-
Fyrirgefðu af hjartaVarðturninn – 1999 | 1. desember
-
-
„Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.“ (Matteus 6:12, 14; Lúkas 11:4) Síðan sagði hann aðeins fáeinum dögum fyrir dauða sinn: „Þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar.“ — Markús 11:25.
22, 23. Hvaða áhrif getur það haft á framtíð okkar að vera fús til að fyrirgefa?
22 Já, horfurnar á því að Guð haldi áfram að fyrirgefa okkur ráðast að miklu leyti af því að við séum fús til að fyrirgefa bræðrum okkar. Þegar kastast í kekki milli kristinna einstaklinga er gott að spyrja sig hvort það sé ekki miklu mikilvægara að hljóta fyrirgefningu Guðs heldur en að sanna að bróðir eða systir hafi gert eitthvað lítillega á hlut manns eða sýnt mannlegan ófullkomleika á einhvern hátt. Þú veist svarið.
23 En hvað nú ef málið er alvarlegra en lítils háttar persónuleg móðgun eða misklíð? Og hvenær eiga ráðleggingar Jesú í Matteusi 18:15-18 við? Skoðum það næst.
-
-
Þú getur unnið bróður þinnVarðturninn – 1999 | 1. desember
-
-
Þú getur unnið bróður þinn
„Tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.“ — MATTEUS 18:15.
1, 2. Hvaða raunhæf ráð gaf Jesús um mannlegar ávirðingar?
ÞAÐ var minna en ár eftir af þjónustu Jesú og hann þurfti að gefa lærisveinunum mikilvægar leiðbeiningar. Þær er að finna í 18. kaflanum hjá Matteusi. Meðal annars benti Jesús á að við þyrftum að vera auðmjúk eins og börn. Síðan lagði hann áherslu á að við mættum ekki tæla nokkurn „af þessum smælingjum“ til falls og yrðum að reyna að endurheimta villuráfandi ‚smælingja‘ svo að þeir glötuðust ekki. Síðan bætti hann við gagnlegum og raunhæfum ráðleggingum um það hvernig kristnir menn gætu sett niður misklíð sín á milli.
2 Þú manst kannski eftir orðum hans: „Ef bróðir þinn syndgar . . . , skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ‚hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.‘ Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ (Matteus 18:15-17) Hvenær eiga þessar ráðleggingar við og með hvaða hugarfari ættum við að fara eftir þeim?
3. Hvernig ættum við almennt að líta á yfirsjónir annarra?
3 Í greininni á undan var lögð áhersla á að við þyrftum að leggja okkur fram um að fyrirgefa vegna þess að við erum öll ófullkomin og okkur verður oft eitthvað á. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar einhver er særður vegna þess sem trúbróðir hans sagði eða gerði. (1. Pétursbréf 4:8) Oft er best að leiða móðgunina hjá sér — að fyrirgefa og gleyma. Við getum litið á það sem okkar skerf til friðar í kristna söfnuðinum. (Sálmur 133:1; Orðskviðirnir 19:11) En stundum finnst þér þú kannski þurfa að gera út um eitthvert mál við bróður þinn eða systur sem hefur sært þig. Þá geta orð Jesú verið þér til leiðsagnar.
4. Hvernig getum við í grundvallaratriðum heimfært Matteus 18:15 upp á yfirsjónir annarra?
4 Jesús ráðlagði okkur að „tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli.“ Þetta er viturlegt. Einstaka þýskar biblíuþýðingar tala um að leggja sökina fyrir hann „undir fjögur augu,“ það er að segja þín og hans. Vandinn er yfirleitt auðleystari þegar gert er út um hann í einrúmi. Bróðir, sem særði þig eða var óvinsamlegur í orði eða verki, er sennilega fúsari til að viðurkenna yfirsjón sína fyrir þér einum. Ef aðrir heyrðu til gæti ófullkomleikinn komið honum til að réttlæta sig eða neita því að hafa gert nokkuð af sér. En þegar þú ræðir málið við hann „undir fjögur augu“ uppgötvarðu kannski að ekki var um að ræða synd eða vísvitandi misgerð heldur misskilning. Þegar þið áttið ykkur báðir á því að um misskilning var að ræða getið þið gert út um hann svo að smámál verði ekki að stórmáli og eitri samband ykkar. Meginreglan í Matteusi 18:15 getur því jafnvel átt við smávægilegar yfirsjónir daglegs lífs.
Hvað átti hann við?
5, 6. Hvers konar syndir er átt við í Matteusi 18:15 eftir samhenginu að dæma og hvað gefur það til kynna?
5 Strangt til tekið tengjast ráðleggingar Jesú alvarlegri málum en þessum. „Ef bróðir þinn syndgar,“ sagði hann. Í víðtækasta skilningi getur ‚synd‘ verið hvaða mistök sem er. (Jobsbók 2:10; Orðskviðirnir 21:4; Jakobsbréfið 4:17) En samhengið gefur til kynna að Jesús hafi haft alvarlega synd í huga, svo alvarlega að hún gat leitt til þess að litið yrði á hinn brotlega sem ‚heiðingja eða tollheimtumann.‘ Hvað merkir það?
6 Lærisveinar Jesú, sem heyrðu þessi orð, vissu að samlandar þeirra blönduðu ekki geði við heiðingja. (Jóhannes 4:9; 18:28; Postulasagan 10:28) Og þeir sniðgengu afdráttarlaust tollheimtumenn en þeir voru innfæddir Gyðingar sem misnotuðu samlanda sína. Í strangasta skilningi var Jesús því að tala um alvarlegar syndir í Matteusi 18:15-17, ekki persónulega móðgun eða sárindi sem hreinlega var hægt að fyrirgefa og gleyma. — Matteus 18:21, 22.a
7, 8. (a) Hvers konar syndum þurftu öldungarnir að taka á? (b) Hvers konar syndir gátu tveir kristnir menn útkljáð sín á milli í samræmi við Matteus 18:15-17?
7 Samkvæmt lögmálinu voru sumar syndir þess eðlis að meira þurfti til en fyrirgefningu þolandans. Guðlast, fráhvarf frá trúnni, skurðgoðadýrkun og kynferðisbrot eins og saurlifnað, hórdóm og kynvillu bar að tilkynna öldungum (eða prestum) sem áttu að fjalla um málið. Svo er einnig í kristna söfnuðinum. (3. Mósebók 5:1; 20:10-13; 4. Mósebók 5:30; 35:12; 5. Mósebók 17:9; 19:16-19; Orðskviðirnir 29:24) En taktu samt eftir að tveir einstaklingar gátu útkljáð sín á milli þær syndir sem Jesús var að tala um. Tökum dæmi: Maður rægir náunga sinn sökum reiði eða öfundar. Kristinn maður semur um að vinna ákveðið verk úr ákveðnum efnum og ljúka því fyrir ákveðinn tíma. Maður fellst á að endurgreiða skuld á ákveðnum gjalddögum eða fyrir vissan eindaga. Maður fær vissa þjálfun hjá vinnuveitanda sínum og lofar jafnframt (jafnvel þótt hann skipti um vinnu) að fara hvorki í samkeppni við hann né reyna að ná til sín viðskiptavinum hans um ákveðinn tíma eða á ákveðnu svæði.b Ef bróðir stæði ekki við orð sín og iðraðist þess ekki væri það vissulega alvörumál. (Opinberunarbókin 21:8) En þeir sem hlut eiga að máli gætu útkljáð slíkar syndir sín á milli.
8 En hvernig átt þú að bera þig að við að leysa málið? Oft hefur verið talað um þrjú skref í leiðbeiningum Jesú. Við skulum skoða hvert fyrir sig. En lítum ekki á þau sem ósveigjanlegar lagareglur heldur reynum að skilja andann að baki þeim og missum aldrei sjónar á kærleiksmarkmiðinu.
Reyndu að vinna bróður þinn
9. Hvað eigum við að hafa í huga í sambandi við leiðbeiningarnar í Matteusi 18:15?
9 Jesús hóf mál sitt: „Ef bróðir þinn syndgar . . . , skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.“ Ljóst er að þetta skref byggist ekki á grunsemdum einum. Þú þarft að hafa sannanir eða nákvæmar upplýsingar sem þú getur notað til að sýna bróður þínum fram á að hann hafi gert á hlut þinn og þurfi að leiðrétta það. Það er gott að taka fljótt á málinu svo að það vefji ekki utan á sig eða hin röngu viðhorf hans grafi um sig. Og gleymdu ekki að það getur verið skaðlegt fyrir sjálfan þig að velta málinu of lengi fyrir þér. Þar eð þú átt að ræða við hann einan skaltu ekki tala við aðra til að afla þér samúðar þeirra eða bæta sjálfsmynd þína. (Orðskviðirnir 12:25; 17:9) Hvers vegna? Vegna þess markmiðs sem þú hefur.
10. Hvað hjálpar okkur að vinna bróður okkar?
10 Markmið þitt ætti að vera að vinna bróður þinn, ekki refsa honum, auðmýkja hann eða vinna honum mein. Ef hann hefur raunverulega gert eitthvað af sér er samband hans við Jehóva í hættu. Þú vilt auðvitað að hann sé kristinn bróðir þinn áfram. Líkurnar á að þér takist að vinna hann aukast ef þú heldur stillingu þinni þegar þú ræðir einslega við hann, og forðast hranaleg orð og ásökunartón. Mundu, þegar þú ræðir við hann augliti til auglitis í kærleiksanda, að þið eruð báðir ófullkomnir og syndugir menn. (Rómverjabréfið 3:23, 24) Vera má að málið sé auðleyst þegar hann áttar sig á því að þú hefur ekki slúðrað um hann og sér að þú vilt í einlægni hjálpa honum. Þessi vinsemd og hreinskilni er sérstaklega viturleg ef í ljós kemur að þið berið báðir nokkra sök á því sem gerðist eða ef misskilningur var raunveruleg undirrót vandans. — Orðskviðirnir 25:9, 10; 26:20; Jakobsbréfið 3:5, 6.
11. Hvað getum við gert jafnvel þótt hinn brotlegi hlusti ekki á okkur?
11 Vera má að hann iðrist ef þú sýnir honum fram á að hann hafi gert eitthvað rangt og að það sé alvarlegt. En það er raunsæi að búast við að stolt geti verið honum til trafala. (Orðskviðirnir 16:18; 17:19) Þó að hann viðurkenni ekki í fyrstu að hafa gert nokkuð rangt og iðrist ekki getur verið gott að doka við áður en þú stígur næsta skref. Jesús sagði ekki: ‚Farðu aðeins einu sinni og talaðu um fyrir honum.‘ Þar sem um er að ræða synd sem þið getið útkljáð ykkar á milli skaltu íhuga hvort þú eigir ekki að ræða við hann aftur „undir fjögur augu“ í anda Galatabréfsins 6:1. Kannski heppnast það. (Samanber Júdasarbréfið 22, 23.) En hvað áttu að gera ef þú ert sannfærður um að synd hafi verið framin og að það sé gagnslaust fyrir þig að reyna aftur?
Hjálp þroskaðra manna
12, 13. (a) Hvaða annað skref talaði Jesús um í sambandi við yfirsjónir annarra? (b) Hvaða varnaðarorð eru gefin í sambandi við þetta skref?
12 Ef þú hefðir gert þig sekan um alvarlega synd myndirðu tæpast vilja að aðrir væru fljótir að gefast upp á þér. Jesús benti því á að þú ættir ekki að gefast upp á að reyna að vinna bróður þinn eftir að hafa stigið fyrsta skrefið, heldur reyna áfram að fá hann til að vera sameinaður þér og öðrum í að tilbiðja Guð á velþóknanlegan hátt. Hann lýsti næsta skrefi þannig: „Láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ‚hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.‘“
13 ‚Taktu með þér einn eða tvo,‘ sagði Jesús. Hann sagði ekki að þú mættir ræða vandann við marga aðra eftir að hafa stigið fyrsta skrefið, hafa samband við farandhirðinn eða ræða málið bréflega við bræður. Þótt þú sért sannfærður um að bróðir þinn hafi syndgað er það ekki endanlega staðfest. Ekki viltu útbreiða rangar upplýsingar sem gætu reynst vera rógur þegar allt kemur til alls. (Orðskviðirnir 16:28; 18:8) En Jesús sagði þó að það ætti að taka með einn eða tvo. Til hvers? Og hverja væri hægt að taka með sér?
14. Hverja mætti taka með þegar annað skrefið er stigið?
14 Þú ert að reyna að vinna bróður þinn með því að sýna honum fram á að hann hafi syndgað. Þú vilt fá hann til að iðrast svo að hann geti átt frið við þig og Guð. Það væri kjörið ef þessir ‚einn eða tveir‘ væru vottar að hinu ranga verki. Kannski voru þeir viðstaddir þegar það átti sér stað eða hafa öruggar upplýsingar um hvað gerst hafi (eða ekki gerst) í viðskiptum. Ef engin slík vitni eru til gætirðu tekið með þér einhverja sem hafa reynslu á því sviði sem málið snýst um og geta ákvarðað hvort synd var raunverulega framin. Og sé þörf á því síðar meir geta þeir vottað hvað sagt hafi verið og staðfest hvaða staðreyndir komu fram og hvað reynt var að gera. (4. Mósebók 35:30; 5. Mósebók 17:6) Þeir eru ekki hlutlausir áhorfendur eða úrskurðarmenn heldur eru þeir viðstaddir til að reyna að vinna bróður þinn og sinn.
15. Af hverju geta kristnir öldungar reynst hjálplegir ef við þurfum að stíga annað skrefið?
15 Þeir sem þú tekur með þér þurfa ekki að vera öldungar í söfnuðinum. Þroskaðir menn, sem eru öldungar, geta samt sem áður lagt mikið af mörkum sökum andlegra hæfileika sinna. Slíkir öldungar eru „sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ (Jesaja 32:1, 2) Þeir hafa reynslu í því að rökræða við bræður og systur og leiðrétta þau. Og hinn brotlegi hefur fulla ástæðu til að treysta þeim sem eru „gjafir í mönnum.“c (Efesusbréfið 4:8, 11, 12, NW) Að ræða málið í viðurvist þessara þroskuðu manna og heyra bænir þeirra getur bætt andrúmsloftið og leyst úr máli sem virtist óleysanlegt. — Samanber Jakobsbréfið 5:14, 15.
Lokatilraunin til að vinna hann
16. Hvert er þriðja skrefið sem Jesús lýsti?
16 Ef annað skrefið dugir ekki til að útkljá málið er hið þriðja eftir sem umsjónarmenn safnaðarins eiga afdráttarlaust hlut að. „Ef hann skeytir þeim ekki [þessum einum eða tveim], þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ Hvað hefur þetta í för með sér?
17, 18. (a) Af hverju má ráða hvað það merkir að ‚segja það söfnuðinum‘? (b) Hvernig gerum við þetta nú á dögum?
17 Við teljum þetta ekki vera tilskipun um að leggja syndina eða rangindin fyrir venjulega samkomu eða sérstakan fund alls safnaðarins. Við getum ráðið af orði Guðs hverjar séu réttu starfsreglurnar. Taktu eftir hvað gera átti í Forn-Ísrael ef maður gerðist sekur um uppreisn, ofát og drykkjuskap: „Ef maður á þrjóskan son og ódælan, sem eigi vill hlýða föður sínum og móður, og hann hlýðnast þeim ekki að heldur, þótt þau hirti hann, þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgar hans, að borgarhliðinu, þar sem hann á heima, og segja við öldunga borgar hans: ‚Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og vill ekki hlýða okkur, hann er svallari og drykkjurútur.‘ Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana.“ — 5. Mósebók 21:18-21.
18 Synd mannsins var ekki lögð fyrir alla þjóðina til dóms eða fyrir alla ættkvísl hans, heldur voru það viðurkenndir ‚öldungar‘ sem tóku hana fyrir í umboði safnaðarins. (Samanber 5. Mósebók 19:16, 17 en þar er rætt um mál sem ‚prestar og dómarar, sem eru í þann tíma,‘ tóku fyrir.) Eins er það núna, þegar stíga þarf þriðja skrefið, að öldungarnir taka málið fyrir í umboði safnaðarins. Markmið þeirra er hið sama, að vinna kristinn bróður sinn ef mögulegt er. Þeir láta það í ljós með því að vera sanngjarnir, forðast hlutdrægni og vera ekki búnir að dæma fyrir fram í málinu.
19. Hvað leitast öldungarnir við að gera sem fjalla um málið?
19 Þeir leggja sig fram um að vega og meta staðreyndir og hlusta á þau vitni sem nauðsynlegt er til að ganga úr skugga um hvort synd hafi raunverulega verið framin (eða hvort henni sé haldið áfram). Þeir vilja vernda söfnuðinn fyrir spillingu og halda anda heimsins utan hans. (1. Korintubréf 2:12; 5:7) Þeir beita biblíulegum hæfileikum sínum til að reyna að „áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.“ (Títusarbréfið 1:9) Vonandi verður hinn brotlegi ekki eins og Ísraelsmennirnir sem spámaður Jehóva skrifaði um: „Þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði.“ — Jesaja 65:12.
20. Hvað sagði Jesús þurfa að gera ef syndarinn vill ekki hlusta og iðrast?
20 Einstöku sinnum sýnir syndarinn þó þetta hugarfar. Þá liggur ljóst fyrir hvað gera á samkvæmt fyrirmælum Jesú: „Þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ Drottinn mælti ekki með að öldungarnir beittu ómannúðlegum aðferðum eða gerðu syndaranum mein. En fyrirmæli Páls postula um að útiloka iðrunarlausa syndara frá söfnuðinum eru samt ekkert óljós. (1. Korintubréf 5:11-13) Jafnvel þetta getur um síðir náð fram því markmiði að vinna syndarann.
21. Hvað stendur til boða fyrir þann sem vikið er úr söfnuðinum?
21 Þessi möguleiki kemur fram í dæmisögu Jesú um glataða soninn. Eins og dæmisagan segir bjó sonurinn um tíma fjarri hinu ástríka samfélagi í húsi föður síns en ‚kom þá til sjálfs sín.‘ (Lúkas 15:11-18) Páll nefndi við Tímóteus að sumir syndarar iðruðust með tíð og tíma, ‚endurvitkuðust og losnuðu úr snöru djöfulsins.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:24-26) Við vonum vissulega að hver sá maður, sem syndgar og víkja þarf úr söfnuðinum sökum iðrunarleysis, komi til sjálfs sín og finni hverju hann hefur glatað — bæði velþóknun Guðs og hlýjum félagsskap og samneyti við trúfasta kristna menn.
22. Hvernig getum við unnið bróður okkar á ný?
22 Jesús taldi ekki að heiðingjum og tollheimtumönnum væri ekki viðbjargandi. Tollheimtumaðurinn Matteus Leví iðraðist, ‚fylgdi Jesú‘ í einlægni og var jafnvel valinn postuli. (Markús 2:15; Lúkas 15:1) Ef syndari ‚skeytir ekki söfnuðinum‘ og er vikið úr honum getum við því séð til hvort hann iðrast ekki með tíð og tíma og lætur fætur sína ganga beinar brautir. Þegar hann gerir það og er tekinn inn í söfnuðinn á nýjan leik fögnum við því að bróðir okkar skuli aftur vera kominn inn í sauðabyrgi sannrar guðsdýrkunar.
[Neðanmáls]
a Cyclopedia McClintocks og Strongs segir: „Tollheimtumennirnir í Nýja testamentinu voru álitnir svikarar og fráhvarfsmenn frá trúnni, saurugir vegna tíðra maka sinna við heiðingjana, viljug verkfæri kúgarans. Þeir voru settir í hóp með syndurum . . . Þeir voru látnir afskiptalausir, hreinlífir menn héldu sér fjarri þeim, og einustu vinir þeirra eða félagar voru úr hópi þeirra sem voru úrhrök eins og þeir sjálfir.“
b Ef einhver svik, brögð eða blekkingar eiga sér stað í sambandi við viðskipti eða fjármál getur það fallið innan ramma þeirra synda sem Jesús átti við. Það er vísbending um þetta að eftir að Jesús gaf leiðbeiningarnar í Matteusi 18:15-17 sagði hann dæmisögu um þjóna (launþega) sem skulduðu fé en borguðu ekki.
c Biblíufræðingur segir: „Hin brotlegi tekur stundum meira mark á tveim eða þrem (einkum mönnum sem hann virðir) en einum, sérstaklega ef þessi eini er sá sem hann hefur deilt við.“
Manstu?
◻ Hvers konar syndir er fyrst og fremst átt við í Matteusi 18:15-17?
◻ Hvað ber okkur að hafa hugfast ef við þurfum að stíga fyrsta skrefið?
◻ Hverjir geta hugsanlega hjálpað ef stíga þarf annað skrefið?
◻ Hverjir eiga aðild að þriðja skrefinu og hvernig getum við hugsanlega unnið bróður okkar á ný?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Jesús sneiddi hjá tollheimtumönnum. Matteus bætti ráð sitt og fylgdi honum.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Oft er hægt að gera út um mál „undir fjögur augu.“
-