VIÐAUKI
Spádómur Daníels um komu Messíasar
DANÍEL spámaður var uppi meira en 500 árum fyrir fæðingu Jesú en Jehóva gaf honum vissar upplýsingar þannig að hægt væri að tímasetja nákvæmlega hvenær Jesús yrði smurður, það er að segja útnefndur Messías eða Kristur. Daníel var sagt: „Vit því og hygg að: Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja, eru sjö sjöundir, og í sextíu og tvær sjöundir skulu torg hennar og stræti endurreist verða.“ — Daníel 9:25.
Til að ákvarða hvenær Messías átti að koma þurfum við að finna út viðmiðunarárið sem komutími hans er talinn frá. Samkvæmt spádóminum á að telja „frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk“. Hvenær var það? Að sögn biblíuritarans Nehemía var það „á tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs“ sem gefin var tilskipun um að múrar Jerúsalem skyldu endurreistir. (Nehemíabók 2:1, 5-8) Sagnfræðingar staðfesta að fyrsta heila ríkisár Artahsasta konungs (oftast nefndur Artaxerxes 1.) hafi verið 474 f.Kr. Tuttugasta ríkisárið var því 455 f.Kr. Þetta er upphafsárið sem miðað er við í Messíasarspádómi Daníels.
Daníel tiltekur hve langur tími ætti að líða þangað til ‚hinn smurði höfðingi‘ Messías kæmi. Spádómurinn nefnir fyrst „sjö sjöundir“ og síðan „sextíu og tvær sjöundir“ eða samanlagt 69 sjöundir.a Hve langur tími er það? Í sumum biblíuþýðingum er tekið fram að þetta séu sjöundir ára. Hver sjöund er sem sagt sjö ár. Það var vel þekkt meðal Gyðinga fornaldar að telja í sjö ára einingum. Til dæmis var hvíldarár hjá þeim sjöunda hvert ár. (2. Mósebók 23:10, 11) Hinar 69 sjöundir í spádóminum samsvara því 69 sinnum 7 eða 483 árum.
Nú er ekki annað eftir en að telja. Ef við teljum 483 ár frá 455 f.Kr. ber okkur niður á árið 29 e.Kr. Það var einmitt árið sem Jesús lét skírast og varð Messías!b (Lúkas 3:1, 2, 21, 22) Þetta hlýtur að teljast eftirtektarverð uppfylling á biblíuspádómi.
a Ljóst er af samhengi þessara orða, til dæmis versinu á eftir (Daníel 9:26), að tölurnar eiga að leggjast saman.
b Frá 455 f.Kr. til 1 f.Kr. eru 454 ár. Frá 1 f.Kr. til 1 e.Kr. er eitt ár (núllár er ekki til). Og frá 1 e.Kr. til 29 e.Kr. eru 28 ár. Séu tölurnar þrjár lagðar saman er útkoman 483 ár. Jesús var „afmáður“ í sjötugustu áravikunni, árið 33. (Daníel 9:24, 26) Sjá bækurnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, 11. kafla, og Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 899-901. Báðar eru gefnar út af Vottum Jehóva.