NÁMSGREIN 22
Hjálpum biblíunemendum okkar að verða hæfir til skírnar
„Látið öll skírast.“ – POST. 2:38.
SÖNGUR 72 Boðum sannleikann um ríkið
YFIRLITa
1. Hvað var stórum hópi fólks á fyrstu öld sagt að gera?
STÓR hópur karla og kvenna var saman kominn í Jerúsalem. Þau voru frá mörgum löndum og töluðu ýmis tungumál. Nokkuð merkilegt gerðist þennan dag. Hópur Gyðinga gat allt í einu talað við fólkið á móðurmáli þess. Það var að vísu sérstakt, en það sem þessir Gyðingar sögðu við fólkið og það sem Pétur postuli sagði við alla viðstadda var enn merkilegra. Fólkið fékk að vita að það gæti bjargast ef það sýndi trú á Jesú Krist. Það var djúpt snortið af því sem það heyrði. Þetta hafði svo mikil áhrif á fólkið að það spurði: „Hvað eigum við að gera?“ Pétur svaraði: „Látið öll skírast.“ – Post. 2:37, 38.
2. Hvað skoðum við í þessari grein? (Sjá mynd á forsíðu.)
2 Það sem gerðist þessu næst var einstakt. Um 3.000 manns létu skírast á þessum degi og urðu lærisveinar Krists. Þannig hófst það mikla starf að gera fólk að lærisveinum eins og Jesús bauð fylgjendum sínum að gera. Við erum enn að sinna þessu starfi. Nú á dögum getum við ekki hjálpað fólki að verða hæft til skírnar á aðeins nokkrum klukkustundum. Það getur tekið biblíunemanda marga mánuði eða jafnvel ár eða meira að ná því marki. Það er mikil vinna að gera fólk að lærisveinum, eins og þú veist ef þú ert með biblíunemanda. Í þessari grein skoðum við hvernig hægt er að hjálpa biblíunemanda að verða hæfur til skírnar.
HJÁLPAÐU BIBLÍUNEMANDA ÞÍNUM AÐ FARA EFTIR ÞVÍ SEM HANN LÆRIR
3. Hvað þarf nemandi að gera til að verða hæfur til að láta skírast eins og fram kemur í Matteusi 28:19, 20?
3 Biblíunemandi þarf að heimfæra upp á líf sitt það sem Biblían kennir áður en hann getur látið skírast. (Lestu Matteus 28:19, 20.) Þegar nemandi fer eftir því sem hann lærir verður hann eins og ,skynsami maðurinn‘ í líkingu Jesú sem gróf djúpt og byggði hús sitt á klöpp. (Matt. 7:24, 25; Lúk. 6:47, 48) Hvernig getum við hjálpað biblíunemanda að fara eftir því sem hann lærir? Skoðum þrennt.
4. Hvernig getum við hjálpað nemanda að vinna jafnt og þétt að því að láta skírast? (Sjá einnig rammann „Hjálpaðu nemanda þínum að setja sér markmið og ná þeim“.)
4 Hjálpaðu nemanda þínum að setja sér markmið. Hvers vegna ættirðu að gera það? Hugleiddu eftirfarandi dæmi: Ef þú ert á leiðinni í langt ferðalag ákveðurðu kannski að stoppa á nokkrum skemmtilegum stöðum á leiðinni. Þá virðist leiðin ekki eins löng. Eins er með biblíunemendur. Þegar biblíunemandi setur sér skammtímamarkmið og nær þeim gerir hann sér eflaust grein fyrir því að markmiðið að láta skírast er ekki svo langt undan. Notaðu rammann „Markmið“ í bókinni Von um bjarta framtíð til að hjálpa nemanda þínum að taka framförum. Í lok hvers kafla skuluð þið ræða hvernig markmiðið tengist því sem nemandinn var að læra. Ef þú ert með annað markmið í huga fyrir nemandann geturðu skrifað það undir „Annað“. Notaðu reglulega þennan hluta námsstundarinnar til að fara með nemanda þínum bæði yfir skammtímamarkmið hans og langtímamarkmið.
5. Hvað sagði Jesús ríkum manni að gera og hvers vegna eins og fram kemur í Markúsi 10:17–22?
5 Hjálpaðu nemanda þínum að gera breytingar á líferni sínu. (Lestu Markús 10:17–22.) Jesús vissi að það yrði erfitt fyrir ríkan mann að selja allar eigur sínar. (Mark. 10:23) Samt sagði hann manninum að gera þessa miklu breytingu. Hvers vegna? Vegna þess að honum þótti vænt um hann. Stundum hikum við kannski við að hvetja nemanda til að fara eftir því sem hann lærir af því að við höldum að hann sé ekki tilbúinn til að gera nauðsynlegar breytingar. Það getur tekið tíma fyrir fólk að breyta líferni sínu og íklæðast nýja manninum. (Kól. 3:9, 10) En því fyrr sem þú ræðir málið opinskátt við nemandann því fyrr getur hann farið að gera breytingar. Þú sýnir að þér er annt um hann með því að ræða þetta við hann. – Sálm. 141:5; Orðskv. 27:17.
6. Hvers vegna ættum við að spyrja viðhorfsspurninga?
6 Við notum viðhorfsspurningar til að fá að heyra álit nemandans á efninu. Notaðu slíkar spurningar til að komast að því hvað nemandinn skilur og hverju hann trúir. Ef þú venur þig á að gera þetta verður auðveldara fyrir þig að ræða viðkvæm málefni við hann síðar. Í bókinni Von um bjarta framtíð eru margar viðhorfsspurningar. Í kafla 04 er til dæmis spurt: „Hvernig heldurðu að Jehóva líði þegar þú notar nafn hans?“ Í kafla 09 er spurt: „Hvað myndir þú vilja tala við Guð um í bæn?“ Til að byrja með getur nemandinn átt erfitt með að svara viðhorfsspurningum. Þú getur hjálpað honum með því að þjálfa hann í að draga ályktanir út frá ritningarstöðum sem tengjast efninu og myndunum í bókinni.
7. Hvernig getum við nýtt okkur vel reynslusögur annarra?
7 Þegar nemandinn hefur gert sér grein fyrir því hvað hann þarf að gera geturðu notað frásögur af fólki til að hvetja hann til þess. Ef nemandanum finnst til dæmis erfitt að sækja samkomur gætirðu sýnt honum myndbandið Jehóva annaðist mig sem er kynnt í 14. kafla undir „Kannaðu“. Í mörgum köflum bókarinnar Von um bjarta framtíð geturðu fundið slíkar frásögur annað hvort undir „Kafaðu dýpra“ eða „Kannaðu“.b Varastu að bera nemanda þinn saman við einhvern annan og segja: „Ef hann getur gert þetta getur þú það líka.“ Leyfðu nemandanum að komast að þeirri niðurstöðu sjálfur. Bentu frekar á það sem hjálpaði einstaklingnum í myndbandinu að fara eftir því sem Biblían kennir. Þú getur kannski bent honum á ákveðinn ritningarstað eða eitthvað sem einstaklingurinn gerði og virkaði vel. Reyndu alltaf að leggja áherslu á hvernig Jehóva hjálpaði einstaklingnum.
8. Hvernig getum við hjálpað nemandanum að byggja upp kærleika til Jehóva?
8 Hjálpaðu nemanda þínum að byggja upp kærleika til Jehóva. Þú getur gert það með því að nota hvert tækifæri til að beina athyglinni að eiginleikum Jehóva. Hjálpaðu nemanda þínum að sjá að Jehóva er hamingjusamur Guð sem styður þá sem elska hann. (1. Tím. 1:11; Hebr. 11:6) Sýndu nemandanum að það sé honum til góðs að fara eftir því sem hann lærir og útskýrðu fyrir honum að það sýni að Jehóva elski hann. (Jes. 48:17, 18) Þegar nemandinn fer að elska Jehóva heitar fær hann sterkari löngun til að breyta því sem hann þarf. – 1. Jóh. 5:3.
HJÁLPAÐU NEMANDANUM AÐ KYNNAST ÖÐRUM VOTTUM
9. Hvað getur hjálpað fólki að fórna einhverju til að geta orðið skírðir lærisveinar, samanber Markús 10:29, 30?
9 Biblíunemandi þarf að færa fórnir til að verða hæfur til að láta skírast. Sumir nemendur geta þurft að fórna einhverju efnislegu líkt og ríki maðurinn sem minnst var á áður. Þeir gætu jafnvel þurft að skipta um vinnu ef þeir vinna við eitthvað sem stangast á við meginreglur Biblíunnar. Margir þurfa að segja skilið við vini sem elska ekki Jehóva. Og stundum snýr fjölskyldan baki við biblíunemanda vegna þess að henni líkar ekki við Votta Jehóva. Jesús viðurkenndi að það gæti verið erfitt fyrir suma að færa slíkar fórnir. En hann lofaði að þeir sem fylgdu honum yrðu ekki fyrir vonbrigðum. Jehóva myndi umbuna þeim með því að gefa þeim kærleiksríka andlega fjölskyldu. (Lestu Markús 10:29, 30.) Hvernig geturðu hjálpað biblíunemanda þínum að eignast þessa dásamlegu gjöf?
10. Hvað lærum við af reynslu Manuels?
10 Vertu vinur nemanda þíns. Það er mikilvægt að þú sýnir nemanda þínum að þér sé annt um hann. Hvers vegna skiptir það máli? Taktu eftir því sem Manuel, sem býr í Mexíkó, segir um þann tíma þegar hann var að kynna sér Biblíuna: „Fyrir hverja námsstund spurði kennarinn minn mig hvernig ég hefði það. Hann hjálpaði mér að slaka á og leyfði mér að tala um hvað sem er. Ég fann að honum var annt um mig.“
11. Hvaða gagn geta biblíunemendur haft af því að verja tíma með okkur?
11 Verðu tíma með biblíunemendum þínum rétt eins og Jesús varði tíma með fylgjendum sínum. (Jóh. 3:22) Ef nemandi þinn er farinn að gera breytingar í lífi sínu gæti verið vel við hæfi að bjóða honum heim í kaffibolla eða mat eða til að horfa á mánaðarþátt í Sjónvarpi Votta Jehóva. Hann kynni eflaust sérstaklega að meta að fá heimboð á hátíðisdögum þegar hann er kannski einmana. „Ég held að ég hafi lært jafnmikið um Jehóva af því að verja tíma með kennaranum mínum eins og í námsstundunum sjálfum,“ segir Kazibwe sem býr í Úganda. „Ég tók eftir hve annt Jehóva er um þjóna sína og hve ánægðir þeir eru. Ég vildi eignast þannig líf.“
12. Hvers vegna ættum við að bjóða mismunandi boðberum með í biblíunámsstundir?
12 Bjóddu mismunandi boðberum með þér í biblíunámsstundirnar. Stundum finnst okkur kannski auðveldara að fara ein eða bjóða alltaf sama boðbera með okkur. Þó að það geti verið þægilegt er eflaust gott fyrir biblíunemandann ef mismunandi boðberar koma með. „Hver boðberi sem kom með í námið útskýrði hlutina á sinn hátt,“ segir Dmítríí sem býr í Moldóvu. „Það hjálpaði mér að sjá efnið frá mismunandi sjónarhornum. Ég var heldur ekki svo feiminn þegar ég mætti á fyrstu samkomuna af því að þá hafði ég þegar hitt marga bræður og systur.“
13. Hvers vegna eigum við að hjálpa nemendum okkar að sækja samkomur?
13 Hjálpaðu nemanda þínum að sækja samkomur safnaðarins. Hvers vegna er það mikilvægt? Vegna þess að Jehóva gefur tilbiðjendum sínum fyrirmæli um að safnast saman. Það er hluti af tilbeiðslu okkar. (Hebr. 10:24, 25) Auk þess eru bræður okkar og systur í söfnuðinum andleg fjölskylda okkar. Þegar við erum á samkomum með þeim er eins og við séum að njóta góðrar máltíðar saman. Þegar þú hjálpar biblíunemanda þínum að sækja samkomur hjálparðu honum að stíga eitt mikilvægasta skrefið í átt til skírnar. En honum getur fundist erfitt að byrja að sækja samkomur. Hvernig getur ritið Von um bjarta framtíð hjálpað nemandanum að sigrast á því sem hindrar hann í að sækja samkomur?
14. Hvernig getum við hvatt nemendur okkar til að sækja samkomur?
14 Notaðu 10. kafla bókarinnar Von um bjarta framtíð til að hvetja nemanda þinn. Reyndir boðberar sem voru beðnir um að prófa þennan kafla bókarinnar áður en hún var gefin út sögðu að það hefði gengið mjög vel og hjálpað nemendum þeirra að sækja samkomur. Þú ættir auðvitað ekki að bíða með að bjóða biblíunemanda þínum að koma á samkomu þangað til þið eruð komnir í kafla 10. Bjóddu honum eins fljótt og hægt er og haltu áfram að bjóða honum. Biblíunemendur glíma við ólíkar hindranir. Taktu því eftir hverju þinn nemandi þarf á að halda og hvort þú getur veitt honum hagnýta hjálp. Og gefstu ekki upp þó að hann komi ekki strax. Vertu þolinmóður og haltu áfram að bjóða honum.
HJÁLPAÐU BIBLÍUNEMANDA ÞÍNUM AÐ SIGRAST Á ÓTTA
15. Hvað gætu nemendur okkar óttast?
15 Varst þú kvíðinn fyrir því að verða vottur Jehóva? Kannski fannst þér að þú myndir aldrei geta boðað trúna opinberlega. Eða kannski óttaðistu að fjölskylda þín eða vinir snerust gegn þér. Þá geturðu skilið hvernig biblíunemanda þínum líður. Jesús sagði að sumir myndu finna fyrir slíkum ótta. En hann hvatti fylgjendur sína til að láta ótta ekki hindra sig í að þjóna Jehóva. (Matt. 10:16, 17, 27, 28) Hvernig hjálpaði Jesús fylgjendum sínum að sigrast á óttanum? Og hvernig getur þú fylgt fordæmi hans?
16. Hvernig getum við þjálfað nemendur okkar í að segja öðrum frá trú sinni?
16 Þjálfaðu nemanda þinn smám saman í að segja frá trú sinni. Lærisveinar Jesú voru kannski kvíðnir þegar hann sendi þá út að boða trúna. En Jesús hjálpaði þeim með því að segja þeim hvar þeir ættu að boða trúna og hver boðskapur þeirra ætti að vera. (Matt. 10:5–7) Hvernig getur þú líkt eftir Jesú? Hjálpaðu nemanda þínum að koma auga á hvar hann getur boðað trúna. Þú getur til dæmis spurt hann hvort hann þekki einhvern sem gæti haft gagn af því að heyra ákveðin biblíusannindi. Hjálpaðu honum síðan að undirbúa sig með því að sýna honum hvernig hann geti sagt frá þeim á einfaldan hátt. Þegar það á við gætuð þið æft ykkur saman með því að nota „Sumir segja“ og „Einhver gæti spurt“ í bókinni Von um bjarta framtíð. Þegar þið gerið það skaltu þjálfa nemandann í að nota Biblíuna til að svara á einfaldan og nærgætinn hátt.
17. Hvernig getum við notað Matteus 10:19, 20 og 29–31 til að hjálpa nemendum okkar að treysta á Jehóva?
17 Hjálpaðu nemanda þínum að treysta á Jehóva. Jesús fullvissaði lærisveina sína um að Jehóva myndi hjálpa þeim vegna þess að hann elskaði þá. (Lestu Matteus 10:19, 20, 29–31.) Minntu nemanda þinn á að Jehóva hjálpar honum líka. Þú getur hjálpað honum að treysta á Jehóva með því að minnast á markmið hans í bænum ykkar. „Kennari minn minntist oft á markmið mín í bænunum,“ segir Franciszek sem býr í Póllandi. „Þegar ég sá hvernig Jehóva svaraði bænum kennara míns byrjaði ég fljótt að biðja sjálfur. Ég fann hvernig Jehóva hjálpaði mér þegar ég þurfti að fá frí úr nýju vinnunni til að sækja samkomur og mót.“
18. Hvað finnst Jehóva um þá vinnu sem biblíukennarar leggja á sig?
18 Jehóva er innilega annt um biblíunemendur okkar. Hann kann að meta það sem biblíukennarar leggja á sig til að hjálpa fólki að nálgast hann og hann elskar þá fyrir að gera það. (Jesaja 52:7) Ef þú heldur ekki biblíunámskeið eins og er geturðu samt hjálpað biblíunemendum að taka framförum og láta skírast með því að fara með öðrum boðberum þegar þeir halda biblíunámskeið.
SÖNGUR 60 Það bjargar þeim
a Í þessari grein skoðum við hvernig Jesús hjálpaði fólki að verða lærisveinar hans og hvernig við getum líkt eftir honum. Við ræðum líka hvernig við getum notað nýju bókina, Von um bjarta framtíð. Hún er gerð til að hjálpa biblíunemendum okkar að taka framförum og láta skírast.
b Einnig er hægt að finna reynslusögur í (1) Efnislykli að ritum Votta Jehóva undir viðfangsefninu „Biblían“, „Hagnýtt gildi“, „,Biblían breytir lífi fólks‘ (greinaröð í Varðturninum)“ eða á (2) JW Library® í „Hljóð og mynd“ undir „Viðtöl og frásögur“.
c MYND: Bróðir og eiginkona hans halda biblíunámskeið með ungum manni. Stundum eru aðrir bræður með honum í biblíunámsstundinni.