Kafli 5
Fæðing Jesú — hvar og hvenær?
ÁGÚSTUS Rómarkeisari hefur fyrirskipað að allir skuli fara til fæðingarborgar sinnar og láta skrásetja sig. Jósef fer því til Betlehem þar sem hann er fæddur.
Margir eru staddir í Betlehem til að skrásetja sig og Jósef og María fá hvergi inni nema í gripahúsi. Jesús fæðist því í útihúsi þar sem asnar og önnur húsdýr eru geymd. María vefur hann reifum og leggur í jötu sem er að jafnaði notuð undir gripafóður.
Það hlýtur að hafa verið vegna handleiðslu Guðs sem Ágústus keisari setti skrásetningarlögin. Þau urðu til þess að Jesús fæddist í Betlehem, borginni sem Ritningin hafði löngu áður sagt að verða mundi fæðingarstaður hins fyrirheitna stjórnanda.
Þetta er mjög þýðingarmikil nótt! Úti í haga leiftrar skært ljós á hóp af fjárhirðum. Það er dýrð Jehóva sem ljómar kringum þá! Og engill Jehóva segir þeim: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.“ Skyndilega birtist fjöldi engla sem syngja: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“
Þegar englarnir eru farnir segja fjárhirðarnir hver við annan: „Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og [Jehóva] hefur kunngjört oss.“ Þeir hraða sér þangað og finna Jesú alveg eins og engillinn hafði sagt. Allir undrast þegar fjárhirðarnir skýra frá því sem engillinn sagði þeim. María leggur á minnið allt sem sagt er og geymir það í hjarta sér.
Margir trúa að Jesús hafi fæðst 25. desember. En desember er kaldur og rigningasamur í Betlehem. Fjárhirðar hefðu ekki verið að næturlagi úti í haga með hjarðir sínar á þeim árstíma. Og Rómarkeisari hefði varla látið þjóð, sem var uppreisnargjörn að eðlisfari, leggja upp í ferðalög um hávetur til að skrásetja sig. Ljóst er að Jesús fæddist einhvern tíma snemma hausts. Lúkas 2:1-20; Míka 5:1.
▪ Hvers vegna ferðast Jósef og María til Betlehem?
▪ Hvaða undur eiga sér stað nóttina sem Jesús fæðist?
▪ Hvernig vitum við að Jesús fæddist ekki 25. desember?