Síðustu dagar hvers?
„SÍÐUSTU DAGAR útsölunnar,“ stendur á skilti í verslunarglugga. Engum blandast hugur um hvað þetta merkir. En hvað er átt við þegar talað er um að við lifum á síðustu dögum?
Orðalag eins og ‚síðustu dagar‘ og „dregur að endalokum“ er þekkt frá fornu fari úr Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Daníel 12:4) Fyrir meira en 2500 árum sá spámaðurinn Daníel sýn um heimsveldin og átök þeirra allt fram á „síðustu tíma“. Honum var sagt að þegar sá tími rynni upp yrði ljóst hvað sýnirnar merktu. (Daníel 8:17, 19; 11:35, 40; 12:9) Daníel skrifaði enn fremur: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna magna upp ríki sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“ — Daníel 2:44.
Jesús Kristur talaði um ‚endinn‘ þegar lærisveinarnir spurðu hann: „Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ (Matteus 24:3-42) Að því er best verður séð voru Daníel og Jesús báðir að tala um varanlega og afdrifaríka breytingu sem myndi snerta alla sem hefðu lifað á jörðinni og væru lifandi þegar breytingin ætti sér stað. Daníel talaði um endalok allra jarðneskra stjórnvalda og Jesús orðaði það svo að ‚veröldin liði undir lok‘.
Ættu þessi orð Jesú og Daníels að vekja áhuga þinn? Að sjálfsögðu. Allir menn ættu að sýna þessu máli áhuga vegna þess að það snertir alla. En margir láta sér það í léttu rúmi liggja. Í Biblíunni var spáð: „Á síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ (2. Pétursbréf 3:3, 4) Sumum finnst sagan hreinlega endurtaka sig og þeir halda að lífið haldi áfram að ganga sinn vanagang um alla eilífð.
En eru rök fyrir því að nú standi yfir það tímabil sem Biblían kallar síðustu daga? Lítum nánar á málið.