Kafli 69
Hver er faðir faríseanna?
ORÐASKIPTI Jesú og trúarleiðtoganna á laufskálahátíðinni verða æ hvassari. „Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams,“ viðurkennir Jesús. „Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður. Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar.“
Jesús segir ekki hver faðir þeirra sé en lætur ótvírætt í ljós að hann eigi annan föður en þeir. Leiðtogar Gyðinga vita ekki hvern Jesús hefur í huga og svara: „Faðir vor er Abraham.“ Þeir telja sig vera sömu trúar og Abraham sem var vinur Guðs.
En þeim verður bilt við þegar Jesús svarar: „Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams.“ Já, sannur sonur líkir eftir föður sínum. „En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei,“ heldur Jesús áfram. Hann endurtekur því: „Þér vinnið verk föður yðar.“
Enn skilja þeir ekki hvern Jesús á við. Þeir halda því fram að þeir séu skilgetnir synir Abrahams og segja: „Vér erum ekki hórgetnir.“ Þeir fullyrða að þeir dýrki Guð í sannleika eins og Abraham og segja: „Einn föður eigum vér, Guð.“
En er Guð virkilega faðir þeirra? „Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig,“ svarar Jesús, „því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt?“
Jesús hefur reynt að sýna þessum trúarleiðtogum fram á hvaða afleiðingar það hafi að hafna honum. En nú segir hann umbúðalaust: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist.“ Hvers konar faðir er djöfullinn? Jesús segir að hann sé manndrápari og bætir við: „Hann er lygari og lyginnar faðir,“ og segir svo: „Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“
Gyðingarnir reiðast fordæmingu Jesú og svara: „Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?“ Orðið „Samverji“ er notað sem brigsl- og skammaryrði því að Gyðingar hata Samverja.
Jesús ansar því ekki að þeir skuli kalla hann Samverja í fyrirlitningarskyni og svarar: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig.“ Síðan gefur hann óvænt loforð: „Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja.“ Jesús á auðvitað ekki við að enginn sem fylgi honum deyi nokkurn tíma bókstaflega heldur á hann við að þeir farist ekki eilíflega, deyi ekki ‚hinum öðrum dauða‘ sem engin upprisa er frá.
En Gyðingar taka orð Jesú bókstaflega og segja: „Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?“
Allt samtalið hefur Jesús greinilega verið að benda þessum mönnum á að hann sé hinn fyrirheitni Messías. En hann svarar ekki beint spurningu þeirra hver hann sé, heldur segir: „Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér.“
Jesús minnist síðan aftur á hinn trúfasta Abraham og segir: „Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist.“ Abraham horfði með augum trúarinnar fram til komu hins fyrirheitna Messíasar. En Gyðingar andmæla vantrúaðir: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!“
„Sannlega, sannlega segi ég yður,“ svarar Jesús. „Áður en Abraham fæddist, er ég.“ Hann er vitanlega að tala um tilveru sína sem voldug andavera á himni áður en hann varð maður.
Gyðingar eru ævareiðir yfir því að Jesús skuli segjast hafa verið til á undan Abraham og taka upp steina til að grýta hann. En hann felur sig og forðar sér ómeiddur út úr musterinu. Jóhannes 8:37-59; Opinberunarbókin 3:14; 21:8.
▪ Hvernig bendir Jesús á að hann eigi annan föður en óvinir hans?
▪ Hvað merkir það að Gyðingar skuli kalla Jesú Samverja?
▪ Hvað á Jesús við með því að fylgjendur hans skuli aldrei deyja?