Þið unga fólk – eruð þið tilbúin að skírast?
„Hver yðar sest ekki fyrst við ef hann ætlar að reisa turn og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ – LÚK. 14:28.
Þessi grein og sú næsta eru ætlaðar ungu fólki sem er að hugleiða skírn.
1, 2. (a) Hvað gleður þjóna Guðs ákaflega? (b) Hvernig geta kristnir foreldrar og öldungar hjálpað unga fólkinu að skilja þýðingu skírnarinnar?
„ÉG HEF þekkt þig frá því að þú fæddist,“ sagði öldungur við Christopher sem var 12 ára, „og ég er ánægður að heyra að þig langar til að skírast. Má ég spyrja þig: Hvers vegna langar þig til að skírast?“ Öldungurinn hafði góða og gilda ástæðu til að spyrja. Það er auðvitað ákaflega gleðilegt að ungt fólk skuli skírast í þúsundatali um allan heim á hverju ári. (Préd. 12:1) En kristnir foreldrar og öldungar í söfnuðinum vilja samt ganga úr skugga um að unga fólkið ákveði það sjálft og á réttum forsendum.
2 Orð Guðs kennir að með vígslu og skírn hefjist nýr kafli í lífi kristins manns. Hann mun bæði hljóta mikla blessun frá Jehóva en líka þurfa að þola andstöðu Satans. (Orðskv. 10:22; 1. Pét. 5:8) Kristnir foreldrar taka sér því tíma til að kenna börnunum hvað felst í því að vera lærisveinn Krists. Sumir unglingar eiga ekki foreldra í trúnni. Umhyggjusamir öldungar hjálpa þeim þá að skilja hvað það þýðir að fylgja Kristi. (Lestu Lúkas 14:27-30.) Fólk þarf að undirbúa sig vel til að geta þjónað Jehóva trúfastlega „allt til enda“, rétt eins og sá sem ætlar að byggja hús þarf að skipuleggja verkið vel til að ljúka því. (Matt. 24:13) Hvað getur unga fólkið þá gert til að vera ákveðið í að þjóna Jehóva alla ævi? Lítum nánar á það.
3. (a) Hvers vegna er skírnin mikilvæg, samanber orð Jesú og Péturs? (Matt. 28:19, 20; 1. Pét. 3:21) (b) Um hvaða spurningar verður rætt og hvers vegna?
3 Ertu ung manneskja sem langar til að skírast? Ef svo er áttu hrós skilið. Það er mikill heiður að vera skírður vottur Jehóva. En skírnin er líka krafa sem gerð er til kristinna manna og hún er mikilvægt skref til að bjargast. (Matt. 28:19, 20; 1. Pét. 3:21) Þegar þú skírist sýnirðu að þú hefur lofað að þjóna Jehóva að eilífu. Þú vilt auðvitað halda þetta loforð. Eftirfarandi spurningar hjálpa þér að komast að raun um hvort þú ert tilbúinn til að stíga þetta mikilvæga skref: (1) Hef ég þroska til að taka þessa ákvörðun? (2) Langar mig í einlægni til þess? (3) Skil ég hvað það þýðir að vera vígður Jehóva? Lítum á þessar spurningar.
HVENÆR HEFURÐU NÆGAN ÞROSKA?
4, 5. (a) Hvers vegna er skírn ekki bara fyrir fullorðna? (b) Hvað þýðir það fyrir kristinn einstakling að vera þroskaður?
4 Biblían segir ekki að fólk þurfi að vera orðið fullorðið til að skírast eða hafa náð lögræðisaldri. Í Orðskviðunum 20:11 segir: „Jafnvel má þekkja af verkum barnsins hvort athafnir þess eru hreinar og einlægar.“ Börn geta vel gert sér grein fyrir hvað er rétt og hvað það þýðir að helga skaparanum líf sitt. Skírnin er mikilvægt og viðeigandi skref fyrir unga manneskju sem hefur sýnt góðan þroska og hefur vígt Jehóva líf sitt. – Orðskv. 20:7.
5 Hvað er þroski? Þroski er annað og meira en líkamlegur vöxtur. Biblían segir að þeir sem sýna þroska hafi „agað hugann til að greina gott frá illu“. (Hebr. 5:14) Þeir vita því hvað er rétt í augum Jehóva og eru staðráðnir í að hvika ekki frá því. Það er ekki auðvelt að fá þá til að gera það sem er rangt og það þarf ekki alltaf að ýta við þeim til að gera rétt. Það er ekki nema eðlilegt að ætla að ung manneskja, sem skírist, fylgi meginreglum Guðs jafnvel þegar foreldrarnir eða aðrir fullorðnir eru ekki nærri. – Samanber Filippíbréfið 2:12.
6, 7. (a) Hvaða áskoranir þurfti Daníel að takast á við í Babýlon? (b) Hvernig sýndi Daníel þroska?
6 Getur ungt fólk virkilega sýnt slíkan þroska? Lítum á dæmi í Biblíunni. Daníel var sennilega aðeins táningur þegar hann var tekinn með valdi frá foreldrum sínum og fluttur í útlegð til Babýlonar. Allt í einu bjó hann á meðal fólks sem hafði allt aðrar skoðanir en hann á réttu og röngu. Og það var líka annað sem reyndi mjög á hann. Hann fékk sérstaka meðhöndlun í Babýlon. Hann var valinn til að þjóna við hirð konungs ásamt nokkrum öðrum ungum mönnum. (Dan. 1:3-5, 13) Svo var að sjá að Daníel stæðu til boða tækifæri í Babýlon sem honum hefðu aldrei boðist heima í Ísrael.
7 Hvernig brást Daníel við þessu öllu saman? Lét hann glepjast af glysi og glingri Babýlonar? Leyfði hann nýju umhverfi að breyta sér eða spilla trúnni? Þvert á móti. Biblían segir að Daníel hafi ,einsett sér að saurga sig ekki‘ á neinu í Babýlon sem tengdist falsguðadýrkun. (Dan. 1:8) Hann sýndi einstakan þroska.
8. Hvað geturðu lært af Daníel?
8 Hvað geturðu lært af Daníel? Í fyrsta lagi að þroskuð ung manneskja hvikar ekki frá sannfæringu sinni. Hún er ekki eins og kameljón sem breytir um lit eftir umhverfi sínu. Hún hegðar sér ekki eins og vinur Guðs í ríkissalnum en vinur heimsins í skólanum. Hún sveiflast ekki til og frá eftir aðstæðum heldur er hún óhagganleg, jafnvel þegar reynir á trúna. – Lestu Efesusbréfið 4:14, 15.
9, 10. (a) Af hverju er gott að velta fyrir sér hvernig maður hefur brugðist við þegar reynt hefur á trúna? (b) Hvað merkir skírnin?
9 Auðvitað er enginn fullkominn. Bæði ungt fólk og fullorðnir gera stundum mistök. (Préd. 7:20) En þar sem þú ert að íhuga að láta skírast er viturlegt af þér að skoða hversu ákveðinn þú ert í hjarta þínu að halda lög Jehóva. Hvernig geturðu metið það? Spyrðu þig: Hvernig hef ég staðið mig í að hlýða lögum Guðs? Veltu fyrir þér hvernig þú hefur brugðist við upp á síðkastið þegar reynt hefur á trú þína. Hefurðu sýnt þá dómgreind sem þarf til að greina rétt frá röngu? Hvernig bregstu við ef einhver hvetur þig til að nýta þér hæfileika þína í heimi Satans, eins og gerðist hjá Daníel? Ertu fær um að skilja hver sé vilji Jehóva, jafnvel þótt þér finnist freistandi að gera eitthvað sem stangast á við vilja hans? – Ef. 5:17.
10 Hvers vegna hvetjum við þig til að spyrja þig þessara spurninga? Þær geta hjálpað þér að sjá skírn í réttu ljósi. Eins og kom fram fyrr í greininni er skírnin merki þess að þú hafir gefið Jehóva hátíðlegt loforð um að þú ætlir að elska hann og þjóna honum að eilífu af öllu hjarta. (Mark. 12:30) Allir sem skírast ættu að vera ákveðnir í að standa við loforð sitt. – Lestu Prédikarann 5:3, 4.
VILTU ÞAÐ SJÁLFUR?
11, 12. (a) Hvað þarf maður að vera viss um áður en maður skírist? (b) Hvernig geturðu séð skírnina sömu augum og Jehóva?
11 Biblían segir að fólk Jehóva, þar á meðal unga fólkið, bjóði sig fúslega fram til að þjóna honum. (Sálm. 110:3, neðanmáls) Sá sem er að hugleiða að skírast þarf að vera viss um að hann vilji það sjálfur. Það gæti kallað á sjálfsrannsókn, ekki síst ef þú ert alinn upp í sannleikanum.
12 Á liðnum árum hefurðu líklega séð marga skírast, þar á meðal jafnaldra þína og kannski systkini. Hvað þarftu að varast ef svo er? Gættu þess að hugsa ekki sem svo að þú þurfir að skírast þegar þú nærð ákveðnum aldri eða bara af því að annað ungt fólk skírist. Hvað geturðu gert til að sjá skírnina sömu augum og Jehóva? Gefðu þér oft tíma til að hugleiða af hverju skírnin er mikilvæg. Í þessari grein og þeirri næstu er bent á nokkrar góðar ástæður.
13. Hvernig geturðu vitað hvort það er þín hjartans löngun að skírast?
13 Þú getur komist að raun um hvort ákvörðun þín að skírast kemur frá hjartanu. Bænir þínar bera vott um hvort þig langar einlæglega til að þjóna Jehóva. Ef þú biður oft og ert markviss í bænum þínum bendir það til þess að þú eigir náið samband við Jehóva. (Sálm. 25:4) Oft svarar hann bænum okkar með hjálp Biblíunnar. Ef við erum dugleg við biblíunám gefur það til kynna að við viljum virkilega styrkja tengslin við Jehóva og þjóna honum af öllu hjarta. (Jós. 1:8) Spyrðu þig því: Hversu markviss er ég í bænum mínum? Er ég með góða reglu á sjálfsnámi mínu í Biblíunni? Og ef fjölskylda þín er með vikulega tilbeiðslustund skaltu spyrja þig: Tek ég fúslega þátt í henni? Svörin við þessum spurningum geta dregið fram hvort það er þín hjartans löngun að skírast.
HVAÐ ER VÍGSLA?
14. Hver er munurinn á vígslu og skírn?
14 Ungt fólk áttar sig ekki alltaf á muninum á vígslu og skírn. Sumir segja til dæmis að þeir hafi vígt líf sitt Jehóva en séu ekki tilbúnir til að skírast. Er það rökrétt? Að vígjast Jehóva merkir að segja honum að maður ætli að þjóna honum að eilífu. Með skírninni sýnum við öðrum að við séum vígð Jehóva. Skírnin er því opinber yfirlýsing um að við séum búin að gefa Jehóva vígsluheit í bæn. Áður en þú skírist þarftu að skilja hvað það þýðir að vígjast Guði.
15. Hvað er vígsla?
15 Þegar þú vígir Jehóva líf þitt áttu þig ekki lengur sjálfur. Þú lofar honum að þú ætlir að taka vilja hans fram yfir allt annað í lífinu. (Lestu Matteus 16:24.) Öll loforð ætti að taka alvarlega en það er enn þá mikilvægara þegar Jehóva Guð á í hlut. (Matt. 5:33) En hvernig geturðu sýnt að þú hefur í raun afneitað sjálfum þér og tilheyrir nú Jehóva? – Rómv. 14:8.
16, 17. (a) Lýstu með dæmi hvað það merkir að afneita sjálfum sér. (b) Hvað erum við í rauninni að segja með því að gefa vígsluheit?
16 Tökum dæmi: Segjum að vinur þinn gefi þér bíl. Hann réttir þér afsalið og segir: „Þú mátt eiga bílinn.“ En segjum að hann bæti við: „Ég held lyklunum. Og ég ætla að keyra bílinn, ekki þú.“ Hvað fyndist þér um slíka „gjöf“? Hvað fyndist þér um gjafarann?
17 Hugleiddu nú til hvers Jehóva ætlast eðlilega af þeim sem vígist honum og segir þar með: „Ég gef þér líf mitt. Ég tilheyri þér.“ En segjum sem svo að þessi manneskja fari að lifa tvöföldu lífi, kannski með því að eiga á laun kærasta eða kærustu í heiminum. Eða segjum að hún ráði sig í vinnu sem kemur í veg fyrir að hún sinni boðuninni af heilum hug eða geti sótt samkomur reglulega. Væri þetta ekki eins og að halda lyklunum að bílnum? Sá sem vígir Jehóva líf sitt segir í rauninni: „Líf mitt tilheyrir þér frekar en mér. Ef það sem mig langar til stangast einhvern tíma á við það sem þú vilt þá ræður þú – alltaf.“ Þetta endurspeglar hvernig Jesú var innanbrjósts. Þegar hann var hér á jörð sagði hann: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig.“ – Jóh. 6:38.
18, 19. (a) Hvernig má sjá af orðum Rose og Christophers að það er heiður og blessun að vera skírður? (b) Hvernig lítur þú á þann heiður að vera skírður?
18 Skírnin er alvarlegt skref sem hvorki þú né nokkur annar ætti að líta léttvægum augum. En það er jafnframt mikill heiður að vera vígður og skírður vottur. Ungt fólk, sem elskar Jehóva og skilur þýðingu vígslunnar, veigrar sér ekki við því að skírast. Það sér ekki heldur nokkurn tíma eftir ákvörðun sinni. „Ég elska Jehóva og ekkert gleður mig meira en að þjóna honum,“ segir Rose sem er skírð unglingsstúlka. „Ég hef aldrei verið jafn viss um neitt í lífinu eins og þá ákvörðun að skírast.“
19 Snúum okkur aftur að Christopher sem minnst var á í byrjun greinar. Var það vel ígrunduð ákvörðun hjá honum að skírast 12 ára? Christopher er mjög ánægður að hafa tekið þessa ákvörðun á unga aldri. Hann gerðist brautryðjandi 17 ára og var útnefndur safnaðarþjónn 18 ára. Núna starfar hann á Betel. Hann segir: „Það var rétt ákvörðun að skírast. Ég nýt þess að vinna fyrir Jehóva og söfnuð hans.“ Hvernig geturðu búið þig undir að skírast ef þú ert að hugleiða það? Næsta grein svarar þeirri spurningu.