Dagurinn sem minnast ber
„Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ — JÓHANNES 16:33.
1, 2. Hvaða einn dagur í sögunni ber af öllum öðrum dögum og hvers vegna?
MIKIÐ er rætt um frið í heiminum nú á dögum. Strax að lokinni síðari heimsstyrjöldinni var friður tengdur svonefndum V-degi.a Ár hvert fá jólin fólk til að hugsa um ‚frið á jörðu.‘ (Lúkas 2:14) En það er einn dagur sem er einstakur í allri mannkynssögunni. Það er dagurinn þegar Jesús Kristur sagði orðin sem vitnað er í hér að ofan. Af þeim rúmlega tveimur milljónum daga sem mannkynið hefur verið til hér á jörðu var það þessi eini dagur sem breytti algerlega gangi mannkynssögunnar, manninum til eilífrar blessunar.
2 Þessi afdrifaríki dagur var 14. nísan samkvæmt tímatali Gyðinga. Árið 33 hófst 14. nísan hinn 1. apríl. Við skulum núna hugleiða það sem gerðist þennan tímamótadag.
14. nísan!
3. Hvernig notaði Jesús þessar síðustu klukkustundir?
3 Þegar húmar að sindrar líklega fullt tungl fagurlega og minnir á að Jehóva ákveður tíma og tíðir. (Postulasagan 1:7) Og hvað er að gerast þarna í loftstofunni sem Jesús og postular hans 12 eru saman komnir í til að halda hátíðlega árlega páska Gyðinga? Þegar Jesús býr sig undir ‚að fara burt úr þessum heimi til föðurins elskar hann sína uns yfir lýkur.‘ (Jóhannes 13:1) Hvernig gerir hann það? Með orðum sínum og fordæmi heldur Jesús áfram að glæða hjá lærisveinum sínum eiginleika sem munu hjálpa þeim að sigra heiminn.
Að íklæðast auðmýkt og kærleika
4. (a) Hvernig kenndi Jesús lærisveinum sínum grundvallareiginleika? (b) Hvernig vitum við að Pétur lærði hve mikilvæg auðmýktin er?
4 Með postulunum býr enn í nokkrum mæli metnaðargjörn afbrýði og hroki sem þeir verða að losa sig við. Jesús bindur því um sig líndúk og hefst handa við að þvo fætur þeirra. Hér er ekki verið að sýna uppgerðarauðmýkt, eins páfi kristna heimsins setur árlega á svið í Róm. Sannarlega ekki! Sönn auðmýkt er það að gefa af sjálfum sér og hún sprettur fram úr ‚lítillátum huga sem metur aðra meira en sjálfan sig.‘ (Filippíbréfið 2:2-5) Í fyrstu skilur Pétur ekki hvað um er að vera og neitar að láta Jesú þvo sér um fæturna. Þegar misskilningur hans hefur verið leiðréttur biður hann Jesú um að þvo sér öllum. (Jóhannes 13:1-10) Pétur hlýtur þó að hafa lært lexíuna. Árum síðar sjáum við hann leiðbeina öðrum á réttan hátt. (1. Pétursbréf 3:8, 9; 5:5) Sannarlega er mikilvægt fyrir okkur öll nú á dögum að þjóna Kristi í auðmýkt. — Sjá einnig Orðskviðina 22:4; Matteus 23:8-12.
5. Hvaða boð gaf Jesús sem sýndi hve mikilvægur enn annar eiginleiki væri?
5 Einn þeirra 12 hefur ekki gagn af ráðleggingum Jesú. Það er Júdas Ískaríot. Meðan þeir snæða páskamáltíðina verður Jesú órótt í anda. Hann bendir á að Júdas muni svíkja hann og lætur hann fara. Það er ekki fyrr en að þessu loknu að Jesús segir við 11 trúfasta lærisveina sína: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Þetta er sannarlega nýtt boðorð og er Jesús sjálfur frábært fordæmi um hvernig því skuli fylgt. Er sú stund nálgast að Jesús deyi fórnardauða sýnir hann einstaka elsku. Hann notar hverja einustu dýrmætu mínútu til að kenna þessum lærisveinum og uppörva þá. Síðar leggur hann áherslu á mikilvægi kærleikans er hann segir: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ — Jóhannes 15:12, 13.
„Vegurinn, sannleikurinn og lífið“
6. Hvaða takmark gefur Jesús nánustu lærisveinum sínum til að keppa að?
6 Jesús segir við þá trúföstu 11: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?“ (Jóhannes 14:1, 2) Þessi staður á að vera í „himnaríki.“ (Matteus 7:21) Jesús segir hvernig þessi trúfasti lærisveinahópur geti náð takmarki sínu: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ (Jóhannes 14:6) Þetta á einnig við þann hluta mannkynsins sem öðlast mun eilíft líf á jörðinni. — Opinberunarbókin 7:9, 10; 21:1-4.
7-9. Hvers vegna sagði Jesús að hann væri „vegurinn, sannleikurinn og lífið“?
7 Jesús er „vegurinn.“ Ekki er til nein önnur leið til að nálgast Guð í bæn en fyrir milligöngu Jesú Krists. Jesús fullvissar sjálfur lærisveina sína um að faðirinn muni veita þeim hvað sem þeir biðja um í Jesú nafni. (Jóhannes 15:16) Faðirinn hvorki heyrir né viðurkennir bænir sem beint er til helgimynda, trúarlegra „dýrlinga“ eða eru fullar af „Ave María“ og staglsömu söngli. (Matteus 6:5-8) Þar að auki lesum við um Jesú í Postulasögunni 4:12: „Ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“
8 Jesús er „sannleikurinn.“ Jóhannes postuli sagði um hann: „Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ (Jóhannes 1:14) Jesús varð sannleikur hundruða spádóma í Hebresku ritningunum með því að uppfylla þá. (2. Korintubréf 1:20; Opinberunarbókin 19:10) Hann kunngerði sannleikann með því að tala við lærisveina sína og mannfjöldann sem hlýddi á, með ákveðnum orðaskiptum við hræsnisfulla klerka og með lifandi fordæmi sínu.
9 Jesús er „lífið.“ Sem sonur Guðs sagði hann: „Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ (Jóhannes 3:36) Iðkun trúar á fórn Jesú leiðir til eilífs lífs — ódauðlegs lífs á himni fyrir „litla hjörð“ smurðra kristinna manna og eilíft líf í paradís á jörðu fyrir mikinn múg ‚annarra sauða.‘ — Lúkas 12:32; 23:43; Jóhannes 10:16.
Að þola ofsóknir
10. Hvers vegna þurfum við að ‚sigra heiminn‘ og hvaða hvatningu gaf Jesús í því sambandi?
10 Þeir sem vonast til að lifa í nýju heimskerfi Jehóva verða að kljást við heim sem „er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Orð Jesú í Jóhannesi 15:17-19 eru þess vegna mjög uppörvandi: „Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan. Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ Sannkristnir menn hafa verið hataðir allt til þessa dags á árinu 1992 og það vekur hjá okkur mikla gleði að sjá hið góða fordæmi þeirra sem halda áfram að standa stöðugir og auðmýkja sig undir Guðs voldugu hönd og fá þar styrk. (1. Pétursbréf 5:6-10) Við getum öll staðist prófraunir með því að iðka trú á Jesú sem lauk fræðslu sinni með þessum orðum sem hlýja okkur um hjartaræturnar: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ — Jóhannes 16:33.
Nýja sáttmálanum komið á
11. Hverju spáði Jeremía varðandi nýjan sáttmála?
11 Þetta sama kvöld, eftir að páskahátíðinni er lokið, ræðir Jesús um nýjan sáttmála. Öldum fyrr hafði Jeremía spámaður sagt hann fyrir: „Sjá, þeir dagar munu koma — segir [Jehóva] — að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, . . . Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. . . . Ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.“ (Jeremía 31:31-34) Hinn 14. nísan árið 33 á að færa þá fórn sem lætur þennan nýja sáttmála taka gildi.
12. Hvernig innleiddi Jesús nýja sáttmálann og hverju kemur sá sáttmáli til leiðar?
12 Jesús segir þeim trúföstu 11 að hann hafi þráð mjög heitt að neyta þessarar páskamáltíðar með þeim. Því næst tekur hann brauð, færir þakkir, brýtur það og réttir þeim og segir: „Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Á sama hátt réttir hann þeim rauðvínsbikar og segir: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“ (Lúkas 22:15, 19, 20) Hinn nýi sáttmáli tekur gildi með „dýrmætu blóði“ Jesú sem er miklu verðmætara en dýrablóðið sem notað var til að láta lagasáttmála Ísraels taka gildi. (1. Pétursbréf 1:19; Hebreabréfið 9:13, 14) Þeir sem teknir eru inn í nýja sáttmálann fá algera fyrirgefningu synda sinna. Þess vegna geta þeir reynst hæfir til að vera meðal þeirra 144.000 sem öðlast eilífan arf sem hinn andlegi Ísrael. — Galatabréfið 6:16; Hebreabréfið 9:15-18; 13:20; Opinberunarbókin 14:1.
„Í mína minningu“
13. (a) Hvað ættum við að hugleiða núna þegar minningarhátíðin er svo nálæg? (b) Hverjir einir ættu að taka af brauðinu og víninu og hvers vegna?
13 Hina 1960. árlegu minningarhátíð um dauða Jesú ber upp á 17. apríl 1992. Sá dagur er nálægur og það er rétt af okkur að hugleiða allt það sem fullkomin fórn Jesú kemur til leiðar. Þessi ráðstöfun upphefur visku Jehóva og hinn djúpa kærleika hans til mannkynsins. Óbifanleg hollusta Jesú, jafnvel þá er hann leið kvalafullan dauða, sýknar Jehóva af ákæru Satans þess efnis að maðurinn hafi verið skapaður gallaður og standist ekki prófraunir. (Jobsbók 1:8-11; Orðskviðirnir 27:11) Með fórnarblóði sínu er Jesús meðalgangari nýs sáttmála sem er verkfæri Jehóva til að velja einstaklinga sem þá verða „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður.“ Meðan þeir eru enn á jörðinni ‚víðfrægja þeir dáðir‘ Guðs síns, Jehóva, sem hefur ‚kallað þá frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.‘ (1. Pétursbréf 2:9; samanber 2. Mósebók 19:5, 6.) Aðeins þeir geta með réttu neytt af brauðinu og víninu á hinni árlegu minningarhátíð.
14. Hvernig auðgast þær milljónir sem eru viðstaddar minningarhátíðina sem áhorfendur?
14 Á síðasta ári voru 10.650.158 viðstaddir minningarhátíðina um heim allan en þar af neyttu aðeins 8850 — minna en 0,1 prósent — af brauðinu og víninu. Hvaða gagn hafa þá allar þessar milljónir áhorfenda af því að vera viðstaddar? Mikið gagn! Þó að þessir áhorfendur neyti ekki af brauðinu og víninu er samveran með hinu stóra alheimsbræðrafélagi andlega auðgandi fyrir þá er þeir heyra um öll þau stórvirki sem Jehóva kemur til leiðar með þeirri fórn sem sonur hans færði.
15. Hvernig hafa aðrir en hinir smurðu gagn af fórn Jesú?
15 Þar að auki segir postulinn í 1. Jóhannesarbréfi 2:1, 2: „Vér [höfum] árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ Já, þó að fórn Jesú komi Jóhannesarhópnum, sem aðild á að nýja sáttmálanum, fyrst að gagni leiðir einnig af henni fyrirgefning fyrir syndir „alls heimsins.“ Hún er ‚friðþægingarfórn‘ fyrir syndir allra annarra sem tilheyra heimi mannkynsins og iðka trú á úthellt blóð Jesú sem opnar þeim leið til að öðlast eilíft líf í paradís á jörðu. — Matteus 20:28.
„Í ríki föður míns“
16. (a) Hverju virðast Jesús og samerfingjar hans eiga núna hlutdeild í? (b) Hvers er krafist nú á dögum bæði af hinum smurðu leifum og múginum mikla?
16 Er Jesús heldur áfram að uppörva postula sína bendir hann á þann dag þegar hann á tákrænan hátt muni drekka ávöxt vínviðarins nýjan með lærisveinum sínum í ríki föður síns. (Matteus 26:29) Hann segir þeim: „Þið eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í prófraunum mínum; og ég geri sáttmála við ykkur, eins og faðir minn hefur gert sáttmála við mig, um ríki, að þið megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu og sitja í hásætum til að dæma hinar tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Lúkas 22:28-30, NW) Þar sem Jesú var fengið vald sem konungur Guðsríkis á himni árið 1914 getum við ályktað að meginþorri samerfingja Jesú, sem safnað hefur verið saman í aldanna rás, hafi þegar verið reistur upp til að „sitja í hásætum“ með honum. (1. Þessaloníkubréf 4:15, 16) Sá dagur, er englarnir munu sleppa lausum „fjórum vindum“ ‚þrengingarinnar miklu,‘ nálgast óðum! Þegar svo er komið mun að fullu lokið við að innsigla hina 144.000 andlegu Ísraelsmenn og safna inn öllum þeim milljónum sem mynda hinn mikla múg. Allir verða þeir að varðveita trúfesti sína, eins og Jesús gerði, til þess að öðlast sigurlaunin, eilíft líf. — Opinberunarbókin 2:10; 7:1-4, 9.
17 og rammagreinin. (a) Ef smurður einstaklingur skyldi láta af trúfesti sinni, hvers konar maður er þá skynsamlegt að ætla að muni koma í hans stað? (b) Hvaða áhugaverðu ljósi varpaði grein í Varðturninum árið 1938 á byggingu og síðar stækkun guðveldisskipulagsins á jörðinni?
17 Hvað mun gerast ef nokkrir hinna smurðu varðveita ekki trúfesti sína? Nú er orðið svo áliðið að þeir verða vafalaust fáir sem sýna slíka óhollustu. Skynsamlegt er að ætla að hvert slíkt skarð verði fyllt, ekki með einstaklingum sem eru nýskírðir, heldur úr hópi þeirra sem hafa ‚verið stöðugir með Jesú í prófraunum hans‘ í margra ára trúfastri þjónustu. Hin skæru leiftur andlegs ljóss, sem komu gegnum Varðturninn á þriðja og fjórða áratug þessarar aldar, gefa til kynna að samansöfnun leifa hinna smurðu hafi að því er heita má verið að fullu lokið á því tímabili. Þeir sem síðan þá hafa „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“ hafa aðra ánægjulega von. Andi Jehóva leiðir þá, fyrir milligöngu Krists, til „vatnslinda lífsins“ í jarðneskri paradís. — Opinberunarbókin 7:10, 14, 17.
Innileg bæn
18. Hvaða kröftuga lexíu lærum við af bæn Jesú í 17. kafla Jóhannesar?
18 Jesús lýkur minningarhátíðinni með lærisveinum sínum með því að bera fram þá innilegu bæn sem skráð er í Jóhannesi 17:1-26. Hann biður fyrst um að faðirinn megi gera hann dýrlegan er hann varðveitir hollustu sína og trúfesti allt til enda. Á þann hátt mun Jehóva einnig vera gerður dýrlegur, nafn hans helgað — hreinsað af öllu lasti. Já, vissulega sannar hinn fullkomni maður Jesús að mennirnir, sem Guð hefur skapað, geta verið óaðfinnanlegir, jafnvel undir erfiðustu prófraunum. (5. Mósebók 32:4, 5; Hebreabréfið 4:15) Fórnardauði Jesú gefur þar að auki afkomendum Adams stórkostlegt tækifæri. Jesús segir: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Það er því bráðnauðsynlegt að afla sér nákvæmrar þekkingar á Jehóva Guði og syni hans, guðslambinu sem gaf líf sitt til að réttlæta Jehóva og færa mannkyninu frelsun. (Jóhannes 1:29; 1. Pétursbréf 2:22-25) Kannt þú að meta þessa mjög svo kærleiksríku fórn að því marki að þú vígir þig í einu og öllu Jehóva og dýrmætri þjónustu hans?
19. Hvers vegna ríkir verðmæt eining milli leifanna og múgsins mikla?
19 Því næst biður Jesús heilagan föður sinn um að vaka yfir lærisveinunum þegar þeir sýna og sanna að þeir séu ekki af heiminum heldur halda sér fast við orð hans og taka við því sem sannleika og verða áfram eitt með föðurnum og syninum. Hefur þessari bæn ekki verið svarað á dásamlegan hátt allt til þessa dags með því að smurðu leifarnar og mikli múgurinn starfa saman, samtengdir kærleiksböndum og varðveita jafnframt hlutleysi gagnvart heiminum, ofbeldi hans og illsku? Lokaorð Jesú hljóta að hafa glatt föður hans, Jehóva, mjög mikið: „Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra,“ sagði Jesús, „svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“ — Jóhannes 17:14, 16, 26.
20. Hvers vegna er 14. nísan árið 33 svo sannarlega dagurinn sem minnast ber?
20 Er þeir fara út til Getsemanegarðsins á Jesús enn stutta, uppbyggjandi samverustund með lærisveinum sínum. Síðan ná óvinirnir honum. Orð fá ekki lýst líkamsþjáningum Jesú, hinni miklu sorg hans vegna þeirrar smánar sem hrúgað er á Jehóva og hvernig Jesús, meðan á öllu þessu stendur, gefur frábært fordæmi í trúfesti. Jesús heldur út allt til enda, gegnum nóttina og áfram næstum allar birtustundir þess dags. Hann sýnir greinilega að ríki hans er ekki af þessum heimi. Og rétt áður en hann gefur upp öndina hrópar hann: „Það er fullkomnað.“ (Jóhannes 18:36, 37; 19:30) Sigur hans á heiminum er algjör. Þessi dagur, 14. nísan árið 33, er svo sannarlega dagurinn sem minnast ber!
[Neðanmáls]
a V-dagur (á ensku: Victory-Day): Dagurinn þegar sigur Bandamanna batt enda á síðari heimsstyrjöldina; er skipt í VE-dag (sigur í Evrópu) og VJ-dag (sigur á Japan).
Hvernig svarar þú?
◻ Hvað kenndi Jesús varðandi auðmýkt og kærleika?
◻ Hvernig varð Jesús „vegurinn, sannleikurinn og lífið“?
◻ Hver er tilgangurinn með nýja sáttmálanum?
◻ Hvaða einingar og kærleika njóta smurðu leifarnar og múgurinn mikli í sameiningu?
[Rammi á blaðsíðu 18]
Speki hins meiri Salómons
Greinar í Varðturninum (á ensku) 1. og 15. júní 1938, er báru titilinn „Skipulag,“ settu skýrt fram grundvallarreglur þess guðveldislega fyrirkomulags sem vottar Jehóva fylgja fram á þennan dag. Með þessum greinum náði hámarki tímabil endurskipulagningar og breytinga hvað varðaði kenningar og skipulag, tímabil sem hafði hafist árið 1919. (Jesaja 60:17) Varðturninn líkir þessu 20 ára tímabili við þau 20 ár sem það tók Salómon að reisa musterið og konungshöllina í Jerúsalem og segir í sambandi við það: „Ritningin sýnir að eftir þetta tuttugu ára byggingarstarf . . . hrinti Salómon í framkvæmd byggingaráætlun sem náði um allt landið. (1. Kon. 9:10, 17-23; 2. Kron. 8:1-10) Því næst kom drottningin í Saba „frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons.“ (Matt. 12:42; 1. Kon. 10:1-10; 2. Kron. 9:1-9, 12) Þetta vekur spurninguna: Hvað bíður fólks Jehóva á jörðinni í náinni framtíð? Með fullu trausti munum við bíða, og við munum sjá.“ Þetta traust var ekki veitt óverðugum. Undir guðveldislegu skipulagi hefur stór andleg byggingaráætlun, sem teygir sig um allan heim, orðið til þess að safna inn meira en fjórum milljónum manna sem tilheyra hinum mikla múgi. Eins og drottningin í Saba hafa þeir komið frá endimörkum jarðar til að heyra speki hins meiri Salómons, Krists Jesú, speki sem þeim er miðlað fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ — Matteus 24:45-47.