Biblían breytir lífi fólks
HVAÐ varð til þess að maður, sem hafði lent á villigötum, sneri aftur til þeirrar trúar sem hann hafði alist upp við? Hvernig eignaðist ungur maður föðurinn sem hann hafði alltaf þráð? Lesum frásögur þeirra.
„Ég varð að snúa aftur til Jehóva“ – ELIE KHALIL
FÆÐINGARÁR: 1976
FÖÐURLAND: KÝPUR
FORSAGA: LENTI Á VILLIGÖTUM
FORTÍÐ MÍN: Ég fæddist á Kýpur en ólst upp í Ástralíu. Foreldrar mínir eru vottar Jehóva og gerðu sitt besta til að kenna mér að elska Jehóva og orð hans Biblíuna. En á unglingsárunum vildi ég fara mínar eigin leiðir. Ég læddist út á nóttunni til að hitta aðra unglinga. Við stálum bílum og komum okkur í alls kyns vandræði.
Í fyrstu hélt ég þessu leyndu fyrir foreldrum mínum af ótta við að misbjóða þeim. En smám saman hvarf sá ótti. Ég vingaðist við fólk sem elskaði ekki Jehóva og var miklu eldra en ég. Þessir vinir höfðu slæm áhrif á mig. Að lokum sagði ég foreldrum mínum að ég vildi ekki lengur þjóna Jehóva. Þau voru mjög þolinmóð og reyndu að hjálpa mér en ég vildi alls ekki hlusta á þau. Foreldrar mínir voru miður sín.
Eftir að ég fluttist að heiman fór ég að fikta við fíkniefni. Ég fór meira að segja að rækta og selja marijúana í stórum stíl. Ég var léttúðugur og fastagestur á skemmtistöðum. Ég reiddist líka auðveldlega. Ef einhver sagði eða gerði eitthvað sem mér mislíkaði varð ég alveg æfur og öskraði oft á fólk og barði það. Ég gerði í rauninni allt sem foreldrar mínir höfðu kennt mér að gera ekki.
HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Ég og félagi minn, sem neytti líka fíkniefna, urðum nánir vinir. Hann hafði misst föður sinn þegar hann var lítill. Við spjölluðum oft saman langt fram eftir nóttu og þá átti hann það stundum til að tjá sínar innstu tilfinningar og tala um hversu sárt hann saknaði föður síns. Þar sem ég hafði lært um upprisuvonina þegar ég var yngri sagði ég honum frá Jesú – að hann hefði reist fólk upp frá dauðum og lofi að gera það aftur í framtíðinni. (Jóhannes 5:28, 29) Ég sagði við hann: „Hugsaðu þér að sjá pabba þinn aftur. Við gætum allir lifað að eilífu í paradís á jörð.“ Það sem ég sagði snerti hjarta hans.
Við vinirnir ræddum líka um ýmislegt annað eins og síðustu daga og þrenningarkenninguna. Ég tók biblíuna hans og sýndi honum nokkra ritningarstaði svo að hann gæti séð sannleikann um Jehóva Guð, Jesú og síðustu daga. (Jóhannes 14:28; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Því meir sem ég talaði um Jehóva við vin minn þeim mun meir fór ég að hugsa um Jehóva.
Smám saman fóru biblíusannindin, sem blunduðu í hjarta mínu, að hreyfa við mér – sannindin sem foreldrar mínir höfðu reynt sitt ýtrasta til að kenna mér. Það kom fyrir að þegar ég var með vinum mínum í partíum og við vorum undir áhrifum fíkniefna að ég fór að hugsa um Jehóva. Margir vina minna sögðust elska Guð en hegðuðu sér alls ekki í samræmi við það. Ég vildi ekki vera eins og þeir og áttaði mig á hvað ég þurfti að gera. Ég varð að snúa aftur til Jehóva.
Það er eitt að vita hvað maður á að gera en annað að fara eftir því. Sumu fannst mér auðvelt að breyta. Ég gat til dæmis sagt skilið við fíkniefnin án mikilla vandkvæða og hætt að umgangast gömlu vinina. Ég fékk síðan aðstoð frá öldungi í söfnuði Votta Jehóva til að rifja upp sannindi Biblíunnar.
Ég átti hins vegar erfiðara með að breyta ýmsu öðru. Mér fannst sérstaklega erfitt að hafa stjórn á skapinu. Stundum gekk það vel um tíma en svo féll ég aftur í sama farið. Þá fékk ég slæma samvisku og fannst ég vera misheppnaður. Þegar mér leið þannig leitaði ég til öldungsins sem var að lesa með mér í Biblíunni. Hann sýndi mér alltaf þolinmæði og umhyggju og hvatti mig stöðugt áfram. Eitt sinn sagði hann mér að lesa grein í Varðturninum um mikilvægi þess að gefast ekki upp.a Við ræddum um hvað ég gæti gert þegar reiðin væri að ná tökum á mér. Með því að fara eftir því sem stóð í greininni og vera í stöðugu bænasambandi við Jehóva lærði ég smám saman að hafa stjórn á skapi mínu. Í apríl 2000 lét ég loks skírast sem vottur Jehóva. Foreldrar mínir voru að sjálfsögðu himinlifandi.
ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS: Núna hef ég öðlast innri frið og hreina samvisku. Ég saurga ekki lengur líkama minn með fíkniefnum og siðleysi. Lífið er miklu ánægjulegra og gildir þá einu hvort ég er í vinnunni, á samkomu eða geri eitthvað mér til afþreyingar. Ég er jákvæður og bjartsýnn.
Ég er Jehóva þakklátur fyrir að eiga foreldra sem gáfust aldrei upp á mér. Ég hugsa líka mikið um það sem Jesús sagði í Jóhannesi 6:44: „Enginn getur komið til mín nema faðirinn, sem sendi mig, laði hann.“ Það snertir mig djúpt að hugsa til þess að ég gat snúið aftur til Jehóva af því að hann dró mig til sín.
„Ég þráði heitt að eiga föður“ – MARCO ANTONIO ALVAREZ SOTO
FÆÐINGARÁR: 1977
FÖÐURLAND: SÍLE
FORSAGA: VAR Í DAUÐAROKKSHLJÓMSVEIT
FORTÍÐ MÍN: Ég ólst upp hjá móður minni í Punta Arenas, fallegri borg við Magellansund á suðurodda Suður-Ameríku. Foreldrar mínir skildu þegar ég var fimm ára og mér fannst ég vera yfirgefinn. Ég þráði heitt að eiga föður.
Móðir mín kynnti sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og tók mig með þegar hún fór á samkomur í ríkissalnum. Ég þoldi hins vegar ekki að fara á samkomur og fékk oft frekjukast á leiðinni þangað. Þegar ég var 13 ára hætti ég alveg að fara á samkomur.
Ég hafði þá fengið mikinn áhuga á tónlist og uppgötvaði að ég hafði meðfædda tónlistarhæfileika. Þegar ég var 15 ára var ég farinn að spila þungarokk og dauðarokk í partíum, á krám og rokkhátíðum. Það vakti hjá mér áhuga á klassískri tónlist að umgangast hæfileikaríkt tónlistarfólk. Ég hóf nám í listaskóla og um tvítugt fluttist ég til höfuðborgarinnar Santíagó til að fara í framhaldsnám. Ég hélt líka áfram að spila í þunga- og dauðarokkshljómsveitum.
Ég fann þó stöðugt fyrir tómleikatilfinningu og reyndi að vinna bug á vanlíðan minni með því að drekka og neyta fíkniefna. Ég gerði það ásamt félögunum í hljómsveitinni en ég leit á þá sem fjölskyldu mína. Ég var uppreisnargjarn eins og útlit mitt gaf vel til kynna. Ég var dökkklæddur, skeggjaður og hárið á mér náði næstum niður á mitti.
Ég lenti þess vegna stöðugt í slagsmálum og komst oft í kast við lögin. Einu sinni þegar ég var drukkinn réðst ég á hóp fíkniefnasala sem voru að abbast upp á mig og vini mína. Þeir börðu mig svo illa að ég kjálkabrotnaði.
Þeir sem stóðu mér næst ollu mér þó mestum sársauka. Dag einn komst ég að því að kærastan mín hefði um árabil haldið fram hjá mér með besta vini mínum og að allir vinir mínir vissu um það en sögðu ekki neitt. Ég var alveg niðurbrotinn.
Ég fluttist aftur til Punta Arenas þar sem ég byrjaði að vinna sem sellóleikari og kenna tónlist. Ég hélt líka áfram að spila og taka upp með þunga- og dauðarokkshljómsveitum. Ég kynntist aðlaðandi stúlku sem heitir Sussan og við fórum að búa saman. Sussan komst seinna að því að ég trúði ekki á þrenningarkenninguna en það gerði móðir hennar. „En hverju er þá rétt að trúa?“ spurði hún. Ég sagði henni að ég vissi að þrenningarkenningin væri röng en að ég kynni ekki að færa biblíuleg rök fyrir því. Ég vissi samt hverjir kynnu það. Ég sagði henni að vottar Jehóva gætu sýnt henni hvað sé rétt samkvæmt Biblíunni. Þá gerði ég nokkuð sem ég hafði ekki gert í mörg ár. Ég bað til Guðs um hjálp.
Nokkrum dögum síðar sá ég mann sem mér fannst ég kannast við og spurði hvort hann væri vottur Jehóva. Þótt honum væri augljóslega brugðið vegna þess hvernig ég leit út var hann vingjarnlegur og svaraði spurningum mínum um samkomutíma. Ég var sannfærður um að Jehóva væri að bænheyra mig. Ég fór á samkomu í ríkissalnum og settist aftast svo að enginn tæki eftir mér. Margir könnuðust samt við mig og mundu eftir að ég hafði komið á samkomur þegar ég var yngri. Þau heilsuðu mér hlýlega og tóku svo vel á móti mér að ég fylltist innri friði. Mér leið eins og ég væri kominn heim. Þegar ég kom auga á manninn sem hafði frætt mig um Guð þegar ég var strákur spurði ég hann hvort við gætum tekið upp þráðinn að nýju.
HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Dag einn las ég Orðskviðina 27:11, en þar stendur: „Öðlastu visku, sonur minn, og gleddu hjarta mitt.“ Það hafði mikil áhrif á mig að hugsa til þess að ófullkominn maður gæti glatt skapara alheims. Þá rann upp fyrir mér að Jehóva væri faðirinn sem ég hafði alltaf þráð.
Mig langaði til að gleðja himneskan föður minn og gera vilja hans en ég hafði verið háður áfengi og fíkniefnum í mörg ár. Ég skildi nú hvað Jesús átti við með orðunum í Matteusi 6:24 að „enginn getur þjónað tveimur herrum“. Ég reyndi eins og ég gat að breyta venjum mínum og meginreglan í 1. Korintubréfi 15:33 opnaði augu mín, en þar segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Ég áttaði mig á að ég gæti ekki slitið mig frá skaðlegum venjum ef ég héldi áfram að sækja sömu staðina og umgangast sama fólkið. Leiðbeiningar Biblíunnar voru skýrar. Ég þurfti að grípa til róttækra aðgerða til að losna frá því sem ,tældi mig til falls‘. – Matteus 5:30.
Ein erfiðasta ákvörðun, sem ég hef nokkurn tíma þurft að taka, var sú að segja alveg skilið við þunga- og dauðarokkið, vegna þess að ég hafði brennandi áhuga á tónlist. En með hjálp vina minna í söfnuðinum tókst mér það að lokum. Ég hætti að misnota áfengi og neyta fíkniefna. Ég klippti mig, rakaði af mér skeggið og hætti að klæðast eingöngu svörtum fötum. Þegar ég sagði Sussan að ég ætlaði að klippa mig varð hún mjög forvitin. „Ég ætla að koma með þér og sjá hvað þú ert að læra í þessum ríkissal,“ sagði hún. Henni líkaði það sem þar fór fram og ekki leið á löngu þar til hún byrjaði einnig að kynna sér Biblíuna. Nokkru síðar giftum við okkur og létum svo skírast sem vottar Jehóva árið 2008. Það gleður okkur að geta þjónað Jehóva ásamt móður minni.
ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS: Ég hef sagt skilið við svikula félaga og heim þar sem sanna hamingju er hvergi að finna. Ég hef enn þá unun af tónlist en núna vanda ég valið. Ég nýti reynslu mína til góðs fyrir fjölskylduna og aðra, einkum ungt fólk. Mig langar til að þau átti sig á að flest sem stendur til boða í þessum heimi getur virst eftirsóknarvert en er í rauninni ekkert nema sorp. – Filippíbréfið 3:8.
Í söfnuði Votta Jehóva ríkir friður og kærleikur og þar hef ég eignast trygga vini. Og með því að snúa aftur til Jehóva hef ég loksins eignast föðurinn sem ég þráði en fyrir það er ég óendanlega þakklátur.
[Neðanmáls]
a Greinin heitir „Velgengni byggð á þrautseigju“ og birtist 1. febrúar 2000, á bls. 4-6.
[Innskot á bls. 10]
„Ég gat snúið aftur til Jehóva af því að hann dró mig til sín.“