aðeins yfir andagetna undirpresta Jesú. Hér er allt mannkynið innifalið. Orðabókin An Expository Dictionary of New Testament Words, eftir W. E. Vine, skilgreinir gríska orðið palingenesia, sem hér er notað um ‚endurfæðingu,‘ eða ‚endursköpun,‘ sem „ný fæðing . . . andleg endurnýjun,“ og bætir við: „Í Matteusi 19:28 er orðið notað í víðari merkingu í opinberun Drottins um ‚endurreisn allra hluta‘ (Postulasagan 3:21) þegar Jehóva ‚setur konung sinn á Zíon, fjallið sitt helga,‘ vegna síðari komu Krists. (Sálmur 2:6) . . . Þar með fullkomnast frelsun heimsins undan valdi og villu Satans og andkristnum harðstjórum þjóðanna.“
13. (a) Hvað gefa ýmis biblíuvers til kynna um merkingu palingenesia? (b) Hvað er því að gerast „undir sólinni“?
13 Í samræmi við þetta þýða biblíuþýðendur orðið palingenesia ýmist sem: endurnýjun, nýr heimur, ný fæðing, endurfæddur heimur, komandi heimur, ný sköpun, ný lífsskipan, ný öld. Nærð þú merkingunni í þessu? Kristur og prófreyndir undirprestar hans munu dæma hinar „tólf ættkvíslir Ísraels“ sem tákna allar þjóðir jarðarinnar. Það verður tengt endursköpun, stórkostlegri endurnýjun alls sem Jehóva hefur áformað hér á jörðinni, „hérna undir sólinni.“
‚Endurreisnartímar‘
14. (a) Hvers þarf Jesús að bíða samkvæmt Postulasögunni 3:20, 21? (b) Hvenær og hvernig er Jesús settur í konungsembætti?
14 Hvenær verður þessi endurnýjun? Í Postulasögunni 3:20, 21 talar Pétur um ‚Jesú sem á að vera í himninum allt til þess tíma þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.‘ Þetta minnir á að Jesús skyldi sitja við hægri hönd Guðs á himnum þar til ‚heiðingjatímunum lyki.‘ (Lúkas 21:24; Sálmur 110:1, 2) Þá, árið 1914, setti Jehóva ‚konung sinn á Zíon, fjallið sitt helga.‘ Hvaða endurreisn á sér þá stað? — Sálmur 2:6.
15. (a) Hvað gerðist „undir sólinni“ eftir krýningu Jesú? (b) Hvernig hafa Matteus 25:31-34 og Jesaja 11:6-9 uppfyllst?
15 Fyrst er það nýtt að sjá undir sólinni að hinni ‚nýju sköpun‘ er safnað saman — þeim sem eftir eru trúfastir af hinum andlega Ísrael — og settir til starfa við að ‚prédika fagnaðarerindið um hið stofnsetta ríki.‘ Næst er saman safnað ‚miklum múgi af öllum þjóðum‘ sem á að lifa af ‚þrenginguna miklu.‘ (Matteus 24:14; Opinberunarbókin 7:9, 14) Frá hásæti sínu aðgreinir konungurinn Jesús Kristur nú menn hvern frá öðrum „eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ „Sauðirnir“ eru þeir sem hneigjast til réttlætis og fylgja konunginum og andagetnum bræðrum hans, ‚hinni nýju sköpun.‘ Þessum ‚sauðum‘ er því boðið að erfa eilíft líf á jarðnesku yfirráðasvæði ríkis Jehóva. Nú þegar njóta þeir andlegrar paradísar sem hefur verið endurreist hér á jörð. — Matteus 25:31-34, 46; Jesaja 11:6-9.
16. (a) Hvaða dómur fer nú fram? (b) Hvaða frekari dómur á sér stað eftir Harmagedón?
16 Nú er verið að dæma um það hvort þjóðirnar og „sauðirnir“ eru verðugir þess að lifa af ‚þrenginguna miklu.‘ (Matteus 24:21, 22) En er þetta sá dómur sem við er átt í Matteusi 19:28? Nei, Kristur og undirprestar hans halda annan dóm eftir þrenginguna miklu. Það er dómur hinna táknrænu ‚tólf ættkvísla Ísraels,‘ manna annarra en hinna konunglegu presta. Að notuð sé talan tólf, tákn algerleika, gefur til kynna að hér sé átt við alla aðra menn. Hér er því um að ræða þá sem lifa af ‚þrenginguna miklu,‘ afkomendur sem þeir kunna að eignast og þá milljarða manna sem koma munu fram á jörðinni í upprisunni.
17. Hverjir eru þá dæmdir og eftir hvaða „verkum“?
17 Varðandi þetta segir Páll í Postulasögunni 17:31 að Guð hafi „sett dag, er hann mun láta mann [Jesú Krist], sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“ Þessi ‚heimsbyggð‘ eftir Harmagedón, mynduð af öllum þeim mönnum sem þá verða á jörðinni, verður ekki dæmd eftir sínum fyrri syndum í núverandi heimskerfi. Þess í stað verða menn dæmdir „sérhver . . . eftir verkum sínum“ sem þeir vinna á nýrri jörð jafnhliða því að þeir notfæra sér lausnarfórnina sem Kristur færði. — Opinberunarbókin 20:13; Matteus 20:28; 1. Jóhannesarbréf 2:2.
18. (a) Hvað mun þá birtast „undir sólinni“ samkvæmt Jesajabók? (b) Hvaða fyrirheit mun rætast og hvers megum við vænta í þeirri eilífð sem framundan er? (Rómverjabréfið 8:21)
18 Það verða stórkostlegir hlutir sem birtast undir sólinni á þeim tíma! Hin andlega paradís mun verða að bókstaflegri paradís, svo að rætist upphaflegur tilgangur Jehóva með jörðina. Guð segir okkur að ‚jörðin sé skör fóta hans,‘ helgidómur þar sem ber að tilbiðja hann, og hann segir líka að ,hann muni gjöra vegsamlegan stað fóta sinna.‘ (Jesaja 66:1; 60:13) Hérna undir sólinni á því jörðin að verða dýrleg paradís, garður unaðarins, þar sem fullkomið, friðsamt og sameinað mannkyn mun lofa Guð sinn og skapara að eilífu. Hin hrífandi fyrirheit orðs Jehóva eru bæði ‚sönn og trú‚: „Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“; (Opinberunarbókin 21:5) Í þeirri eilífð, sem framundan er, á ástríkur skapari okkar eftir að gera mörg ný sköpunarverk hér undir sólinni, til yndisauka mennskri fjölskyldu sinni!
Hverju svarar þú í sambandi við atburði „undir sólinni“?
◻ Í hvaða skilningi er þar ‚ekkert nýtt‘?
◻ Hvenær og hvernig kom fram ‚ný sköpun‘?
◻ Hvað felur ‚endursköpunin‘ í sér?
◻ Hvernig miðar ‚endurreisn allra hluta‘ og hvernig mun henni ljúka?
[Mynd á blaðsíðu 30]
Það er hrikaleg lýsing á hinni svokölluðu siðmenningu, að heimurinn skuli nú eyða í hergögn sem svarar heilum 75 milljónum króna á mínútu! Það er meira en nóg til að fæða, klæða og veita húsaskjól öllum þeim mönnum sem nú búa við fátækt. Á hinn bóginn myndu núverandi kjarnorkuvopnabirgðir duga til að gereyða öllu mannkyninu — fimm milljörðum manna — tólf sinnum. Þó herma fregnir að hálf milljón fremstu vísindamanna veraldar starfi að því að þróa og finna upp enn hættulegri eyðingarvopn.
[Credit line]
Ljósmynd: Bandaríkjaher.