NÁMSGREIN 18
Munt þú hneykslast á Jesú?
„Sá sem hneykslast ekki á mér er hamingjusamur.“ – MATT. 11:6.
SÖNGUR 54 „Þetta er vegurinn“
YFIRLITa
1. Hvað kann að hafa komið þér á óvart þegar þú reyndir fyrst að segja öðrum frá boðskap Biblíunnar?
MANSTU hvernig þér leið þegar þú gerðir þér grein fyrir að þú hafðir fundið sannleikann? Kenningar Biblíunnar, sem þú varst að læra, virtust svo skýrar. Þú hélst að allir myndu taka glaðir við því sem þú hafðir fest trú á. Þú varst ekki í nokkrum vafa um að boðskapur Biblíunnar myndi gera líf þeirra innihaldsríkara núna og gefa þeim yndislega von um framtíðina. (Sálm. 119:105) Þú sagðir því öllum vinum þínum og ættingjum frá sannleikanum sem þú hafðir lært. En þér til mikillar undrunar höfnuðu margir því sem þú sagðir þeim.
2, 3. Hvernig hugsuðu flestir á dögum Jesú um hann og boðskap hans?
2 Það ætti ekki að koma neinum okkar á óvart þótt aðrir hafni boðskapnum sem við boðum. Flestir höfnuðu Jesú þegar hann var hér á jörð þó að hann ynni kraftaverk sem sönnuðu að hann hafði stuðning Guðs. Til dæmis reisti Jesús Lasarus upp frá dauðum. Það var kraftaverk sem andstæðingar hans gátu ekki neitað. Samt tóku leiðtogar Gyðinga ekki við honum sem Messíasi. Þeir vildu meira að segja drepa bæði Jesú og Lasarus! – Jóh. 11:47, 48, 53; 12:9–11.
3 Jesús vissi að fæstir myndu trúa að hann væri Messías. (Jóh. 5:39–44) Hann sagði nokkrum lærisveinum Jóhannesar skírara: „Sá sem hneykslast ekki á mér er hamingjusamur.“ (Matt. 11:2, 3, 6) Hvers vegna höfnuðu svo margir Jesú?
4. Hvað skoðum við í þessari grein?
4 Í þessari grein og þeirri næstu skoðum við nokkrar ástæður fyrir því að margir á fyrstu öld höfnuðu Jesú. Við skoðum líka hvers vegna margir nú á dögum hafna boðskap okkar. Og það sem mestu máli skiptir er að við lærum hvernig við getum haft sterka trú á Jesú svo að við hneykslumst ekki.
(1) BAKGRUNNUR JESÚ
5. Hvers vegna gætu sumir hafa ályktað að Jesús gæti ekki verið hinn fyrirheitni Messías?
5 Margir höfnuðu Jesú vegna þess hvaðan hann kom. Þeir viðurkenndu að Jesús væri frábær kennari og að hann hefði unnið kraftaverk. En í augum þeirra var hann bara sonur fátæks smiðs. Þar að auki var hann frá Nasaret, borg sem var hugsanlega ekki talin merkileg. Natanael, sem varð lærisveinn Jesú, sagði meira að segja til að byrja með: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“ (Jóh. 1:46) Natanael fannst kannski lítið til borgarinnar koma þar sem Jesús bjó. Eða kannski hafði hann í huga spádóminn í Míka 5:2 þar sem segir að Messías myndi fæðast í Betlehem – ekki Nasaret.
6. Hvað hefði átt að hjálpa fólki á dögum Jesú að skilja að hann væri Messías?
6 Hvað segir Biblían? Jesaja spámaður sagði fyrir að óvinir Jesú myndu ekki huga að ætterni Messíasar. (Jes. 53:8, NW) Spáð var fyrir um margt í tengslum við ætterni hans. Ef þeir hefðu tekið sér tíma til að afla sér upplýsinga um Jesú hefðu þeir komist að því að hann fæddist í Betlehem og var afkomandi Davíðs konungs. (Lúk. 2:4–7) Fæðingarstaður Jesú var því í samræmi við spádóminn í Míka 5:2. Hvað var þá vandamálið? Fólk var of fljótt að draga ályktanir. Menn þekktu ekki allar staðreyndir og þar af leiðandi höfnuðu þeir Jesú.
7. Hvers vegna hafna margir þjónum Jehóva?
7 Sjáum við það sama nú á dögum? Já. Fæstir vottar Jehóva eru ríkir eða hátt settir og margir líta á þá sem ,ómenntaða almúgamenn‘. (Post. 4:13) Sumum finnst þjónar Guðs ekki geta frætt aðra um Biblíuna vegna þess að þeir hafa ekki útskrifast úr viðurkenndum guðfræðiskólum. Aðrir segja að Vottar Jehóva sé „amerísk trú“ þó svo að aðeins um 14 prósent votta Jehóva í heiminum búi í Bandaríkjunum. Enn öðrum hefur verið sagt að vottarnir trúi ekki á Jesú. Fólk hefur kallað þjóna Jehóva „kommúnista“, „ameríska njósnara“ og „öfgamenn“. Margir hneykslast vegna þess að þeir heyra þessar sögur og þekkja ekki staðreyndirnar.
8. Hvað ættu menn að gera til að vita hver er söfnuður Guðs nú á dögum, samkvæmt Postulasögunni 17:11?
8 Hvernig er hægt að komast hjá því að hneykslast? Fólk þarf að kynna sér staðreyndir. Guðspjallaritarinn Lúkas lagði sig fram um það. Hann athugaði allt „nákvæmlega frá upphafi“. Hann vildi að þeir sem læsu guðspjallið gætu ,fullvissað sig‘ um það sem þeir höfðu heyrt um Jesú. (Lúk. 1:1–4) Gyðingar í Beroju til forna gerðu eins og Lúkas. Fyrst þegar þeir heyrðu fagnaðarboðskapinn um Jesú báru þeir hann saman við Hebresku ritningarnar til að fullvissa sig um að það sem þeir heyrðu væri satt. (Lestu Postulasöguna 17:11.) Nú á dögum þarf fólk líka að kynna sér staðreyndirnar. Það þarf að bera það sem söfnuður Guðs kennir þeim saman við Biblíuna. Það þarf líka að kynna sér nútímasögu Votta Jehóva. Ef það aflar sér upplýsinga lætur það ekki fordóma og sögusagnir blinda sig.
(2) JESÚS NEITAÐI AÐ SANNA SIG MEÐ KRAFTAVERKUM
9. Hvað gerðist þegar Jesús neitaði að sýna tákn af himni?
9 Frábær kennsla Jesú dugði ekki öllum á hans tíma. Þeir vildu meira. Þeir heimtuðu að hann sýndi sér „tákn af himni“ til að sanna að hann væri Messías. (Matt. 16:1) Þeir misskildu ef til vill það sem segir í Daníel 7:13, 14 og vildu þess vegna að hann gæfi þeim tákn. En tími Jehóva til að uppfylla þennan spádóm var ekki kominn. Það sem Jesús kenndi hefði átt að vera nóg til að sannfæra þá um að hann væri Messías. En þegar hann neitaði að gefa þeim táknið sem þeir báðu um hneyksluðust þeir á honum. – Matt. 16:4.
10. Hvernig uppfyllti Jesús spádóm Jesaja um Messías?
10 Hvað segir Biblían? Jesaja spámaður skrifaði um Messías: „Hann kallar ekki og hrópar ekki og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum.“ (Jes. 42:1, 2) Jesús sinnti þjónustu sinni án þess að draga athygli að sjáfum sér. Hann byggði ekki tilkomumikil musteri og hann klæddist ekki sérstökum trúarlegum embættisklæðnaði eða krafðist þess að vera ávarpaður með hástemmdum trúartitlum. Þegar réttað var yfir Jesú neitaði hann að gera kraftaverk til að ganga í augun á Heródesi konungi, jafnvel þó að líf hans væri í húfi. (Lúk. 23:8–11) Jesús vann stundum kraftaverk, en hann einbeitti sér fyrst og fremst að því að boða fagnaðarboðskapinn. „Til þess er ég kominn,“ sagði hann lærisveinum sínum. – Mark. 1:38.
11. Hvaða röngu hugmyndir hafa sumir nú á dögum?
11 Sjáum við það sama nú á dögum? Já. Margir hrífast af mikilfenglegum dómkirkjum með ómetanlegum listaverkum, prestum sem bera hástemmda titla og athöfnum sem fæstir vita lengur hvaðan koma eða hvað merkja. En fólk sem sækir slíkar guðsþjónustur lærir ekki mikið um Guð og fyrirætlun hans. Þeir sem sækja samkomur okkar læra hvers Jehóva krefst af okkur og hvernig við getum hegðað okkur í samræmi við vilja hans. Ríkissalirnir okkar eru hreinir og hagnýtir en lausir við íburð. Þeir sem fara með forystuna klæðast ekki sérstökum fötum eða bera hástemmda titla. Trú okkar og kenningar byggjast á Biblíunni. Samt sem áður hafna margir nú á dögum boðskap okkar vegna þess að þeim finnst tilbeiðsla okkar of fábrotin og það sem við kennum passar ekki við það sem þá langar til að heyra.
12. Á hverju ætti trú okkar að byggjast, eins og fram kemur í Hebreabréfinu 11:1, 6?
12 Hvernig getum við komist hjá því að hneykslast? Páll postuli sagði kristnum mönnum sem bjuggu í Róm: „Trúin kemur af því sem menn heyra, og menn heyra orðið um Krist þegar það er boðað.“ (Rómv. 10:17) Við byggjum því upp trú okkar með því að rannsaka Biblíuna en ekki með því að taka þátt í óbiblíulegum trúarathöfnum, sama hversu heillandi þær geta virst. Við þurfum að styrkja trú okkar með nákvæmri þekkingu vegna þess að „án trúar er ekki hægt að þóknast Guði“. (Lestu Hebreabréfið 11:1, 6.) Við þurfum því ekki að sjá tilkomumikið tákn af himni til að sanna að við höfum fundið sannleikann. Nákvæm rannsókn á trústyrkjandi kenningum Biblíunnar dugir til að sannfæra okkur og eyða öllum vafa.
(3) JESÚS SNIÐGEKK MARGAR ERFÐAVENJUR GYÐINGA
13. Hvað varð til þess að margir höfnuðu Jesú?
13 Á dögum Jesú voru lærisveinar Jóhannesar skírara hissa á að lærisveinar Jesú skyldu ekki fasta. Jesús útskýrði fyrir þeim að þeir hefðu enga ástæðu til að fasta á meðan hann væri enn á lífi. (Matt. 9:14–17) Þrátt fyrir það fordæmdu farísearnir og aðrir andstæðingar Jesú hann vegna þess að hann fylgdi ekki erfðavenjum þeirra og siðum. Þeir reiddust honum fyrir að lækna veika á hvíldardeginum. (Mark. 3:1–6; Jóh. 9:16) Þeir sögðust stoltir halda hvíldardaginn heilagan en sáu hins vegar ekkert athugavert við það að stunduð væru viðskipti í musterinu. Og þegar Jesús fordæmdi þá fyrir það urðu þeir bálreiðir. (Matt. 21:12, 13, 15) Og þeir sem Jesús boðaði trúna í samkunduhúsinu í Nasaret reiddust mjög þegar hann tók dæmi úr sögunni sem sýndi að þeir voru sjálfselskir og skorti trú. (Lúk. 4:16, 25–30) Margir hneyksluðust á Jesú vegna þess að hann gerði ekki það sem þeir reiknuðu með. – Matt. 11:16–19.
14. Hvers vegna fordæmdi Jesús erfðavenjur sem voru ekki í samræmi við Biblíuna?
14 Hvað segir Biblían? Jehóva sagði fyrir munn Jesaja spámanns: „Þetta fólk nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum en hjarta þess er mér fjarri og guðsótti þess er utanaðlærðar mannasetningar.“ (Jes. 29:13) Það var rétt af Jesú að fordæma erfðavenjur manna sem voru ekki í samræmi við Biblíuna. Þeir sem tóku reglur manna og erfðavenjur þeirra fram yfir Biblíuna höfnuðu Jehóva og þeim sem hann sendi sem Messías.
15. Hvað eiga margir nú á dögum erfitt með að þola varðandi votta Jehóva?
15 Sjáum við það sama nú á dögum? Já. Það ergir marga að vottar Jehóva skuli ekki halda með þeim upp á óbiblíulegar hátíðir eins og jól og afmæli. Aðrir reiðast þegar vottar Jehóva taka ekki þátt í þjóðernissinnuðum hátíðisdögum eða fylgja ekki útfarasiðum sem stangast á við orð Guðs. Þeir sem hneykslast á okkur trúa kannski í einlægni að Guð hafi velþóknun á tilbeiðslu þeirra. En hann hefur ekki velþóknun á þeim ef þeir taka venjur heimsins fram yfir skýrar kenningar Biblíunnar. – Mark. 7:7–9.
16. Hvað þurfum við að gera og hvað þurfum við að forðast samkvæmt Sálmi 119:97, 113 og 163–165?
16 Hvernig getum við komist hjá því að hneykslast? Við þurfum að læra að elska lög og meginreglur Jehóva. (Lestu Sálm 119:97, 113, 163–165.) Ef við elskum Jehóva heitt höfnum við öllum venjum sem hann hefur vanþóknun á. Við leyfum engu að koma í staðinn fyrir kærleika okkar til hans.
(4) JESÚS BREYTTI EKKI STJÓRNKERFINU
17. Hverju bjuggust margir á dögum Jesú við að Messías myndi gera?
17 Sumir á dögum Jesú vildu skjótar breytingar í stjórnmálum. Þeir bjuggust við að Messías leysti þá undan kúgun Rómverja. En þegar þeir reyndu að gera Jesú að konungi hafnaði hann því. (Jóh. 6:14, 15) Aðrir höfðu áhyggjur af því að Jesús myndi koma á pólitískum breytingum sem myndu egna Rómverja gegn Gyðingum. Þar á meðal voru prestarnir, en Rómverjar höfðu gefið þeim visst vald. Margir Gyðingar höfnuðu Jesú vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af slíkum pólitískum málum.
18. Hvaða spádóma um Messías hunsuðu margir?
18 Hvað segir Biblían? Þó svo að margir spádómar segðu fyrir að Messías myndi að lokum verða sigursæl stríðshetja sögðu aðrir spádómar að hann þyrfti fyrst að deyja fyrir syndir okkar. (Jes. 53:9, 12) Hvers vegna gerðu Gyðingar sér þá rangar væntingar? Margir hunsuðu þá spádóma sem lofuðu ekki skjótum lausnum á vandamálum þeirra. – Jóh. 6:26, 27.
19. Hvaða væntingar hafa orðið til þess að margir hneykslast nú á dögum?
19 Sjáum við það sama nú á dögum? Já. Margir nú á dögum hneykslast vegna þess að við erum hlutlaus í stjórnmálum. Þeim finnst að við ættum að taka þátt í kosningum. Við gerum okkur aftur á móti grein fyrir því að ef við kjósum mannlegan stjórnanda yfir okkur erum við um leið að hafna Jehóva. (1. Sam. 8:4–7) Sumum finnst líka að við ættum að byggja skóla og spítala og taka þátt í annarri góðgerðarstarfsemi. Þeir hneykslast á okkur vegna þess að við beinum kröftum okkar að boðuninni en ekki því að leysa núverandi vandamál heimsins.
20. Að hverju ættum við fyrst og fremst að einbeita okkur eins og orð Jesú í Matteusi 7:21–23 undirstrika?
20 Hvernig getum við komist hjá því að hneykslast? (Lestu Matteus 7:21–23.) Við ættum að einbeita okkur fyrst og fremst að því verki sem Jesús sagði okkur að vinna. (Matt. 28:19, 20) Við ættum aldrei að láta pólitísk og þjóðfélagsleg vandamál heimsins trufla okkur. Okkur er annt um fólk og stendur ekki á sama um vandamál þeirra. En við vitum að besta leiðin til að hjálpa náunganum er að fræða hann um ríki Guðs og hjálpa honum að eignast vináttusamband við Jehóva.
21. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?
21 Í þessari grein höfum við skoðað fernt sem fékk marga til að hafna Jesú á fyrstu öld og getur fengið suma til að hafna fylgjendum Jesú nú á dögum. En er eitthvað fleira sem við þurfum að varast? Já. Í næstu grein skoðum við fernt í viðbót. Við skulum vera ákveðin í að hafna aldrei Jesú og viðhalda sterkri trú!
SÖNGUR 56 Trúin verður þín
a Flestir á dögum Jesú höfnuðu honum þó að hann væri besti kennari sem uppi hefur verið. Í þessari grein skoðum við fjórar ástæður fyrir því. Við skoðum líka hvers vegna margir nú á dögum hneykslast á því sem sannir fylgjendur Jesú segja og gera. En það sem meira máli skiptir er að við lærum hvernig við getum haft sterka trú á Jesú svo að við hneykslumst ekki.
b MYND: Filippus hvetur Natanael til að kynnast Jesú.
c MYND: Jesús boðar fagnaðarboðskapinn.
d MYND: Jesús læknar mann með visna hönd. Andstæðingar hans fylgjast með.
e MYND: Jesús fer upp á fjall einn síns liðs.