Farsælt fjölskyldulíf
Ræðið um kynferðismál við börnin ykkar
Aldaa er unglingsstúlka. Hún segir: „Stundum er ég bara forvitin um eitthvað varðandi kynlíf en held samt að ef ég spyr foreldra mína haldi þau að ég sé að gera eitthvað rangt.“
Ingunn er móðir Öldu. Hún segir: „Ég vildi gjarnan setjast niður með dóttur minni og ræða um kynferðismál við hana en hún er bara svo upptekin af eigin hugðarefnum. Það er erfitt að finna tíma með henni.“
KYNLÍF blasir alls staðar við — í sjónvarpinu, bíómyndum og í auglýsingum út um allt. Það virðist sem allir megi tala um það sín á milli nema foreldrar og börn. Michael, sem er 16 ára unglingur í Kanada, segir: „Ég vildi óska að foreldrar vissu hvað það er vandræðalegt og stressandi að ræða við þá um kynferðismál. Það er auðveldara að tala við vinina um það.“
Margir foreldrar eru jafn feimnir við að brydda upp á málefninu. Í bók sinni Beyond the Big Talk segir heilbrigðisráðgjafi að nafni Debra W. Haffner: „Margir foreldrar hafa sagt mér að þeir hafi keypt bók um gelgjuskeiðið og kynferðismál, skilið hana eftir inni í herbergi táningsins og aldrei rætt málið frekar.“ Hún segir að skilaboðin séu skýr: „Við viljum að þú þekkir líkama þinn og vitir það sem þarf um kynlíf en við viljum samt ekki ræða það við þig.“
Ef þú ert foreldri þarftu að taka öðruvísi á málum. Það er mjög mikilvægt að þú talir augliti til auglitis við börnin um kynferðismál. Hér á eftir eru nefndar þrjár ástæður fyrir því:
Hugmyndir fólks um kynlíf hafa breyst. „Kynlíf er ekki lengur hægt að skilgreina einfaldlega sem kynmök hjóna,“ segir tvítugur maður að nafni Jakob. „Nú er talað um munnmök, endaþarmsmök, netkynlíf og jafnvel kynferðisleg smáskilaboð eða myndir í gegnum símann.“
Börnin þín fá líklega rangar upplýsingar um kynlíf mjög snemma á ævinni. „Þau eiga eftir að heyra um kynlíf um leið og þau byrja í skóla,“ segir móðir að nafni Sigrún, „og þau fá ekki að heyra þau viðhorf sem þú vilt að þau hafi.“
Börnin þín hafa spurningar um kynferðismál en það er ólíklegt að þau hefji máls á þeim við þig. „Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að byrja að tala við foreldra mína um kynlíf,“ segir Ana, sem er 15 ára stúlka í Brasilíu.
Þar sem þú ert foreldri hefur Guð lagt þér þá skyldu á herðar að fræða börnin þín um kynferðismál. (Efesusbréfið 6:4) Það getur að vísu verið vandræðalegt bæði fyrir þig og þau. En það jákvæða er að margir unglingar eru sama sinnis og Dagný en hún segir: „Við viljum frekar að foreldrar okkar fræði okkur um kynferðismál heldur en einhverjir sjónvarpsþættir eða kennarar.“ Hvernig er hægt að ræða við börnin um þetta mikilvæga málefni þótt það geti verið vandræðalegt?
Hafðu aldur barnsins í huga
Svo framarlega sem börnin þín alast ekki upp í algerri einangrun heyra þau um kynlíf strax á unga aldri. Og enn verra er að á þessum „síðustu dögum“ hafa „vondir menn . . . magnast í vonskunni“. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) Það er sorgleg staðreynd að mörg börn eru misnotuð kynferðislega af fullorðnum.
Þess vegna er mikilvægt að þú byrjir snemma að fræða börnin þín. „Ef þú bíður þar til þau nálgast unglingsárin getur verið að þau vilji ekki ræða opinskátt við þig vegna feimni sem einkennir gelgjuskeiðið,“ segir Renate, móðir í Þýskalandi. Best er að fræða börnin jafnt og þétt eftir því sem aldur þeirra leyfir.
Leikskólaaldur:
Kenndu þeim rétt heiti á kynfærunum og leggðu áherslu á að enginn ætti að snerta kynfæri þeirra. „Ég byrjaði að kenna syni mínum þegar hann var þriggja ára,“ segir móðir í Mexíkó að nafni Julia. „Það gerði mér verulega órótt að vita að kennarar, eldri börn og þeir sem pössuðu hann gætu gert honum mein. Hann þurfti að læra hvernig hann gæti varið sig.“
PRÓFIÐ ÞETTA: Þjálfið barnið í að bregðast við af festu ef einhver reynir að þukla á kynfærum þess. Til dæmis gætirðu kennt barninu að segja: „Hættu! Ég ætla að segja frá þessu!“ Fullvissaðu barnið um að það sé alltaf rétt að segja frá slíku, jafnvel þó að gerandinn lofi að gefa því gjafir eða hafi í hótunum við það.b
Grunnskólabörn:
Notaðu þessi ár til að bæta við þekkingu barnsins smátt og smátt. „Kannaðu landið áður en þú ræðir við barnið,“ ráðleggur Pétur sem á sjálfur barn. „Athugaðu hvað barnið veit nú þegar og hvort það vill vita meira. Ekki þvinga barnið út í umræður. Þær koma að öllum líkindum eðlilega ef þú notar reglulega tíma með börnunum.
PRÓFIÐ ÞETTA: Í stað þess að láta barninu í té allar upplýsingar í einu skaltu ræða reglulega við það og fræða það smátt og smátt. (5. Mósebók 6:6-9) Þá er ekki hætta á að þú kaffærir það með upplýsingum. Börnin fá þá að vita það sem þau þurfa smám saman eftir því sem þau stækka og þroskast.
Unglingar:
Nú er kominn tími til að fullvissa þig um að barnið þitt hafi næga þekkingu á kynferðismálum, bæði líkamlegum, tilfinningalegum og siðferðislegum þáttum þeirra. „Strákar og stelpur í skólanum mínum eru farin að sofa hjá,“ segir Ana, sem vitnað var í áður í greininni. „Mér finnst ég þurfa að hafa vissa þekkingu á kynferðismálum þó að það geti verið vandræðalegt að ræða um kynlíf. Þetta er samt eitthvað sem ég þarf að vita sem kristin manneskja.“c
Varnaðarorð: Táningar hika stundum við að spyrja spurninga af ótta við að foreldrarnir gruni þá um ranga hegðun. Þetta var reynsla Stefáns: „Sonur okkar færðist undan því að ræða um kynferðismál,“ segir hann. „En við komumst að því síðar að honum fannst við tortryggja hann. Við gerðum honum ljóst að við værum ekki að ræða þessi mál vegna þess að við hefðum hann grunaðan um eitthvað. Við vildum bara vera viss um að hann gæti varast spillandi áhrif.“
PRÓFIÐ ÞETTA: Í stað þess að spyrja táninginn beint um eitthvað ákveðið mál varðandi kynlíf geturðu spurt hann um viðhorf bekkjarfélaganna. Þú gætir til dæmis sagt: „Margir nú til dags telja munnmök ekki vera kynlíf. Finnst skólafélögum þínum það?“ Óbeinar spurningar eins og þessar eru líklegri til að fá táninginn til að opna sig og tjá sig um hvað honum finnst.
Sigrast á feimninni
Að tala við börnin þín um kynferðismál getur að vísu verið með því óþægilegasta sem þú gerir sem foreldri. En það er vel þess virði. Móðir að nafni Díana segir: „Með tímanum hættir það að vera jafn vandræðalegt, og það getur jafnvel styrkt samband þitt við barnið að tala við það um kynferðismál.“ Stefán, sem vitnað var í áður, tekur í sama streng: „Það verður auðveldara að ræða feimnismál eins og kynlíf ef maður kemur því upp í vana að ræða opinskátt um öll mál sem koma upp í fjölskyldunni,“ og hann bætir við: „Að tala um kynferðismál verður alltaf svolítið vandræðalegt, en opinská samskipti eru lífæð heilbrigðrar fjölskyldu.“
a Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.
b Tekið úr bókinni Lærum af kennaranum mikla, bls. 171. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.
c Notaðu kafla 1-5, 28, 29 og 33 í öðru bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga, til að ræða um kynferðismál við unglinginn. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.
SPYRÐU ÞIG . . .
Lestu eftirfarandi athugasemdir frá unglingum víða að úr heiminum og spyrðu þig síðan spurninganna sem fylgja.
„Foreldrar mínir segja mér að lesa greinar um kynferðismál og spyrja sig ef ég hef einhverjar spurningar. En ég vildi óska að þau ræddu meira við mig.“ — Ana, Brasilíu.
Hvers vegna heldurðu að það sé mikilvægt að gera meira en að láta son þinn eða dóttur fá lesefni?
„Ég veit svo margt um kynlíf sem er brenglað — margt sem ég held að pabbi hafi enga hugmynd um. Hann myndi fá áfall ef ég spyrði hann út í það.“ — Ken, Kanada.
Hvers vegna gæti barnið þitt veigrað sér við að ræða við þig um það sem hvílir á huga þess?
„Þegar ég loksins herti upp hugann og spurði foreldra mína um kynlíf sögðu þau í ásökunartón: ,Af hverju ertu að spyrja að þessu? Hefur eitthvað gerst?‘“ — Masami, Japan.
Hvernig geta viðbrögð þín annaðhvort opnað eða lokað fyrir frekari umræður þegar barnið þitt spyr þig út í kynferðismál?
„Það væri gott ef mamma og pabbi segðu mér að þau hefðu spurt sömu spurninga þegar þau voru á mínum aldri og að það sé eðlilegt að ég spyrji líka.“ — Lisette, Frakklandi.
Hvernig geturðu auðveldað barninu að ræða við þig um kynferðismál?
„Mamma var vön að spyrja mig spurninga um kynlíf, en í vingjarnlegum tón. Mér finnst það mikilvægt svo að börnunum finnist ekki að verið sé að dæma þau.“ — Gerald, Frakklandi.
Í hvernig tón ræðir þú við barnið þitt um kynferðismál? Þarftu að breyta einhverju?