Kafli 17
Jesús kennir Nikódemusi
JESÚS gerir ótrúleg tákn eða kraftaverk á páskahátíðinni árið 30. Það verður til þess að margir trúa á hann. Nikódemusi, sem situr í æðstaráði eða hæstarétti Gyðinga, þykir mikið til um og vill vita meira. Hann fer því til fundar við Jesú í skjóli náttmyrkurs, sennilega af ótta við mannorðshnekki meðal annarra forystumanna Gyðinga ef til hans sæist.
„Rabbí,“ segir hann, „vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum.“ Jesús svarar Nikódemusi og segir að maður verði að „fæðast að nýju,“ endurfæðast, til að ganga inn í Guðsríki.
En hvernig getur maður endurfæðst? „Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“ spyr Nikódemus.
Nei, endurfæðing er ekki fólgin í því. „Enginn getur komist inn í Guðs ríki,“ svarar Jesús, „nema hann fæðist af vatni og anda.“ Þegar Jesús lét skírast og heilagur andi kom yfir hann fæddist hann „af vatni og anda.“ Guð hafði þá lýst yfir af himni ofan að ‚þessi væri elskaður sonur hans sem hann hefði velþóknun á.‘ Þannig tilkynnti hann að hann hefði eignast andlegan son sem ætti í vændum að ganga inn í himnaríkið. Síðar, á hvítasunnunni árið 33, eiga aðrir eftir að fá heilagan anda og endurfæðast líka sem andlegir synir Guðs.
En þessi sérstaki, mennski sonur Guðs gegnir geysimikilvægu hlutverki. „Eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni,“ segir Jesús Nikódemusi, „þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum.“ Já, þeir Ísraelsmenn, sem voru bitnir af eiturslöngum, urðu að horfa á eirorminn til að bjargast. Eins verða allir menn að iðka trú á son Guðs til að frelsast frá dauðvona ástandi sínu.
Jesús leggur áherslu á kærleiksríkt hlutverk Jehóva í þessu og segir Nikódemusi: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Aðeins sex mánuðum eftir að Jesús hefur þjónustu sína segir hann opinskátt þarna í Jerúsalem að það sé fyrir milligöngu sína sem Jehóva Guð frelsi mannkynið.
Jesús útskýrir málið nánar fyrir Nikódemusi: „Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn,“ það er að segja ekki til að fella áfellisdóm yfir honum eða fordæma hann og dæma mannkynið til tortímingar. Jesús segist hafa verið sendur til að ‚heimurinn skyldi frelsast fyrir sig.‘
Nikódemus kom óttasleginn til Jesú í skjóli náttmyrkurs. Það er því athyglisvert að Jesús skuli ljúka samtalinu þannig: „En þessi er dómurinn: Ljósið [sem Jesús persónugerði með lífi sínu og kennslu] er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“ Jóhannes 2:23–3:21; Matteus 3:16, 17; Postulasagan 2:1-4; 4. Mósebók 21:9.
▪ Hvað fær Nikódemus til að heimsækja Jesú og hvers vegna kemur hann að næturlagi?
▪ Hvað merkir það að „fæðast að nýju“ eða endurfæðast?
▪ Hvernig lýsir Jesús hlutverki sínu í frelsun okkar?
▪ Hvað merkir það að Jesús hafi ekki komið til að dæma heiminn?