-
Farandumsjónarmenn — gjafir í mönnumVarðturninn – 1997 | 1. mars
-
-
Farandumsjónarmenn — gjafir í mönnum
„Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf [„gjafir í mönnum,“ NW].“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:8.
1. Frá hvaða nýju starfi var greint í þessu tímariti árið 1894?
FYRIR meira en öld tilkynnti Varðturninn um „nýjan starfsvettvang.“ Hvaða vettvangur var það? Þetta var farandumsjónarstarfið sem var verið að taka upp í nútímalegri mynd. Hinn 1. september 1894 sagði blaðið að þaðan í frá myndu hæfir bræður heimsækja Biblíunemendahópana ‚í þeim tilgangi að uppbyggja þá í sannleikanum.‘
2. Hverjar eru skyldur farand- og umdæmishirða?
2 Kristnu söfnuðirnir á fyrstu öld fengu heimsóknir umsjónarmanna svo sem Páls og Barnabasar. Þessir trúföstu menn komu í því augnamiði að „uppbyggja“ söfnuðina. (2. Korintubréf 10:8) Það er mikil blessun fyrir okkur að þúsundir manna skuli vinna þetta verk með skipulegum hætti nú á tímum. Hið stjórnandi ráð votta Jehóva hefur útnefnt þá farand- og umdæmishirða. Farandhirðir þjónar um 20 söfnuðum tvisvar á ári, eina viku í senn, og fer yfir safnaðarskjöl, flytur ræður og tekur þátt í boðunarstarfi Guðsríkis með boðberum staðarins. Umdæmishirðir stýrir árlegum svæðismótum allnokkurra farandsvæða, tekur þátt í boðunarstarfinu með þeim söfnuði, sem hann og farandhirðirinn heimsækja í mótsvikunni, og flytur uppörvandi og hvetjandi biblíuræður.
Fórnfýsi þeirra
3. Hvers vegna þurfa farandumsjónarmenn að vera fórnfúsir?
3 Farandumsjónarmenn eru stöðugt á faraldsfæti. Það eitt kallar á fórnfýsi. Oft getur verið erfitt að ferðast milli safnaða, en þessir menn og eiginkonur þeirra gera það með gleði. Farandhirðir nokkur segir: „Konan mín er mikil stoð og stytta og hún kvartar ekki . . . Hún á mikið hrós skilið fyrir fórnfýsi sína.“ Sumir farandhirðar ferðast yfir 1000 kílómetra milli safnaða. Margir aka stað úr stað á bíl, en aðrir ferðast með almenningssamgöngutækjum eða þá hjólandi, á hestbaki eða fótgangandi. Farandhirðir einn í Afríku þarf meira að segja að vaða yfir á með eiginkonuna á háhesti til að komast til eins safnaðarins. Á trúboðsferðum sínum þurfti Páll postuli að þola hita og kulda, hungur og þorsta, svefnlausar nætur, ýmsan háska og hatrammar ofsóknir. Hann hafði líka ‚áhyggjur af öllum söfnuðunum‘ — en þá tilfinningu þekkja farandhirðar nútímans mætavel. — 2. Korintubréf 11:23-29.
4. Hvaða áhrif geta heilsuvandamál haft á líf farandumsjónarmanna og eiginkvenna þeirra?
4 Farandhirðar og eiginkonur þeirra eiga stundum við heilsuvandamál að glíma líkt og Tímóteus, ferðafélagi Páls. (1. Tímóteusarbréf 5:23) Það hefur aukið álag í för með sér. Eiginkona farandhirðis segir: „Þegar mér líður ekki vel reynir það á mig að vera alltaf meðal bræðranna. Sérstaklega hefur mér fundist það erfitt samhliða tíðahvörfunum. Það eitt að pakka niður öllum farangri okkar í hverri viku og fara á annan stað er verulegt átak. Oft þarf ég að staldra við og biðja Jehóva að gefa mér styrk til að halda áfram.“
5. Hvaða viðhorf hafa farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra sýnt, þrátt fyrir ýmsar raunir?
5 Þrátt fyrir heilsuvandamál og aðra erfiðleika hafa farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra ánægju af þjónustu sinni og sýna fórnfúsan kærleika. Sum hafa hætt lífinu til að veita andlega hjálp á ofsóknar- eða stríðstímum. Þegar þau heimsækja söfnuðina hafa þau sýnt sama hugarfar og Páll sem sagði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.
6, 7. Hvaða uppbyggileg áhrif geta iðjusamir farandumsjónarmenn haft?
6 Líkt og aðrir öldungar í kristna söfnuðinum „erfiða“ farandumsjónarmenn „í orðinu og í kennslu.“ Alla slíka öldunga ætti að ‚hafa í tvöföldum metum.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:17) Fordæmi þeirra getur verið okkur til góðs ef við virðum fyrir okkur hvernig þeir breyta og ‚líkjum síðan eftir trú þeirra.‘ — Hebreabréfið 13:7.
7 Hvaða áhrif hafa farandhirðar haft á aðra? „Bróðir P —— hafði sérstaklega góð áhrif á líf mitt,“ segir vottur nokkur. „Hann var farandhirðir í Mexíkó frá 1960. Sem barn beið ég óþreyjufullur eftir heimsóknum hans. Þegar ég var tíu ára sagði hann mér: ‚Þú verður líka farandhirðir.‘ Á unglingsárunum, sem voru erfið, leitaði ég oft til hans af því að hann gat alltaf miðlað mér af visku sinni. Líf hans snerist um það að gæta hjarðarinnar! Núna er ég sjálfur farandhirðir og reyni alltaf að gefa börnum og unglingum af tíma mínum og hvetja þau til að setja sér guðræðisleg markmið eins og hann hvatti mig. Jafnvel á síðustu æviárum sínum reyndi bróðir P—— alltaf að vera uppörvandi, þrátt fyrir hjartveiki. Daginn áður en hann dó í febrúar 1995 var hann með mér á sérstökum mótsdegi og hvatti þar bróður, sem er arkitekt, til að setja sér góð markmið. Bróðirinn sótti þegar í stað um starf á Betel!“
Þeir eru mikils metnir
8. Hverjir eru „gjafir í mönnum“ eins og lýst er í 4. kafla Efesusbréfsins og hvernig eru þeir söfnuðinum til góðs?
8 Farandumsjónarmenn og aðrir öldungar, sem veitt eru þjónustusérréttindi vegna óverðskuldaðrar góðvildar Guðs, eru kallaðir „gjafir í mönnum“ (NW). Jesús er fulltrúi Jehóva og höfuð safnaðarins, og hann hefur gefið þessa andlegu menn til að uppbyggja hvert og eitt okkar og leiða okkur til þroska. (Efesusbréfið 4:8-15) Sérhver gjöf er þakkarverð, einkum gjöf sem styrkir okkur til að halda áfram að þjóna Jehóva. Hvernig getum við þá sýnt að við kunnum að meta starf farandumsjónarmannanna? Hvernig getum við látið í ljós að við ‚höfum slíka menn í heiðri‘? — Filippíbréfið 2:29.
9. Á hvaða vegu getum við sýnt að við kunnum að meta farandumsjónarmennina?
9 Við getum byrjað að undirbúa okkur fyrir ríkulega þátttöku í starfi safnaðarins strax og heimsókn farandhirðis er tilkynnt. Kannski getum við varið meiri tíma en endranær til að taka þátt í boðunarstarfinu meðan á heimsókninni stendur. Ef til vill getum við þjónað sem aðstoðarbrautryðjendur þann mánuð. Vissulega ættum við öll að taka tillögur farandhirðisins til okkar í þeim tilgangi að bæta þjónustuna. Það er sjálfum okkur til góðs að vera móttækileg, og jafnframt fullvissum við farandhirðinn um að heimsókn hans sé til gagns. Já, farandumsjónarmenn heimsækja söfnuðinn til að byggja okkur upp, en þeir þarfnast líka andlegrar uppbyggingar. Stundum var Páll hvatningarþurfi og oft bað hann trúbræður um að biðja fyrir sér. (Postulasagan 28:15; Rómverjabréfið 15:30-32; 2. Korintubréf 1:11; Kólossubréfið 4:2, 3; 1. Þessaloníkubréf 5:25) Farandumsjónarmenn nútímans þarfnast líka bæna okkar og hvatningar.
10. Hvernig getum við stuðlað að því að farandumsjónarmenn hafi gleði af starfi sínu?
10 Höfum við sagt farandhirðinum og eiginkonu hans hve mikils við metum heimsóknir þeirra? Þökkum við honum fyrir gagnleg ráð sem hann gefur okkur? Segjum við honum frá því þegar tillögur hans í sambandi við boðunarstarfið auka gleði okkar í þjónustunni? Ef við gerum það stuðlum við að því að hann hafi gleði af starfi sínu. (Hebreabréfið 13:17) Farandhirðir á Spáni gat þess sérstaklega hve mikils þau hjónin mætu það að fá þakkarkort frá söfnuðunum sem þau hafa heimsótt. „Við geymum þessi kort og lesum þau þegar við erum dauf í dálkinn,“ segir hann. „Þau eru okkur mikil uppörvun.“
11. Hvers vegna ættum við að láta eiginkonur farand- og umdæmishirða vita að þær séu elskaðar og metnar mikils?
11 Eiginkona farandumsjónarmannsins kann vissulega að meta hrós. Hún hefur fært miklar fórnir til að styðja mann sinn í þessari þjónustugrein. Það er eðlileg löngun að eiga sitt eigið heimili en þessar trúföstu systur fórna því og í mörgum tilfellum einnig því að eignast börn. Dóttir Jefta var þjónn Jehóva sem afsalaði sér fúslega tækifærinu til að eignast eiginmann og börn vegna heitsins sem faðir hennar gaf. (Dómarabókin 11:30-39, NW) Hvernig var litið á fórn hennar? Dómarabókin 11:40 segir: „Ár frá ári fara Ísraels dætur að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á ári hverju.“ Það er mjög gott að segja eiginkonum farand- og umdæmishirða að þær séu elskaðar og mikils metnar!
„Gleymið ekki gestrisninni“
12, 13. (a) Hvaða biblíuleg forsenda er fyrir því að vera gestrisin við farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra? (b) Lýstu með dæmi hvernig slík gestrisni getur verið gagnleg á báða bóga.
12 Gestrisni er önnur leið til að sýna farandumsjónarmönnum og eiginkonum þeirra kærleika og þakklæti. (Hebreabréfið 13:2) Jóhannes postuli hrósaði Gajusi fyrir að sýna gestrisni farandtrúboðum sem komu til safnaðarins. Hann skrifaði: „Þú breytir dyggilega, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir bræðurna og jafnvel ókunna menn. Þeir hafa vitnað fyrir söfnuðinum um kærleika þinn. Þú gjörir vel, er þú greiðir för þeirra eins og verðugt er fyrir Guði. Því að sakir nafnsins lögðu þeir af stað og þiggja ekki neitt af heiðnum mönnum. Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.“ (3. Jóhannesarbréf 5-8) Við getum eflt prédikun Guðsríkis með því að sýna farandumsjónarmönnum og eiginkonum þeirra sams konar gestrisni. Öldungar hvers safnaðar ættu auðvitað að sjá um að þeim sé séð fyrir viðunandi gistiaðstöðu, en umdæmishirðir nokkur sagði: „Samskipti okkar við bræðurna geta ekki byggst á því hver geti gert eitthvað fyrir okkur. Við viljum ekki einu sinni að nokkur fái það á tilfinninguna. Við verðum að gera okkur ánægð með gestrisni bræðranna, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir.“
13 Gestrisni getur verið gagnleg á báða bóga. „Það var venja okkar í fjölskyldunni að bjóða farandumsjónarmönnum að gista hjá okkur,“ segir Jorge sem er fyrrverandi farandhirðir og þjónar nú á Betel. „Mér finnst þessar heimsóknir hafa hjálpað mér meira en ég gerði mér grein fyrir þá. Ég átti í andlegum erfiðleikum á gelgjuskeiðinu. Mamma hafði áhyggjur af því en vissi ekki alveg hvernig hún ætti að hjálpa mér, þannig að hún bað farandhirðinn að tala við mig. Ég forðaðist hann í fyrstu því að ég óttaðist að hann myndi gagnrýna mig. En hann var vingjarnlegur þannig að ég opnaði mig fyrir honum að lokum. Hann bauð mér að borða með sér einn mánudaginn og ég opnaði hjarta mitt fyrir honum af því að ég var viss um að hann skildi mig. Hann hlustaði vel. Hann kom með raunhæfar tillögur sem hrifu og ég byrjaði að taka andlegum framförum.“
14. Hvers vegna ættum við að vera þakklát en ekki gagnrýnin á farandumsjónarmenn?
14 Farandumsjónarmaður reynir að veita jafnt ungum sem gömlum andlega hjálp. Við ættum því að sýna að við kunnum að meta viðleitni hans. En hvað nú ef við gagnrýndum hann fyrir galla hans eða gæfum í skyn að hann stæði sig illa í samanburði við aðra sem hafa heimsótt söfnuðinn? Líklega yrði hann niðurdreginn. Það var ekki beinlínis uppörvandi fyrir Pál að heyra starf sitt gagnrýnt. Ljóst er að sumir kristnir menn í Korintu töluðu niðrandi um útlit hans og ræðumennsku. Hann hafði eftir þessum aðfinnslumönnum: „Bréfin . . . eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans.“ (2. Korintubréf 10:10) En sem betur fer heyra farandumsjónarmenn yfirleitt hrós og þakkarorð.
15, 16. Hvaða áhrif hefur kærleikur og kostgæfni safnaðarmanna á farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra?
15 Farandhirðir nokkur í Rómönsku Ameríku þrammar heilan dag eftir moldarslóðum til að heimsækja andlega bræður sína og systur á svæði sem er undir yfirráðum skæruliða. „Það er hrífandi að sjá hvernig bræðurnir sýna þakklæti sitt fyrir heimsóknina,“ skrifar hann. „Þótt ég þurfi að leggja mikið á mig til að komast þangað og þola marga erfiðleika og hættur, þá er kærleikur og kostgæfni bræðranna umbun fyrir allt erfiðið.“
16 Farandhirðir í Afríku skrifar: „Okkur þótti mjög vænt um Tansaníu vegna þess hve kærleiksríkir bræðurnir voru í okkar garð! Þeir voru fúsir til að læra af okkur og höfðu ánægju af því að hafa okkur á heimilum sínum.“ Páll postuli og hjónin Akvílas og Priska á fyrstu öld áttu kærleiksríkt og ánægjulegt samband. Páll sagði um þau: „Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.“ (Rómverjabréfið 16:3, 4) Farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra eru þakklát fyrir að eiga fyrir vini fólk sem leggur sig sérstaklega fram um að vera gestrisið og veita félagsskap líkt og Akvílas og Priska forðum.
Að styrkja söfnuðina
17. Hvers vegna má segja að starfsemi farandumsjónarmanna sé viturleg ráðstöfun og hvaðan fá þeir fræðslu?
17 Jesús sagði: „Spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Spekin eða viskan að baki starfsemi farandumsjónarmannanna er ljós af því að hún styrkir söfnuði fólks Guðs. Á annarri trúboðsferð Páls fóru þeir Sílas ‚um Sýrland og Kilikíu og styrktu söfnuðina.‘ Postulasagan segir okkur: „Þeir fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir, sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt, og buðu að varðveita þær. En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ (Postulasagan 15:40, 41; 16:4, 5) Farandumsjónarmenn nútímans fá andlega fræðslu frá Ritningunni og ritum ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ eins og allir aðrir kristnir menn. — Matteus 24:45.
18. Hvernig styrkja farandumsjónarmenn söfnuðina?
18 Já, farandumsjónarmenn verða að halda áfram að nærast við andlegt borð Jehóva. Þeir verða að vera vel heima í þeim aðferðum og viðmiðunarreglum sem skipulag Guðs fylgir. Þá geta slíkir menn verið öðrum til mikillar blessunar. Með góðu fordæmi sínu og kostgæfni í boðunarstarfinu geta þeir hjálpað trúbræðrum sínum að taka framförum í hinni kristnu þjónustu. Biblíuræður þessara gestkomandi öldunga eru áheyrendum til andlegrar uppbyggingar. Farandumsjónarmenn styrkja söfnuðina sem þeir heimsækja með því að hjálpa öðrum að fara eftir ráðleggingum orðs Guðs, þjóna með fólki hans um heim allan og notfæra sér andlegar ráðstafanir hans fyrir milligöngu hins ‚trúa þjóns.‘
19. Hvaða spurningar eigum við eftir að fjalla um?
19 Þegar skipulag Jehóva tók að gera út farandumsjónarmenn meðal Biblíunemendanna fyrir um það bil hundrað árum sagði þetta tímarit: „Við skulum fylgjast með árangrinum og frekari handleiðslu Drottins.“ Handleiðsla Jehóva hefur verið augljós. Vegna blessunar hans og umsjónar hins stjórnandi ráðs hefur þetta starf aukist og verið betrumbætt með árunum. Fyrir vikið styrkjast söfnuðir votta Jehóva um alla jörðina í trúnni og verða fjölmennari dag frá degi. Ljóst er að Jehóva blessar fórnfýsi þessara gjafa í mönnum. En hvernig geta farandumsjónarmenn unnið starf sitt farsællega? Hver eru markmið þeirra? Hvernig geta þeir látið sem mest gott af sér leiða?
Hvert er svar þitt?
◻ Nefndu nokkrar skyldur farand- og umdæmishirða.
◻ Hvers vegna þurfa farandumsjónarmenn að vera fórnfúsir?
◻ Hvernig er hægt að sýna þakklæti fyrir starf farandumsjónarmanna og eiginkvenna þeirra?
◻ Hvað geta farandumsjónarmenn gert til að styrkja söfnuðina í trúnni?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Það kostar fórnfýsi að vera sífellt á faraldsfæti.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Hefur þú sýnt farandumsjónarmönnum og eiginkonum þeirra gestrisni?
-
-
Farandumsjónarmenn þjóna sem trúfastir ráðsmennVarðturninn – 1997 | 1. mars
-
-
Farandumsjónarmenn þjóna sem trúfastir ráðsmenn
„Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:10.
1, 2. (a) Hvernig skilgreinir þú orðið „ráðsmaður“? (b) Hverjir eru í hópi þeirra ráðsmanna sem Guð notar?
JEHÓVA notar alla trúfasta kristna menn sem ráðsmenn. Ráðsmaður er gjarnan þjónn sem settur er yfir heimilisrekstur eða annan rekstur húsbóndans. (Lúkas 16:1-3; Galatabréfið 4:1, 2) Jesús kallaði drottinholla, smurða þjóna sína á jörðinni ‚trúa ráðsmanninn.‘ Hann hefur sett þennan ráðsmann yfir „allar eigur sínar,“ þar á meðal prédikun Guðsríkis. — Lúkas 12:42-44; Matteus 24:14, 45.
2 Pétur postuli segir að allir kristnir menn séu ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Hver einstakur
-