Horft á heiminn
Ömmur og afar til leigu
„Meira en 1000 einstæðar mæður og feður barna innan við ellefu ára aldur hafa fengið að velja ömmu og afa fyrir börnin sín,“ segir í frétt þýska dagblaðsins Nassauische Neue Presse. „Amma og afi búa langt í burtu frá Berlín,“ segir hin sjö ára Melanie, „en Klara amma býr rétt hjá. Hún sækir mig í skólann og fer með mér í dýragarðinn, á leikvöllinn og í sund. Hún býr líka til matinn heima og borðar með mér og mömmu.“ Klara amma var fengin gegnum „ömmu- og afaþjónustu“ sem samanstendur af eldri borgurum sem bjóða sig fram og fá að launum 200-400 krónur á tímann. Í fréttinni segir einnig: „Þessi tilhögun er rétta lausnin fyrir einstæða foreldra með lítil fjárráð.“
Maurar og sýklalyf
„Vísindamenn hafa komist að því að sumir maurar rækta sveppi til að gefa ungviði sínu og nota jafnvel sýklalyf sem ‚plágueyði‘ til að vernda sveppina,“ að sögn alþjóðlegrar útgáfu dagblaðsins The Miami Herald. Þessir maurar, sem kallast skæramaurar, umplanta, grisja og hreinsa burt illgresi eins og bændur gera. Sýklalyfið, sem ver uppskeruna gegn skaðlegri myglu, er utan á húð skæramauranna og er framleitt af gerlum af streptómýsít-ætt. Ted Schultz, sem er skordýrafræðingur við náttúrufræðisafnið National Museum of Natural History í Washington, D.C., bendir á að þótt mennirnir þurfi sífellt að finna ný sýklalyf gegn lyfþolnum sýklum hafi skæramaurar notað sama sýklalyfið í aldaraðir með góðum árangri. Hann segir að leyndarmál mauranna „geti hugsanlega átt stóran þátt í að verða mannkyninu til bjargar“.
Bráðnandi jöklar og fornleifafræði
Hopandi jöklar afhjúpa margar fornleifar sem vekja mikinn áhuga sagnfræðinga. Þetta kemur fram í þýska fréttatímaritinu Der Spiegel. Árið 1999 kom karlmaður af indíánaættum í ljós undan slíkum jökli í Klettafjöllum í Kanada en hann hafði látist fyrir 550 árum. Flestar fornleifarnar hafa hins vegar fundist í Ölpunum. Nýlega fundust til dæmis líkamsleifar manns sem talinn var hafa yfirgefið kærustu sína og óskilgetið barn þegjandi og hljóðalaust árið 1949. Raunin var hins vegar sú að hann hafði fallið niður í jökulsprungu og trúlofunarhringarnir voru í bakpokanum hans. Að sögn Haralds Stadlers, sem er yfirmaður fornleifafræði við háskólann í Innsbruck í Austurríki, dreymir sagnfræðinga um að finna eitthvað sem tengist Hannibal, hinum fræga karþverska hershöfðingja sem fór yfir Alpana með 37 fíla. „Það væri stórviðburður að finna fílabein,“ sagði hann.
„Dauðahafið er að deyja“
„Dauðahafið er að deyja og því verður ekki bjargað nema með gríðarlegu átaki,“ segir í frétt frá Associated Press. Dauðahafið er svo salt að enginn lagardýr þrífast þar og dregur það nafn sitt af því. Það er um 80 kílómetra langt og 18 kílómetra breitt. Vatnsborðið er 400 metrum undir sjávarmáli sem er það lægsta í heiminum. „Í árþúsundir hélt Jórdanáin jafnvæginu [á milli aðrennslis og mikillar uppgufunar] en hún er eina aðrennsli Dauðahafsins,“ segir í greininni. „Á liðnum áratugum hafa bæði Ísrael og Jórdanía veitt vatni úr mjórri ánni til að vökva stór ræktarlönd meðfram henni en hún skiptir löndunum tveim. Af þessum sökum rennur ekki nægilega mikið vatn í Dauðahafið.“ Í ísraelskri rannsókn segir að ef ekkert sé að gert muni vatnsborðið halda áfram að lækka um allt að einn metra á ári. Það hefði hrikalegar afleiðingar í för með sér fyrir landið umhverfis, þar á meðal fyrir dýralíf og gróður. Og ekki bætir fimm ára þurrkur úr skák.