Kafli 33
Spádómur Jesaja rætist
ÞEGAR Jesús kemst að raun um að farísear og Heródesarsinnar ætla að drepa hann fer hann með lærisveinunum til Galíleuvatns. Mikill fjöldi manna hópast til hans hvaðanæva úr Palestínu og jafnvel lengra að. Hann læknar marga með þeim afleiðingum að allir, sem haldnir eru þungbærum sjúkdómum, þrengja að honum til að snerta hann.
Svo mikill er fjöldinn að Jesús segir lærisveinunum að hafa bát til reiðu öllum stundum. Með því að leggja frá landi getur hann forðast að mannfjöldinn þrengi að sér. Hann getur kennt fjöldanum úr bátnum og siglt til annarra staða meðfram ströndinni til að hjálpa fólki þar.
Lærisveinninn Matteus nefnir að með starfi Jesú rætist „það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns.“ Síðan vitnar hann í spádóminn sem Jesús uppfyllir:
„Sjá þjón minn, sem ég hef útvalið, minn elskaða, sem sál mín hefur þóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann, og hann mun boða þjóðunum rétt. Eigi mun hann þrátta né hrópa, og eigi mun raust hans heyrast á strætum. Brákaðan reyr brýtur hann ekki, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva, uns hann hefur leitt réttinn til sigurs. Á nafn hans munu þjóðirnar vona.“
Jesús er auðvitað hinn elskaði þjónn sem Guð hefur þóknun á. Og Jesús boðar greinilega hvað sé raunverulegt réttlæti sem nú er myrkvað fölskum, trúarlegum erfikenningum. Farísearnir misbeita svo lögmáli Guðs að þeir vilja ekki einu sinni koma sjúkum manni til hjálpar á hvíldardegi! Jesús dregur réttlæti Guðs fram í dagsljósið og léttir ranglátum erfikenningabyrðum af fólki, og fyrir það vilja trúarleiðtogarnir hann feigan.
Hvað merkir það að ‚eigi muni hann þrátta né hrópa svo raust hans heyrist á strætum‘? Þegar Jesús læknar fólk ‚leggur hann ríkt á við það að gera sig eigi kunnan.‘ Hann vill ekki auglýsa sig með látum á strætum úti eða láta æsifengnar sögur af sér berast frá manni til manns.
Og Jesús ber hughreystandi boðskap sinn til manna sem eru í táknrænum skilningi eins og brákaður og niðurtroðinn reyr. Þeir eru eins og rjúkandi hörkveikur sem næstum er búið að slökkva síðasta lífsneistann í. Jesús brýtur ekki brákaðan reyr eða slekkur flöktandi logann á rjúkandi hörkveik. Blíðlega og ástúðlega reisir hann auðmjúka menn við. Jesús er sannarlega sá sem þjóðirnar geta vonað á! Matteus 12:15-21; Markús 3:7-12; Jesaja 42:1-4.
▪ Hvernig boðar Jesús réttlætið án þess að þrátta eða hrópa á strætunum?
▪ Hverjir eru eins og brákaður reyr og hörkveikur, og hvernig kemur Jesús fram við þá?